miðvikudagur, maí 04, 2005
Þessa vikuna er mikið að gera hjá mér. Ég sé um alla greiðasöluna fyrir frjálsíþróttamót í skólanum á laugardaginn. Það verða um 700 keppendur allan laugardaginn og ég er búin að láta búa til boli og stuttbuxur sem við þurfum náttúrulega að selja, helst allt saman. Við verðum svo með þetta venjulega, kaffi, samlokur, pylsur, poppkorn, gos, vatn og íþróttadrykki og svo sælgæti. Ég hef verið að safna saman hópi fólks til að vinna fyrir mig, það þarf heilan her til þess að þetta gangi upp, svo þarf að panta allan matinn, þrífa húsið og ganga svo frá öllu saman. Ég gerði þetta í fyrra líka svo ég veit meira núna en þá að hverju ég geng og hvernig ég á að standa að hlutunum. Allur ágóðinn rennur til frjálsíþróttadeildarinnar svo þetta skiptir all verulegu máli. Það er spáð mjög góðu veðri og það hefur mikil áhrif á söluna, í fyrra var kalt en þurrt, núna á að vera hlýtt og þurrt. Karólína keppir ekki því hún er meidd, hún fer í MRI í fyrramálið, á sjálfan afmælisdaginn. Það verður gott að fá að vita nákvæmlega hvað það er sem hrjáir ökklann, íþróttalæknirinn og sjúkraþjálfarinn halda að núna sé það bein í bein sem orsakar sársaukann en við vitum meira á morgun. Allavega þá er hún í algerri hvíld í 10 daga og svo sjáum við til.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli