laugardagur, desember 31, 2005

Litið til baka

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og eldrei það kemur til baka..... Mér hefur alltaf fundist þessi orð svo falleg og fádæma vel sagt af honum Valdemar Briem hvað gerist við tímann. Ég hef áttað mig á því betur og betur hversu dýrmætur tíminn er. Ég get keypt allt milli himins og jarðar nema tíma, það er engin heimasíða til sem selur tíma. Þetta hefur orðið til þess að ég reyni að fara vel með hann og passa uppá hvað ég geri við hann. Þetta á þá sérstakleg vel við um tíma Halla og barnanna, það er ekki svo oft sem við erum með börnunum og það þarf að nota þann tíma vel og Halli vinnur mikið og þess vegna er það enn meira áríðandi að nota vel þann litla tíma sem gefst. Ekki það að það kalli á gerðir og athafnir, það þarf ekki alltaf að vera að gera eitthvað, heldur þarf að passa uppá að tala saman, njóta þagnarinnar saman, hafa hlýju á milli okkar, samkennd, vináttu og notalegheit. Okkur líður vel saman og finnst gott að hnoðast og veltast hvert innan um annað í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. SKíðaferðir hafa verið hvað bestar að okkur finnst. Þá erum við öll nokkurnveginn saman allan daginn og komum heim dauðþreytt og ekki uppá marga fiska og því eru það oftast leikir, bíómyndir eða snjónvarp sem við dundum okkur við áður en lagt er í hann aftur næsta morgun. Ferðalög okkar um Bandaríkin þver og endilöng með börnunum hafa skilið eftir margar yndislegar minningar og jafnvel þótt við höfum eytt ótrúlega mörgum klukkutímum í akstur þá eru stundirnar innan ramma bílsins mikilvægar í þeim skilningi að það er ekkert hægt að gera annað en að vera saman, på godt og på vondt.

föstudagur, desember 30, 2005

Tíðindalítið á vesturvígsöðvunum

Þá er körfuboltamóti Karólínu lokið og gekk það afar vel. Hún spilaði besta körfubolta sem ég hef séð hana spila og stjórnaði sínum konum með harðri hendi. Hún er mikill stjórnandi í sér....ekkert skil ég hvaðan barnið hefur það. Ég hef því séð marga leiki á síðustu þrem dögum, þrjá hjá henni og nokkra aðra á meðan verið er að bíða og svo úrslitaleikurinn í gær, tímabilið byrjar svo aftur næsta föstudag svo nú er viku frí hjá okkur en fjögurra daga frí hjá henni og er það mesta frí sem hún hefur fengið frá æfingum í marga mánuði. Skólinn byrjar aftur á þriðjudaginn hjá henni og þá byrjar lokaspretturinn í high school. Halli hjólaði í vinnuna í morgun eftir snjókomu næturinnar á nagladekkjum, í vetrarhjólafötum, með lambhúshettu og þykka vettlinga. Hann er nefnilega í fríi í dag og þá fer maður í vinnuna, bara aðeins seinna en venjulega og kemur heim aðeins fyrr en venjulega. Ég er með ógnar strengi í öllum skrokknum í dag eftir átök hjá einkaþjálfaranum á miðvikudaginn. Hún bætti allra handa erfiðum æfingum við prógrammið og nú loga lærin, ég get hvorki hóstað né hlegið, og þaðan af síður lyft handleggjunum yfir höfuð. Á eftir fer ég í yogalates og þá næ ég vonandi að hita vöðvana upp og teygja og sveigja þannig að ég skakklappist ekki um eins og gamalmenni.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Þá hefst hversdagsleikinn á ný, svona fyrir það mesta allavega. Halli fór í vinnuna í morgun, ekki það að hann hafi ekki unnið þessa síðustu daga, hann sat bara við skrifborðið hérna heima í staðinn fyrir í vinnunni. Karólína hefur körfuboltamót næstu dagana, Kristín sefur borðar æfir, talar við vinina, sefur borðar æfir, talar við vinina, sefur borðar æfir. Bjarni og Nicole eru að leita að íbúð og vinnu í Twin Cities, og hún ég held svona utanum þetta allt saman á meðan ég undirbý nýtt verkefni á Mayo. Ég á að halda námskeið í janúar í viðtalstækni, bæði einstaklings og hóp viðtöl. Kennt hef ég ekki í mörg ár svo það verður dágóður undirbúningur fyrir þessa lotuna. Hún verður samt búin fyrir Hawaii ferð!!!!!!!! Þar ætla ég að spila golf, fara í göngutúra á ströndinni, halda mér í formi, og njóta pólínesíunnar í hvarvetna...ananas og allt!

mánudagur, desember 26, 2005

Annar dagur jóla. Hann er nú reyndar ekki til hér í landi. Jólin eru bara einn dagur, og svo allt búið. Mér hefur alltaf fundist dagarnir milli jóla og nýárs, tími sem Normenn kalla svo fallega "romjul", svo notalegir dagar. Allt umstangið búið, engin plön, bara fullt af tíma sem hægt er að nota í allt mögulegt. Góðar bækur bíða, handavinna í körfu, skíðabrekkur, göngutúrar og heilsuræktarstöð nútímans. Þangað fer ég á eftir til að berjast við að nota orkuna sem kom í formi matar síðustu dagana, orka sem annars safnast upp, ónotuð, á stöðum sem ég vil ekki hafa hana.

laugardagur, desember 24, 2005

Aðfangadagsmorgun. Við Halli ein í eldhúsinu og húsið hljótt, allir aðrir sofandi. Kyrrt úti líka, enga mannveru að sjá. Nokkur dádýr á vappi. Hangikjötsilmur eftir suðu gærdagsins. Tréð skreytt, pakkarnir undir. Logar í arni og dagurinn bíður.

Nå har vi vaska gulvet og vi har båret ved,
og vi har sat opp fuglebånd, og vi har pyntet tre,
nå set vi oss å hvile og puste på ein stund....

Gleðileg jól.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Vetrarsolstöður

Þá er veturinn opinberlega genginn í garð. Hér skiptast nefnilega árstíðirnar í fjóra jafna hluta og miðast byrjun hvers og eins við vetrarsólstöður, jafndægur á vori, sumarsólstöður og jafndægur á hausti. Það skemmtilega er að veðrið fylgir þessu ótrúlega vel, þetta er sumsé ekki tilviljanakennt hér eins og á Íslandi. Alvöru vetur byrjar oftast ekki fyrr en líða tekur á desember, vorið lætur sjá sig fyrir alvöru í lok mars, hitabylgjur sumars byrja oftast um miðjan júní og haustið mjakast yfir í september. Veturinn hefur byrjað eins og alvöru vetur, snjóað minnst einu sinni í viku svo það er alltaf allt hreint, hvítt og fallegt, kuldaboli hefur heimsótt nokkrum sinnum, en nú er þetta sumsé að byrja fyrir alvöru. Annars byrjar veturinn sakleysislega, það er ekki nema tveggja stiga frost, en hann fer að snjóa bráðum og kuldinn kemur aftur, það er eitt af þessu sem við vitum með vissu. Tölfræðilega séð er kaldasta vika ársins þriðja vikan í janúar, þá verð ég á Hawaii og ekki í ull, flís, dún, með húfu, vettlinga, trefil, sokkabuxur, hlaupandi frá bíl í hús og hús í bíl, heldur útivið að njóta lífsins.

Getur annars einhver upplýst mig hvað Baltasar Kormákur var að segja í Mogganum í dag um engan snjó í Minnesota? Ég sá fyrirsögnina á mbl.is og varð litið útum gluggann og sá snjó eins langt og augað eygði!

þriðjudagur, desember 20, 2005

Veðrið i Minnesota

Það er að hlýna. Það er bara 15 stiga frost núna og á laugardaginn verður hann rétt undir frostmarki og kanski snjókoma, ekta aðfangadagur. Í fyrradag var 28 stiga frost og annað eins í gær en núna er þetta bara skaplegt. Fjölskyldumeðlimum finnst þetta fremur kalt, og þá sérstaklega þessari sem býr að öllu jöfnu rétt við New York. Henni sem aldrei var kalt hér áður og fyrr, finnst Minnesota í kaldara lagi. Mér finnst þetta tilheyra þessum árstíma hér á sléttunni, ef hann er hlýr, grár, og vindasamur þá er eitthvað að.

mánudagur, desember 19, 2005

Ég birti síðasta pistil óvart áður en ég var búin svo hér er framhaldið.
Við fórum líka í annað yndislegt boð hjá heiðurskonunni í Bólstaðarhlíðinni. Þar komu saman margir af gömlu vinunum úr MA. Eins og venjulega þá var þilskipaútgerðarskrásetjarinn í skipulagshugleiðingum. Hann og ektamaki minn eru farnir að skipuleggja ferðalög allt til 2008...og er þá ekki verið að tala um fundaferðir heldur svona venjuleg ferðalög útum heim. Mér var fengið það hlutverk að skipuleggja og halda utanum skíðaferð til Norefjell í febrúar 2007, Halli og Ingó eru að skipuleggja akstursferð suður Klettafjöllin einhverntíma sumars 2008, Stjáni og Halli ætla að mótórhjólast en hvorki ég né Guðlaug. Ingó ætlar svo að ríða með okkur norður Sprengisand í sumar, við Guðríður ætlum að koma með, ég ekki eins áköf og hinir. Svo var verið að tala um Nepal, Galapagos eyjar, Perú og guð má vita hvað annað. Guðríður og Anna Elín voru nú með plön minni í sniðum...kaffi á einhverju af kaffihúsum bæjarins einu sinni í mánuði eða svo. Nóg var af hugmyndunum því nú eru börnin að vaxa úr grasi og við komin með rýmri tíma en síðastliðin tuttugu ár eða svo.
Svo voru litlu jólin (fleirtala, ákveðinn greinir) í Þórólfsgötunni og Hamragerðinu. Það voru sagðar margar sögur, mikið hlegið, margt rætt, mikið borðað af góðum mat og í alla staði voðalega skemmtileg samkvæmi.

Vinaminnishjonin

Morgunmaturinn í dag er betri en gengur og gerist hér á bæ; kaffi og ristað brauð með reyktum silungi, veiddum af höfðingjanum og húsbóndanum í Vinaminni. Himneskt! Hann laumaði að okkur mörgum fínum flökum af þessum líka silungi sem við eigum eftir að njóta næstu vikurnar, ekki það að okkur finnst nú að hann eigi að koma með þetta til Ameríku í farteskinu sjálfur, enda hafði hann boðað komu sína í haust en við urðum allavega ekki vör við að hann kæmi, kannski var hann svona lítill fyrirferðar eða við orðin svona gleymin og eftirtektarlaus að við munum ekki eftir komu hans hingað. Hvernig sem svo silungurinn komst alla leið hingað til Rochester þá er hann með því betra fæði sem gerist. Þau heiðurshjónin buðu okkur í kaffi....þ.e.a.s. húsbóndinn bauð og boðaði konu sína á svæðið, enda urðum við þess heiðurs aðnjótandi að fljúga með honum norður yfir heiðar svo hann átti ekki annar kosta völ en að bjóða okkur í kaffi. Merkilegt þetta með vinskapinn, það er alveg sama hversu langt líður á milli spjalls yfir kaffibolla, þráðurinn er alltaf tekinn upp aftur þar sem frá var horfið.

laugardagur, desember 17, 2005

Það fer ekkert á milli mála að nú er ég komin heim til mín aftur. Hér er 19 stiga frost í morgunsárið, snjór og heiðskírt og farið að birta nú klukkan hálf sjö. Íslandið var yndislegt eins og venjulega. Ekki svo mikið blessað veðrið heldur mannfólkið. Við göngum alltaf í barndóm, allavega að unglingsárunum, þegar við hittum hverja yndislegu vinina á eftir öðrum, sjáum fjölkyldurnar nánast allar, borðum of mikið, tölum frá okkur allt vit og sofum fram að birtingu....sem er náttúrulega einhverntíma undir hádegi á þessum árstíma. Við fórum ekki á Klöppina okkar í þessari ferðinni. Nýju prestshjónin í Akureyrarkirkju búa þar núna á meðan þau bíða eftir eigin húsnæði. Það að hafa vígðan mann í húsinu verður vonandi til þess að Vaðlaheiðagöngin verða boruð langt sunnan við húsið og verða hin mesta blessun þegar allt er um garð gengið.

föstudagur, desember 09, 2005

Síðustu tvo dagana hef ég farið all verulega í taugarnar á sjálfri mér. Ég hef ekki gefið mér tíma og orku til að borða rétt og vel og í hvert skipti sem ég set eitthvað ofaní í mig sem ég veit að á ekki að fara þangað þá verð ég öskureið við gerandann. Ég hef verið á fleygiferð útum allar koppagrundir að klára jólainnkaup fyrir Íslandsferð og gef mér alls ekki tíma til að taka með mér mat eða snakk (eins og það sé nú tímafrekt, þetta er bara merki um leti og ómynd) eða finna staði sem selja almennilega fæðu. Þetta er náttúrulega alveg fáránlegt því ég veit að eins og mitt líf er nú þá er þetta mynstur ekki undantekning heldur reglan. Við ferðumst mikið og ég er eins og útspýtt hundskinn að ýmist að undirbúa ferðir eða að ganga frá eftir ferðir eða njóta þess að hafa gesti eða fara til vina og annað þar fram eftir götunum. Ég verð að finna út hvernig nýi lífsstíllinn minn virkar utan heimilisins míns. Þetta er allavega ekki að virka núna.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Það hefur verið fimbulkuldi hér síðustu dagana, allt niður í 27 stiga frost. Í dag er bara hlýtt, 10 stiga frost og snjókoma. Fallegt úti, jólalegt, og ljúft. Við höfum haft húsið fullt af góðum gestum frá litlu eyjunni sunnan meginlands Íslands. Fullt hús er nú all kröftulega í árinni tekið því plássfrek eru þau nú ekki. Þau fara heim í dag og við Halli svo á laugardaginn og ég búin að kaupa allar jólagjafir fyrir Íslandið!!!!!!!!!! Fyrst þarf ég víst að stjórna jólabarnaballinu hjá Íslendingafélaginu á laugardaginn og svo er það beint í flugvélina Heim.

fimmtudagur, desember 01, 2005

30

Fyrsti des 1975. Í dag eru þrjátíu ár. Oftast yndisleg, skemmtileg, óútreiknanleg, spennandi. Stundum kvíðafull, erfið, döpur. Alltaf full af lífi, orku. Alltaf eitthvað um að vera. Aldrei lognmolla. Við bæði með ómælda orku, framkvæmdagleði og skap. Því eru oft árekstrar, en þeir orðið mildari með árunum, hornin að slípast af okkur báðum. Eftir eitt ár verðum við orðin ein í koti. Börnin flogin á vit ævintýra og þeirra eigin lífs, og við að byrja okkar, okkar tveggja, uppá nýtt, en aldrei barnlaus samt, sem betur fer.

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Heilsuatak

Ég er í miklu heilsuátaki þessa dagana. Ég fer til næringarfræðings einu sinni í viku og svo einkaþjálfara einu sinni í viku. Svo fór ég í metabolic testing og nú er ég að þjálfa líkamann eftir hjartslætti og allt er þetta mjög vísindalegt því nú veit ég meira um líkamann minn, möguleika hans og takmörk, en ég hef nokkruntíma áður vitað, og kannski meira en ég endilega vil. Ég fór nefnilega í fitumælingu (klípupróf) og allt það sem tilheyrir....það var ekki skemmtilegt. Ég fer líka í jóga og pilates, og stundum yogalates, og eru það bestur tímar vikunnar en ég þarf að koma hjartanu á hreyfingu og ná upp þoli og þreki. Ég keypti mér hjartsláttar mónitor og allt er þetta hið besta mál því nú velti ég all verulega fyrir mér hvað ég læt ofaní mig, ekki bara kaloríuunum heldur líka samsetningunni og innihaldinu. Mér finnst nefnilega matur voðalega góður en ég þarf að hætta að nota mat sem sálræna hækju og hætta alveg að kaupa hormónakjöt og gegnum sprautað grænmeti og í staðinn leita uppi almennilega fæðu sem ekki er búið að blanda með allskonar óþverra. Það er alveg hægt hér í landi hormóna, ég þarf bara að hafa aðeins fyrir því og aga sjálfa mig þannig að ég leiti það uppi og viti hvert skal fara. Sem betur fer þá veit ég hvar ég fæ íslenskan fisk en kjötið er aðeins meira mál. Ég kem reyndar alltaf með lamb með mér að heiman en það er alltaf læri eða hryggur og það er í sjálfu sér alltí lagi en það er þetta með hversdagsfæðuna sem ég þarf að einbeita mér að. Svo er það þetta með brauðið. Lengi vel var rotvarnarefnbrauð það eina sem hægt var að kaupa svo ég hef bakað mikið af brauði í gegnum tíðina en nú er komið bakarí hér með alvöru brauði, mér til mikillar gleði og því þarf ég ekki að passa uppá birgðastöðu brauða.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Hann Halur Húfubólguson (www.valmart.blogspot.com) skrifar um rammíslenska matargerð og matarvenjur í dag. Ég tók mig til í morgun og steikti heilan helling af kleinum og varð hugsað til húsbóndans í Vinaminni. Djúpsteikt deig getur náttúrulega ekki talist til hollustufæðis en það er þetta með magnið, eða það sem heitir á ensku "portion control". Það er nefnilega alls ekki nauðsynlegt að hafa kleinurnar af fjölskyldustærð og þaðan af síður þarf að borða tíu í einu. Hann Matti í kvæðinu hans Stefáns Jónssonar fékk til dæmis bara eina kleinu að launum fyrir að svæfa systur Bínu.

Hitastig jarðar

Þegar ég kom niður í morgun var gamla góða gufan á og Ævar Kjartansson að ræða við einhvern sem ég ekki þekki um hitastigs- og loftslagsbreytingar jarðar. Við erum öll meira og minna sek, sumir meira en aðrir þó og þá sérstaklega margir sem búa í þessu landi sem ég bý í. Bílaframleiðendur amerískir eiga í óendanlegum vandræðum með að þróa og framleiða bíla og vélar sem nýta orkuna vel og finna orku sem mengar ekki, eða allavega lítið. "My truck" er bara hluti af persónuleika margra og þeim hinum sömu finnst þeir hafa fæðingarétt á því að keyra aleinir um á bílum sem eyða 40-60 lítrum á 100km. Svo eru náttúrulega almenningssamgöngur af afar skornum skammti hér í miðvestrinu. Ég kemst engra erinda nema á bíl, það er a.m.k 45 mínútna gangur í næstu matarbúð, og annað eins í vinnuna. Halli er reyndar með allra bestu mönnum í að nota eigin afl sem allra mest. Hann hjólar eða hleypur í vinnuna alla daga og þá sjáldan hann notar hjólið þá eru það eingöngu tvö í einu í formi reiðhjóls, vespu eða mótorhjóls en ég er ekki eins öflug og gerist sek um að keyra hvert sem ég fer.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Jolaverslun

Ég tel mig nú vera all þokkalega hagkvæma í innkaupum og vel skipulagða manneskju. Ég leita uppi tilboð (ég bjó nú ekki í Norge í þrjú ár fyrir ekki neitt!), fer í outlet, og þar fram eftir götunum. Ég er greinilega alveg vonlaus samt. Í dag er mesti verslunardagur ársins hér í landi og búðir opnuðu sumar hverjar klukkan 4 í morgun, fólk stóð í röð við Best Buy í alla nótt til að ná í dót og drasl á góðu verði! Það eru nefnilega tilboð allsstaðar og margir búnir að liggja yfir bæklingum og auglýsingum um tilboð hér og tilboð þar og tilboð allsstaðar. Það er ekki mín deild að standa í röð til að komast inní búð, hvað þá yfir nótt í 12 stiga frosti, vindi og snjókomu. Ég versla helst þegar ég þarf á einhverju að halda, byrja í tilboðsverslununum, og færi mig svo yfir í hinar ef ekki vill betur, helst á eins litlum tíma og hægt er. Dætur mínar segja að ég sé voðalega leiðinleg að versla með því ég hef svo lítið úthald í verslunum og vilji helst hætta áður en allt sé fullreynt. Þvílíkur galli á einni manneskju!

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Thanksgiving

Það er snemma að morgni Thanksgiving, sólin að koma upp og henni tekst eflaust að ýta einhverju af kuldanum til hliðar, allavega yfir daginn. Það er hvasst á okkar mælikvarða, hvín í trjánum og þau fáu lauf sem ekki er búið að hreinsa eru á fleygiferð um hverfið. Auð jörð, en snjór á leiðinni eftir helgi. Við verðum hjá vinum okkar og nágrönnum í mat. Þar verða um 25 manns svo nóg verður lífið og fjörið enda helmingurinn börn og unglingar sem allir þekkjast vel. Bjarni ætlar að elda megnið af veislumatnum, kalkún og 9 rétti af meðlæti. Ég reikna með að hann fari að koma á fætur, óguðlegur tími á hans mælikvarða, til að byrja á herlegheitunum. Þetta er víst ekki mikið mál í hans bókum, en gott verður það þegar kalkúna og stöffing lyktin fer að fylla húsið, ásamt lykt af nýbökuðu brauði, kartöflum, gulrótum, sætum kartöflum, maís, eplapæ, og svo allskonar meðlæti sem ég hef aldrei heyrt á minnst.

Góður dagur framundan.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Mikið skemmti ég mér vel í New York. Ég var reyndar útkeyrð og gengin uppað hnjám eftir u.þ.b. 25 klukkutíma á gangi um helgina á gangstéttum Manhattan innanum ótrúlega mannmergð, en gaman var það. Ég gerði reyndar þá megin vitleysu að ætla mér að ganga frá Madison Square Garden á hótelið, 23 blokkir (þessi sér ameríska mælieining), gegnum Times Square, á föstudagseftirmiðdegi, rétt fyrir Thanksgiving. Ekki bara að ganga heldur með ferðatöskuna mína í eftirdragi! Ég fékk mörg augnatillit og nokkrar athugasemdir og eina rimmu af skömmum. Ég velti fyrir mér að svara á ilhýra móðurmálinu mínu en hætti við og hélt áfram mína leið.

Í gærmorgun var haldin árleg hátíð okkar sem erum af norrænum uppruna í Minneapolis. Þetta heitir Nordic American Thanksgiving Breakfast og er haldinn klukkan 7 á þriðjudagsmorgninum fyrir Thanksgiving. Ég var fulltrúi Íslands, fánaberi og upplesari úr Biblíunni. Uppbúin á upphlutinum mínum. Þegar við áttum heima í Borginni þá var ég í stjórn þessarar ágætu samkomu og mér tókst að koma Íslandi að svo sýnilegt væri: ég fékk Vigdísi Finnbogadóttur til að tala eitt árið og svo Bill Holm rithöfund það næsta. Mikið voðalega var ég stolt af gerðum mínum þá. Oftast eru u.þ.b. 700 manns þarna en þegar Vigdís var þá komu rétt tæplega 1000 manns, mesta aðsókn sem nokkruntíma hefur verið. Þá var ég dugleg en núna er ég löt og ætla að gera sem minnst í dag.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Fyrsti vetrarvottur

Vetur kallinn er kominn í stutta heimsókn. Það verður líklega ekki fyrr en í desember sem hann kemur alkominn í vetrardvölina. Veðurspáin rættist að stórum hluta, það kom ekki eins mikill snjór og búist var við en það eru samt 5-7 sentímetrar á jörðinni núna. Það sem meira er.....það er 18 stiga frost nú í morgunsárið en hann hlýnar smám saman og verður víst yfir frostmarki á sunnudag. Þá verð ég í New York, fín dama, að njóta Stórborgar í jólaskrúða. Halli lenti í seinkunum á ferð sinni til New York í gær, vélin héðan frá Rochester seinkaði vegna veðurs og hann missti af tengifluginu í Chicago en hann er kominn heilu og höldnu.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Í dag á hann að snjóa, og það mikið. Það er að koma kolvitlaust veður með slyddu fyrst og svo þungri, blautri snjókomu á eftir. Það hlaut nú að koma að því að veturinn léti í sér heyra. Halli kom heim frá Dallas í gærkveldi og fer til New York á morgun svo hann ætti að ná ótrufluðu ferðalagi sitthvorumegin við hríðina. Ég fer til New York á föstudaginn. Mér finnst New York svo voðalega skemmtileg borg en ekki vildi ég búa þar. Mér finnst ég þurfa á allri minni orku að halda bara í þessa fáu daga sem ég er þar að öllu jöfnu rétt til þess að lifa af daginn. Það er eins og öll orka sé soguð úr mér og ég er eins og gömul tuska þegar að kvöldi er komið. Orkan er svo mikil á Manhattan að mér finnst eins og borgin hristist og skjálfi af krafti. Ég veit ekki alveg af hverju mér finnst þetta því ekki er fólk á hlaupum eða gargandi og öskrandi eins og í Kringlunni, en allir eru samt greinilega að fara eitthvert eða eru með ákveðin erindi og eru mjög ákveðnir í fasi. Það eru afar fáir að rölta um og njóta lífsins á Manhattan, allavega neðri hlutanum. Það er skárra í Central Park en þar eru samt allir að gera eitthvað ákveðið; hlaupa, hjóla, labba með hundinn, línuskauta, dansa.....

mánudagur, nóvember 14, 2005

Helgin

Mikið hvað helgar geta verið notalegar. Laugardagurinn fór í bakstur og stúss með Karólínu, það er orðið svo sjaldgæft að við mæðgurnar eyðum tíma saman utan heimilis. Þá sjaldan sem hún á lausa stund þá vill hún bara vera heima og "kose sig". Við mæðgurnar fórum að versla, en bara smá, íþróttaföt og svoleiðis því nú byrjar körfuboltatímabilið í dag. Hún er búin að fá það staðfest að nú byrjar hún í Duke háskóla í haust. Hann er í Durham í Norður-Karólínu fylki, og henni sem var svo illa við Suður og Norður-Karólínu þegar hún var lítil! Þetta kom náttúrulega aðallega fyrir þegar nafnið hennar var borið fram á amerísku, og þá bætti hún oftast við.."north or south?" Halli var á vakt og kom ekki heim fyrr en seint. Svo var brjálað þrumuveður um kvöldið en við vorum í mat hjá vinum okkar í góðu yfirlæti og nutum þess að vera í rólegheitum. Sunnudagurinn fór nú öðruvísi en ætlað var. Halli var að fara á fund í Dallas en leit vitlaust á brottfarartímann og missti af vélinni. Þá var bara að bruna uppí Minnepolis og ná vél þaðan til Dallas. Það tókst en ég keyrði þessa þrjá tíma í einum rykk og bakinu mínu fannst það ekki mjög spennandi og var með mótmæli það sem eftir var dags. Svo eyddi ég restinni af deginum í vitleysu; skúra, gera við, lesa, prjóna, horfa á sjónvarp...oftast allt í einu.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Vinnan

Þessa dagana er ég að vinna að úttekt á skurðdeildinni. Ég er búin að taka 45 viðtöl við lækna innan og utan deildar til að fá m.a. álit þeirra á stöðu deildarinnar og hvað þarf að gera í framtíðinni til að hún verði áfram ein af bestu skurðdeildum í heimi. Þetta hefur verið alveg óskaplega skemmtilegt og ég átt viðtöl við fádæma vel upplýst, vel talandi, vel hugsandi, og opinskátt fólk. Það sem mér finnst nú eiginlega merkilegast við þessa úttekt er að yfirlæknirinn skildi yfir höfuð þora að gera þetta, það þarf sterk bein til að hlusta á niðurstöður úr svona úttekt. Enginn hefur skammað deildina eða verið á nokkurnhátt ómálefnalegur heldur hafa allar athugasemdir og tillögur verið mjög uppbyggilegar og byggðar á rökum eða heimildum. það er svo gefandi að tala við fólk sem kann að gagnrýna án þess að rakka aðra niður og sem kann að ræða um hlutina frá öllum sjónarhornum. Ég kynni niðurstöðurnar eftir viku!

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

haust

Það er komið haust hérna hjá okkur, reyndar hefur haustið verið fádæma hlýtt og gott, en núna í morgunsárið er 5 stiga frost, héla, heiðskírt, og sólin að koma upp. Þetta er fallegur morgun á minn mælikvarða. Mínir uppháldsmorgnar eru sunnudagsmorgnar þegar snjór er yfir öllu, við Halli ein í eldhúsinu að lesa New York Times yfir kaffibolla og ristuðu brauði og dádýr á vappi fyrir utan. Ég held að þetta sé þriðja frostnóttin þetta haustið. Þegar ég var að kenna á skíðum þá opnuðum við alltaf daginn eftir Thanksgiving og á morgun eru tvær vikur í það. Það má mikið breytast í veðráttunni til að það takist. Ég er farin að hlakka til Thanksgiving, það er svo góð hátíð...engar gjafir bara góður matur, fullt af fólki og svo Trivial á eftir. Kristín kemur reyndar ekki heim og það verður því stórt gat hér á bæ, en hún var hjá okkur í síðustu viku þegar hún var í haustfríinu. Hún vildi frekar koma heim þá en á Thanksgiving.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Af hverju þarf fólk að slá lóðina sína undir miðnætti? Ég var að hafa mig til fyrir svefninn í gærkveldi um ellefu leytið þegar nágranninn byrjaði að slá. Ég var ekki alveg viss um í hvaða húsi þetta væri þangað til hann kom á okkar hlið og þá fór ekkert á milli mála hver var að slá, þetta hljómaði svo ágætlega rétt við eyrun á mér. Sem betur fer er grasbleðillinn ekki stór hjá þeim en þetta tók góðar 45 mínútur. Ég var að velta fyrir mér að skrifa í Moggann, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist, og vera "húsmóðir í vesturbænum" en nú hef ég róast og er ekki reið lengur. En mikið dómadags sem þetta getur verið pirrandi.

Nú er besta vinkona Karólínu komin í heimsókn og verður hjá okkur í rúma viku. Halli kemur svo í fyrramálið og þá verður aftur hamagangur á Hóli. Ég hlakka mikið til morgundagsins, ekki bara af því að þá kemur Halli heldur líka því að þá förum við í brúðkaup í Skálholti en þangað hef ég aldrei komið. Það er spáð rjómablíðu svo þetta verður í alla staði skemmtilegt. Svo á að halda norður á bóginn aftur.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Klukkan er rúmlega sex að morgni, sólin skín hér innum um austurgluggana, sjórinn við Ægissíðuna er spegilsléttur, kuldaþokan er að gefa sig og morgunfegurðin í algleymingi. Fuglarnir syngja sinn morgunsöng því hinir alræmdu vesturbæjarkettir eru eflaust sofandi ennþá, mannfólkið er ekki komið á stjá, nema svona örfáir morgunhanar eins og ég, og kyrrðin er alger. Í gær spilaði ég aftur golf á Hvaleyrinni í undursamlegu veðri. Fyrri níu sem eru í hrauninu voru yndislegar, kyrrt, sól og Snæfellsjökullinn í seilingarfjarlægð. Svo ákvað vindurinn að gefa í og það var orðið svo hvasst um miðjar seinni níu að ég var hætt að heyra í eigin hugsunum, sem er alveg agætt, þær eru ekki alltaf að segja mér neitt merkilegt, allra síst á golfvelli það sem mér hættir til að greina allt í smátriðum í staðinn fyrir að bara "gera" hlutina. Kristín kemur í dag úr Evrópudvölinni, verður hjá okkur fram á þriðjudag þegar hún heldur "heim" á leið. Við mæðgur ætlum að eyða Verslunarmannahelginni (þetta er langt orð!) á Lönguklöpp og leggjum væntanlega af stað seint annað kvöld þegar umferðin fer að róast. Þetta hljómar eins og mjög svo venjulegt íslenskt sumarlíf!

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Hugleiðingar um ekki neitt, eða "kellingablogg"

Ég ætlaði að skrifa lítinn pistil um Heilbrigðisstéttina, þessa einu og sönnu, en svo fór ég að hugsa, það kemur nú stundum fyrir, og komst að því að ef ég segi eitthvað þá gæti ég komið í veg fyrir haldbærar niðurstöður á úttektinni minni svo ég segi bara ekki neitt og er að öðru leiti andlega uppgefin og hef því hvorki ímyndunarafl eða frumkvæði til að skrifa um eitthvað annað en það sem mér er efst í huga og langar að skrifa um enda það eina sem ég geri þessa dagana er að vinna í garðinum, sinna vinnunni og þreyta gamlan líkama í ræktinni þessari með íslenska nafnið WC sem einu sinni þýddi náðhús en þýðir nú eitthvað allt annað. Á morgun förum við mæðgur í ferðalag austur. Ætlum að keyra austur á Egilsstaði og fara suðurleiðina. Karólína fer til þess að keppa á Meistaramóti Íslands í frjálsum og ég er svona eins manns klapplið. Veðurútlitið er fádæma gott svo við fáum örugglega suður- og austurströndina í allri þeirri fegurð sem hægt er á þessum slóðum

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Sumar, sumar , sumar og s'ol.................

Gærdagurinn var einn af þessum dögum sem koma svo sjaldan og ég var svo heppin að ég var að spila golf á Hvaleyrinni í dýrðinni. Það var skafheiður himinn og fremur kyrrt. Við héldum að hann ætlaði að fara að rífa sig upp um tíma með roki en svo bara lægði og Hvaleyrin varð að sólríkum, kyrrum bletti í tilverunni með ölduhljóðum og sjófugli og Snæfellsjökulinn í seilingarfjarlægð. Það tindraði og glitraði á sjóinn í kyrrðinni, flutningaskip að sigla inní Hafnarfjarðarhöfn, bátar á stými inn og út og krakkar að leika sér í sjávarborðinu. Mikið voðalega er ég þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa kennt mér þessa ágætu íþrótt, hún hefur gefið mér tækifæri til að sjá staði sem ég hefði annars aldrei séð og svo á maður það til að tölta hring á golfvelli í veðri sem hefði annars verið betur fallið til inniveru en svo kem ég alltaf heim endurnærð án tillits til veðurs eða spilamennsku, þetta með höggin og spilamennskuna verður að aukatriði með árunum. Í dag lítur út fyrir annan eins dag og nú á að nota daginn til garðavinnu. Ég má til með að taka til í beðunum hérna fyrir framan hús og því ekki að nota svona fallegan dag, seinni partinn þarf ég svo að sinna vinnunni en ætlunin er að enda daginn í heilsuræktarstöðinni, ég sé nú samt til hvernig garðavinnan fer með bakið á mér.

mánudagur, júlí 18, 2005

Goður laugardagur

Honum Halla mínum er nú ekki fisjað saman. Hann hljóp Laugavegshlaupið á laugardaginn, alla 55 kílómetrana, kláraði, var ekkert voðalega sár á eftir, og eiginlega án þess að æfa sig neitt að ráði fyrir það. Hann var ekki að keppa við klukkuna, heldur tók all verulega eftir umhverfinu, man meira að segja eftir blómabreiðunum, og var mikið að velta fyrir sér heiti blómanna. Gat náttúrulega ekki fyrir sitt litla líf munað nöfnin á þeim sem er nú ekkert skrýtið hann man ekki hvað ég heiti nema endrum og sinnum, en gaf sér tíma til að njóta stundarinnar, eða stundanna.....allra átta, og var ótrúlega sprækur þegar hann kom í mark. Ég var svo heppin að góðir vinir sem eiga jeppa buðu mér með í all verulega skemmtilega ferð uppí Þórsmörk. Reyndar komumst við ekki yfir síðustu tvo farartálmana, til þess þarf alvöru jeppa á stórum blöðrum, en fádæma liðlegir menn hjá Austurleið komu og náðu í okkur á vörubíl og keyrðu okkur svo til baka á á pallbíl. Þetta var mikið ævintýri. Ég hef aldrei komið í Þórsmörk áður. Það var þungbúið, eiginlega rigning þegar við komum en það stytti upp smám saman, birti svo mikið til að í ljós komu litir í náttúrunni sem ég hef aldrei séð áður, landslag af fallegustu gerð með jöklana í baksýn, ár og læki, fossa og kletta og þessa fádæma, sérkennilegu og hrikalegu fegurð sem íslenskt landslag samanstendur af. Í hlaupinu tóku þátt fjölmargir vinir og urðu fagnaðarfundir með fólki sem við ekki höfum séð í áraraðir og jafnvel áratugi. Á eftir var svo boðið í einhverja gæsilegustu útilegu veislu sem ég hef séð, hún Theódóra er nú engum lík, hún kann að skipuleggja og undirbúa svona veislur, jafnvel þótt inní Þórsmörk sé. Dásamlegur dagur og við náttúrulega harðákveðin í að koma þarna sem fyrst aftur, en það er sá ljóður á ráði að við eigum engan jeppa, Golfinn kæmist ekki hálfa leið, svo við verðum væntanlega að skipleggja þetta með öðrum sem eiga jeppa eða kaupa eða leigja eða lána eða eitthvað svoleiðis.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Rok og rigning suður með sjo

Ég komst að því í gærkveldi að það er ekki bara ég sem finn til óánægju með veðráttuna hér sunnanlands. Ég hef nú svo sem ekki sagt mikið um grámann og suddann sem er hér alla daga, enda ekki alltaf með það á hreinu hvað eru ýkjur og hvað er satt og rétt í veðramálum enda hverjum finnst sinn fugl fagur og "beauty is in the eye of the beholder". Ég spilaði golf með vinum á Hvaleyrinni í gærkveldi í roki og sudda og það var fjandi kalt, ekki bara mér heldur hinum líka sem þó spila þarna oft í viku. Ég er orðin að aula sem ekki kann að spila í roki og rigningu því ef hann rignir heima hjá mér þá er að öllu jöfnu þrumuveður og golfvellir því lokaðir. Og ekki er ég góð í að spila golf dúðuð eins og feitur bangsi, ég þurfti að tína af mér spjarirnar til að geta hreyft mig og þá náttúrulega varð mér ennþá kaldara. Ég fékk svo lánaða húfu og það bætti ástandið til muna. Ef ég spila að einhverju gagni hér í sumar þá verð ég að byrgja mig upp af fatnaði til útiveru í roki og rigningu, og víst kunna þeir hjá 66 gráðum að búa þann fatnað til......ekki að ástæðulausu.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Vaðlaheiðin

Þá er hversdagslífið tekið við aftur eftir örstutta ferð norður. Það var gott að koma norður en skrýtið og eiginlega erfitt að koma á Lönguklöpp. Það er nefnilega mjög líklegt að við þurfum að flytja þaðan. Það á að bora gat í gegnum Vaðlaheiðina og á áætlun eru fjórir valkostir og sá fyrsti -og að því sagt er sá besti- liggur í gegnum húsið okkar. Við fengum fréttir af þessu í vor og höfum hugsað um fátt annað síðan og svo um helgina var komið að því að finna okkur nýjan stað. Við gengum og keyrðum um Heiðina og það er nokkuð ljóst að enginn staður verður eins fallegur og Langaklöppin. Við erum bæði á því að flytja okkur niður að sjó og fundum land sem okkur líkar vel við en við viljum bara ekki flytja, það er nú mergurinn málsins. Halli hitti framámenn í ganganefndinni og bauð í kaffi á Klöppina og lét þá vita að þessi blettur---og nákvæmlega þessi-- væri okkur afar kær og við viljum svo gjarnan að þeir finni annan stað fyrir veg og göng. Þeir átta sig á þessu en það skiptir þá í sjálfu sér litlu máli hvað við viljum og hvað okkur hentar eða hentar ekki, þetta er stærra mál en svo að lítill bústaður í Heiðinni ráði staðsetningu vegar og gangna.

Meða annarra orða, hvernig beygist orðið göng? Ég hélt að í eignarfalli væri það gangna en í Mogga og öðrum blöðum er eignarfallið ganga (sbr. gangagerð). Upplýsið þið mig (takið þetta til ykkar Lapsus, Ærir og fl).

fimmtudagur, júlí 07, 2005

útsýnið af Esjunni


útsýnið af Esjunni, originally uploaded by Kata hugsar.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Reykjavik

Við fengum hóp góðra vina í heimsókn í fyrrakvöld. Ég hafði nú ætlað mér að elda eitthvað frambærilegt en eldavélin okkar hérna á Kvisthaganum bilaði og við fengum ekki viðgerð fyrr en í gær. Það var því gripið til gömlu góðu pizzunnar og var þeim öllum gerð góð skil þótt ég skammaðist mín nú dulítið fyrir það sem á borðum var. Mér líkar ekki að bjóða til matar og geta svo ekki séð um þetta sjálf. Rétt um það bil sem hópurinn var að kveðja var ákveðið að þeir sem áttu heimangengt daginn eftir myndu príla Esjuna. Við Halli höfum aldrei gengið á Reykjavíkurfjallið áður og var það eitt af markmiðum sumarsins að komast upp. Þegar á bílastæðin við Mógilsá kom var lágskýjað og ekkert voðalega spennandi að líta upp en við létum okkur hafa það og "röltum" af stað. Þegar ofar dróg fór hann að létta til og þegar tindinum var náð byrjaði hann að rífa all verulega af sér og svo fór að útsýnið var með því fegurra sem gerist með tindrandi og glitrandi blá sundin og eyjar og sker og húsþök borgarinnar uppljómuð í sumarsólinni. Þvílík fegurð. Kyrrðin alger, skoppandi tær lækurinn, hofsóleyjar, holtasóleyjar, lúpína, grjót, birki, ilmur eftir rigningu næturinnar, stelkur og spói, lóa og kjói og hópur góðra vina með Siríus súkkulaði og íslenskt vatn.

Þar sem tvívítt landslagið í Minnesota er lítt til þess fallið að æfa fjallgöngu þá var líkaminn gamli ekki í formi að takast á við mishæðir og fjallapríl og var niðurferðin erfið lærvöðvunum. Ég er með strengi í dag í vöðvum sem ekki hafa verið notaðir lengi en verða vonandi með jöfnu millibili í sumar. Það er á dagskránni að takast á við nokkra tinda hérna í nágrenninu.

föstudagur, júlí 01, 2005

Gamla goða islenskan

Þá hef ég verið í Reykjavíkinni í þrjá daga og er farin sakna sólarinnar. Hún hefur verið fjarri Borginni þessa dagana. Ég sit við og vinn flestum stundum og finnst það heldur óþjált að skrifa og vinna eingöngu á íslensku. Það eru ýmis orð og orðanotkun sem ég kannast ekkert við þ.á.m. orðið "lúkning" í samhenginu "Aðilar munu vinna áfram að lúkningu samningsgerðar". Ég þurfti nú barasta að leita að þessu orði í orðabók og komst að því að þetta er einhverskonar útgáfa að sögninni að "ljúka". Nú vantar mig orðsifjabækurnar mínar sem eru náttúrulega westanhafs.

föstudagur, júní 24, 2005

Verslað

Þá fara að verða síðustu forvöð að versla áður en haldið er í útlegðina. Ekki það að mér finnist ekki nóg af verslunum á Íslandinu en það er blessað verðlagið sem mér ógnar. Ég ætla að forðast það að versla í sumar. Þetta þýðir það að ég þarf að reyna að finna fatnað sem hentar íslenskri veðráttu á þessum tíma árs þegar hér er líkamshiti utandyra, það gæti orðið þrautin þyngri. Sem betur fer þá sýnist mér veðrið hafa snúist til hins betra heima á Íslandi, þ.e. allavega norðanlands og svo hefur hlýnað, ég var farin að kvíða dulítið fyrir kuldanum, ég fæ nóg af honum hér á veturna. Karólína reyndi að versla fyrir Ísland áður en hún fór til Spánar, sérstaklega vantar hana íþróttaföt til að vinna í í Reykjavíkinni, hún verður að vinna á leikjanámskeiðunum hjá ÍR í sumar henni til mikillar gleði. Mér hefur virst að það sé allt að helmings munur á verði á íþróttaskóm á Íslandi og hér og ennþá meiri er munurinn á tískufatnaði, það sem henni finnast vera dýrar gallabuxur kosta hér $70 (c.a.4500ikr) oftast fær hún þær fyrir $50-60. Reyndar eru þetta ekki Diesel, enda hefur hún ekki fundið buxur frá þeim sem passa hennar löngu leggjum (hún notar 28-37) og það passar mér ágætlega að þurfa ekki að borga $150 fyrir gallabuxur!

fimmtudagur, júní 23, 2005

Jónsmessa

Þá er enn einn hita dagurinn að kveldi kominn. Í dag náði hitamælirinn 38 gráðum og það er mjög rakt og ég þakka vísindamönnum einhverntíma snemma á síðustu öld fyrir að finna upp kælikerfi húsa. Ég vann hér innanhúss mestan hluta dagsins en brá mér niður í bæ seinni partinn og þoldi illa við, komst því miður ekki á sundlaugarbarminn en vonandi bæti ég úr því á morgun, sundlaugarbarmur er eina leiðin að vera útivið meira en nokkrar mínútur í einu, ég á ekki gott með að hreyfa mig í svona veðri og fer því ekki á golfvöll nema til að æfa mig kannski smá, ekki spila ég 18 holur allavega og ekki vinn ég í garðinum og þaðan af síður fer ég út að ganga eða hlaupa.

Við erum að fara út að borða á besta veitingastað bæjarins í kvöld en þar er hann Bjarni okkar orðinn yfirkokkur, okkur til mikillar gleði. Ég hlakka mikið til að borða á veitingastaðnum en þetta verður í fyrsta sinn sem við borðum mat sem hann hefur eldað á veitingastað. Hann hefur verið mjög duglegur að elda hérna heima í vor og það hefur verið dásamlegur matur hér á borðum daglega en nú ætlum við sumsé að fara á Chardonnay!

miðvikudagur, júní 22, 2005

Politik

Okkur hjónunum til mikillar ánægju þá fara vinsældir forseta vors hratt dvínandi. Hann rembist eins og rjúpan við staurinn að koma Bolton að hjá Sameinuðþjóðunum og núna þegar búið er að blokka fyrir útnefninguna þá bíður þessi elska eftir þjóðhátíðardeginum því þá fer þingið í frí og samkvæmt lögum þá getur hann útnefnt þá sem hann vill til skemmri tíma, þ.e. 18 mánaða. Svona er nú blessað lýðræðið. Hann sem þykist fara um heiminn með friði og hefur að markmiði að frelsa heiminn þannig að allir fái nú blessað lýðræðið sem hann virðir bara þegar það passar honum og hans fylgisveinum. Það eru því gleðifréttir í allri vitleysunni að vinsældir hans fara dvínandi og þótt hann sem einstaklingur sé ótrúlega vinæll þá eru verk hans og stefna í hinum ýmsu málum afar óvinsæl, hvernig fólk skilur að manninn, verkin og stefnuna er mér óskiljanlegt. Ég geri sjálfri mér það ekki að nefna Stríðið , það er alltof fallegur dagur til að eyðileggja í pirring yfir karlhlunki austur á strönd, jafnvel þótt hann sé valdamikill.

mánudagur, júní 20, 2005

Í dag er ein vika þangað til ég legg af stað til Íslands og því verður þessi vika einn allsherjar undirbúningur fyrir sumardvöl á Íslandi. Ég held að sjálfsögðu að ég sé ómissandi og að heimilið fari veg allrar ef ég er ekki á staðnum, mér finnst þetta þegar ég er í burtu í stuttan tíma hvað þá rúmar sjö vikur. Á laugardaginn fór ég til Minneapolis á Íslendingahátíðina. Þar spilaði strengjasveit Tónskóla Sigursveins við mikinn fögnuð og sérstaka gleði mína. Ég hlýt að vera orðin gömul því ég verð svo tilfinninganæm þegar ég hlusta á börn spila fallega íslenska tónlist. Þetta var hin besta skemmtun með tónlist, mat, skemmtilegu fólki, strandaferð og bátsferð. Veðrið var yndislegt, um 32 stiga hiti og hvergi skýhnoðra að sjá og lítill sem enginn raki í lofti. Nú er stærsti hluti hópsins farinn heim og vonandi skemmtu börnin sér vel. Veðrið er áfram yndislegt en nú á rakinn að koma og því verða 30 stigin sem mér hafa fundist yndisleg síðustu vikuna að óþolandi gufubaðsveðri.

laugardagur, júní 18, 2005

Sumargleði

Það er nú meira hvað sumrin geta verið annasöm. Ég sem var að vonast til að þetta sumarið yrði rólegt, svona eitt allsherjar "dog days of summer" með tilheyrandi bátsferðum, sundlaugar og strandferðum, bókalestri, og golfi. Ég hef bara ekki tíma til neins þessa, ég hef ekki lesið nema eina bók og það er nú alveg síðasta sort. Golf kemst ég í hámark einu sinni í viku og það vísar ekki á góðan árangur, ég kem mér ekki einu sinni á æfingasvæðið! Ég hef verið að túlka fyrir íslenskan sjúkling sem var á Mayo, passa hann Jóhannes með Kristínu, undirbúa Karólínu fyrir Spánarferðina sem hún er loksins lögð af stað í, sjá um greiðasölu fyrir nokkurra þúsanda barna fótboltamót og annað þar fram eftir götunum. Svo eru Halli og Kristín að hlaupa maraþon núna í morgunsárið uppí Duluth, þau ætla svo að koma við hjá Íslendingafélaginu á 17. júní hátíðinni þar sem ég verð að vinna seinni hluta dagsins. Ég held að Ísland verði ein allsherjar afslöppun eftir þetta allta saman!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Hér hefur geysað brjálað þrumuveður síðan um miðja nótt með tilheyrandi hávaða, látum og ausandi vatnsveðri. Reyndar byrjaði þetta í gærmorgun þegar ég var á golfvellinum. Ég var á öðrum teignum þegar ég fann að elding var að nálgast og rétt þegar ég var búin að slá þá laust niður eldingu rétt hjá okkur svo við flýttum okkur inn og rétt í þann mund sem við vorum að komast í skjól þá kom hagl þannig allt varð hvítt í 32 stiga hitanum. Það er alltaf jafn skrýtið. Það hefur verið ógnar heitt síðustu tvo daga 30-35 stig og mjög rakt í gær á milli storma svo það var algert gufubað úti og lítið hægt að gera annað en að vera inni í loftkældu húsi eða á sundlaugarbakka. Ég tók fyrri kostinn og las. Það á að kólna smám saman og verða skaplegt um helgina. Karólína keppir í fylkismeistaramótinu á föstudaginn og vonandi verður gott veður. Síðustu tvö ár hefur verið leiðindaveður og hástökkið verið fært inn í hús. Núna keppir hún bara í hástökki svo hún þarf ekki að hafa neinar ógnar áhyggjur af veðrinu. Kristín setti nýtt heimsmet í róðri á sunnudaginn. Hún ætlaði að slá tvö met í einu, aldursmet og "overall" en tókst að ná því fyrra, 100,000metrar á róðrarmaskínu. Þetta tók hana rúma 8 klukkutíma! Hún brenndi u.þ.b. 850 kalóríum á klukkustund svo þetta var alger brennsludagur, tæpar 7000 kalóríur og væntanlega 8000 kalóríu dagur! Hún var ánægð með þetta eina met en hundfúl að geta ekki slegið bæði í einu, og því segist hún ætla að gera þetta aftur. Hún var gersamlega búin að vera og líkaminn er enn aumur og lófarnir eitt flakandi sár, bólgnir og beiglaðir, sérstaklega liðirnir. Hún á erfitt með að rétta úr fingrunum núna tveimur dögum seinna.

föstudagur, júní 03, 2005

Heilavinna

Nú er ég að ganga í gegnum tímabil þar sem ekkert nema concrete hugsanir komast að. Gagnrýnni eða skapandi hugsun er hreinlega bara ómögulegt að koma að í heilabúinu eins og er. Lífið snýst um íþróttakeppni, keyrslu, prófatörn, börn, garðavinnu og allt annað sem jarðbundið er. Þetta fellur mér illa ef þetta stendur of lengi, þetta er ágætt í stuttan tíma en þá vil ég líka fara að hugsa um eitthvað meira krefjandi eins og söguritun, fræðaritun og lestur, rannsóknir, úttektir, og annað þar fram eftir götunum...allavega svona með. Ég verð að vinna að svoleiðis hlutum í sumar svo þetta stendur allt til bóta, en mikið sem það getur verið letjandi fyrir heilasellurnar að hafa ekkert til að vinna við annað en að raða, flokka, og skipuleggja. Ég held að þær komi sér í eitthvert hvíldarform og þegar ég þarf á þeim að halda til krefjandi vinnu þá er bara ekkert til staðar og það litla sem er tekur langan tíma að aktívera.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Skýrsla

Þá eru við hjónin komin heim eftir flakk síðustu vikna hingað og þangað um heiminn. Princeton varð númer 2 í Sacramento, einni og hálfri sekúndu á eftir bátnum sem vann, lítið miðað við 6 1/2 mínútu. Þær fóru til Sacramento til að vinna allt saman en vissu að það væri á brattann að sækja. Þetta var mjög gott hjá þeim að mér fannst en keppnisskapið í þeim vildi meira. Halli er kominn heim og gerði hann fína ferð til Íslands og Noregs. Potaði niður kartöflum í tveggja stiga hita og slyddu í Heiðinni. Setti niður rabarbara fyrir mig. Heimsótti alla og hélt svo til Noregs þar sem hann vann og skemmti sér örlítið með góðum vinum og fjölskyldu. Ég hafði það gott í Kaliforníunni. Veðrið var ágætt, 36 og ógnar heitt daginn sem ég kom, 16 á laugardaginn og 24 á sunnudaginn. Ég hefði ekkei haft á móti því að skreppa til Lake Taho en ég reyndi að vera eins mikið með Kristínu og þjálfarinn hennar leyfði, sem var ekki mikið. Veðrið hér heima hefur snúast all verulega til hins betra. Það er um 25 á daginn, þurrt loft og sól, þetta líkar mer mjög vel. Rakinn fer illa í mig. Kristín leggur af stað heim í dag, vinur hennar kom að ná í hana og þau ætla að keyra þetta á tveimur dögum, c.a. 24 tíma keyrsla í allt. Í dag verð ég í Northfield með Karólínu. Hún er að keppa þar í sections, úrtökumótinu fyrir fylkismeistaramótið.

Skýrslugerð lokið.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Helgin framundan

Ég legg í hann til Sacramento um klukkan fjögur í fyrramálið. Ég þarf að keyra á Minneapolis flugvöllinn og vélin fer svo rúmlega 6. Kristín kom þangað í fyrradag og það hefur verið óbærilega heitt, um 35 stig og sól náttúrulega. Um helgina verður um 30 stigin svo þetta verður viðráðanlegt. Sem betur fer þá eru hótelin okkar mjög nálægt hvoru öðru svo ég get séð hana oft og lengi. Halli er í Noregi svo það verður 9 tíma tímamismunur á okkur og það verður erfitt að koma upplýsingum til hans. Hann kemur reyndar heim á laugardagskvöldið og mikilvægasti dagurinn er sunnudagurinn. Karólína keppir í stóru móti á morgun, Big 9, og þar sem við foreldrarnir getum ekki verið á tveimur stöðum í einu, þá verður hún ein á báti. Um næstu helgi er enn stærra mót og þá verðum við bæði hjá henni svo þetta er ekkert mál. Þetta verður mun flóknara ef hún fer í Stanford og ef hún kemst í frjálsíþróttaliðið (öll þessi ef alltaf að flækjast fyrir) því báðar keppa þær systur í voríþrótt. Hér skiptast íþróttir í þrjú tímabil, haust, vetur og vor, og að auki þá yrðu þær systur og sinni ströndinni hvor. Duke yrði mun auðveldari skóli staðsetningarinnar vegna en ég hef tiltölulega lítið (minna en ég vil, meira en ég held) um það að segja hvert Karólína fer í college, en sumarið og haustið fer í að ákveða það.

miðvikudagur, maí 25, 2005

Ég var að setja ruslið út að götu og það leið ekki löng stund áður en þar varð hrafnaþing. Ruslatunnan er troðfull svo ég gat ekki lokað henni og þá hafa hrafnarnir greiðan aðgang að ruslapokunum og eiga þeir ekki neinum vandræðum með að kroppa gat til að ná sér í æti. Því er hávaði og læti úti núna því þeir rífast yfir matnum eins og svangra er siður.

Ég er annars að fara í leiðangur í dag í gróðrarstöðvar. Okkur vantar tvö stór tré sunnan við hús og nú á að ákveða hverju skal plantað. Halli vill fá ávaxtatré sem bera ávöxt, en ef það verða ávaxtatré þá vil ég fá tré vorblómanna vegna en ekki ávaxtanna vegna og því vil ég ávaxtatré sem ekki bera ávöxt. Annars hefði ég helst viljað reynivið, gullregn eða weeping willow. Kannski getum við farið bil beggja og fengið okkur eitthvað fyrir alla, væri það nú ekki svolítið gáfulegt að gera það, þá verður ekki deilt um trjátegundir á meðan!

sunnudagur, maí 22, 2005

Prom í Mayo High School

Þá er prommið búið. Jade kom á þessari líka flottu Corvettu til að ná í dömuna, henni til mikillar ánægju. Mér skilst að þau hafi skemmt sér vel og allt verið fínt nema plötusnúðurinn sem var víst með leiðinlega tónlist, og það er nú heldur dapurt þegar maður er á balli. Hópurinn kom hingað í myndatöku og þar sem það var þurrt og fínt þá var haldið út og myndir teknar úti í garði. það eru fleiri myndir á http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum12.html

Corvettan, Karolina og Jade


Corvettan, Karolina og Jade, originally uploaded by Kata hugsar.

Jade og Karolina


Jade og Karolina, originally uploaded by Kata hugsar.

laugardagur, maí 21, 2005

Dagsverk

Halli er á Íslandi, fer Norður í dag. Mér skilst að árstíðirnar hafi ruglast í ríminu og vetur kallinn hafi birst aftur síðustu dagana í Eyjafirðinum. Kartöflunum verður samt potað niður hvernig sem viðrar, jafnvel þótt jarðvegurinn væri frosinn þá myndi hann finna leið til að klára þetta mikilvæga vor verk. Hér hefur verið afar vætusamt síðustu tvær vikurnar, rignt meira og minna á hverjum degi. Það er samt hlýtt, rúm 20 stig í gær og verður um 25 í dag. Það er prom í dag og því nokkuð mikilvægt að hann hangi þurr seinni partinn. Vinahópur Karólínu kemur hingað í myndatöku um fjögur leytið, það stendur til að taka myndirnar hérna útí garði, og svo er haldið af stað í matinn, limósínukeyrsluna að dansstaðnum, "grand march" (þar sem öll pörin eru kynnt með stíl), og svo að lokum dansiballið sjálft. Kjóllinn er tilbúinn, bleikur og glitrandi, svo og skórnir og allt hitt. Ég ætla að klára að setja niður sumarblómin mín í dag og vonandi tekst það, veðurspáin er mér ekki hliðholl. Það er svo gaman þegar það er búið því þá verður allt svo sumarlegt og fínt. Bara að dádýrin komi ekki í matarleit í garðinn minn, þá verður nú ekki mikið eftir að blómunum mínum. Annars keypti ég hræðilega illa lyktandi efni til að sprauta á plönturnar, efni sem á að fæla dádýrin, íkornana og kanínurnar frá. Það versta er að það fælir mannskeppnuna líka frá, það er svo voðalega vond lykt af því.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Lífsins gangur

Nú er farið að síga á seinni hlutann á þessu vori. Karólína á tvær vikur eftir af skóla og Kristín tekur sitt síðasta próf á morgun en kemur heim 3ja júní. Þá verður fullt hús hér af fjölskyldumeðlimum í fyrsta sinn í tvö ár. Ég hef verið stjórnandinn hér innan heimilis í bráðum 30 ár en ég finn fyrir þeirri skrýtnu tilfinningu að börnin mín eru að taka yfir, þe.a.s. þegar þau eru heima. Bjarni eldar oft í viku, Kristín kemur og fer eins og fljúgandi fuglinn og eldar sína grænmetisfæðu sjálf, eitthvað sem ég kann ekkert á, og Karólína sér um þvottinn þegar skólinn er búinn, þau koma svo til með að ráða taktinum í fjölskyldulífinu í sumar. Þetta er mikil breyting en hefur samt gerst svona hægt og rólega, stundum koma tímabil þar sem stórbreytingar verða en oftast eru þetta smábreytingar sem gerast á löngum tíma. Það er forvitnilegt að fylgjast með eigin lífi svona utanfrá og reyna að fylgjast með og átta sig á breytingum jafn óðum og þær gerast. Fyrir nokkrum árum síðan þegar þetta var að byrja þá fann ég að mér fannst ég vera að missa þetta eina yfirráðasvæði sem ég hef en svo smám saman hef ég látið eftir og finnst gaman að sjá hvernig þau vinna saman, leysa sín vandamál, deila því sem þarf að deila, hjálpast að og þrasa. Ég reyni að taka ekki þátt í þeirra deilum, reyni að skipta mér ekki af þegar þau ekki vilja það, reyni að taka ekki fram fyrir hendurnar á þeim, reyni að styðja Þau þótt mér finnist þau ekki vera að gera rétt, þau eru jú þrátt fyrir allt "hálf-fullorðið fólk". Stundum tekst mér þetta og stundum ekki, en áfram held ég að reyna.

mánudagur, maí 16, 2005

Framarlega í Eyjafirði að austan og vestan.

Það eru ófáir dagarnir sem ég byrja á því að líta á Akureyri.is og þar á Akureyri í beinni. Ég þarf svo nauðsynlega að sjá hvernig Gilið lítur út og hvort sést yfir í Heiði og á Lönguklöpp. Á annarri heimasíðu sé ég yfir Háskólann í Þingvallastræti og Sundlaugina. Einhverntíma eftir einhver ár og allrahanda lífsins skyldur þá flytjum við Norður og þá get ég notið þess á hverjum morgni að horfa yfir Fjörðinn, hvort heldur ég bý að austan að vestanverðu við hann. Við förum "yfrum" hvorumegin sem við búum og verðum "að handan" ef einhver vill koma í heimsókn. Halli kemur heim til Íslands á laugardaginn á leið sinni til Noregs. Þá fer hann Norður til að pota niður kartöflum svo við verðum ekki hungurmorða í sumar. Mér finnst hann eigi að koma af stað rabarbara og fleiri tegundum af rótargrænmeti því kartöflur einar og sér halda ekki í mér lífinu, kannski hann tölti svo niður að sjó í leit að fiskmeti. Hann hefur ógnar áhuga á að reyna sjálfsþurftarbúskap. Hann ætlar sér svo að reyna að koma af stað Kirsuberjatré, hann Ærir vinur okkar stakk þessari hugmynd að mér og Halli ætlar að reyna, hvort það verður í þessari ferð eða þeirri næstu er ég ekki viss um, en nóg verður af ferðunum næstu mánauðina, Halli kemur þrisvar til Íslands í vor og sumar og við Karólína verðum í heilar sex vikur á landinu.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Tré í blóma

Svona lítur kirsuberjatréð mitt út þessa dagana. Ég vildi að ég gæti sett lyktina af því á blogginn líka -sambland af rósaangan, ferskjum, og lavender- en það verður í næsta lífi.

vor


vor, originally uploaded by Kata hugsar.

Hún Karólína

Þá er komið að prom. Karólínu var boðið á prom í fyrsta sinn svo nú er að skella saman einum kjól. Því miður þá fékk hún allt frjálsíþróttaliðið með í að ákveða útlit kjólsins -allar 83 að mér skilst- og útkoman er ekki mjög áhugaverð fyrir mig en ég verð að finna útúr þessu með henni. Ég hef rúma viku til að hanna og sauma kjólinn og er það í allra minnsta lagi. Þetta þýðir náttúrulega það að ég verð að byrja strax. Ég fór í leiðangur í gær og fann snið sem ég get unnið með en efni fann ég ekki en það eru fjórar efnabúðir í bænum og ég er bara búin að skoða í einni þeirra. Það er ausandi rigning og kalt núna og á að vera fram á sunnudag svo það er best að nota sér leiðindaveðrið til að vinna inni, það er spáð fínu veðri eftir sunnudaginn og þá hef ég lítinn áhuga á inniveru. Annars er hún Karólína hoppandi um á hækjum þessa dagana. Það kom í ljós í MRI að það er vefur á milli beina í ökklanum sem klemmist þegar hún stekkur hástökk. Hún fékk cortisone sprautu í ökklann á mánudaginn og má ekki setja þunga á hann fyrr en næsta mánudag, svo gengur hún á honum í nokkra daga áður en hún fer að reyna að stökkva og hlaupa aftur. Vonandi gengur þetta hjá henni. Þetta er ekki auðvelt fyrir hana en hún stendur sig eins og hetja.

mánudagur, maí 09, 2005

Þá er enn ein törnin búin. Það mætti halda að lífið mitt væri vertíðabundið, það er annað-hvort-eða hér á bæ. Það var brjálað að gera allan laugardaginn við greiðasölu, það voru um 1000 manns á svæðinu og ég settist ekki niður allan daginn, ekki einu sinni á aðra kinnina. Það var rigning um morguninn en svo stytti upp og varð mjög gott seinni partinn. Svo hlýnaði all verulega í gær og rakinn kom með svo nú er hálfgert sumarveður, 28 stig og rakt og þrumuveður á kvöldin. Við erum ekki enn búin að kveikja á loftkælingunni, mér finnst heldur snemmt að gera það í byrjun maí, við hljótum að geta þolað þetta í nokkrar vikur en svo fáum við lika nóg og þá er kominn tími á loftkælinguna og sundlaugarbarm.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Karólína 17 ára

Litla barnið mitt er 17 ára í dag. Hún hefur nú reyndar aldrei verið neitt sérstaklega lítil, er orðin að 180 sentímetra ungri dömu. Hún gleymir reyndar oft þessu dömulega en það er bara þegar hún þarf að vinna í keppni, þá gildir það eitt að vinna alla hina....ekkert skil ég hvaðan barnið hefur þetta keppnisskap. Hún eyddi morgninum í MRI myndatöku af ökklanum plagaða. Við fáum vonandi að vita í dag, allavega á morgun hvað þar var að sjá. Nú er hún komin í skólann og verður þar það sem eftir er dags. Svo á að vera íslenskur mjólkurgrautur í kvöldmat. Krakkarnir mínar hafa fengið að ráða hvað er í matinn á afmælisdaginn frá því þeir voru pínulítlir og það er enn mjög mikilvægt. Mjólkurgrautur er hennar uppáhaldsmatur og graut skal hún fá í kvöldmat.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Þessa vikuna er mikið að gera hjá mér. Ég sé um alla greiðasöluna fyrir frjálsíþróttamót í skólanum á laugardaginn. Það verða um 700 keppendur allan laugardaginn og ég er búin að láta búa til boli og stuttbuxur sem við þurfum náttúrulega að selja, helst allt saman. Við verðum svo með þetta venjulega, kaffi, samlokur, pylsur, poppkorn, gos, vatn og íþróttadrykki og svo sælgæti. Ég hef verið að safna saman hópi fólks til að vinna fyrir mig, það þarf heilan her til þess að þetta gangi upp, svo þarf að panta allan matinn, þrífa húsið og ganga svo frá öllu saman. Ég gerði þetta í fyrra líka svo ég veit meira núna en þá að hverju ég geng og hvernig ég á að standa að hlutunum. Allur ágóðinn rennur til frjálsíþróttadeildarinnar svo þetta skiptir all verulegu máli. Það er spáð mjög góðu veðri og það hefur mikil áhrif á söluna, í fyrra var kalt en þurrt, núna á að vera hlýtt og þurrt. Karólína keppir ekki því hún er meidd, hún fer í MRI í fyrramálið, á sjálfan afmælisdaginn. Það verður gott að fá að vita nákvæmlega hvað það er sem hrjáir ökklann, íþróttalæknirinn og sjúkraþjálfarinn halda að núna sé það bein í bein sem orsakar sársaukann en við vitum meira á morgun. Allavega þá er hún í algerri hvíld í 10 daga og svo sjáum við til.

mánudagur, maí 02, 2005

Asatru

Ég hef verið að velta því fyrir mér í nokkurn tíma að gerast sjálfboðaliði í fangelsissjúkrahúsi hérna í bænum. Þetta er alríkisstofnum, sem þýðir það að afbrotafólk frá öllu landinu sem þurfa heilbrigðisþjónustu til lengri tíma halda til þarna. Ég fór inná heimsíðuna þeirra í gær til að athuga hvort og hvað vantaði af sjálfboðaliðum, ég er helst að velta fyrir mér lestrar- og stærðfræðikennslu. Efst á lista var auglýst eftir fólki með sérþekkingu á asatru. Auglýsingin hljóðaði svona "volunteer is needed to supervise male inmates incarcerated at the Federal Medical Center during the nature-based Asatru services and ceremonies. The volunteer must be a "subject matter expert" in Asatru." Það tók mig svolitla stunda að bera orðið "asatru" fram á íslensku og setja kommur á rétta staði og fá út Ásatrú, ég var ekki akkúrat að hugsa um Ísland og íslensku þegar ég var að lesa þetta. Ég er enn að velta fyrir mér hversu margir hérna í litla bænum Rochester hafa sérþekkingu á Ásatrú!

sunnudagur, maí 01, 2005

Sunnudagsmorgunkaffi

Mikið dómadags mikinn hausverk getur maður fengið af of mikilli kaffidrykkju. Við fengum nágranna okkar og góða vini í morgunkaffi í dag og ég þambaði alltof marga bolla af sterku kaffi yfir skemmtilegu spjalli og er núna að taka afleiðingunum sem eru dúndrandi hausverkur og eirðarleysi. Get bara alls ekki setið kyrr á mínum stóra botni. Ég ætti líklegast að koma mér í ræktina til að ná þessu úr mér, ég ætlaði að vinna í garðinum og æfa svo golfið mitt dulítið í dag en það er svo assgoti kalt, 6 stig og vindur svo ég held að innanhúss ræktin verði fyrir valinu. Veðrið stendur til bóta um miðja næstu viku þá á að fara aftur yfir 20 stigin, mikið hlakka ég til! Það verður væntanlega fínt á 17 ára afmælisdaginn hennar Karólínu á fimmtudaginn.

laugardagur, apríl 30, 2005

Laugardagsmorgun

Klukkan er 8 að morgni og ég bíð eftir að Halli komi heim. Hann fór að kenna klukkan 6 í morgun og er búinn um tíu leitið og þá leggjum við af stað til Minneapolis til að horfa á Karólínu. Hann er að undirbúa röntgenlækna fyrir sérfræðiprófið stóra. Ég keyrði Karólínu og vinkonu hennar í rútuna sem tók þær á frjálsíþróttamót dagsins, það var fyrir tveim tímum síðan svo nú er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að leggja mig aftur áður en lagt verður af stað til Minneapolis eða hvort ég eigi að setjast niður með góða bók. Ég held að bókin vinni. Annars er ég mjög óróleg þessa stundina og verð örugglega fram eftir degi. Ég verð alltaf svona þegar stelpurnar eru að keppa. Kristín keppir um hádegið, þetta verður mjög spennandi því liðin sem þær róa á móti í dag eru mjög góð og hún var rétt mátulega bjartsýn þegar ég talaði við hana í gærkveldi. Karólína keppir í hástökki, 100m, og 4x400 í dag. Hún má keppa i fjórum greinum og ekki veit ég af hverju hún ekki hleypur 200 metrana en Sean hefur sínar ástæður geri ég ráð fyrir þó svo ég skilji þær ekki alltaf og þótt ég skildi þær þá væri ég eflaust ekki sammála honum.....en það er nú svo.

föstudagur, apríl 29, 2005

Golf

Ég hef ekki farið á golfvöll meira en einu sinni á sumri í fimm ár. Þetta er hið versta mál því ég sakna íþróttarinnar heil lifandis ósköp. Ástæðan fyrir þessu er sú að nú til dags þá lít ég á golf sem félagslega samkomu, fjögurra tíma samveru með skemmtilegu fólki við dásmlega iðju, en ekki keppnisíþrótt til þess eins fallin að vinna, og því þarf ég vini eða allavega skemmtilegt fólk til að spila með. Ekki svo að skilja að keppnisskapið sé alveg horfið, ég er nú ekki dauð úr öllum æðum enn, mér finnst ekkert voðalega gaman að spila illa og hvað þá að tapa leik, en það er reyndar orðið að tiltölulega litlu máli í golfleiknum. Eftir að ég flutti hingað til Rochester árið 2000 þá hef ég ekki hitt neinn sem gaman er að spila golf með, eða bara spilar golf svona almennt séð, ég hlýt að hrærast í skrýtnum hópi því hér spila mjög margir golf. Einhverra hluta vegna þá eru engir af okkar kunningjum golfarar, en nú stendur þetta til bóta. Ég skráði mig í kvennahóp (women´s league) sem spilar einu sinni í viku. Þetta er eiginlega kvennaklúbbur sem hefur allrahanda uppákomur minnst einu sinni í viku allt sumarið. Í viðbót við 18 holu uppákomurnar eru svo mót minnst einu sinni í mánuði. Við byrjum á þriðjudaginn og svo verður spilað alla þriðjudaga fram í lok september. Ég er eins og krakki sem hlakkar til jólanna, enda fer ég á æfingasvæðið í dag til að leita að sveiflunni minni og grafa upp stutta spilið. Ég spilaði í svona kvennaklúbb í Minneapolis í sjö ár og hafði ómælda ánægju af og sakna þeirra kvenna mikið svo nú vona ég að ég eignist sams konar vinahóp af golfkonum hér í bænum.

Það er annars merkilegt þessi golfíþrótt að því leitinu til að hvort sem maður er að keppa eða ekki þá veit ég nákvæmlega eftir daginn hvort vel eða illa gekk. Það er nefnilega allt skráð í kortið góða, ef ekki með blýanti þá er það örugglega skrásett í minninu. Ég get rennt mér á skíðum allan daginn og gengið alla vega en ég velti mér sjaldan uppúr því hvort ég skíðaði vel eða illa, eða spilað tennis og þá nenni ég sjaldnast að telja, nema þegar við Halli spilum á móti hvoru öðru, þá er alveg nauðsynlegt að telja! En eftir 18 holur í golfi þá er sest niður og reiknað og skráð og velt sér uppúr höggum og púttum. Ég hef reyndar ásett mér að slappa af yfir golfinu í sumar og njóta þess að vera úti á fallegum velli.....

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hún Kristín mín

Hún Kristín mín heldur úti bloggsíðu (kristinville.blogspot.com). Hún birti nokkrar myndir þar fyrr í vikunni og á meðal þeirra er ein af herberginu hennar og Ashley. Það er eins og fallið hafi sprengja í mitt herbergið. Það má reyndar segja þeim til varnar að herbergið er pínulítið og þegar þar eru tvær afar uppteknar dömur að klára önn og lokapróf að nálgast þá fer nú snyrtimennskan stundum útum gluggann, en þetta er nú heldur mikið af því góða. Eitthvað hefur draslið ángrað hana dóttur mína því hún tók mynd af öllu saman og kallaði hana "mom i swear it's not always like this". Nú er bara einn dagur eftir af önninni þá tekur við lestrarvika og svo lokapróf. Hún á eftir eina róðrarkeppni af tímabilinu áður en úrslitamótin tvö skella á. Þær hafa unnið öll mótin til þessa og svo er að sjá hvað gerist á Eastern Sprints og svo hinu eina sanna NCAA Championship (háskólamótið). Það verður í Sacramento Kaliforníu í lok maí og ég hef setið við tölvuna mína í leit að tilboðum þangað, það virðist ætla að takast!

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Frá miðvestri til norðausturs

Eyfirðingar, og þá sérstaklega Akureyringar, hafa þann dásamlega vana að nota áttir við allt sem skýra þarf út. Þeir eru með höfuðáttirnar fjórar á hreinu og allar hinar á tæru. Það er gaman að sjá að aðfluttir, Halur Húfubólguson þar á meðal, hafa tileinkað sér þessa leið til útskýringa. Halur skrifaði á síðu sinni "Hann tók þó vissa áhættu í dag er hann færði silfurblöðkuna í suðvesturbeðinu um nærri 80 cm til suðausturs í sama reit eða beði". Það sem betra er, ég veit nákvæmlega um hvað maðurinn er að tala, það fer ekkert á milli mála hvar beðið er og hvert tréð góða var flutt. Það þarf ekki nákvæmari útlistingar á þessu verki, þetta er augljóst. Góður borgarbúi og vinur foreldra minna var eitt sinn búinn að fó nóg af þessu áttatali eftir nokkurra daga golf með vinum í höfuðstað norðurlands. Í kvöldmat á Hótel KEA um kvöldið bað hann um að kartöflurnar yrðu settar í suðvesturhornið á disknum. Hann hélt sjálfur að þetta væri hið besta grín en honum til mikillar undrunar hikaði ekki þjónninn við og gerði eins og honum var sagt. Fjörðurinn góði sem af náttúrunnar hendi gefur bæjarbúum í vöggugjöf tilfinningu fyrir áttunum, jafnvel þegar þeir ekki fæðast þar, kenndi mér þessa aðferð með miklum ágætum. Það er reyndar öllu verra að nota sér þessa kunnáttu þegar komið er hingað á slétturnar þar sem engin eru fjöllin, og þaðan af síður firðir eða dalir, viðmiðaðirnar verða jú að vera á sínum stað, en einhvernveginn hefur mér nú samt tekist að tileinka mér áttatal á flatlendinu innfæddum til mikillar undrunar.

mánudagur, apríl 25, 2005

Heimþrá

Það sótti að mér heimþrá um helgina. Andrés og öldungablak í blíðskaparveðri í höfuðstað norðurlands getur valdið svona óskunda vestur í henni stóru Ameríku. Nú er kominn meira en mánuður síðan ég var á Íslandi síðast og þá fer nú að læðast að mér ferðahugur, þetta er að verða ansi langt, og hvað þá þegar ég hef ekki komið norður síðan í nóvember. Þetta er hið versta mál og best væri að bæta úr þessu sem fyrst en það verður víst að bíða, ég verð að nota þessa ágætu þolinmæði sem ég hef, ég hef víst verk að vinna hér heima hjá mér. Heimþrá kemur til mín í allra handa líki. Um helgina sat ég og horfði á Akureyri í beinni í listagilinu, mjög spennandi að sjá bæjarbúa keyra upp og niður gilið, sem hét í mínu ungdæmi Kaupangsgil. Það góða við þá myndavél að ég get næstum því séð á Lönguklöpp. Svo er myndavél í Fjallinu en þar var mest mold og drullu að sjá. Svo las ég um úrslit leikja í blakinu, þekkti fullt af fólki sem keppti, en hér sat ég vestur í henni álfu, hálfslöpp og illa fyrir kölluð með heimþrá.

föstudagur, apríl 22, 2005

Nú er ég með tvö af börnunum mínum heima og svo tengdadótturina. Bjarni og Nicole fluttu til okkar í síðustu viku og nú er veislumatur á hverju kvöldi. Í gær vorum við úti að versla í matinn og það hafði ekkert verið rætt hvað skildi haft á borðum svo ég stakk uppá að hafa eitthvað einfalt til að skella á grillið, jú það var samþykkt og Bjarni ákvað að hafa svínarif. Ekki vissi ég að hann myndi byrja að elda klukkan þrjú og ekki verða búinn fyrr en um sjöleytið. Hjá mér eru rif einfaldur og fljótlegur matur, en ekki hjá honum. Það var hreint ótrúlegt hvað þau gerðu til að undirbúa steikinguna sjálfa; kryddlegin í 1 tíma, soðin í ofni með 8 kryddtegundum í 2 tíma, og svo grilluð í sérstökum legi á eftir þessu öllu saman. Ég hef aldrei smakkað önnur eins rif, lungamjúk, safarík, bragðgóð og ilmandi. Daginn áður var indverskur korma réttur í jógúrtsósu, daginn þar áður enchiladas. Með þessu áframhaldi verð ég orðin hnöttótt þegar ég kem til Íslands í júní.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Það gengur illa að byrja keppnistímabilið í frjálsum. Það átti að byrja í síðustu viku en mótinu var aflýst vegna þrumuveðurs. Svo var keppt á laugardaginn í ausandi rigningu. Karólína var við skólann í Cannon Falls frá 8-5, það var ekkert húsaskjól að hafa fyrr en seint um daginn svo allt var gegnblautt, ískalt og heldur lítið geðfellt. Svo átti að vera mót í gær hér heima en því var frestað vegna mikillar þrumuveðurspár sem svo aldrei rættist. Þá er að sjá hvað gerist á föstudagskvöldið í Hudson. Það hefur annars verið fádæma blíða, allt að 28 stiga hiti og sól þessa síðistu vikur svo þetta er óttaleg óheppni að þessir fáu rigningardagar skulu vera á keppnisdögum. Það verður víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Vor

"Vorið er komið og grundirnar gróa....." og hér er svo sannarlega komið vor. Allt að verða grænt, weeping willow tréð hérna hinumegin við götuna farið að sveigjast um í vorvindunum eins og húladansmær í ljósgrænu strápilsi, komnir knúppar á ávaxtatrén og þá fer að styttast í að veröldin verði bleik og hvít og ilmandi. Við erum með eitt kirsuberjatré hérna í garðinum hjá okkur sem blómstrar skærbleiku og okkur langar í fleiri, kannski látum við verða að því að górðursetja þau í sumar. Við ætlum að vinna í norðurenda lóðarinnar um helgina. Þá er ætlunin að slétta úr moldinni sem eftir varð þegar Halli hreinsaði í burtu skelfilegan undirgróðurinn í skóginum okkar, undirgróður sem var illgresi og sem var að drepa eikartrén vegna orkufrekju. Nú líður eikartrjánum vel því þau hafa nóg pláss til að anda. Seinna í þessum mánuði sái ég svo grasfræum í moldina en það verður að bíða þangað til jarðvegurinn verður orðinn þurrari og svo er að gróðursetja burkna og annan gróður sem dádýrin éta ekki. Svo kemur sumarblómatíminn bráðum.....

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Bílferð

Á mínum unglingsárum þá fór ég í Borgarnes minnst einu sinni á sumri til að heimsækja ungan mann sem þar bjó. Þessi ungi maður átti það til á veturna að banka á gluggann minn seint á kvöldin ef hann var svangur og þá var hann gjarnan í fylgd fleiri vina úr Skólanum. Því var það að þegar bankað var á gluggann minn á fallegri snemmsumarnótt 1978 þá var ég nú ekki alveg viss um hvað um var að vera því ungi maðurinn var farinn til síns heima og ég átti því alls ekki von á neinum, hvað þá á gluggann. Ég kíkti út og þar stóðu tveir af þessum ágætu vinum hans (okkar) og vildu fá mig með í bíltúr suður á land. Ekki strax þá um nóttina en svona næstum því. Annar þeirra hafði keypt sér splunkunýjan bíl úr kassanum stuttu áður og var það afar óvenjulegt því fæstir okkar skólakrakkanna áttu bíl, hvað þá nýjan úr kassanum. Það átti sumsé að nota sér farkostinn fína og bruna í Borgarnes í heimsókn til vina okkar þar. Skrásetjarinn frá Reyðarfirði hætti við allt saman og ákvað að suðurferðin væri ekki fyrir hann en Ærir og ég ákáðum að halda í´ann daginn eftir. Ferðin gekk vel framan af Öxnadalurinn, Öxnadalsheiðin og Blönduhlíðin tók okkur eina tvo tíma. Það voru náttúrulega malarvegir sem við keyrðum á og á vorin þá litu þessir ágætu malarvegir ekki svo íkja vel út, það voru víða hvörf í veginum, svo Ærir keyrði varlega á nýja bílnum. Þegar kom uppá Vatnsskarðið þá var ljóst að vegurinn þar var öllu verri en verið hafði og því var keyrt enn hægar. Varkárnin reyndist ekki næg því allt í einu datt litli Trabantinn nýi ofaní heljarinnar hvarf og festist þar. Það sem Trabantar eru (voru?) ekki gerðir úr varanlegum málmi heldur trefjaplasti ef ég man rétt þá var nú ekki erfitt að ná honum uppúr en nú fór í verra því pústkerfið hafði skemmst í meðförunum. Pústkerfið í Trabant er ekki á sama stað og á öðrum bílum og hafði það farið í sundur rétt fyrir framan mælaborðið. Áfram var samt haldið en það sem brotnað hafði var ekki til í að hafa hljótt um sig á leiðinni heldur hagaði sér eins og brotnum pústkerfum sæmir og var með mikinn hávaða og læti og það sem eftir lifði ferðar gátum við ekkert talað saman og höfum við bæði búið við varanlega heyrnarskemmd síðan. Við náðum í Borgarnes eftir langa ferð, 7 tímar ef ég man rétt, og þegar keyrt var inní sofandi bæinn þar sem aldrei slíku vant var logn þá glumdi svo vel í öllu að hálfur bærinn vaknaði með andköfum og var víst rætt um það víða daginn eftir hvaða flugvél hefði eiginlega farið yfir bæinn um nóttina.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Plága

Ég framdi fjöldamorð á maríuhænum í gær. Maríuhænur eru mikil plága hér, þær koma í hundruðum þúsunda, alltaf saman í skýjum og smokra sér inn um allar glufur sem finnast. Þetta eru reyndar ekki alvöru maríuhænur, eru víst kallaðar asíu-bjöllur og eru appelsínugular með svörtum doppum, en ég kalla þær nú samt maríuhænur. Þessi plága byrjaði árið 2000 og eins og svo margt annað komu þær frá Iowa hingað uppeftir. Verst er þetta á haustin en núna þegar hlýtt er þá fylla þær glugga og loft svo varla sést út eða í litinn á bakvið. Ég tók mig því til í gær og ryksugaði gluggana og loftin einu sinni á klukkutíma og þá náði ég hundruðum í einu. Ryksugun er eina leiðin til að þetta sé ekki subbuverk, það er hræðilega vond lykt af þeim þegar þær eru klesstar, minnir helst á gamlan fituþráa, svo nú tekur því ekki að ganga frá ryksugunni og fjöldamorð verða framin næstu daga. Halli var ekkert skárri en ég í gærkveldi hann gekk um vopnaður ryksugu og saug þær inn hvar sem þær var að sjá og finna.

mánudagur, apríl 04, 2005

Sumartími

Þá er búið að breyta klukkunni hér yfir á sumartímann. Það er alltaf svolítið mál að gera þetta, breyta öllum klukkum, mæta á réttum tíma, o.s.frv., og þegar þetta hittist á sama dag og fráfall páfa þá er nú tímabreytingin ekki mjög fyrirferðamikil í fréttatímum fjölmiðla og ég var alls ekki að hugsa um þetta. Ég gleymdi að breyta klukkunum á laugardagskvöldið og þar sem ég átti að ná í hann Jóhannes litla á sunnudagsmorgun klukkan 7 þá var þetta ekki vel gott því ég uppgötvaði á leiðinni þangað að klukkan var að verða 8! Þetta bjargaðist þar sem húsið var fullt af fólki sem sá um hann þangað til ég birtist, en neyðarlegt var það engu að síður. Nú er sumarblíða upp á hvern dag, 15-20 stiga hiti alla daga og sól og blíða. Vorið og haustið er besti tími ársins hér því þá er hvorki skelfilega heitt eða kalt en nú fara að koma vorrigningar, nauðsynlegur hluti af tilverunni því þá tekur náttúran sig til og gerir allsherjar vorhreingerningu, og það er alveg nauðsynlegt eftir sandburð vetrarins. Þrumuveðurspá fyrir miðja viku en rjómablíða fyrri hlutann.

föstudagur, apríl 01, 2005

Úr stjörnuspá Moggans í dag handa okkur meyjum:

"Þú finnur hugsanlega til aukinnar ábyrgðar vegna barna þinna í dag. Taktu því með ró. Börn þurfa umönnun, þannig er það bara, hvað sem tautar og raular".

Það er alveg sama hversu gömul börnin mín verða ég kem alltaf til með að hafa áhyggjur af þeim, ég er alveg hræðilega áhyggjufull móðir, eins og ég var tiltölulega afslöppuð yfir þeim þegar þau voru yngri, ég var svo viss um að allt yrði í lagi. Það er kannski vegna þess að þá hafði ég nánast allan ákvörðunarréttinn þegar þau voru annars vegar á meðan nú til dags eru það afar takmörkuð áhrif og að sjálfsögðu er ég viss um að mínar ákvarðanir séu mun ábyrgðarfyllri og skynsamari en þeirra. Sonur minn 24 ára vakti mig í dag klukkan kortér í sjö til að fá smá minniháttar hjálp og þá fór ég náttúrulega að hafa áhyggjur af því sem hann er að gera, sú yngsta, 16 ára, er að fara í sína fyrstu dagsferð á bílnum í dag. Fer í heimsókn í tvo háskóla og annar þeirra er í St. Paul en þar hefur hún aldrei keyrt ein áður. Hin dóttir mín, 19 ára, er meidd í olnboga, er mikið bólgin og á erfitt með að gera allt nema að róa að sjálfsögðu. Eiginmaðurinn í New Orleans á fundi svo "hér er ég því ég get ekki annað". Allt eru þetta fullorðið fólk, eða hálffullorðið allavega, og ætti ég því að treysta þeim fyrir þeirra eigin lífi, en svona er þetta nú.....og þetta er nú eiginlega fáránlegt en ég breytist örugglega aldrei. Þeim finnst reyndar sem betur fer voðalega gott að fá ráð hjá mömmu og þá líður mér náttúrulega vel og finnst ég enn vera ómissandi en ég þarf nú eiginlega að læra að slappa svolítið af yfir þessu öllu.

fimmtudagur, mars 31, 2005

Framhaldssaga (2)

Karólína fór út í gær til að losa um stífluna, hún barðist um á hæl og hnakka í dágóða stund með dyggri hjálp móður sinnar. Náttúran hafði séð um að bræða hluta af klakanum en allt kom fyrir ekki, það var alveg sama hversu langt járnkallinn hvarf inn í ræsið, ekkert gerðist. Um þrjúleytið voru allar varúðartúður bæjarins settar á því það var von á hvirfilbyl. Það varð myrkur um miðjan dag, brjálað þrumuveður í hálftíma eða svo, og svo var allt búið, en enn var ræsið stíflað. Karólína var úti eftir kvöldmat og þá heyrðist kallað "mamma, það er komið flóð!" og viti menn, stíflan brast og tjörnin hvarf og eftir varð rotnunarlykt náttúrunnar.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Verkvit

Það háttar þannig til hérna fyrir framan hús að það er ræsi undir innkeyrslunni. Þetta ágæta ræsi þjónar þeim tilgangi, eins og ræsa er siður, að taka afrennslið frá brekkunni hér fyrir ofan og flytja það án vandræða niður að læknum hér fyrir neðan okkur. Þetta ágæta ræsi stíflaðist í stórhríðinni miklu hér um daginn, fraus hreinlega fast, svo nú hefur myndast þessi líka tjörn fyrir sunnan innkeyrsluna. Á meðan ég var í burtu þá fylltist skurðurinn þannig að flæddi yfir innkeyrsluna og steinhleðslan mín og plönnturnar eru í hættu á að skolast í burtu í vorleysingunum mér til mikillar bölvunar. Þetta varð til þess að ég fór út í gær alvopnuð tólum og tækjum til að losa um stífluna. Með mér í för voru járnkall, skóflur, spaðar, sköfur og sjóðandi heitt vatn í könnum því ef vöðvaaflið hefði ekki dugað þá átti að nota eðlisfræðina og bræða klakafjandann í burtu. Við norðanvert ræsið var ennþá metersdjúpur snjór, þ.e. hálfur metri af snjó og hálfsmetra þykk klakahella undir. Ég byrjaði á því að moka snjónum ofan af og svo var þrautin þyngri að reyna að hitta á ræsið á réttum stað þvi allt umhverfis var undir klaka. Mér tókst nú að lokum að finna ræsið og þá var bara að brjóta, merja og lemja klakann þannig að á ynnist og afrennslið opnaðist. Eftir klukkutíma törn með verkfærunum þá var tekið til við bræðsluna en þar sem, eðli málsins samkvæmt, ræsið er háfgrafið og fullt af klaka þá er nú ekki vel gott að komst að klakanum sem innra er. Þá tók ég aftur til við að nota járnkallinn og komst einhverja sentimetra inná við. Ekkert gerðist. Ég lamdi járnkallinum hressilega inn þannig að hann festist og með "lagni" tókst mér að koma honum út aftur en þá læddist að mér sá grunur að ef mér tækist nú að opna fyrir gatið þá myndu allar flóðgáttir opnast og að ég myndi fljóta með niður að læk með klakahraungl sem lítt áreiðanlegan björgunarbát. Ég sá sjálfa mig fyrir mér baðandi út öllum öngum í leit að landföstu björgunartæki. Þetta fór meira og meira að líta út eins og sá sem sagar af trjágrein og situr á ytri endanum við verkið. Ég gekk því frá hálfkláruðu verki mér til mikillar armæðu, með lófana sundur rifna og blöðrur í öllum krikum.

Þegar ég vaknaði í morgun var mitt fyrsta verk að kíkja út til að sjá afraksturinn en ekkert hafði gerst, engar flóðgáttir opnast, og allt stíflað sem fyrr. Ég verð því að gera aðra atlögu í dag því það á vera þrumuveður seinnipartinn með tilheyrandi úrkomu.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Roður

Þetta er mynd af róðarliðinu í Princeton rétt áður en þær komu í mark. Kristín er þriðja frá vinstri (í sæti 3). Henni er nánast aldrei kalt og því er hún ein af tveimur í samfestingnum einum fata. Hin stelpan sem það gerir er frá Vancouver í Kanada. Kristín fær að heyra það oft og iðulega að hún sé víst ábyggilega frá Íslandi og þrífist best í kulda. Ef þið viljið sjá fleiri myndir þá eru þær á http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum11.html

Rowing


Rowing, originally uploaded by Kata hugsar.

Ferð í austurátt

Mikið dásamlega höfðum við mæðgurnar það gott um helgina. New Jersey skartaði sínu fegursta á snemm-vori á laugardaginn og róðrarkeppnin var spennandi og skemmtileg sem endaði með sigri Princeton á erkifjandanum Brown. Þetta var hið mesta mál því Brown varð Ameríkumeistari í fyrra. Kristín var að sjálfsögðu í sjöunda himni með árangurinn og okkur Karólínu fannst voðalega gaman að vera hjá henni á þessum degi. Seinni hluta laugardagsins fórum við til New York í verslunarleiðangur og á sunnudaginn fórum við aftur en ekki til að versla, núna réð mamman ferðinni og hún neitaði að fara í búðir og því var gengið um Central Park, 5th Avenue, svo farið á Lower East Manahattan en þangað vil ég ekki fara nema í björtu, þetta var heldur skuggalegt hverfi. Í gær rigndi þessi lifandis ósköp, það var bara alls ekki hundi út sigandi, en Karólína fór að heimsækja yfirrþjálfarann í frjálsum í Princeton og skoðaði sig um og sá þessi ótrúlegu mannvirki sem þarna eru, mannvirki úti og inni sem eingöngu eru ætluð frjálsum. Eftir að hafa verið í bátahúsinu í Princeton (http://www.princeton.edu/~crew/facilities/index.html) þá er nú reyndar ekkert sem kemur manni á óvart þegar Princeton er annars vegar. Það var sem betur fer ekkert erfitt að kveðja Kristínu í gær og það var gott að koma heim í gærkveldi en nú er óvíst hvort við sjáum hana fyrr en í lok maí en svona er nú lífsins gangur, börn verða fullorðin og lifa sínu eigin lífi óháð því hvar foreldrana er að finna.

fimmtudagur, mars 24, 2005

Vangaveltur

Núna þegar Fischer er kominn til landsins sem íslenskur ríkisborgari og stuðningsmenn hans komnir í nostalgíutrip á Hótel Loftleiðum hvað verður gert næst? Fer maðurinn að vinna fyrir sér?

Páskafrí

Páskafrí er fyrirbæri sem finnst ekki hér. Karólína er í "spring break" í næstu viku og Kristín var það í síðustu viku svo báðar eru þær í skólanum alla þessa viku, Föstudaginn langa og alla hina með. Hér er því allt í sínum venjulega gír þessa vikuna enda þótt Karólína telji niður þangað til vorfríið byrjar, en það er nú bara á morgun svo allt er þetta að bresta á. Við mæðgur keyrum uppí Minneapolis strax eftir skóla á morgun og fljúgum svo til New Jersey rétt fyrir sjö. Halli verður heima með Þór. Halli vinnur alltof mikið, en það er nú ekkert nýtt, sumt breytist ekki og kemur aldrei til með að breytast, ég er fyrir löngu búin að sætta mig við það. Vinnan hans er hans aðal áhugamál, hann er ofvirkur og þetta tvennt saman þýðir náttúrulega bara það að hann vinnur öllum stundum, ýmist hér heima eða á Mayo. Hann ætlar reyndar að vera á Íslandi í þrjár vikur í sumar og það sem meira er, hann ætlar ekki að vinna!!!! Það verður spennandi að sjá hvernig honum líður þegar þær vikurnar eru afstaðnar. Kannski hann sjái að sér og átti sig á því að það er til líf utan spítalans.......það verður í nokkrar vikur en svo fer allt í sama farið aftur, en það er nú svo.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Væntumþykja

Í tilefni af skothríð í high-school hér í norður-Minnesota.

Too often we underestimate
the power of a touch, a smile,
a kind word, a listening ear,
an honest compliment,
or the smallest act of caring,
all of which have
the potential to turn a life around.

Við vanmetum svo oft
mátt þess að snerta, brosa,
hlusta,
segja hlýleg orð,
sýna hin minnstu merki um væntumþykju.
Allt gerðir sem hafa þann möguleika
að snúa lífi til betri vegar.

Páskamáltíð

Hér voru 14 manns í mat í gærkveldi. Allt Íslendingar nema einn Dani, hann Bo okkar. Þetta voru svona litlu páskarnir (sbr. litlu jólin), skinka, brúnaðar kartöflur og allt tilheyrandi (samt ekki Ora grænar). Ég verð ekki heima á Páskadag svo kall minn verður að éta sína páskamáltíð annarsstaðar, hjá Björgu og Bo, og þar sem það er þessi líka fjöldi af Löndum í bænum þá var það nú alveg tilvalið að safna þeim saman yfir mat og kaffi og halda uppá Páskana snemma. Við skemmtum okkar ljómandi, þetta var hress og skemmtilegur hópur af ekta Íslendingum úr öllum hliðum mannlífsins. Svoleiðis hópur er alltaf skemmtilegur, það er svo margt hægt að ræða. Það er merkilegt þetta fyrirbæri með Ora grænubaunirnar. Flestir okkar Íslendinga ólust upp við það að grænar baunir eigi að vera ljósgrágrænar, mjúkar, að detta í sundur, og bragðlitlar. Þegar þetta fyribæri er svo borið á borð fyrir þá sem alist hafa upp við ferskar baunir og heimasoðnar þá er alveg ljóst að Ora grænar eru nú kannski ekki toppurinn á grænubauna veröldinni. Flestum þeirra finnst þær vera ofsoðin kássa af sjálfdauðum baunum sem eiga ekkert skilt við ferskar baunir beint af plöntunni. Okkur finnst samt ennþá voðalega gott að fá Ora en við kunnum líka vel að meta hina gerðina, þessa fersku, og ekki eru strengjabaunir verri, en það er bara eitthvað alveg óaðskiljanlegt á milli hangikjöts og Ora, kótelettur í raspi og Ora, hryggur og Ora, og læri og Ora. Steikja kjöt í raspi geri ég orðið mjög sjaldan en það er alltaf jafn vinsælt með Ora grænum, rauðkáli, brúnuðum og rabarbarasultu. Eitt er það sem ég velti oft fyrir mér þegar ég lít yfir áhaldaskúffuna mína, hvað í veröldinni er buffhamar að gera innanum öll mín eldhústól? Þegar ég var að læra að elda þá var það hluti af eldamennsku á skornu kjöti að berja það sundur og saman með buffhamri, væntanlega til að gera það meyrara, en ég er hreint ekki viss. Ég hef ekki notað hamarinn í mörg herrans ár og ég hef ekki saknað þess að fá ekki barið meyrt kjöt, enda hefur kjötið verið ágætlega meyrt án barningsins.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Valdbeiting

Eitt af því sem angrar mig þessi lifandis ósköp þessa dagana er meðferðin á máli Terri Schiavo, vesalings konunni sem er mjög alvarlega heilasködduð og hefur ekki sýnt merki um meðvitund í fjölda ára. Konan var búin að vera gift í mörg ár þegar þetta gerðist, maðurinn hennar segir að hún hafi sagt það oft að hún myndi aldrei vilja láta halda í sér lífi með slöngum ef ljóst væri að hún yrði aldrei betri og það voru til og með nokkur vitni að þessum orðum hennar. Terri hafði haft tiltölulega lítið samband við fjölskyldu sína í einhver ár áður en hún fékk hjartastopp með þessum afleiðingum en samt sem áður þá fá foreldrar hennar og systkini að fara fyrir dómstóla og hvað eina til að breyta ákvörðun manns hennar og ganga gegn augljósum vilja hennar. Það er margt sem hefur verið alveg með ólíkindum í þessu máli og eitt af því er hversu mikil afskipti stjórnmálamenn hafa haft af þessu máli. Hvað í veröldinni kemur þetta stjórnmálum við? Hvað gefur stjórnmálamönnum siðferðilegt vald til að skipta sér af einkamálum fólks og ganga gegn vilja einstaklinga? Stjórnmálamenn eru kosnir til að vinna að löggjafarvaldinu, og það er jú ljóst að foreldrar og systkini fóru lagalegu leiðina til að halda lífinu í konunni, en það hefði átt að halda þessu innan veggja dómstólanna en alls ekki að fara á vettvang stjórnmála. Það var náttúrulega gert þangað til fylkisstjóri Florida (Jeb Bush) og forsetinn (George Bush) fóru að skipta sér af og misnota vald sitt all verulega. Þetta er eitt af verstu dæmum um misnotkun valds sem ég hef orðið vitni af lengi og er það þó ekki ósjaldan sem við verðum vitna af skrýtnum atriðum í valdboði stjórnmálanna hér vestanhafs. Það er eins og siðferðilegt vald og stjórnmálalegt vald sé óaðskiljanlegt og jafnvel eitt komi með hinu og að þetta tvennt fylgist að. Nú er ég búin að riðja þessu úr mér svo mál er að linni.

mánudagur, mars 21, 2005

Kvörtun!

Ég kvarta hér með upphátt og með hljóðum yfir því að Halur Húfubólguson skuli vera hættur að að blogga.

Jafndægur á vori

Vorkoman er með kaldasta móti þetta árið og jafndægur á vori birtist hér í formi mestu snjókomu sem sést hefur hér í fjölda ára. Þegar hríðinni slotaði á laugardagsmorgun þá höfðu komið hér tæpir 70 sentimetrar af jafnföllnum snjó, það er mikill snjór, enda tók það mig tæpa tvo tíma að moka hér frá með snjóblásaranum okkar sem er afar öflugur og það tekur mig oftast ekki nema svona hálftíma að hreinsa frá með honum. Snjórinn var það djúpur að ég þurfti að fara tvær umferðir yfir allt, efri og svo neðri, því þegar ég reyndi að taka allt í einni ferð þá hvarf blásarinn inní skaflinn. Þetta var betra en hin bestu átök í ræktinni, enda var ekki farið þangað á laugardaginn. Það hefði reyndar verið tilvalið að skreppa þangað í gær en fyrst var það skírn og veisla og svo matarboð um kvöldið og enn og aftur borðaði ég of mikið...og það tvisvar sama daginn, það veit ekki á gott enda er ég á leiðinni í tveggja tíma úthald í ræktinni. Það á að hlýna vel yfir frostmarkið í dag svo hér verða eflaust sundlaugar útum allan bæ seinni partinn því flest niðurföllin eru falin undir mannhæða háum ruðningum. Mér skilst að vorið sé á leiðinni en ekki fyrr en í næstu viku að einhverju viti, við Karólína ætlum að vera í Princeton hjá Kristínu yfir helgina og þar hefur verið hlýtt og það er spáð fínu veðri á laugardaginn þegar fyrsta róðrarkeppni ársins verður háð. Við hlökkum þessi lifandis ósköpin til, það verður gaman að sjá Kristínu og mjög gaman að horfa á róðurinn, þetta er svo falleg íþrótt en voðalega blekkjandi því þegar þessi mjóu, léttu bátar svífa yfir vatnið á flengingsferð þá lítur þetta út fyrir að vera svo átakalítið en þau fáu skipti sem ég hef róið þá hef ég verið nær dauða en lífi á eftir. Á páskadag ætlum við mæðgurnar til New York, spóka okkur í Central Park og njóta þess að vera saman.

vorkoman


vorkoman, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, mars 18, 2005

Vorkoma?

Þá hefur vetur kallinn haft yfirhöndina í bili, og ég sem sat úti í gær í þessum stól, las blaðið og naut vorblíðunnar. Nú er þessi árstíð sem ég líki við stríði á milli náttúruaflanna. Vetur konungur og sumarið eru að berjast um það hvor ætlar að ráða, og vegna þess að ég veit hver vinnur að lokum í þetta sinnið þá hef ég bara gaman af að fygjast með baráttunni. Stríðið sveiflast öfganna á milli hvort sem það er dagssveifla hitastigsins eða ástand ofankomunnar, ýmist er hún í fljótandi formi eða í snjókristöllum. Í gærmorgun var 12 stiga frost en 8 stiga hiti yfir daginn, í dag er sumsé kafaldssnjókoma en á að hlýna á sunnudaginn og rigna á mánudaginn. Það snjóaði um 30 sentímetra í nótt og á að snjóa annað eins í dag og kvöld, svo ætlar hann að gefa sig eftir það og áður en ég veit af verður kominn 30 stiga hiti.

Aftur vetur


Aftur vetur, originally uploaded by Kata hugsar.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Leyndarmálið

Það á að skíra hann Jóhannes Agnar Enemark Madsen til kristinnar trúar á sunnudaginn. Hann er stór og kraftmikill norrænn víkingur. Ég ætla að baka rúgbrauð, skinkuhorn og marengs fyrir veisluna, alvöru íslensk veisla skal það vera, nóg af mat og afgangar í viku hjá þeim Björgu og Bo. Það verða einhver ósköpin af Íslendingum í bænum og í veislunni, það gæti kannski farið vel á annan tuginn. Við eigum þessu ekki að venjast. Við þurfum væntanlega að passa okkur hvað við segjum og hvenær þegar við erum á rölti um bæinn. Eftir allan þennan tíma í útlöndum þá hættir manni til að tala íslensku á vitlausum stað og á vitlausum tíma og verða sér ævarandi til skammar. Við þurfum reyndar að vera afar varkár þá sjaldan sem við álpumst inní Mall of America, þar er alltaf fullt af Íslendingum. Þeir þekkjast á pokamagninu sem þeir burðast með. Í hvert sinn sem við förum inní eina af fimm Leyndarmáls búðunum (Victoria´s Secret) þá bregst það ekki að annað hvort eru Íslendingar þar eða að afgreiðslustúlkan þekkir eftirnafnið og segir undantekningalaust "there are a lot of Icelanders here today, they always shop soooooo much!" Ég forðast því Leyndarmálið í MoA. Oft og iðulega sitja nokkrir karlmenn á bekknum fyrir utan nærfatabúðina, hálfsofandi, og hafa greinilega lítinn áhuga á að fylgja spúsum sínum inní draumaveröldina. Þeir njóta þess væntanlega seinna en það er eitthvað svo dásamlega vandræðalegt að sjá karlmenn elta konur í Leyndarmálinu, þeir eru alltaf eitthvað hálfkindarlegir og vita ekki hvert skal líta og horfa því oft á tærnar á sér rjóðir í kinnum og skiptir þá litlu máli á hvaða aldri þeir eru. Ennþá verra er það þegar þeir eru einir að versla, þá er algjört bíó að fylgjast með, vandræðagangurinn er þvílíkur, enda eru þeir ekki þar til að kaupa full-size, hvít bómullarnærföt, heldur eitthvað mun efnisminna og meira spennandi.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Þetta er mynd af henni Karólínu á Listasögusafninu í Vínarborg. Hún var búin að fá nóg en það var ískalt úti, hríðarhraglandi og rok svo hún vildi helst ekki labba heim á hótel, sömuleið og þá sem við komum. Er hérna niðusokkin í kortið til að reyna að finna útúr lestarleiðum heim. Tókst ekki, því lestin í safnahverfið var lokuð, svo þá var bara að labba heim, með því skilyrði að komið yrði við á kaffihúsi á leiðinni í leit að heitu kakói, sem var gert með glöðu geði. Það er gott að hafa með fólk sem þorir að hugsa upphátt, okkur þessum eldri og ráðsettu fannst líka fjandi kalt en létum hana um að ráða ferðinni, vitandi það að kaffihús yrði fundið á leiðinni. Þeir sem vilja sjá fleiri myndir úr ferðinni geta litið á myndasíðuna okkar:
http://homepage.mac.com/bjarn001/PhotoAlbum10.html

Karolina


Karolina, originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ferðalag

Þá erum við komin til baka eftir Evrópuhopp. Ég varð reyndar eftir á Íslandi þegar þau feðgin lögðu í hann. Það var yfirbókuð vélin svo ég bauð mig fram til að taka næstu vél, enda ekki á hraðferð hingað heim því ég þarf ekki að mæta í vinnu fyrr en seinna í vikunni. Fyrir ómakið fékk ég ókeypis flugmiða milli heimsálfa, ekki amalegt þar sem ég er á ferðinni oftar en flestir. Eitt sinn lýsti vinur okkar, góðskáld og skrásetjari frá Reyðarfirði, því þannig að þegar við hjónin ferðuðumst á milli Íslands og Minnesota þá notuðum við skiptimiða hvors annars, ekki fráleit lýsing það. Vínarborg er fín borg, voðalega fín, en mér fannst Prag skemmtilegri. Vín er annsi þung fyrir sextán ára ungling, jafnvel þó unglingurinn sé ljúfur og þægilegur í alla staði. Eftir að hafa gengið Vín þvera og endilanga í þrjá daga, farið á safn (eintala varð það að vera), Óperu (Leðurblökuna) þá vorum við mæðgur eiginlega búnar að fá nóg, kall minn var á fundum alla daga til hádegis svo við mæðgurnar gerðum þetta í bróðerni fram eftir degi og svo kom hann með í leiðangra seinni hluta dags. Við fengum kalt og napurt veður, hríðarhraglanda, rok (sumir kalla þetta golu, ekki við) svo það þurfti að haga seglum efir vindi og skoðunarferðum haldið innan þolanlegra veðurmarka. Við notuðum okkur hin ótalmörgu kaffihús borgarinnar oft og iðulega, eitt af því sem okkur finnst hvað skemmtilegast að gera á ferðalögum, sitja yfir kaffibolla og horfa á mannlífið. Svo keyrðum við til Prag, fyrst í gegnum sveitirnar þar sem eldgamlir Skódar og pólskir Fíatar lifðu enn nothæfu lífi, gegnumriðgaðir bílar heima við hvert hús og á hverjum akri og ekki mikil efni eða metnað að sjá. Þegar við keyrðum inní Prag var eins og við kæmum inní annan heim, vestræn ljósaskilti á fallegum húsum í neo-klassískum stíl, höfðinglegar byggingar og list af öllu tagi hvert sem litið var. Götur iðandi af lífi og athafnasamt fólk við iðju sína, vigerðir allsstaðar, þrifalegt og snyrtilegt allstaðar. Gyðingahverfið fannst mér það áhugaverðasta, bæði ofsóknarsaga gyðinga og svo athafnasaga þeirra. Svo fórum við á mjög athyglisverða sýningu um sögu kommúnismans og áhrifa hans á sögu, þróun, menningu og hugarfar Tjékka. Ísland tók svo við okkur baðað í sól, en þetta var svona gluggaveður þar sem kuldaboli var í öllum krókum og kimum utandyra, hafði lag á að troða sér innundir hvar sem op var að finna. Okkur tókst reyndar að fara á göngutúr á Ægisíðunni í sólsetrinu fyrsta daginn, áður en kuldinn varð allsráðandi, og ekki var það dónalegt. Á sunnudagskvöldið fór ég svo á sérdeilis skemmtilegt leikrit í Borgarleikhúsinu, Híbýli Vindanna. Efnið er mér náttúrulega skilt, en mér fannst svo gaman að sjá hversu vel þeim tekst að segja þessa flóknu sögu á einfaldan og áhrifamikinn hátt. Leikhús er svo óskaplega skemmtilegt þegar svona vel er gert. Nú bíða eftir mér hrúgur af þvotti svo það er eins gott að byrja á þeirri fyrstu og sjá hversu langt ég kemst.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ferðalag

Þá eru það flugvellir, flugvélamatur, bið, svefn í flugvél, og endalausir flugstöðvagangar sem bíða okkar næsta sólarhringinn. Keyra til Minneapolis seinni partinn í dag einn og hálfur tími, tveggja tíma bið á flugvellinum, til Íslands sex tíma flug, stopp þar í klukkutíma eða svo, til Köben tæplega þriggja tíma flug, bíða þar í þrjá tíma, svo til Vínarborgar eins og hálfs tíma flug. Loksins komið á hótelið rétt fyrir kvöldmat á föstudaginn, langt ferðalag. Vonandi gengur allt upp og við lendum ekki í vandræðum vegna bilana, frestana og annars þess háttar. Það er með því leiðinlegra sem ég veit, vitandi það að ég get engu um það ráðið, ekki vil ég fljúga í bilaðri vél eða vitlausu veðri, ég reyni því að taka þess háttar með stóískri ró, það tekst alltaf, enda hinn möguleikinn heldur leiðinlegur. Á leiðinni til baka þá verður þetta allavega brotið upp með tveggja daga stoppi á Íslandinu. Það verður gott að sitja á Kvisthaganum yfir kaffibolla, nýju brauði og Mogga, horfa út yfir Ægissíðuna, njóta þess að vera Heima. Því miður komumst við ekki á Lönguklöppina okkar í þessari ferð, of stutt stopp til að þeytast norður, nema Halli verði viðþolslaus og verði að sjá Klöppina, það væri alveg eftir honum. Ofvirkur maður. Í sumar verðum við Karólína á Íslandi í sex vikur, ég hef ekki verið svo lengi á landinu í einu síðan við fluttum til Noregs fyrir 18 árum síðan. Ég er farin að hlakka ótrúlega mikið til. Ég hlakka líka mikið til að koma til Vínar, þangað hef ég aldrei komið og ekki heldur til Prag, en þangað ætlum við í næstu viku. Það er svo gaman að ferðast, það er bara þetta transport fram og til baka sem er heldur leiðinlegt en hjá því verður víst ekki komist, það hangir víst allt á sömu spýtunni. Jet-lag er líka voðalega leiðinlegt fyrirbæri, annað sem ég fæ engu um breytt og tek því líka eins og öllu öðru sem ég ekki fæ breytt......bý mig undir það versta en vona það besta. Ég hef ferðast óvenju lítið síðan í haust þegar við fórum til Frakklands. Bara stuttar ferðir innanlands, en nú verður breyting á, í viðbót við þessa ferð þá kemst ég væntanlega til Íslands aftur í maí á leið til eða frá Noregi.

Ég veit ekki hvort ég hef aðgang að netinu á ferðalaginu og því er óvíst með blogg næstu tíu dagana.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Dansiball

Við hjónin fórum á salsa dansleik á laugardagskvöldið var. Það var óskaplega gaman. Þetta var haldið heima hjá vinum okkar sem eru frá Puerto Rico. Þar voru 60 manns og all flestir frá mið- og suður Ameríku og því salsa dans þeim flestum í blóð borinn, enda var dansað og skemmt sér fram á nótt. Þetta var mjög óvenjulegt partý hér í Rochester þar sem öll heimboð og veislur einkennast af tiltölulega rólegum, yfirveguðum samræðum, afar siviliserað og kurteist. Nema þegar við erum á staðnum, þá er mjög oft grínast og strítt, sagðar gamansögur, jafnvel kvartað yfir hávaða á næstu borðum. Sérstaklega þegar Halli er með góðum vinum, þá er allt á útopnu, hávaði og læti og hleigið óskaplega. Í boðskortinu var fólk varað við að þetta yrði ekki afslappað boð, tónlistin yrði á hæsta, það yrði mikið dansað og drukkið. Enda voru þau hjónin með þrjá atvinnu barþjóna sem ekki áttu kyrra stund allt kvöldið. Það gekk eftir, suður-amerísk danstónlist á fullu allt kvöldið og við dönsuðum eins og við ættum lífið að leysa. það er ekki endilega víst að okkar dansaðferð geti flokkast undir salsadans en við reyndum og okkur var kennt, en það þarf meira en nokkurra mínútna kennslustund til að kenna gömlum hundum að sitja svo við reyndum að gera bara eins og hinir. Karólína fór með móður sína að versla fyrr um daginn, því eftir skoðun í fataskápnum þá komst hún að þeirri niðurstöðu að þar var ekkert sem gæti flokkast undir salsadansföt, "not even close", svo ég endaði með svart og hvítt doppótt pils úr þunnu silki, eplagrænan bol og svo háhæla bandaskó í láni úr skápnum hennar.