mánudagur, janúar 29, 2007

Ég hef alltaf gaman af að lesa Bryggjuspjall Hjartar Gíslasonar í Mogganum. Hann er góður penni og hefur óskaplega skemmtilegt vald á ylhýra móðurmálinu enda á hann ekki langt að sækja það til kalls föður síns sem kenndi mér íslensku í MA á bókasafni heimvistar, þann merkilega og viðburðaríka vetur 1975-1976. Hann skrifar frá sjónarhorni sem ég þekki akkúrat ekki neitt og hef aldrei kynnst en finnst mjög gaman að lesa um. Sjómennsku eða útgerð þekki ég ekki en finnst hvorugtveggja forvitnilegt og spennandi.

Svo ég vaði nú úr einu í annað, ég keyrði hann Jóhannes "minn" á leikskólann í morgun og á leiðinni heim þegar ég var að keyra fram hjá Soldiers Field golfvellinum þá hóf skallaörn sig á loft rétt fyrir framan bílinn. Óskaplega tignarlegur fugl og það var svo undurfallegt að sjá hann svífa yfir Zumbro ánni og hverfa í átt til Mississippi þar sem skallaernir lifa góðu lífi. Sólin var að reyna að berjast í gegnum éljaskýin og það tindraði á hvítt höfuð fuglsins eitt augnablik áður en sólin hafði í minni pokann fyrir snjókomu dagsins og örninn hvarf á vit fæðuleitar dagsins.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Ég fæ mig ekki til að skrifa um bjánann í Hvíta húsinu því ég er svo reið og svo undrandi á hegðun mannsins svo og hans nánustu ráðgjafa eins og Cheney að ég get varla hugsað, hvað þá skrifað um þá apaketti. Ég nefnilega verð svo reið að líkaminn stífnar allur upp og ég fæ verki í herðar og bak eftir svona reiðiskast. Þess vegna ætla ég að skrifa um veðrið hérna í Minnesota. Það er merkilegt hvað "eðlilegt" og "venjulegt" getur verið gott. Alveg sama þótt það sé 40 stiga frost. Ef það telst vera eðlilegt þá er það bara allt í lagi. Þegar það var 10 stiga hiti og rigning í lok desember hér í Rochester þá leið mér voðalega illa og fannst þetta afar óþægilegt því svona á þetta bara ekki að vera og verölding hefði farið fjandans til ef náttúrulöflin hefðu haldið svona áfram. Það er því búið að vera voðaleg notalegt að hafa snjó og kulda síðustu tvær vikurnar. Ekkert ógnarkalt en svona niður í -25 stigin. Nú er að koma mikill kuldakafli, á að fara í -40 um helgina, en það telst vera venjulegt og engin met í hættu svo þetta verður hið besta mál. Við erum reyndar með deildarveislu fyrir Vascular deildina á laugardaginn og þá þurfa gestir kannski að labba einhvern spotta í kuldanum en fólk hlýtur að lifa það af.

mánudagur, janúar 22, 2007

Það snjóaði þó nokkuð í fyrrinótt og fram eftir degi. Kall minn vildi hlaupa í vinnuna í a.m.k. 10 sentímetra púðrinu og það var mér algerlega að meinalausu. Ég skildi samt ekkert í því í gærmorgun að allt í einu var hann horfinn og ekki hafði hann kvatt svo varla gatt hann verið farinn og að auki voru hlaupaskórnir á sínum stað. Ég leitaði á öllum þessum venjulegu stöðum en allt kom fyrir ekki þangað til að ég heyrði hávaða snjóblásarans úr bílskúrnum. Það hefur verið mitt verk frá upphafi okkar búskaps að moka frá svo ég skildi ekki alveg hvað var um að vera og leit því útí bílskúr...og þarna stóð hann í hlaupafötunum, með bakpokann, vettlingalaus, húfulaus....og á inniskónum að moka frá. Ég hló mig máttlausa og hann hætti verkinu fljótlega sem ég svo kláraði í undurfögru veðri eftirmiðdagsins.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Dætur mínar tvær eru sannkallað prinsessur á bauninni. Báðar eru þær ómögulegar ef þær ekki hafa rúmin sín mjúk, hrein og nýstraujuð. Þær eru báðar með tvær þykkar dýnur, og dún dýnu þar ofaná. Svo er náttúrulega dúnsængin mjúk og góð. Svo mega dún koddarnir (já, í fleirtölu) ekki vera of harðir, minnst tveir lungamjúkir og svo nokkrir til vara. Koddaverin verða að vera straujuð og helst sængurverin líka. Svo þurfa þau að lykta vel, helst með mömmulykt. Ef það er baun undir einhverri dýnunni þá vakna þær marðar og bláar. Og þetta eru dömur sem æfa stíft 4-5 tíma á dag og eru lurkum lamdar eftir eigin átök og átök við aðra. Í fyrra sumar þegar Kristín kom á Kvisthagann þá var kvartað eftir fyrsta svefninn. Koddinn var of harður og það þurfti að leita uppi mjúkan kodda sem prinsessunni væri þóknanlegur. Hún sagði að þetta væri allt mér að kenna, ég hefði vanið hana á svo góð rúm og góðan svefn að hún gæti bara ekki sætt sig við minna. Svo tók hún utan um mig skellihlæjandi og sagði mér að sér þætti voðalega vænt um mig. Það er víst ekkert hægt að segja við því annað en sömuleiðis.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

25 stiga frost í morgunsárið en eitthvað á hann víst að hlýna um miðjan daginn, ekki mikið en kannski í 15 stig. Það er sem betur fer snjór yfir öllu og voðalega fallegt úti. Við Halli ætlum í borgarferð eftir vinnu hjá honum í dag og í svona kulda verður að hafa teppi í bílnum ef eitthvað skildi nú koma uppá. Það verður gott að bregða sér af bæ, við gerum alltof lítið af því en nú er mikið ferðalaga tímabil framundan og það er alltaf skemmtilegt. Því miður er Hawaii ekki á dagskrá eins og fyrir ári síðan en það er allt í lagi, mér hefði þótt fínt ef skíðaferð væri á dagskrá en henni verður víst ekki komið fyrir í ati næstu mánaða.

föstudagur, janúar 12, 2007

Hver ætli sér skilgreiningin eða útlistunin á því hvenær svokallaður sigur vinnst í Íraksstríðinu? Þegar ráðist er inní land með þeim tilgangi að hrinda einhverjum af stóli þá er það nokkuð ljóst að sigur er í höfn þegar þjóðhöfðinginn er fallinn. Saddam Hussein er allur og því ætti sigur að vera í höfn ekki satt? En nei, alveg rétt Bandaríkjamenn réðust inní Írak til að vinna sigur á hryðjuverkamönnum og til að finna gjöreyðingavopn. Úúúppps, þeir fundu hvorugt og hvernig er þá hægt að vita hvenær sigur er í höfn? Það eina í stöðunni er að færa markið og stækka það og minnka að vild og færa svo það verði nú örugglega fyrir einhverntíma þegar skotið er. Nú er víst takmarkið að koma á stöðugu lýðræði í Írak, og Bandaríkjamenn eiga að vera dómarar um það hvenær því takmarkinu hefur verið náð. Forsetinn í fararbroddi hefur ekki hugmynd um hvað lýðræði þýðir í raun, í hans huga er lýðræðinu framfylgt þegar hann fær sínu framgengt, með góðu eða illu, lygum og prettum. Það er einhver mesta þversögn sögunnar að skipa Írökum að koma á lýðræði!

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Í kvöld ætlar kallfauskurinn í Hvíta húsinu að halda ræðu og á það víst að vera stefnuræða áframhaldandi Íraksstríðs. Maðurinn hljómar eins og vitfirringur í þessu stríðsskaki sínu, að hann skuli virkilega halda því fram að aukinn herstyrkur geti "hjálpað" Írökum eru mér gersamlega óskiljanleg rök. Bandaríkjamönnum tókst að koma á borgarastríði í Írak með innrás sem var tilefnislaus og það eru voðalega litlar líkur á að þeim takist að stoppa þá óöld sem þeir uppskáru í kjölfar innrásarinnar, þeir hafa hvorki traust né aðstöðu til. Írakar virðast ekkert hafa með það að gera hvort þeir vilji fá fleiri Ameríkana inní landið eða ekki, Bush gengur út frá því sem vísu að fleiri hermenn séu velkomnir og virðist ætla að taka einhliða ákvörðun. Hann ætlar svo að ota Demókrötunum útí fenið með því að bjóða þeim "you are damned if you do and damned if you don´t". Hvort sem þeir eru með eða á móti forsetanum þá tapa þeir.

mánudagur, janúar 08, 2007

Aftur er orðið hljótt í húsinu. Karólína flaug austur eftir í gær og Kristín og Adam keyrðu af stað í fyrradag og komu á áfangastað í gærkveldi eftir 20 tíma keyrslu. Þau gistu í Indiana á leiðinni og sögðu að allt hefði gengið vel. Frekar þau en ég! Líkamanum mínum finnst langferðir í bíl ekkert voðalega spennandi, ég blæs út af bjúg og verð öll hin ómögulegasta. En mér finnst gaman að eyða svona miklum tíma með fjölskyldunni. Það er nefnilega ekkert hægt að gera í þessu litla plássi annað en að tala saman og vera sátt. Það er ekki oft sem við fáum svona marga klukkutíma saman öll á einum stað. Við fórum í margar langar ökuferðir saman þegar krakkarnir voru litlir og mér fannst það mjög skemmtilegt og ég geri þetta svo sem enn, t.d. um Evrópu í mars á síðasta ári, en langar ökuferðir eru orðnar mun sjaldnar en við ferðumst þeim mun meira á flugi enda oft erfitt um vik þegar börnin manns eru út um viðan völl.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Þessi mynd er nú eiginlega sú besta af þeim öllum.

svo er það hálstauið


svo er það hálstauið
Originally uploaded by Kata hugsar.

Við fórum í voðalega fín boð á gamlárskvöld og kvöldið áður. Við dressuðum okkur upp í okkar fínasta púss og svo voru teknar myndir af herlegheitunum. Ég nennti ekki að vera í upphlut, það er svo mikið vesen að vera með skotthúfuna (hún var ekki hönnuð fyrir konur með stutt hár!) og vestið svo ekki sé talað um óþarfa athyglina sem það kallar á. Halla fannst nóg um athyglina sem hann fékk. Kristín var með í veislunum en þegar hún tók þessar myndir þá var hún ennþá í náttfötunum!


Originally uploaded by Kata hugsar.



Originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, janúar 02, 2007