fimmtudagur, janúar 18, 2007

Dætur mínar tvær eru sannkallað prinsessur á bauninni. Báðar eru þær ómögulegar ef þær ekki hafa rúmin sín mjúk, hrein og nýstraujuð. Þær eru báðar með tvær þykkar dýnur, og dún dýnu þar ofaná. Svo er náttúrulega dúnsængin mjúk og góð. Svo mega dún koddarnir (já, í fleirtölu) ekki vera of harðir, minnst tveir lungamjúkir og svo nokkrir til vara. Koddaverin verða að vera straujuð og helst sængurverin líka. Svo þurfa þau að lykta vel, helst með mömmulykt. Ef það er baun undir einhverri dýnunni þá vakna þær marðar og bláar. Og þetta eru dömur sem æfa stíft 4-5 tíma á dag og eru lurkum lamdar eftir eigin átök og átök við aðra. Í fyrra sumar þegar Kristín kom á Kvisthagann þá var kvartað eftir fyrsta svefninn. Koddinn var of harður og það þurfti að leita uppi mjúkan kodda sem prinsessunni væri þóknanlegur. Hún sagði að þetta væri allt mér að kenna, ég hefði vanið hana á svo góð rúm og góðan svefn að hún gæti bara ekki sætt sig við minna. Svo tók hún utan um mig skellihlæjandi og sagði mér að sér þætti voðalega vænt um mig. Það er víst ekkert hægt að segja við því annað en sömuleiðis.

Engin ummæli: