föstudagur, október 31, 2008

Halloween í dag. Það er af sem áður var þegar þetta var uppáhalds dagur barnanna minna. Þá var allt undirlagt í nokkrar vikur því undirbúningurinn var skemmtilegastur af öllu. Ég saumaði alla búninga og það var mikið sport að ákveða hvað átti að vera, finna efni sem pössuðu, skó, hárkollur eða hvað annað sem þurfti. Þegar við áttum heima í Minneapolis þá fengum við tugi barna í heimsókn en núna fáum við bara örfá því við búum í hverfi þar sem hver lóð er hálfur til einn hektari og því langt á milli húsa. Það er því ekki mjög mikill afrakstur af mikilli göngu. Enda fór Karólína í annað hverfi fyrstu árin því það er mun gjöfulla að ganga um með nammipokann þar sem húsin standa kinn við kinn. 

Það er hitakafli í veðrinu. Í gær var 20 stiga hiti og í dag á að verða 17 stig og það sama um helgina. Svo á víst að kólna og ekkert um það að segja annað en að svona eru víst áhrif gangs jarðar um sólu.

fimmtudagur, október 30, 2008

Það er aftur búið að færa myndavélina í Barnaskólanum. Núna sé ég nyrðri hluta Svalbarðsstrandar, og stóran hluta himinsins yfir Eyjafirði. Hann er alltaf jafn fallegur. Kannski sé ég norðurljósin eitthvert kvöldið?
Það er eitt og annað sem ég ekki skil í íslensku samfélagi. Hvorki fyrir né eftir hrun. Hvers vegna í veröldinni hækkaði Seðlabankinn stýrivexti? Ég skildi þetta svona nokkurnvegin fyrir hrun, því þá var verið að reyna að stoppa neysluna, en við núverandi aðstæður skil ég þetta bara alls ekki. Ég held að svarið sé til þess að halda gjaldeyri innanlands. Sú rök halda bara ekki vatni við núverandi aðstæður þar sem fólk í hundraðatali missir vinnuna á hverjum degi og margir af þeim sem hafa vinnu hafa lækkað all verulega í launum. Það eru engir peningar til að eyða. Ef það á að ná þjóðarbatteríinu af stað aftur þá þarf að lækka vext. Það getur enginn sem stendur í framkvæmdum tekið lán undir þessum kringumstæðum og þar með stoppast allt. Þetta kyrkir allt athafnalíf, þ.e. þá sem standa í framkvæmdum. Jú, það þarf að viða að sér erlendis frá en það verður líka að halda atvinnu fólks gangandi. Öðruvísi kemst ekki skútan af strandstað. Það verður því að gera greinarmun á neyslulánum, atvinnulánum, og svo aðstoð til þeirra sem ekki geta staðið í skilum. Þetta er einhver alvitlausasta ákvörðun sem ég hef heyrt um lengi.

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hver á að sjá um rannsókn á ferlinu sem leiddi til hrunsins. Bogi og Valtýr eiga syni sem voru á fullu í útrásinni. Svona er þetta litla íslenska samfélag. Það þekkja allir alla. Meira að segja ég er málkunnug Sigga Valtýs og ég þekki mömmu hans og stjúpa vel. Ég get því ekki séð að íslenskt fyrirtæki, eða íslenska ríkið í þessu tilfelli, hafi það traust sem þarf til að fá niðurstöður sem einhverju fá breytt. Þetta þekki ég afskaplega vel, það hefur ekkert uppá sig fyrir mig að kynna niðurstöður úttekta ef ég er rúin trausti. Ég byggi allt mitt á trausti viðskiptavinanna. Það traust byggi ég upp frá fyrstu mínútu og því held ég áfram löngu eftir að verkefninu er lokið. Ef niðurstöðunum er ekki treystandi þá er betur heima setið en af stað farið. Þetta er eitt af grundvallaratriðum mats og úttekta.

Það er best að hætta hérna og snúa sér að doktorsritgerð í matsfræðum.

miðvikudagur, október 29, 2008

Ég kíki á hverjum degi á beina útsendingu frá Akureyri. Ein heimasíðan er frá Fjallinu mínu. Þar eru fjórar vélar....það lítur mjög vel út, mig langar á skíði!  Ein myndavél er í gamla barnaskólanum og vísar hún að öllu jöfnu til norð-austurs. Um helgina hefur einhver annað hvort rekið sig í vélina eða þá að einhverjum hefur fundist sjónarhornið ekki nógu gott því nú vísar vélin beint niður í Gilið og á Myndlistaskólann. Mér er svo sem slétt sama hvort sjónarhornið er, ég fylgist aðallega með veðrinu, en fyrst þeir eru að færa vélina til, hvernig væri þá að vísa henni aðeins meira til austurs og yfir í Heiði svo ég sjái í Lönguklöpp? 

þriðjudagur, október 28, 2008

Ég á ekki vona á að vaðlaheiðargöng verði byggð á næstu 5-10 árum. Langaklöpp er væntanlega óhult í bili.

sunnudagur, október 26, 2008

Nánast síðan við fluttum til útlanda fyrir rúmu 21 ári síðan höfum við tekið að okkur það hlutverk að vera fulltrúar Íslands sem kunna söguna, Íslendingasögurnar, og allt annað sem að Íslandi kemur. Þetta er rétt eins og aðrir Íslendingar sem erlendis hafa búið. 

Síðustu vikurnar hafa spurningarnar breyst, fólk okkur nákomið kann mikið um ófarir Íslands og hringja í okkur og senda tölvupóst í tíma og ótíma, til að ræða málin og spyrja okkur spjörunum úr hvað hafi gerst. Við erum stoppuð á götu, í ræktinni, og vinnunni af lítt kunnugu eða algerlega ókunnugu fólki sem veit að við erum Íslendingar. Börnin okkar eru spurð við ólíklegustu tækifæri. Allir eru umhyggjusamir og spyrja um fjölskylduna heima og svo okkar eigin mál. 

Það hefur verið erfitt að svara öllum þessum spurningum og ekki verður hjá því litið að ég reyni að verja landið eins og ég get. Kannski fegra ég ástandið, ég veit það ekki, en ég reyni að skýra út ferlið, hvernig landið var fyrir og eftir EES, hvað breyttist og hvað ekki, hvernig litla íslenska krónan var ekki nógu stór fyrir stóru viðskiptin á alþjóðamarkaði, og hvernig Seðlabankanum tókst ekki að stjórna óstýrilátum Íslendingum í blússandi útrás. Þar sem ég er matsfræðingur þá tek ég oft þann pólinn í hæðina að skýra þetta útfrá forsendum mats, úttekta og eftirlits, þannig finnst mér ég komast að kjarna málsins. En ég bara veit ekki nóg um fjármál og efnahag þjóðarinnar til að gefa haldgóða lýsingu á atburðarásinni eða orsakasamhengi. 

Eitt er alveg öruggt, það er alveg nauðsynlegt að fylgjast vel með, hversu mikið sem það tekur annars á sálartetrið.

laugardagur, október 25, 2008

Karólína fékk tölvupóst frá öðrum nemanda í Duke í haust sem er náttúrulega ekki í frásögu færandi nema að stelpan er íslensk. Loksins náðu þær að hittast í síðustu viku og þá kemur í ljós að Tatiana er hálf íslensk og pabbi hennar er læknir á Akureyri, m.a. á Læknastofum Akureyrar. Afi hennar kenndi okkur efnafræði hér í den að mig minnir í þriðja bekk. Þetta var ekki hans aðalstarf, hann er verkfræðingur ef ég man rétt, en það var augljóst að honum þótti gaman af kennslunni. Tatiana hefur unnið á Akureyri á sumrin, en bjó í Noregi í nokkur ár. Það er með ólíkindum hversu margt þær eiga sameiginlegt stelpurnar. Ég spurði hvaða tungumál þær hefðu talað og það var íslenska, enska og spænska sem þær notuðu. Dóttur minni fannst þetta mjög skemmtilegt og þær eiga eflaust eftir að hittast aftur.

föstudagur, október 24, 2008

Það er kalt og haustlegt úti, svona raki eins og kemur rétt áður en hann snjóar. Það er samt ekki að koma snjór, það er bara köld þoka úti. Kannski kemur smá slydda aðfaranótt mánudags en það á að vera um 10 stigin í næstu viku. Svo smá kólnar, og einhverntíma eftir mánuð eða svo, kannski einn og hálfan, þá fer að kólna og líklega snjóa. Ég er að fara á fund í vinnunni og svo er það bara heim aftur og koma mér fyrir í skrfstofustólnum mínum.

fimmtudagur, október 23, 2008

Ég fylgist vel með því sem er að gerast á Íslandinu, eiginlega of vel því mér verður lítið úr verki þegar ég fer að lesa um vandamál landans. Svo ég tali ekki um reiðina. Þá hreinlega get ég ekki einbeitt mér að ritgerðinni. Ég tel mig þó vera heppna að vera aðskilda frá umræðunni. Ég get kveikt á sjónvarpi og útvarpi og heyri annarskonar fréttaflutning en á Íslandi. Ég er reyndar hætt að kveikja á útvarpi í bili, ég er alveg komin með forsetakostningarnar uppí kok. 13 dagar eftir. 

Í gær horfði ég á fréttir bæði á Stöð 2 og RÚV og þar með var dagurinn horfinn fyrir mér. Ég fór að fyllast samskonar reiði og ég les um í bloggheimum. Svindl og prettir Glitnis í Noregi fóru alveg með mig. Flest allir sem ég þekki heima mega ekki vamm sitt vita, mæta til vinnu og borga sína skatta og standa sína plikt við menn og málefni. Það eru ekki þeir sem voru í útrás eða að misnota banka og aðgengi að peningum. Það að hafa óheft aðgengi þýðir ekki það að það eigi að gera. Viðskiptasiðferði er ekki hægt að lögbinda og orð Vilmundar Gylfasonar koma oft uppí hugann þessa dagana "löglegt en siðlaust." Það var reyndar margt sem var gjörsamlega ólöglegt en margt virðist hafa verið löglegt en gjörsamlega siðlaust. Þetta siðleysi kom þjóðarbúinu á kaldan klaka. Það er svo annað mál að það þurfti greinilega þrengri löggjöf fyrir svona viðskiptasiðleysingja sem fóru eins langt, og lengra, en lög leyfa. Það þurfti líka eftirlit, og það er greinilegt að enginn Íslandingur hefur kunnáttu eða þekkingu til að viðhafa svoleiðis eftirlit.

Ég var ánægð með Geir Haarde í gærkveldi í Kastljósi. Hann svaraði betur en ég bjóst við og sagði meira en ég hélt hann gæti. Sem betur fer fáum við ekki að vita allt sem rætt er, til þess eru lokaðir trúnaðarfundir með sérfræðingum og fólki sem kann til verka. Ekki vil ég þurfa að taka afstöðu til margs sem rætt er, enda hef ég engar forsendur til. Ég er ekkert endilega sammála öllu sem sagt er og gert en ég held að allir viðkomandi séu að gera eins vel og hægt er og með hagsmuni venjulegra Íslendinga að leiðarljósi. Þeir virðast hafa áttað sig á eigin takmörkunum og hafa kallað eftir hjálp utanaðkomandi fólks. Það virði ég.

miðvikudagur, október 22, 2008

Þá er húsið aftur orðið tómlegt. Mæðgur farnar heim og Anna til Las Vegas. Það er leiðinlegt þegar gestir fara. Ekki það, mér líður vel einni og þarf á öllum þeim tíma að halda sem ég get náð í næsta mánuðinn eða svo. Ég þarf víst að klára verkefni sem ég er með! En það er samt leiðinlegt þegar góðir gestir fara. 

mánudagur, október 20, 2008

Hér eru nokkrar myndir úr haustlitagöngutúr um hverfið okkar.

DSC00214
Originally uploaded by Kata hugsar


DSC00220
Originally uploaded by Kata hugsar

Sykurhlynur


DSC00223
Originally uploaded by Kata hugsar

Gömul vinkona frá Íslandi kom í heimsókn um helgina. Hún var á leið til Las Vegas á ráðstefnu og hafði, mér til mikillar gleði, samband fyrir nokkrum vikum og ákvað að eyða einum sólarhring með okkur. Það var svo gaman og mér þótti óskaplega vænt um það. Helgin var afskaplega falleg, sól og blíða og haustlitir allsstaðar. Hitinn um 15 stig og mikil dómadags haust blíða. Bjarni og Nicole komu niðureftir í gær og eyddu með okkur deginum. Við elduðum saman, þ.e. Bjarni eldaði og ég horfði að mestu á, svínarif a la Bjarni með hvítlaukskartöflumús og salati...það verður nú að hafa smá heilsusamlegt með, og íslenskt Nóa konfekt í eftirrétt. Rifin voru sett í pott og svo potturinn í ofn í fjóra klukkutíma, þá voru þau marineruð í tvo tíma og svo grilluð með BBQ sósu sem hann breytti og bætti smá. Svona verða rifin svo meyr að þau detta af beinunum en halda bragðinu. 

Hin allra besta helgi með gönguferðum, góðum mat, fjölskyldu og vinum.

föstudagur, október 17, 2008

Systir mín og systurdóttir eru hjá okkur í heimsókn þessa vikuna. Þær ákváðu þessa ferð fyrir nærri ári síðan og hafa skipulagt öll frí samkvæmt því. Þær ákváðu að skella sér þrátt fyrir kreppuna. Þær fóru í bankann áður en þær lögðu í hann og hvor um sig fékk heila $220. Það dugir nú skammt. Kunningi þeirra fór svo í bankann og hann fékk $1000 fyrir þær. Hann fékk svona mikið v.þ.a. hann þekkti fólkið í bankanum. Þetta fer að hljóma eins og í kringum 1975 þegar gjaldeyrir var skammtaður en ef maður var svo heppinn að þekkja mann sem þekkti annan þá fékk maður gjaldeyri á svörtum. Svo var líka gott að fara að tala við Skúla í bankanum vegna þess að hann var að byrja með lítið fyrirtæki sem leigði bíla og margir viðskiptavinanna voru útlendingar og hann átti oft dollara. Ótrúlegt að vera að ganga í gegnum þetta aftur. Þær þora náttúrulega ekki fyrir sitt litla líf að nota kreditkort því það er ekki á vísan að róa með stöðu gjaldeyris hjá þeim.

Undarleg staða að geta ekki notað kort árið 2008. Það er ekki svo langt síðan verið var að ræða hvenær peningar yrðu sjaldséðir. Núna eru þeir það eina sem nothæft er í viðskipum. Beinharðir og gamaldags peningar.

þriðjudagur, október 14, 2008

Systur


Systur
Originally uploaded by Kata hugsar

Sólsetur á Manhattan


Sólsetur á Manhattan
Originally uploaded by Kata hugsar

Mæðgur í New York


Mæðgur í New York
Originally uploaded by Kata hugsar

New York skartaði sínu fegursta um helgina. Við höfðum það afburða gott saman mæðgurnar og Adam, en ég var gengin uppað hnjám í lok laugardags og sunnudags. 



föstudagur, október 10, 2008

Ég var að lesa grein á visir.is um afstöðu Geirs Haarde til IMF. Ég var að skýra ástand mála út fyrir Karólínu í gær og minnstist á aðkomu IMF og hún saup kveljur. Hún er í námi í alþjóðaviðskiptum og hefur lesið og skrifað þó nokkuð um IMF og er ekki hrifin af sögu þeirra og hvernig þeir hafa komið fram við þau lönd þar sem þeir hafa tekið yfir. Þetta á sérstaklega við um S-Ameríku enda eru engin fordæmi fyrir því að þeir komi að hagkerfi sjálfstæðs ríkis á vesturlöndum. Mér þóttu viðbrögð dóttur minnar lýsandi, því eins og húns sagði "litla Íslandið mitt má ekki verða IMF að bráð."
Ég fer til New York í kvöld á fund við dætur mínar. Það verður svo gott, aðallega að komast í burtu frá skrifstofunni minni. Annars ganga skrif þokkalega. Ég er búin að "skrifa" alla ritgerðina en ég er að breyta og vonandi bæta þetta. Ég er ósátt við uppbygginguna á loka niðurstöðunum, argumentið er of veikt eins og það er og heilinn á mér var í hnút fyrri hluta dagsins í gær en svo raknaði eitthvað úr. Ekki nóg samt því ég er enn ósátt. Ég vil ekki enda ritgerðina á veikum nótum. Ég er að hugsa um að byrja að setja saman power point kynninguna. Það hefur svo oft hjálpað mér að komast að kjarna málsins svo ég er að hugsa um að nota þá aðferð sem gefist hefur vel þegar ég hef verið að kynna niðurstöður úr verkefnum. Þetta er mun stærra en öll önnur verkefni sem ég hef gert, og hérna þarf ég jú að tengja allt saman við literatúrinn í lokin svo þetta er annars eðlis. 

þriðjudagur, október 07, 2008

Ég var að hlusta á Minnesota Public Radio áðan á ferð minni um bæinn. Besta útvarpsstöð sem til er. Í fréttunum var verið að tala um Mall of America og góðu áhrifin sem sem lár dollar hefur haft á verslun þar. Útlendingarnir þyrpast í megamollið. Hæstu tekjurnar koma frá Kanadamönnum. Þær næst hæstu frá Bretlandi. Þær þriðju hæstu frá ... stórasta Íslandi. Það er margur landinn sem hefur sleppt sér í MoA, en að 300000 manna samfélag geti haft meiriháttar áhrif á tekjur megamolls í Ameríku er með ólíkindum.
Það er komin dagsetning. Ég ver 5. desember. EF....leiðbeinandinn verður búinn með sína vinnu, hann er ekki viss. Það er mikið að gera hjá henni Jean, en eins og Halli sagði, nú er komin pressa á hana að klára sitt. Ef þetta gengur eftir, og ef ég næ, þá útskrifast ég með pompi og prakt, húfu, hettu, silkikápu og alles, 12. desember.

Það eru allt of mörg EF í þessu öllu.

sunnudagur, október 05, 2008

Ég er ein í kotinu, kall minn er á Spáni að kenna alla vikuna. Ég fer svo til New York til Kristínar og Adam á föstudaginn og svo kemur Karólína þangað á laugardagsmorguninn og við ætlum að njóta lífsins í stórborginni yfir helgina. Okkur finnst ekkert leiðinlegt að vera saman mæðgunum og Adam verður að þola okkur þessa helgina. Við ætlum að búa hjá Kristínu og Adam á öllum 40 fermetrunum, svo það er eins gott að okkur komi öllum vel saman. Hann verður bara að þola það að vera eini karlmaðurinn. Ég á alls ekki von á að þetta verði vandamál, hann er fádæma ljúflingur í umgengni og á mjög auðvelt með að fljóta með og er ekki upptekinn af því að þurfa að stjórna eða vera með í ráðum. Hmm, kannski eins gott, við mæðgurnar sjáum ágætlega um þá deildina. Kristín verður við stjórnvölinn, ég geri bara eins og mér verður sagt, verð voða hlýðin, hljóð og eftirlát. 

föstudagur, október 03, 2008

Ég var í Minneapolis í fyrradag með leiðbeinandanum mínum. Hún er enn svona líka ánægð með mig. Ég er að leita að dagsetningu sem passar okkur öllum um miðjan desember. Ég ver rannsóknina á þessu ári ef allir geta komið saman á einn stað í tvo tíma.