miðvikudagur, júlí 20, 2005
Sumar, sumar , sumar og s'ol.................
Gærdagurinn var einn af þessum dögum sem koma svo sjaldan og ég var svo heppin að ég var að spila golf á Hvaleyrinni í dýrðinni. Það var skafheiður himinn og fremur kyrrt. Við héldum að hann ætlaði að fara að rífa sig upp um tíma með roki en svo bara lægði og Hvaleyrin varð að sólríkum, kyrrum bletti í tilverunni með ölduhljóðum og sjófugli og Snæfellsjökulinn í seilingarfjarlægð. Það tindraði og glitraði á sjóinn í kyrrðinni, flutningaskip að sigla inní Hafnarfjarðarhöfn, bátar á stými inn og út og krakkar að leika sér í sjávarborðinu. Mikið voðalega er ég þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa kennt mér þessa ágætu íþrótt, hún hefur gefið mér tækifæri til að sjá staði sem ég hefði annars aldrei séð og svo á maður það til að tölta hring á golfvelli í veðri sem hefði annars verið betur fallið til inniveru en svo kem ég alltaf heim endurnærð án tillits til veðurs eða spilamennsku, þetta með höggin og spilamennskuna verður að aukatriði með árunum. Í dag lítur út fyrir annan eins dag og nú á að nota daginn til garðavinnu. Ég má til með að taka til í beðunum hérna fyrir framan hús og því ekki að nota svona fallegan dag, seinni partinn þarf ég svo að sinna vinnunni en ætlunin er að enda daginn í heilsuræktarstöðinni, ég sé nú samt til hvernig garðavinnan fer með bakið á mér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli