föstudagur, nóvember 30, 2007

14 stiga frost og vindur nú í morgunsárið, hvít jörð og spáð mikilli snjókomu á morgun. Veturinn er að ganga í garð, svona rétt um það bil. Um síðustu helgi var 10 stiga hiti svo þetta er svona fyrsta alvöru kuldakastið þetta haustið...það er nefnilega ekki kominn vetur samkvæmt dagatalinu hér, það gerist ekki fyrr en á vetrarsólstöðum. Sólin kemur upp um klukkan 7:30 og sest aftur um 4:30 sumsé 9 klukkutímar af sól og um 10 af dagsbirtu. Ég er að bíða eftir að fá síðustu 10 viðtölin úr ritun og ætla því að taka daginn létt og klára greiningu í næstu viku. Ég fer í ræktina mína á eftir og hleyp í 45 mínútur fer svo í yogalates í klukkutíma, klipping eftir hádegið, hitti Bjarna seinni partinn og veisla í kvöld...góður dagur framundan.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Repúblikarnir voru í kappræðum í gærkveldi og mér til mikillar gleði þá voru þeir í því að skera hvorn annan á hol en ekki að ráðast á Clinton eins og síðast. Hún er reyndar þess alveg full fær að verja sig og er ekki síður hörð en þeir. Mér líkar alls ekki málefnaflutningur Repúblikanna, þeir tala helst eingöngu um trú, samkynhneigða, fóstureyðingar, innflytjendur (eins og okkur) og stundum um stríð en þeim finnst ekkert atriði að tala um menntun, mengun, heilbrigðismál eða annað sem mér finnst skipta mun meira máli. Til þess að fá málefnalega umræðu um þá málaflokka þá hlusta ég á Demókratana mína. Ég er ekki sammála þeim alltaf í hvernig leysa eigi málin en mér finnst hún Hillary alveg feyki góð og vildi óska að hún kæmist til valda. Mér finnst náttúrulega að allir eigi að hlusta á mig og mínar skoðanir því þær eru þær einu réttu en þar sem ég næ ekki eyrum þessa ágæta fólks þá þusa ég bara þeim mun meira hér heima við.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Ég er farin að velta því alvarlega fyrir mér hvort það séu of margir alþingismenn á Íslandi. Mér finnst með ólíkindum hvað þeir hafa tíma til að hugsa um smámunaleg atriði. Að það skuli virkilega vera um það umræða á Alþingi hvort auðkenna eigi nýbura á sjúkrahúsum í bleiku eða bláu eftir kyni er ofar mínum skilningi. Einnig hvort kalla megi meðlimi ríkistjórnar "ráðherra". Hafa þeir vikrilega ekkert þarfara um að hugsa. Ég hélt að Alþingi væri vettvangur stóru málanna, grundavallaratriða samfélagsins, löggjafarvaldið en ekki framkvæmdavaldið. Ég er greinilega ekki með það á hreinu hvert verksvið alþingismanna er.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Þá er Thanksgiving liðinn og börnin mín farin heim til sín og í skóla. Karólína tók sig til og vann á föstudaginn í barnafataverslun sem hún vann í í sumar. Ég hef aldrei farið að versla á "black Friday" en hún ákvað að prófa enda hefur hún gaman að svona ati. Mollið og búðin opnuðu klukkan 5 að morgni, já 5, og það var brjálað að gera strax þegar opnað var. Þegar Karólína kom í vinnuna klukkan 8:45 þá var biðröð hringinn í kringum búðina. Við Kristín litum við hjá henni um klukkan 2 og þá var smá pása en það var samt fullt af fólki í búðinni en Karólína sagði að þetta væri pása, allavega miðað við hvað gengið hafði á fyrr um daginn. Þetta minnti mig á þá tíð þegar ég vann í "Sport og Hljóð" pabba míns fyrir öll jól í mörg herrans ár. Þá var fullt útúr dyrum frá morgni til kvölds á Þorláksmessu og laugardagana á undan. Þá var smá aukið við opnunartímann og hann náði svo hámarki á þollák, til klukkan 11 að kvöldi. Þá var mikið líf í tuskunum og mér leið eins og allir bæjarbúar væru í bænum, allar búðir fullar af fólki og gangstéttirnar í Hafnarstrætinu troðfullar. Raðirnar fyrir utan Bókabúð Jónasar og Bókabúðina Huld náðu útá götu og Amaro var stappfull svo erfitt var að komast leiðar sinnar. Að sjálfsögðu er snjór yfir öllu og kalt í veðri í minningunni, engin rigning og hlýindi á jólum í þá daga.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Gullbrúðkaup


Gullbrúðkaup
Originally uploaded by Kata hugsar

Silfurbrúðkaup


Silfurbrúðkaup
Originally uploaded by Kata hugsar

Við eftir 25 ár


Við eftir 25 ár
Originally uploaded by Kata hugsar

Yndislegur dagur í gær, Thanksgiving, allir heima. Bjarni og Nicole voru að elda allan daginn og voru búin að undirbúa veisluna í heila viku, í það minnsta. Kalkúninn var settur í vatn sem í var salt/hunang/laukur/hvítlaukur og látinn liggja í sólarhring eða svo og fyrir vikið var hann afar safaríkur. Meðlætið var náttúrulega: kartöflumús, sætar kartöflur bakaðar með marshmallows og hlynsírópi, sykurhúðaðar gulrætur, ferskar baunir (nei, ekki þessar ofsoðnu og næringarlausu frá Ora), fylling þar sem allt var heimatilbúið, meira að segja kornbrauðið, sósa, cranberry sulta með ananas og appelsínum, og salat og í eftirmat voru heimagerð pecan og pumpkin pæ. Himnesk máltíð með alla fjölskylduna heima. Á eftir var spilað Monopoly. Það hét Matador þegar ég var ung og göturnar hétur Bankastræti, Austurstræti, Laugarvegur og Pósthússtræti en ekki Boardwalk, Park Place, Pennsylvania Avenue, og Virginia Avenue. Reyndar hefðu allir við borðið vitað hvar hver og ein íslensk gata er, en við eigum ekki íslensku útgáfuna, því miður. Það væri gaman að vita hvað hitaveitan, rafveitan og vatnsveitan heita nú til dags. Karólína vann, malaði alla, enda í business námi...eins og það skipti máli í svona spili! Þetta er jú bara heppni, Halli segir það allavega, enda tapaði hann.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Ísland á morgun og Spánn í næstu viku og ég hlakka mikið til ferðarinnar. Byrjum á því að halda uppá stórkostlegan áfanga Dr. Betu fyrir norðan á laugardaginn. Það er alltaf svo gaman að fara í veislur þar sem flestir þekkjast, sérstaklega þegar fjölskyldan er með.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Ég hef alltaf jafngaman af að fylgjast með íslenskri umræðu, það þurfa nefnilega svo margir að taka þátt. Það er alveg sama hvort um er að ræða orkumálin, lágvörumarkaðinn, umferðina í Smáranum, fótbolta, álver, nagladekk, þorskkvóta eða veðrið það er hægt að setjast niður yfir kaffibolla hvar sem er á landinu og með hverjum sem er og hlusta á og taka af vanmætti þátt í spjallinu, það er hvergi komið að tómum kofum og allir hafa skoðun, og það mikla og sterka, á öllum málefnum. Við erum náttúrulega fötluð hérna þar sem Moggi er ein af örfáum leiðum til þess að halda sér svolítið við. Ég les reyndar visir.is orðið á hverjum degi og stundum gef ég mér tíma til þess að horfa á sjónvarpsfréttirnar og þá bara á RÚV og svo les ég örfáar bloggsíður (það er svo ótalmargar af þeim hræðilega illa skrifaðar að kennarinn í mér tekur völdin og byrjar að leiðrétta), svo uppsrettur frétta eru takmarkaðar og þótt mér finnist við nú svona ágætlega uppslýst þá er alltaf merkilegt að koma heim og finna út allar aukasögurnar sem fljóta um í samfélaginu. Við vorum heima í byrjun október þegar borgarstjórnin féll og Halli á fundi í heilbrigðsráðuneytinu þegar fréttirnar bárust, svo ég reyndi að fylgjast með en það er svo ótalmargt sem ég ekki veit til þess að fylla í eyðurnar og ná heildarmyndinni að það hefur tekið mig margar vikur að ná botni í þetta og er honum þó ekki náð. Ég veit ekkert hverjir aðalleikararnir eru, ég vissi ekkert hver Bjarni Ármannsson er og hafði örsjaldan heyrt minnst á Hannes Smárason og nánast aldrei á Björn Inga Hrafnsson, en nú fer það ekki fram hjá meira að segja mér hvað þessir herrar standa fyrir og álit mitt á Birni Inga og hans pólitíska siðferði er ekkert. Ég hef aldrei séð og heyrt annað eins, að ráðast á mann og annan, blaðra og kjafta til hægri og vinstri um trúnaðarmál er ekki til þess fallið að vinna mitt traust. Rök mannsins eru hriplek í hvert skipti sem hann styður mál sitt og svo endar hann alltaf með að segja að þessi og hinn vissi hvað var að gerast og að þessi og hinn tók í raun ákvörðun sem svo Björn Ingi skrifaði undir. Ætli maðurinn geri sér ekki grein fyrir að hann er að lýsa sjáfum sér og eigin vinnubrögðum þegar hann talar svona?

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Klukkunni var breytt í nótt og nú er "daylight saving time" búinn og það munar 6 klukkustundum á Íslandi og Minnesota eins og fimm tímarnir séu ekki nóg að jafna sig á þá er nú búið að bæta við einum klukkutímanum enn. Helgin hefur verið yndisleg, við fórum til Twin Cities á föstudagskvöldið og hittum okkar bestu vini í borginni á Brasilískum steikarstað www.fogodechao.com Þetta var öðruvísi upplifun en við bjuggumst við. Þetta var nú eiginlega svona "all you can eat of meat" staður en allt kjöt er borið fram af gaucho klæddum ungum mönnum sem hlupu um með kjöt á spjóti. Þegar viðskiptavinirnir snéru grænu hliðinni á kortinu upp þá komu ungu mennirnir hlaupandi og ein af sextán mismunandi kjöttegundum/matreiðslu varíasjónum var boðin. Mér fannst þetta lítið eiga skilt við "gourmet dining" heldur var þetta svona "borðaðu þangað til þú getur ekki meir og langar helst að æla" staður. Ekki mín deild lengur. Við gistum svo hjá vinum okkar um nóttina og svo fór kall minn í "Torske klubben" á hádegisverðarfund með norsku mafíunni. Ég fór að versla í borginni, það var svo sem allt í lagi en mér finnst bara ekkert gaman að versla, því miður, ég geri þetta af illri nauðsyn. Eftir að ég léttist svona mikið þá hef ég þurft að endurnýja allt í fataskápnum, allt frá nærbuxum í vetrarkápu, og það er að koma svona hægt og rólega enda þrjú ár síðan ég breytti um lífsstíl. Dagurinn í dag fór í að ganga frá ýmsu hér heimvið og svo fórum við í ræktina. Hin allra besta helgi.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Við höfðum það fínt í gærkveldi á Halloween þótt engin væru börnin að fara með á milli húsa. Við fengum eina 6 mánaða gamla ljónynju í heimsókn en hún er enn of ung til þess að fara á milli húsa og segja "trick or treat" og þaðan af síður að borða allt sælgætið sem fylgir.

Halloween


Halloween
Originally uploaded by Kata hugsar