miðvikudagur, nóvember 07, 2007
Ég hef alltaf jafngaman af að fylgjast með íslenskri umræðu, það þurfa nefnilega svo margir að taka þátt. Það er alveg sama hvort um er að ræða orkumálin, lágvörumarkaðinn, umferðina í Smáranum, fótbolta, álver, nagladekk, þorskkvóta eða veðrið það er hægt að setjast niður yfir kaffibolla hvar sem er á landinu og með hverjum sem er og hlusta á og taka af vanmætti þátt í spjallinu, það er hvergi komið að tómum kofum og allir hafa skoðun, og það mikla og sterka, á öllum málefnum. Við erum náttúrulega fötluð hérna þar sem Moggi er ein af örfáum leiðum til þess að halda sér svolítið við. Ég les reyndar visir.is orðið á hverjum degi og stundum gef ég mér tíma til þess að horfa á sjónvarpsfréttirnar og þá bara á RÚV og svo les ég örfáar bloggsíður (það er svo ótalmargar af þeim hræðilega illa skrifaðar að kennarinn í mér tekur völdin og byrjar að leiðrétta), svo uppsrettur frétta eru takmarkaðar og þótt mér finnist við nú svona ágætlega uppslýst þá er alltaf merkilegt að koma heim og finna út allar aukasögurnar sem fljóta um í samfélaginu. Við vorum heima í byrjun október þegar borgarstjórnin féll og Halli á fundi í heilbrigðsráðuneytinu þegar fréttirnar bárust, svo ég reyndi að fylgjast með en það er svo ótalmargt sem ég ekki veit til þess að fylla í eyðurnar og ná heildarmyndinni að það hefur tekið mig margar vikur að ná botni í þetta og er honum þó ekki náð. Ég veit ekkert hverjir aðalleikararnir eru, ég vissi ekkert hver Bjarni Ármannsson er og hafði örsjaldan heyrt minnst á Hannes Smárason og nánast aldrei á Björn Inga Hrafnsson, en nú fer það ekki fram hjá meira að segja mér hvað þessir herrar standa fyrir og álit mitt á Birni Inga og hans pólitíska siðferði er ekkert. Ég hef aldrei séð og heyrt annað eins, að ráðast á mann og annan, blaðra og kjafta til hægri og vinstri um trúnaðarmál er ekki til þess fallið að vinna mitt traust. Rök mannsins eru hriplek í hvert skipti sem hann styður mál sitt og svo endar hann alltaf með að segja að þessi og hinn vissi hvað var að gerast og að þessi og hinn tók í raun ákvörðun sem svo Björn Ingi skrifaði undir. Ætli maðurinn geri sér ekki grein fyrir að hann er að lýsa sjáfum sér og eigin vinnubrögðum þegar hann talar svona?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli