miðvikudagur, júlí 27, 2005

Klukkan er rúmlega sex að morgni, sólin skín hér innum um austurgluggana, sjórinn við Ægissíðuna er spegilsléttur, kuldaþokan er að gefa sig og morgunfegurðin í algleymingi. Fuglarnir syngja sinn morgunsöng því hinir alræmdu vesturbæjarkettir eru eflaust sofandi ennþá, mannfólkið er ekki komið á stjá, nema svona örfáir morgunhanar eins og ég, og kyrrðin er alger. Í gær spilaði ég aftur golf á Hvaleyrinni í undursamlegu veðri. Fyrri níu sem eru í hrauninu voru yndislegar, kyrrt, sól og Snæfellsjökullinn í seilingarfjarlægð. Svo ákvað vindurinn að gefa í og það var orðið svo hvasst um miðjar seinni níu að ég var hætt að heyra í eigin hugsunum, sem er alveg agætt, þær eru ekki alltaf að segja mér neitt merkilegt, allra síst á golfvelli það sem mér hættir til að greina allt í smátriðum í staðinn fyrir að bara "gera" hlutina. Kristín kemur í dag úr Evrópudvölinni, verður hjá okkur fram á þriðjudag þegar hún heldur "heim" á leið. Við mæðgur ætlum að eyða Verslunarmannahelginni (þetta er langt orð!) á Lönguklöpp og leggjum væntanlega af stað seint annað kvöld þegar umferðin fer að róast. Þetta hljómar eins og mjög svo venjulegt íslenskt sumarlíf!

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Hugleiðingar um ekki neitt, eða "kellingablogg"

Ég ætlaði að skrifa lítinn pistil um Heilbrigðisstéttina, þessa einu og sönnu, en svo fór ég að hugsa, það kemur nú stundum fyrir, og komst að því að ef ég segi eitthvað þá gæti ég komið í veg fyrir haldbærar niðurstöður á úttektinni minni svo ég segi bara ekki neitt og er að öðru leiti andlega uppgefin og hef því hvorki ímyndunarafl eða frumkvæði til að skrifa um eitthvað annað en það sem mér er efst í huga og langar að skrifa um enda það eina sem ég geri þessa dagana er að vinna í garðinum, sinna vinnunni og þreyta gamlan líkama í ræktinni þessari með íslenska nafnið WC sem einu sinni þýddi náðhús en þýðir nú eitthvað allt annað. Á morgun förum við mæðgur í ferðalag austur. Ætlum að keyra austur á Egilsstaði og fara suðurleiðina. Karólína fer til þess að keppa á Meistaramóti Íslands í frjálsum og ég er svona eins manns klapplið. Veðurútlitið er fádæma gott svo við fáum örugglega suður- og austurströndina í allri þeirri fegurð sem hægt er á þessum slóðum

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Sumar, sumar , sumar og s'ol.................

Gærdagurinn var einn af þessum dögum sem koma svo sjaldan og ég var svo heppin að ég var að spila golf á Hvaleyrinni í dýrðinni. Það var skafheiður himinn og fremur kyrrt. Við héldum að hann ætlaði að fara að rífa sig upp um tíma með roki en svo bara lægði og Hvaleyrin varð að sólríkum, kyrrum bletti í tilverunni með ölduhljóðum og sjófugli og Snæfellsjökulinn í seilingarfjarlægð. Það tindraði og glitraði á sjóinn í kyrrðinni, flutningaskip að sigla inní Hafnarfjarðarhöfn, bátar á stými inn og út og krakkar að leika sér í sjávarborðinu. Mikið voðalega er ég þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa kennt mér þessa ágætu íþrótt, hún hefur gefið mér tækifæri til að sjá staði sem ég hefði annars aldrei séð og svo á maður það til að tölta hring á golfvelli í veðri sem hefði annars verið betur fallið til inniveru en svo kem ég alltaf heim endurnærð án tillits til veðurs eða spilamennsku, þetta með höggin og spilamennskuna verður að aukatriði með árunum. Í dag lítur út fyrir annan eins dag og nú á að nota daginn til garðavinnu. Ég má til með að taka til í beðunum hérna fyrir framan hús og því ekki að nota svona fallegan dag, seinni partinn þarf ég svo að sinna vinnunni en ætlunin er að enda daginn í heilsuræktarstöðinni, ég sé nú samt til hvernig garðavinnan fer með bakið á mér.

mánudagur, júlí 18, 2005

Goður laugardagur

Honum Halla mínum er nú ekki fisjað saman. Hann hljóp Laugavegshlaupið á laugardaginn, alla 55 kílómetrana, kláraði, var ekkert voðalega sár á eftir, og eiginlega án þess að æfa sig neitt að ráði fyrir það. Hann var ekki að keppa við klukkuna, heldur tók all verulega eftir umhverfinu, man meira að segja eftir blómabreiðunum, og var mikið að velta fyrir sér heiti blómanna. Gat náttúrulega ekki fyrir sitt litla líf munað nöfnin á þeim sem er nú ekkert skrýtið hann man ekki hvað ég heiti nema endrum og sinnum, en gaf sér tíma til að njóta stundarinnar, eða stundanna.....allra átta, og var ótrúlega sprækur þegar hann kom í mark. Ég var svo heppin að góðir vinir sem eiga jeppa buðu mér með í all verulega skemmtilega ferð uppí Þórsmörk. Reyndar komumst við ekki yfir síðustu tvo farartálmana, til þess þarf alvöru jeppa á stórum blöðrum, en fádæma liðlegir menn hjá Austurleið komu og náðu í okkur á vörubíl og keyrðu okkur svo til baka á á pallbíl. Þetta var mikið ævintýri. Ég hef aldrei komið í Þórsmörk áður. Það var þungbúið, eiginlega rigning þegar við komum en það stytti upp smám saman, birti svo mikið til að í ljós komu litir í náttúrunni sem ég hef aldrei séð áður, landslag af fallegustu gerð með jöklana í baksýn, ár og læki, fossa og kletta og þessa fádæma, sérkennilegu og hrikalegu fegurð sem íslenskt landslag samanstendur af. Í hlaupinu tóku þátt fjölmargir vinir og urðu fagnaðarfundir með fólki sem við ekki höfum séð í áraraðir og jafnvel áratugi. Á eftir var svo boðið í einhverja gæsilegustu útilegu veislu sem ég hef séð, hún Theódóra er nú engum lík, hún kann að skipuleggja og undirbúa svona veislur, jafnvel þótt inní Þórsmörk sé. Dásamlegur dagur og við náttúrulega harðákveðin í að koma þarna sem fyrst aftur, en það er sá ljóður á ráði að við eigum engan jeppa, Golfinn kæmist ekki hálfa leið, svo við verðum væntanlega að skipleggja þetta með öðrum sem eiga jeppa eða kaupa eða leigja eða lána eða eitthvað svoleiðis.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Rok og rigning suður með sjo

Ég komst að því í gærkveldi að það er ekki bara ég sem finn til óánægju með veðráttuna hér sunnanlands. Ég hef nú svo sem ekki sagt mikið um grámann og suddann sem er hér alla daga, enda ekki alltaf með það á hreinu hvað eru ýkjur og hvað er satt og rétt í veðramálum enda hverjum finnst sinn fugl fagur og "beauty is in the eye of the beholder". Ég spilaði golf með vinum á Hvaleyrinni í gærkveldi í roki og sudda og það var fjandi kalt, ekki bara mér heldur hinum líka sem þó spila þarna oft í viku. Ég er orðin að aula sem ekki kann að spila í roki og rigningu því ef hann rignir heima hjá mér þá er að öllu jöfnu þrumuveður og golfvellir því lokaðir. Og ekki er ég góð í að spila golf dúðuð eins og feitur bangsi, ég þurfti að tína af mér spjarirnar til að geta hreyft mig og þá náttúrulega varð mér ennþá kaldara. Ég fékk svo lánaða húfu og það bætti ástandið til muna. Ef ég spila að einhverju gagni hér í sumar þá verð ég að byrgja mig upp af fatnaði til útiveru í roki og rigningu, og víst kunna þeir hjá 66 gráðum að búa þann fatnað til......ekki að ástæðulausu.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Vaðlaheiðin

Þá er hversdagslífið tekið við aftur eftir örstutta ferð norður. Það var gott að koma norður en skrýtið og eiginlega erfitt að koma á Lönguklöpp. Það er nefnilega mjög líklegt að við þurfum að flytja þaðan. Það á að bora gat í gegnum Vaðlaheiðina og á áætlun eru fjórir valkostir og sá fyrsti -og að því sagt er sá besti- liggur í gegnum húsið okkar. Við fengum fréttir af þessu í vor og höfum hugsað um fátt annað síðan og svo um helgina var komið að því að finna okkur nýjan stað. Við gengum og keyrðum um Heiðina og það er nokkuð ljóst að enginn staður verður eins fallegur og Langaklöppin. Við erum bæði á því að flytja okkur niður að sjó og fundum land sem okkur líkar vel við en við viljum bara ekki flytja, það er nú mergurinn málsins. Halli hitti framámenn í ganganefndinni og bauð í kaffi á Klöppina og lét þá vita að þessi blettur---og nákvæmlega þessi-- væri okkur afar kær og við viljum svo gjarnan að þeir finni annan stað fyrir veg og göng. Þeir átta sig á þessu en það skiptir þá í sjálfu sér litlu máli hvað við viljum og hvað okkur hentar eða hentar ekki, þetta er stærra mál en svo að lítill bústaður í Heiðinni ráði staðsetningu vegar og gangna.

Meða annarra orða, hvernig beygist orðið göng? Ég hélt að í eignarfalli væri það gangna en í Mogga og öðrum blöðum er eignarfallið ganga (sbr. gangagerð). Upplýsið þið mig (takið þetta til ykkar Lapsus, Ærir og fl).

fimmtudagur, júlí 07, 2005

útsýnið af Esjunni


útsýnið af Esjunni, originally uploaded by Kata hugsar.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Reykjavik

Við fengum hóp góðra vina í heimsókn í fyrrakvöld. Ég hafði nú ætlað mér að elda eitthvað frambærilegt en eldavélin okkar hérna á Kvisthaganum bilaði og við fengum ekki viðgerð fyrr en í gær. Það var því gripið til gömlu góðu pizzunnar og var þeim öllum gerð góð skil þótt ég skammaðist mín nú dulítið fyrir það sem á borðum var. Mér líkar ekki að bjóða til matar og geta svo ekki séð um þetta sjálf. Rétt um það bil sem hópurinn var að kveðja var ákveðið að þeir sem áttu heimangengt daginn eftir myndu príla Esjuna. Við Halli höfum aldrei gengið á Reykjavíkurfjallið áður og var það eitt af markmiðum sumarsins að komast upp. Þegar á bílastæðin við Mógilsá kom var lágskýjað og ekkert voðalega spennandi að líta upp en við létum okkur hafa það og "röltum" af stað. Þegar ofar dróg fór hann að létta til og þegar tindinum var náð byrjaði hann að rífa all verulega af sér og svo fór að útsýnið var með því fegurra sem gerist með tindrandi og glitrandi blá sundin og eyjar og sker og húsþök borgarinnar uppljómuð í sumarsólinni. Þvílík fegurð. Kyrrðin alger, skoppandi tær lækurinn, hofsóleyjar, holtasóleyjar, lúpína, grjót, birki, ilmur eftir rigningu næturinnar, stelkur og spói, lóa og kjói og hópur góðra vina með Siríus súkkulaði og íslenskt vatn.

Þar sem tvívítt landslagið í Minnesota er lítt til þess fallið að æfa fjallgöngu þá var líkaminn gamli ekki í formi að takast á við mishæðir og fjallapríl og var niðurferðin erfið lærvöðvunum. Ég er með strengi í dag í vöðvum sem ekki hafa verið notaðir lengi en verða vonandi með jöfnu millibili í sumar. Það er á dagskránni að takast á við nokkra tinda hérna í nágrenninu.

föstudagur, júlí 01, 2005

Gamla goða islenskan

Þá hef ég verið í Reykjavíkinni í þrjá daga og er farin sakna sólarinnar. Hún hefur verið fjarri Borginni þessa dagana. Ég sit við og vinn flestum stundum og finnst það heldur óþjált að skrifa og vinna eingöngu á íslensku. Það eru ýmis orð og orðanotkun sem ég kannast ekkert við þ.á.m. orðið "lúkning" í samhenginu "Aðilar munu vinna áfram að lúkningu samningsgerðar". Ég þurfti nú barasta að leita að þessu orði í orðabók og komst að því að þetta er einhverskonar útgáfa að sögninni að "ljúka". Nú vantar mig orðsifjabækurnar mínar sem eru náttúrulega westanhafs.