fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Til Íslands í dag!!! Þarf að kíkja á veðurspána til að sjá hvernig ég þarf að pakka, hvort það verður brunagaddur eða hlýtt, snjór eða rigning, rok eða logn eða bara allt í bland.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Ég er í biðstöðu núna. Leiðbeinandinn minn er að lesa yfir í síðast sinn, því ég þarf að skila af mér á morgun svo það fer hver að verða síðastur með að gera athugasemdir við mín skrif og mínar kenningar. Tók mig því til í gær og hengdi upp jólaljósin úti, fór í ræktina í tvo og hálfan tíma og keypti nánast allar jólagjafir fyrir Íslandið. Þetta er hið besta mál því nú þarf að pakka inn og pakka niður áður en ritgerðin birtist í tölvupósti, vonandi seinnipartinn. Vonandi verða þetta allt minniháttar athugasemdir sem ekki tekur mig langan tíma að leiðrétta því svo er sumsé að prenta herlegheitin út í fjórum eintökum og koma í pósthólf nefndar meðlima á morgun, uppí University og Minnesota í Minneapolis. Á fimmtudaginn fer svo konan uppí flugvél Icelandair á leið til Íslands. Það verður mikið um keyrslu á milli Rochester og Minneapolis næstu dagana.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Allt dottið í dúnalogn aftur. Karólína fór til Duke í gær. Nú bíður hennar prófatörn fram til 15. des þegar hún kemur heim í jólafrí. Ég tek óralinn 13. des svo við mæðgur verðum í algeru prófastressi á sama tíma. Ritgerðin mín er búin, er núna 107 blaðsíður og þetta er ekki doktorsritgerðin sjálf heldur "bara" inngangurinn að henni. Allavega það sem verður uppistaðan í inngangi og lit review. Ég er orðin samvaxin skrifstofustólnum, rasssár, stíf í herðum, geðvond, og langþreytt. Þarf að koma mér í líkamsræktina í dag. Hef ekki farið síðan á fimmtudaginn og það er alltof langur tími. Fer svo til Íslands á fimmtudaginn í helgarferð. Það verður voðalega gott.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Thanksgiving í dag. Það er alltaf góður dagur. Við höfum reyndar bara eitt af okkar börnum heima því Bjarni er með veislu í Minneapolis og Kristín er í Princeton en hún Karólína kom heim í fyrrakvöld og það var svo gott að fá hana heim því með henni koma vinirnir og húsið verður fullt af lífi aftur. Það verða 9 manns í mat svo kalkúninn er ekkert voðalega stór en það verður fullt af meðlæti: kartöflumús, sætar kartöflur, brúnaðar gulrætur, spínat grateng, belgbaunir, salat, stuffing, og svo sósa auðvitað. Epla- og pecanpæ í eftirmat með ís og karamellu sósu. Ostar í forrétt. Létt rauðvín, kannski hvítvín líka. Gott fólk. Góður dagur.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Eftir ár eigum við silfurbrúðkaupsafmæli, heil 25 ár síðan við giftum okkur í hríðarhraglanda og hávaðaroki í Borgarneskirkju. Reyndar var brúðkaupsafmælið í gær. Við gerum vonandi eitthvað voðalega skemmtilegt næsta haust. Okkur langar að fara til annaðhvort Parísar eða Rómar, höfum aldrei komið til Rómar en oft til Parísar og finnst hún yndisleg. Kannski gerum við eitthvað allt annað. Okkur langar líka til að halda uppá þetta með vinum og vandamönnum á Íslandi. Kannski gerum við hvorutveggja, ferðumst og höldum veislu, hver veit.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Þetta var hin besta helgi. Við horfðum á Kristínu keppa á laugardagsmorguninn og fórum svo til New York seinni partinn. Versluðum ekkert, löbbuðum bara um, skoðuðum hús, horfðum á fólk og mannlegt líf og settumst á kaffihús. Voðalega gaman. Í gær, sunnudag, vorum við í Philadelphia. Ég hef eiginlega aldrei komið þangað, bara flogið inn og keyrt beint til Princeton en núna sumsé skoðuðum við miðborgina. Hún kom mér á óvart, var kaótísk, evrópsk og skemmtileg. Eitt af því góða við Princeton er staðsetningin, klukkutími til New York í aðra áttina og klukkutíma til Philly í hina. Margir flugvellir að velja í milli og því hægt að haga seglum eftir vindi með hvað gert er og notað tækifærið til að skoða.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

VIð hjónin erum að fara til Princeton um helgina að heimsækja Kristínu. Við hlökkum mikið til því við höfum ekki séð hana í rúma tvo mánuði. Við ætlum að fara til New York á laugardaginn og Philadelphia á sunnudaginn. Við verðum voðalegar borgarmanneskjur þegar við komum heim aftur til litla Rochester. Svo kemur Karólína heim á þriðjudaginn í Thanksgiving frí, þá verður aftur líf í húsinu.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Árstíðirnar berjast óvenju hart þessa dagana um völdin. Það var 8 stiga frost fyrir nokkrum dögum síðan, svo var 24 stiga hiti í fyrradag sól og logn og í dag er þriggja stiga frost og snjókoma, og í þetta sinnið er þrumuveður með. Það er alltaf jafn einkennilegt að vera í bullandi snjókomu og eldingum, þótt lógískt séð þá er þetta ekkert skrýtnara en þegar heitt og kalt mætist á sumrin. Þetta gerist bara svo mun sjaldnar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Það fer víst ekki framhjá neinum að það eru kosningar í þessu landi í dag. Eins og ég hef annars gaman af að hugsa og ræða pólitík þá finnst mér kosningabarátta alveg hræðilega leiðinleg. Það haf birst svo andstyggilegar auglýsingar í sjónvarpinu og það er skammarlegt að hugsa til þess að c.a. helmingur af þessu fólki verða fulltrúar í bæjarstjórn, fylkisþinginu eða á Þinginu. Ég er líka algerlega búin að fá mig fullsadda af gömlum frösum og stereótýpum. Repúblikarnir hafa verið að hrista fram kommúnistagrýluna endalaust og þykjast þess fullvissir að landsmenn geri engan greinarmun á kommúnisma og sósíalisma. Þetta allt eða ekkert viðhorf í allt og öllu er líka alveg að gera útaf við mig. Það er eins og enginn millivegur sé til!

mánudagur, nóvember 06, 2006

Þá er jólavertíðin hafin í sjónvarpinu. Fyrstu jólaauglýsingarnar birtust á laugardaginn, bara ein að ég held, en í gærkveldi voru nokkrar og ég geri ráð fyrir að þær verði allsráðandi eftir viku eða svo, kannski ekki fyrr en eftir Thanksgiving sem er eftir tvær vikur, það er kannski of mikil bjartsýni. Ég hef séð örlítið af jóladóti í búðum síðustu vikuna eða svo, það er allt fullt af Thanksgiving dóti núna, en það verður allt orðið rautt og hvítt eftir smá tíma.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Það er 11 stiga frost núna í morgunsárið. Það er kalt. Þetta er rétt byrjunin, það á eftir að verða kaldara. Miklu kaldara. Kannski ekki í dag eða á morgun en eftir nokkrar vikur. Það er sól og logn og á eftir að fara yfir frostmarkið yfir daginn en það hefur verið kalt fyrir hann Halla minn að hjóla í vinnuna klukkan sex í morgun.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Einhverra hluta vegna hefur mér verið mikið hugsað til hennar Siggu ömmu minnar og hans Gumma afa míns að undanförnu. Hún lést haustið 1985 eftir að hafa fengið heilablóðfall tæpur tveimur árum áður og hann lést úr sorg eftir að amma fékk heilablóðfallið og þurfti að vera á spítalanum það sem eftir var. Hún var matreiðslukona allt sitt líf, sá um heimili fína fólksins í Reykjavík, smurði skreyttar snittur á Brauðbúðinni Borg, bakaði heimsins besta flatbrauð, tók slátur fram á síðasta haustið sitt, eldaði ofaní og sá um hann Gumma afa, og svo okkur systkinin þegar á þurfti að halda. Þau voru verkamenn allt sitt líf, afi sjómaður fyrir vestan lengi vel en eftir að þau fluttu Suður þá fór hann að vinna á Laugardalsvellinum. Hann var afburða snyrtimenni og þoldi ekki drasl og illa umgengni. Fór í sund flesta daga, á skauta eins oft og hann gat, stundaði jóga, fór á skíði og gekk allt sem hann fór. Hann leit á það sem sitt samfélagslega hlutverk að sjá til þess að hvergi væri drasl að sjá, laun voru aukaatriði en snyrtimennska aðalatriði. Þau eignuðust aldrei bíl. Þau voru alltaf svo fín í tauinu, amma átti bæði upphlut og peysuföt og fádæma fallegan möttul sem er núna í minni eigu og klæddi sig upp oft og iðulega. Amma fór aldrei svo útúr húsi að hún væri ekki búin að setja á sig varalit, hatt og fara í fína kápu. Hún var með staurfót frá því hún ung fékk berkla í hné, en gömlu hjónin bjuggu á fjórðu hæð í blokk síðustu árin og aldrei kvartaði hún yfir stigunum, bar með sér aðföngin alla leið upp, stundum nokkrar ferðir. Þau voru afar nægjusöm og glöddust yfir litlu. Það mátti ekki trufla afa ef verið var að sýna skauta í sjónvarpinu og þá var oft lokað inní stofu svo hann fengi að vera í friði, sérstaklega ef vinkonur eða systur ömmu voru í heimsókn. Þá þótti honum nóg um hávaðann. Nokkrum árum fyrir andlátið krafðist afi þess að það yrði sett parkett á alla íbúðina því hann hafði þá skoðun að það væri svo mikill óþrifnaður í teppum. Þetta var löngu fyrir tísku parketts en gamli maðurinn var með þetta á hreinu. Það er margt annað sem hann sagði mér sem taldist til vitleysu í mínu höfði lengi vel en hefur með tíð og tíma verið sannað á vísindalegan hátt að var hárrétt: þú átt að borða mikinn fisk því þá verður þú svo gáfuð, þú skalt smyrja júgursmyrsl á fætur og hendur þegar kalt er, rúsínukökur með haframjöli eru meinhollar, þú þarft að passa uppá að vera sterk og liðug allt þitt líf, þannig meiðist þú ekki. Hann afi minn var ekki rugludallur!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Í Sara P Duke garðinum


Í Sara P Duke garðinum, originally uploaded by Kata hugsar.

Vatnalilja


Vatnalilja, originally uploaded by Kata hugsar.

Kaffihúsið á bókasafninu


Kaffihúsið á bókasafninu, originally uploaded by Kata hugsar.

Bókasafnið


Bókasafnið, originally uploaded by Kata hugsar.