miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Mikið skemmti ég mér vel í New York. Ég var reyndar útkeyrð og gengin uppað hnjám eftir u.þ.b. 25 klukkutíma á gangi um helgina á gangstéttum Manhattan innanum ótrúlega mannmergð, en gaman var það. Ég gerði reyndar þá megin vitleysu að ætla mér að ganga frá Madison Square Garden á hótelið, 23 blokkir (þessi sér ameríska mælieining), gegnum Times Square, á föstudagseftirmiðdegi, rétt fyrir Thanksgiving. Ekki bara að ganga heldur með ferðatöskuna mína í eftirdragi! Ég fékk mörg augnatillit og nokkrar athugasemdir og eina rimmu af skömmum. Ég velti fyrir mér að svara á ilhýra móðurmálinu mínu en hætti við og hélt áfram mína leið.

Í gærmorgun var haldin árleg hátíð okkar sem erum af norrænum uppruna í Minneapolis. Þetta heitir Nordic American Thanksgiving Breakfast og er haldinn klukkan 7 á þriðjudagsmorgninum fyrir Thanksgiving. Ég var fulltrúi Íslands, fánaberi og upplesari úr Biblíunni. Uppbúin á upphlutinum mínum. Þegar við áttum heima í Borginni þá var ég í stjórn þessarar ágætu samkomu og mér tókst að koma Íslandi að svo sýnilegt væri: ég fékk Vigdísi Finnbogadóttur til að tala eitt árið og svo Bill Holm rithöfund það næsta. Mikið voðalega var ég stolt af gerðum mínum þá. Oftast eru u.þ.b. 700 manns þarna en þegar Vigdís var þá komu rétt tæplega 1000 manns, mesta aðsókn sem nokkruntíma hefur verið. Þá var ég dugleg en núna er ég löt og ætla að gera sem minnst í dag.

Engin ummæli: