fimmtudagur, maí 19, 2005

Lífsins gangur

Nú er farið að síga á seinni hlutann á þessu vori. Karólína á tvær vikur eftir af skóla og Kristín tekur sitt síðasta próf á morgun en kemur heim 3ja júní. Þá verður fullt hús hér af fjölskyldumeðlimum í fyrsta sinn í tvö ár. Ég hef verið stjórnandinn hér innan heimilis í bráðum 30 ár en ég finn fyrir þeirri skrýtnu tilfinningu að börnin mín eru að taka yfir, þe.a.s. þegar þau eru heima. Bjarni eldar oft í viku, Kristín kemur og fer eins og fljúgandi fuglinn og eldar sína grænmetisfæðu sjálf, eitthvað sem ég kann ekkert á, og Karólína sér um þvottinn þegar skólinn er búinn, þau koma svo til með að ráða taktinum í fjölskyldulífinu í sumar. Þetta er mikil breyting en hefur samt gerst svona hægt og rólega, stundum koma tímabil þar sem stórbreytingar verða en oftast eru þetta smábreytingar sem gerast á löngum tíma. Það er forvitnilegt að fylgjast með eigin lífi svona utanfrá og reyna að fylgjast með og átta sig á breytingum jafn óðum og þær gerast. Fyrir nokkrum árum síðan þegar þetta var að byrja þá fann ég að mér fannst ég vera að missa þetta eina yfirráðasvæði sem ég hef en svo smám saman hef ég látið eftir og finnst gaman að sjá hvernig þau vinna saman, leysa sín vandamál, deila því sem þarf að deila, hjálpast að og þrasa. Ég reyni að taka ekki þátt í þeirra deilum, reyni að skipta mér ekki af þegar þau ekki vilja það, reyni að taka ekki fram fyrir hendurnar á þeim, reyni að styðja Þau þótt mér finnist þau ekki vera að gera rétt, þau eru jú þrátt fyrir allt "hálf-fullorðið fólk". Stundum tekst mér þetta og stundum ekki, en áfram held ég að reyna.

Engin ummæli: