laugardagur, maí 21, 2005
Dagsverk
Halli er á Íslandi, fer Norður í dag. Mér skilst að árstíðirnar hafi ruglast í ríminu og vetur kallinn hafi birst aftur síðustu dagana í Eyjafirðinum. Kartöflunum verður samt potað niður hvernig sem viðrar, jafnvel þótt jarðvegurinn væri frosinn þá myndi hann finna leið til að klára þetta mikilvæga vor verk. Hér hefur verið afar vætusamt síðustu tvær vikurnar, rignt meira og minna á hverjum degi. Það er samt hlýtt, rúm 20 stig í gær og verður um 25 í dag. Það er prom í dag og því nokkuð mikilvægt að hann hangi þurr seinni partinn. Vinahópur Karólínu kemur hingað í myndatöku um fjögur leytið, það stendur til að taka myndirnar hérna útí garði, og svo er haldið af stað í matinn, limósínukeyrsluna að dansstaðnum, "grand march" (þar sem öll pörin eru kynnt með stíl), og svo að lokum dansiballið sjálft. Kjóllinn er tilbúinn, bleikur og glitrandi, svo og skórnir og allt hitt. Ég ætla að klára að setja niður sumarblómin mín í dag og vonandi tekst það, veðurspáin er mér ekki hliðholl. Það er svo gaman þegar það er búið því þá verður allt svo sumarlegt og fínt. Bara að dádýrin komi ekki í matarleit í garðinn minn, þá verður nú ekki mikið eftir að blómunum mínum. Annars keypti ég hræðilega illa lyktandi efni til að sprauta á plönturnar, efni sem á að fæla dádýrin, íkornana og kanínurnar frá. Það versta er að það fælir mannskeppnuna líka frá, það er svo voðalega vond lykt af því.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli