miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Heilsuatak

Ég er í miklu heilsuátaki þessa dagana. Ég fer til næringarfræðings einu sinni í viku og svo einkaþjálfara einu sinni í viku. Svo fór ég í metabolic testing og nú er ég að þjálfa líkamann eftir hjartslætti og allt er þetta mjög vísindalegt því nú veit ég meira um líkamann minn, möguleika hans og takmörk, en ég hef nokkruntíma áður vitað, og kannski meira en ég endilega vil. Ég fór nefnilega í fitumælingu (klípupróf) og allt það sem tilheyrir....það var ekki skemmtilegt. Ég fer líka í jóga og pilates, og stundum yogalates, og eru það bestur tímar vikunnar en ég þarf að koma hjartanu á hreyfingu og ná upp þoli og þreki. Ég keypti mér hjartsláttar mónitor og allt er þetta hið besta mál því nú velti ég all verulega fyrir mér hvað ég læt ofaní mig, ekki bara kaloríuunum heldur líka samsetningunni og innihaldinu. Mér finnst nefnilega matur voðalega góður en ég þarf að hætta að nota mat sem sálræna hækju og hætta alveg að kaupa hormónakjöt og gegnum sprautað grænmeti og í staðinn leita uppi almennilega fæðu sem ekki er búið að blanda með allskonar óþverra. Það er alveg hægt hér í landi hormóna, ég þarf bara að hafa aðeins fyrir því og aga sjálfa mig þannig að ég leiti það uppi og viti hvert skal fara. Sem betur fer þá veit ég hvar ég fæ íslenskan fisk en kjötið er aðeins meira mál. Ég kem reyndar alltaf með lamb með mér að heiman en það er alltaf læri eða hryggur og það er í sjálfu sér alltí lagi en það er þetta með hversdagsfæðuna sem ég þarf að einbeita mér að. Svo er það þetta með brauðið. Lengi vel var rotvarnarefnbrauð það eina sem hægt var að kaupa svo ég hef bakað mikið af brauði í gegnum tíðina en nú er komið bakarí hér með alvöru brauði, mér til mikillar gleði og því þarf ég ekki að passa uppá birgðastöðu brauða.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Hann Halur Húfubólguson (www.valmart.blogspot.com) skrifar um rammíslenska matargerð og matarvenjur í dag. Ég tók mig til í morgun og steikti heilan helling af kleinum og varð hugsað til húsbóndans í Vinaminni. Djúpsteikt deig getur náttúrulega ekki talist til hollustufæðis en það er þetta með magnið, eða það sem heitir á ensku "portion control". Það er nefnilega alls ekki nauðsynlegt að hafa kleinurnar af fjölskyldustærð og þaðan af síður þarf að borða tíu í einu. Hann Matti í kvæðinu hans Stefáns Jónssonar fékk til dæmis bara eina kleinu að launum fyrir að svæfa systur Bínu.

Hitastig jarðar

Þegar ég kom niður í morgun var gamla góða gufan á og Ævar Kjartansson að ræða við einhvern sem ég ekki þekki um hitastigs- og loftslagsbreytingar jarðar. Við erum öll meira og minna sek, sumir meira en aðrir þó og þá sérstaklega margir sem búa í þessu landi sem ég bý í. Bílaframleiðendur amerískir eiga í óendanlegum vandræðum með að þróa og framleiða bíla og vélar sem nýta orkuna vel og finna orku sem mengar ekki, eða allavega lítið. "My truck" er bara hluti af persónuleika margra og þeim hinum sömu finnst þeir hafa fæðingarétt á því að keyra aleinir um á bílum sem eyða 40-60 lítrum á 100km. Svo eru náttúrulega almenningssamgöngur af afar skornum skammti hér í miðvestrinu. Ég kemst engra erinda nema á bíl, það er a.m.k 45 mínútna gangur í næstu matarbúð, og annað eins í vinnuna. Halli er reyndar með allra bestu mönnum í að nota eigin afl sem allra mest. Hann hjólar eða hleypur í vinnuna alla daga og þá sjáldan hann notar hjólið þá eru það eingöngu tvö í einu í formi reiðhjóls, vespu eða mótorhjóls en ég er ekki eins öflug og gerist sek um að keyra hvert sem ég fer.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Jolaverslun

Ég tel mig nú vera all þokkalega hagkvæma í innkaupum og vel skipulagða manneskju. Ég leita uppi tilboð (ég bjó nú ekki í Norge í þrjú ár fyrir ekki neitt!), fer í outlet, og þar fram eftir götunum. Ég er greinilega alveg vonlaus samt. Í dag er mesti verslunardagur ársins hér í landi og búðir opnuðu sumar hverjar klukkan 4 í morgun, fólk stóð í röð við Best Buy í alla nótt til að ná í dót og drasl á góðu verði! Það eru nefnilega tilboð allsstaðar og margir búnir að liggja yfir bæklingum og auglýsingum um tilboð hér og tilboð þar og tilboð allsstaðar. Það er ekki mín deild að standa í röð til að komast inní búð, hvað þá yfir nótt í 12 stiga frosti, vindi og snjókomu. Ég versla helst þegar ég þarf á einhverju að halda, byrja í tilboðsverslununum, og færi mig svo yfir í hinar ef ekki vill betur, helst á eins litlum tíma og hægt er. Dætur mínar segja að ég sé voðalega leiðinleg að versla með því ég hef svo lítið úthald í verslunum og vilji helst hætta áður en allt sé fullreynt. Þvílíkur galli á einni manneskju!

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Thanksgiving

Það er snemma að morgni Thanksgiving, sólin að koma upp og henni tekst eflaust að ýta einhverju af kuldanum til hliðar, allavega yfir daginn. Það er hvasst á okkar mælikvarða, hvín í trjánum og þau fáu lauf sem ekki er búið að hreinsa eru á fleygiferð um hverfið. Auð jörð, en snjór á leiðinni eftir helgi. Við verðum hjá vinum okkar og nágrönnum í mat. Þar verða um 25 manns svo nóg verður lífið og fjörið enda helmingurinn börn og unglingar sem allir þekkjast vel. Bjarni ætlar að elda megnið af veislumatnum, kalkún og 9 rétti af meðlæti. Ég reikna með að hann fari að koma á fætur, óguðlegur tími á hans mælikvarða, til að byrja á herlegheitunum. Þetta er víst ekki mikið mál í hans bókum, en gott verður það þegar kalkúna og stöffing lyktin fer að fylla húsið, ásamt lykt af nýbökuðu brauði, kartöflum, gulrótum, sætum kartöflum, maís, eplapæ, og svo allskonar meðlæti sem ég hef aldrei heyrt á minnst.

Góður dagur framundan.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Mikið skemmti ég mér vel í New York. Ég var reyndar útkeyrð og gengin uppað hnjám eftir u.þ.b. 25 klukkutíma á gangi um helgina á gangstéttum Manhattan innanum ótrúlega mannmergð, en gaman var það. Ég gerði reyndar þá megin vitleysu að ætla mér að ganga frá Madison Square Garden á hótelið, 23 blokkir (þessi sér ameríska mælieining), gegnum Times Square, á föstudagseftirmiðdegi, rétt fyrir Thanksgiving. Ekki bara að ganga heldur með ferðatöskuna mína í eftirdragi! Ég fékk mörg augnatillit og nokkrar athugasemdir og eina rimmu af skömmum. Ég velti fyrir mér að svara á ilhýra móðurmálinu mínu en hætti við og hélt áfram mína leið.

Í gærmorgun var haldin árleg hátíð okkar sem erum af norrænum uppruna í Minneapolis. Þetta heitir Nordic American Thanksgiving Breakfast og er haldinn klukkan 7 á þriðjudagsmorgninum fyrir Thanksgiving. Ég var fulltrúi Íslands, fánaberi og upplesari úr Biblíunni. Uppbúin á upphlutinum mínum. Þegar við áttum heima í Borginni þá var ég í stjórn þessarar ágætu samkomu og mér tókst að koma Íslandi að svo sýnilegt væri: ég fékk Vigdísi Finnbogadóttur til að tala eitt árið og svo Bill Holm rithöfund það næsta. Mikið voðalega var ég stolt af gerðum mínum þá. Oftast eru u.þ.b. 700 manns þarna en þegar Vigdís var þá komu rétt tæplega 1000 manns, mesta aðsókn sem nokkruntíma hefur verið. Þá var ég dugleg en núna er ég löt og ætla að gera sem minnst í dag.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Fyrsti vetrarvottur

Vetur kallinn er kominn í stutta heimsókn. Það verður líklega ekki fyrr en í desember sem hann kemur alkominn í vetrardvölina. Veðurspáin rættist að stórum hluta, það kom ekki eins mikill snjór og búist var við en það eru samt 5-7 sentímetrar á jörðinni núna. Það sem meira er.....það er 18 stiga frost nú í morgunsárið en hann hlýnar smám saman og verður víst yfir frostmarki á sunnudag. Þá verð ég í New York, fín dama, að njóta Stórborgar í jólaskrúða. Halli lenti í seinkunum á ferð sinni til New York í gær, vélin héðan frá Rochester seinkaði vegna veðurs og hann missti af tengifluginu í Chicago en hann er kominn heilu og höldnu.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Í dag á hann að snjóa, og það mikið. Það er að koma kolvitlaust veður með slyddu fyrst og svo þungri, blautri snjókomu á eftir. Það hlaut nú að koma að því að veturinn léti í sér heyra. Halli kom heim frá Dallas í gærkveldi og fer til New York á morgun svo hann ætti að ná ótrufluðu ferðalagi sitthvorumegin við hríðina. Ég fer til New York á föstudaginn. Mér finnst New York svo voðalega skemmtileg borg en ekki vildi ég búa þar. Mér finnst ég þurfa á allri minni orku að halda bara í þessa fáu daga sem ég er þar að öllu jöfnu rétt til þess að lifa af daginn. Það er eins og öll orka sé soguð úr mér og ég er eins og gömul tuska þegar að kvöldi er komið. Orkan er svo mikil á Manhattan að mér finnst eins og borgin hristist og skjálfi af krafti. Ég veit ekki alveg af hverju mér finnst þetta því ekki er fólk á hlaupum eða gargandi og öskrandi eins og í Kringlunni, en allir eru samt greinilega að fara eitthvert eða eru með ákveðin erindi og eru mjög ákveðnir í fasi. Það eru afar fáir að rölta um og njóta lífsins á Manhattan, allavega neðri hlutanum. Það er skárra í Central Park en þar eru samt allir að gera eitthvað ákveðið; hlaupa, hjóla, labba með hundinn, línuskauta, dansa.....

mánudagur, nóvember 14, 2005

Helgin

Mikið hvað helgar geta verið notalegar. Laugardagurinn fór í bakstur og stúss með Karólínu, það er orðið svo sjaldgæft að við mæðgurnar eyðum tíma saman utan heimilis. Þá sjaldan sem hún á lausa stund þá vill hún bara vera heima og "kose sig". Við mæðgurnar fórum að versla, en bara smá, íþróttaföt og svoleiðis því nú byrjar körfuboltatímabilið í dag. Hún er búin að fá það staðfest að nú byrjar hún í Duke háskóla í haust. Hann er í Durham í Norður-Karólínu fylki, og henni sem var svo illa við Suður og Norður-Karólínu þegar hún var lítil! Þetta kom náttúrulega aðallega fyrir þegar nafnið hennar var borið fram á amerísku, og þá bætti hún oftast við.."north or south?" Halli var á vakt og kom ekki heim fyrr en seint. Svo var brjálað þrumuveður um kvöldið en við vorum í mat hjá vinum okkar í góðu yfirlæti og nutum þess að vera í rólegheitum. Sunnudagurinn fór nú öðruvísi en ætlað var. Halli var að fara á fund í Dallas en leit vitlaust á brottfarartímann og missti af vélinni. Þá var bara að bruna uppí Minnepolis og ná vél þaðan til Dallas. Það tókst en ég keyrði þessa þrjá tíma í einum rykk og bakinu mínu fannst það ekki mjög spennandi og var með mótmæli það sem eftir var dags. Svo eyddi ég restinni af deginum í vitleysu; skúra, gera við, lesa, prjóna, horfa á sjónvarp...oftast allt í einu.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Vinnan

Þessa dagana er ég að vinna að úttekt á skurðdeildinni. Ég er búin að taka 45 viðtöl við lækna innan og utan deildar til að fá m.a. álit þeirra á stöðu deildarinnar og hvað þarf að gera í framtíðinni til að hún verði áfram ein af bestu skurðdeildum í heimi. Þetta hefur verið alveg óskaplega skemmtilegt og ég átt viðtöl við fádæma vel upplýst, vel talandi, vel hugsandi, og opinskátt fólk. Það sem mér finnst nú eiginlega merkilegast við þessa úttekt er að yfirlæknirinn skildi yfir höfuð þora að gera þetta, það þarf sterk bein til að hlusta á niðurstöður úr svona úttekt. Enginn hefur skammað deildina eða verið á nokkurnhátt ómálefnalegur heldur hafa allar athugasemdir og tillögur verið mjög uppbyggilegar og byggðar á rökum eða heimildum. það er svo gefandi að tala við fólk sem kann að gagnrýna án þess að rakka aðra niður og sem kann að ræða um hlutina frá öllum sjónarhornum. Ég kynni niðurstöðurnar eftir viku!

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

haust

Það er komið haust hérna hjá okkur, reyndar hefur haustið verið fádæma hlýtt og gott, en núna í morgunsárið er 5 stiga frost, héla, heiðskírt, og sólin að koma upp. Þetta er fallegur morgun á minn mælikvarða. Mínir uppháldsmorgnar eru sunnudagsmorgnar þegar snjór er yfir öllu, við Halli ein í eldhúsinu að lesa New York Times yfir kaffibolla og ristuðu brauði og dádýr á vappi fyrir utan. Ég held að þetta sé þriðja frostnóttin þetta haustið. Þegar ég var að kenna á skíðum þá opnuðum við alltaf daginn eftir Thanksgiving og á morgun eru tvær vikur í það. Það má mikið breytast í veðráttunni til að það takist. Ég er farin að hlakka til Thanksgiving, það er svo góð hátíð...engar gjafir bara góður matur, fullt af fólki og svo Trivial á eftir. Kristín kemur reyndar ekki heim og það verður því stórt gat hér á bæ, en hún var hjá okkur í síðustu viku þegar hún var í haustfríinu. Hún vildi frekar koma heim þá en á Thanksgiving.