þriðjudagur, september 30, 2008

Það var mikið sem gekk á í gær. Ekki bara í fjármálaheiminum heldur allsstaðar í kringum okkur. Veitingastaðnum sem Bjarni hefur unnið á í fjögur ár var lokað, bara svona uppúr þurru. Það var allt slökkt þegar kokkarnir kom til vinnu í gær. Hann var í skólanum og fékk símtal frá samstarfsmönnum. Vinir okkar eru að skilja, og svo annað smávægilegt eins og tognanir, veikindi, og annað þar fram eftir götunum. Allt kom þetta uppá yfirborðið í gær. 

Við Halli siglum þetta á okkar tiltölulega ligna sjó meðan aðrir berjast í stórsjó lífsins... sjö-níu-þrettán. 

Það er eins gott að passa uppá sitt og sína, alla daga, allan daginn. 

Það kemur ekkert af sjálfu sér.

laugardagur, september 27, 2008

Það var óskaplega heitt í gær. Það fór yfir 30 gráður, og það er of mikið í lok september. Ég slökkti nefnilega á loftkælingunni fyrir tveimur vikum síðan og ætla mér ekki að kveikja á henni aftur fyrr en næsta vor. Það hefur ekki komið kaldur dagur enn sem komið er þetta haustið. Ég var því óþolinmóð og gerði kjötsúpu í gær. Nokkuð sem ég geri ekki nema það sé frekar kalt og hráslagalegt úti. Mig langaði bara svo voðaleg í góða kjötsúpu. Og svo var annar í kjötsúpu í dag, þriðji á morgun. Hið allra besta mál. Ekki get ég sagt að þetta hafi verið íslensk kjötsúpa því ekkert íslenskt var í henni. En hefðin og uppskriftin er íslensk. Lambakjöt soðið í marga tíma, ferskur laukur, gulrætur, kartöflur, rófur, cellerí og hvítkál, og svo smá lambakraftur. Ég átti ekki meira en þetta var alveg nóg. Súpan var himnesk.

Svo fóru kuldaskil yfir í nótt og í dag voru ekki nema ein 18 stig og það er nú alveg viðráðanlegt. Ég tók mig því til og bakaði rúgbrauð í fyrsta sinn þetta haustið. Ég elda og baka  sumsé sem minnst hérna innanhúss þegar heitt er því nóg er nú heitt samt hér í eldhúsinu hjá mér þótt fari ekki að bæta við hitanum frá eldavél og ofni. Svo verður alvöru brauðbakstur á morgun ef öll plön ganga eftir. Gróft og gott heimabakað brauð. Mmmmmm. Ég hlakka til að fá lyktina í húsið.

föstudagur, september 26, 2008

Svei mér þá. Vísir segir að afbrotafólkið sé nú komið aftur á götuna en verði í farbanni til 17. október. Ekki hefur það húsnæði til að sofa í. Ekki komast þau á Lönguklöpp aftur. Vonandi komast þau ekki í hús gamla fólksins sem var á spítala þegar þau tóku húsið þeirra trausta taki. Hvert skildu þau fara næst?
Fréttin í Mogganum af innbrotsþjófunum í gær var ekki vel skrifuð. Allavega tókst mér að lesa hana þrisvar, skilja hana mismunandi í fyrstu tvö skiptin og skildi hana svo alls ekki í það þriðja. Ég var greinilega ekki sú eina því í prentaða Mogga í dag var hún skrifuð öðruvísi og mun skýrar. Þar kemur fram að parinu verður haldið inni þangað til málið er upplýst og ástæðan er sú að hætta er talin á að þau komi sér úr landi ef þeim verður sleppt. Þau búa sumsé áfram nyrst í Þórunnarstrætinu á kostnað Akureyrabæjar. Áfram í fríu fæði og húsnæði.

fimmtudagur, september 25, 2008

Innbrotsþjófarnir verða bak við lás og slá eitthvað áfram. Ég vona að Mogginn ljúgi ekki frekar en fyrri daginn. Gunni Jóhanns stendur sig í stykkinu. Þegar hann koma á Lönguklöpp sá hann náttúrulega mynd af sér uppá vegg. Útskriftarmyndin er þar í hásæti. 

miðvikudagur, september 24, 2008

Veðrið hefur verið eindæmum gott síðustu vikuna. Alla daga er 20-25 stiga hiti og sól. Það var reyndar mjög hvasst í gær og brjálað þrumuveður í gærkveldi og nótt en svo kom enn einn dásemdar dagurinn. Haustlitirnir eru allsráðandi, og veröldin því afskaplega falleg í gulum, appelsínugulum, rauðum, brúnum og grænum litum. Jörðin að verða þakin í laufum. Það skráfar í þeim þegar gengið er, hvort sem það eru dýr eða menn á ferð. Það sést í hús sem ekki hafa sést síðan í vor núna þegar laufin falla og trén gisna. Haustlyktin er komin þótt hitastigið sé enn hátt. Lykt af þurrum laufum og rotnandi jörð. Þrátt fyrir að jafndægur á hausti hafa verið á mánudaginn sést ekkert í kuldann. 
Hann kemur. 
Það er öruggt. 
Ég þarf ekkert að vera óþolinmóð.

Allt gekk þetta vel í mælingunum í gær. Ég er í súper formi. Það eru reyndar nokkur atriði sem þarf að bæta, t.d. að komast uppí "superb" í þoli. Ég er bara í "excellent" þar. Ég á líka að létta mig enn meira, þar er ég bara í "moderately lean" en vildi gjarnan komast í "lean" flokkinn. Til þess þarf ég að léttast um 3 kg. 

Það sem ég get velt mér uppúr þessu öllu saman! Það er reyndar svolítið gaman að hugsa um þennan blessaða líkama og komast að því hvernig minn, þessi eini sem ég á, vinnur. Hvað það er sem lætur mér líða vel, eða illa, og hvað ég get boðið honum án þess að skaða hann. Það er reyndar með ólíkindum hvað margar rannsóknir eru túlkaðar undarlega þegar kemur að svona mælingum. Það var t.d. mælt hlutfall mjaðma og mittis. Skv. rannóknum þá gefur þetta hlutfall hugmynd um hvort ég sé í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma og sykursýki. Því hærra tölugildi þvi meiri áhætta. Þar sem ég hef engar mjaðmir og afar lítið mitti þá er þetta hlutfall hátt, eða 0.8, ég er sumsé næstum því bein í langinu! Þá er ég víst í áhættuhópi vegna þess að ég hef svo mikla magafitu. En.....ég hef enga magafitu! Ég er bara ekki laginu eins og rannsóknin gerði ráð fyrir. Aumingja konan sem mældi mig hafði ekki mikinn áhuga á að taka þessa umræðu með mér. Ég held ég hafi verið aðeins of ágeng í spurningunum mínum. 

OOOPS! ekki í fyrsta sinn.

þriðjudagur, september 23, 2008

Tilfinningalegur skaði innbrotsins verður sá allra versti. Allt annað eru smáatriði. En ég ætla ekki að láta þetta hyski ráða yfir tilfinningum mínum. Þau vinna ef ég læt þetta hafa varanleg áhrif á mig. Þetta tekur bara tíma.

Annars er ég að fara í klukkutíma heilsufarsmat í dag. Þar verður farið yfir
Heilsufarssögu
Líkamlegt ástand verður mælt og metið:
hvíldarpúls, blóðþrýstingur, líkamsþyngd, BMI, samsetning líkamans, ummál, "aerobic capacity" (hvað er það á því ylhýra?), styrkur, liðleiki, og jafnvægi.
Markmið sett fyrir viðhald og bætingu
Umræða um heilsu, heilsurækt og mataræði.

Það eru tæp þrjú ár síðan þetta var gert síðast. Það verður fróðlegt að sjá breytingarnar á hvorn veginn sem þær eru.

mánudagur, september 22, 2008

Þá er búið að finna innbrotsþjófana. Við fréttum af þessu á föstudaginn en hér er fréttin í Mogganum Þau höfðu sturtað fötum niður í klósettið og svo haldið áfram að nota það þangað til úrgangurinn flæddi uppúr og afleiðingin varð sú að gólfin í húsinu eru ónýt. Það á svo eftir að sjá hversu auðvelt verður að ná lyktinni úr húsinu.

Þetta er svo sorglegt. "Lönguklapparlyktin" sem er af öllu þarna inni var hlý lykt sem var blanda af furu, sítrónu og lavender. Lykt sem verið hefur í húsinu frá upphafi og það fyrsta sem ég geri þegar ég kem inn eftir langa fjarveru er að draga djúpt að mér andann.  

Hvernig verður að koma þangað aftur?

fimmtudagur, september 18, 2008

Það var brotist inn á Lönguklöppina okkar. Líklegast í síðustu viku. Þetta var mjög einkennilegt því þetta var ekki innbrot þar sem ætlunin var að stela eða eyðileggja. Einhverjir höfðu brotið glugga í innri hurðinni og komið sér fyrir í stofunni. Drukkið allt vín (það var lítið til eftir afmælið), keypt sér fullt af mat sem geymdur var í ísskápnum, ælt í sófann, og jafnvel eitthvað meira, og svo stíflað niðurfallið á baðinu. Það er það versta því gólfið í forstofunni, svefnherberginu, og hluta stofunnar er ónýtt. Ekki hafði verið farið inní svefnherbergin. Löggunni finnst þetta hið undarlegasta mál.

Það verður erfitt að vera ein á Lönguklöpp næst þegar þess er þörf.

Ég var svo reið í gærkveldi að ég átti í mestu vandræðum með að sofna, ég hreinlega nötraði og skalf af reiði. Ég get svo sem alveg þakkað fyrir að ekki fór verr, en ég bara get það ekki. Þetta var alveg nógu slæmt fyrir mig.

Ég skil ekki það fólk sem gerir svona. 

þriðjudagur, september 16, 2008

Svei mér þá, það er svo lítið sem gerist hjá mér núna að það er með ólíkindum. Hausinn á mér er reyndar svo stappfullur af matsfræðum að ég held að sá hluti af minninu, sem frátekinn var fyrir allt annað, sé hreinlega að verða yfirtekinn af þessum óskunda. Ég vakna, fæ mér morgunmat, les Moggann, sest niður við skrifborðið klukkan 8, stend upp fyrir hádegismat klukkan 12, sest aftur hálftíma seinna, og stend svo upp aftur einhversstaðar á milli 4 og 7 fyrir kvöldmat eða ræktina. Og svo sum kvöld sest ég aftur til klukkan 10. Ég sé ekki nokkra hræðu allan liðlangan daginn. Ég er samt svo heppin að börnin mín og maki hringja í mig mörgum sinnum á dag. Það er það eina sem brýtur upp mynstur dagsins.

Og svona verður þetta eitthvað áfram. GGGGAAAAARRRRRGGGGHHHHH

laugardagur, september 13, 2008

Ég fer til hennar Karólínu minnar á föstudaginn. Ég verð fram á sunnudagskvöld. Pabbi hennar er á vakt þess helgi svo við verðum tvær mæðgurnar á vappi. Ég er komin með all verulega þörf á að komast í burtu svo þetta verður hið besta mál. Ég kemst ekki til Íslands fyrr en eftir vörn, hvenær sem hún verður nú, og einu ferðalögin sem ég leyfi mér fram að þeim tíma eru til barnanna. Ég ætla að reyna að fara til New York um miðjan október þegar kall minn verður á Spáni og svo förum við hjónin þangað um miðjan nóvember svo eitthvað verður nú af ferðalögum þótt ég vildi nú gjarnan hafa þau fleiri. Ég get bara ekki rótað of mikið til í rútínunni því þá verður mér ekki eins mikið úr verki. Það gengur nú víst ekki núna þegar endaspretturinn er hafinn.

fimmtudagur, september 11, 2008

Það gekk ljómandi vel á fundinum með leiðbeinandanum mínum í gær. Hún var bara svona líka ánægð með mig. Ég kem til með að verja fyrir lok árs, kannski í nóvember, hver veit. Dagsetningin verður ákveðin....seinna.

þriðjudagur, september 09, 2008

Hvað er eiginlega að honum Árna Johnsen? Hann er hreinlega allsstaðar. Ekki hef ég tölu á hversu margar minningargreinar hann hefur skrifað á árinu, en þær eru ófáar, og núna síðast um Sigurbjörn biskup, og svo þetta bréf hans til Agnesar Braga. Það sannast enn einu sinni að svona tal/skrif eins og þau sem hann skrifaði um Agnesi segja meira um manninn sjálfan en þann sem skrifað er um.

mánudagur, september 08, 2008

Ég er að hugsa um, í tilefni dagsins, að gefa sjálfri mér þriggja tíma veru í Ræktinni í dag. Kannski pílates, eða jóga, eða nudd með. Ég sé til hvernig gengur að skrifa.

sunnudagur, september 07, 2008

Nú er ég búin að fara í nýju Ræktina tvisvar. Í gær var ég í tvo klukkutíma, einn í þoli og einn í pilates og það var alveg æðislegt. Gat ekki verið betra. Í dag var ég nú bara í einn tíma. Halli var með mér í dag og þar sem hann er með disk í bakinu sem tók uppá þeim óskunda að renna til hliðar og þrýsta á taug þá er hann svo sem ekki til stórræðanna. Hann finnur reyndar ekki til þegar hann hleypur og lítið þegar hann lyftir en hann sefur afar illa og er því ósköp þreyttur. Hann var á vakt um helgina og er því ekki alveg uppá 10. Hann er samt hetja eins og fyrri daginn, kvartar aldrei, gerir allt sem þarf og meira til og vinnur mikið. Hann gat því ekki verið meira en í klukkutíma í Ræktinni en það var voðalega gott að hreyfa sig smá. Ég á enn eftir að reka mig á eitthvað sem mér ekki líkar, ekki það að ég sé að leita, en þetta er svo fínt allt saman að ég er alveg bit. 

Ég er að byrja fyrstu skrefin í nýrri rútínu. 

Þetta kemur allt saman.

laugardagur, september 06, 2008

Ég er að velta fyrir mér að skipta um heilsuræktarstöð. Ég hef stundað mína, þessa yndislegu, síðan við fluttum hingað til Rochester fyrir átta árum síðan. Síðustu þrjú árin hef ég farið þarna a.m.k. þrisvar í viku, oft fimm til sjö sinnum. Þar áður eitthvað sjaldnar en oftast tvisvar til þrisvar. 

Mayo Clinic opnaði heilsurækt fyrir starfsmenn sína fyrir ári síðan. Þetta er rækt af allra flottustu gerð, kostar okkur $25 á mann á mánuði, en lækkar í $20 ef við förum að meðaltali þrisvar í viku, og í $15 ef við förum að meðaltali fjórum sinnum í viku. Þetta er reiknað yfir þriggja mánaða tímabil. 

Þar kostar ekkert að hafa einkaþjálfara, ekkert fyrir jóga og pílates, eða alla aðra sprikkl bekki sem þeir bjóða uppá. Það kostar ekkert að fara í mat á líkamsástandi, mat sem tekur hátt í tvo klukkutíma að gera. Tvær fínar sundlaugar, heitir pottar, gufuböð, "afslöppunar stólar,"  hlaupabretti og öll önnur þol þjálfunar tæki sem hægt er að hugsa sér, svo og fleiri lyftingatæki en komist er yfir. Veitingastaður, banki og barnapössun. 

Þetta er ótrúlega flott en það er erfitt að skipta um Rækt. Þetta er eins og að skipta um vinnustað, það þarf að læra allt uppá nýtt, og ég er svo ótrúlega vanaföst að svona breytingar eru stórhættulegar. Ég bara get ekki hugsað mér að fækka ferðum mínum í Ræktina og því ætlum við að vera meðlimir í gömlu Ræktinni eitthvað lengur á meðan ég er að venjast þessari nýju. Ég þarf að vera alveg viss að mér líki staðurinn áður en ég gef frá mér þennan gamla.

Það er stundum erfitt að vera vanaföst. 

föstudagur, september 05, 2008

Ég er með dúndrandi hausverk og er óglatt eftir alltof mikið tölvugláp, lestur og skrif. En þetta er sko ekki búið enn, og líklega bara þó nokkuð eftir. Ég fer á fund með leiðbeinandanum mínum á miðvikudaginn og þá fæ ég betri tilfinningu fyrir stöðunni.

þriðjudagur, september 02, 2008

Mótorhjólaferð

Maðurinn minn elskulegur á þrjú mótorhjól. Tvö risastór BMW hjól og svo eina litla vespu. Ég er afskaplega lítil áhugamanneskja um mótorhjól og finnst reyndar maður minn hafa of mörg áhugamál sem teljast til áhættu athafna. Hann flýgur litlum flugvélum, keyrir um á mótorhjólum, hjólar á reiðhjóli í umferðinni og hleypur um bæinn í myrkri. Ég hef því tekið þá ákvörðun að læra ekki að keyra mótorhjól, mér finnst það ekkert spennandi og að auki of hættulegt. Ég hef líka neitað að sitja aftan á hjá kalli mínum. Sérstaklega var ég hörð á þessu þegar krakkarnir voru yngri. Ég vildi ekki taka áhættuna ef eitthvað skildi nú koma fyrir. 

En svo brotna krosstré sem önnur tré. 

Við fórum í rauðvín og osta partý til vina okkar um s.l. helgi. Þau búa á hinum enda bæjarins og því þurftum við að keyra til þeirra. Við vorum rétt komin heim frá því að keyra frá Minneapolis og vorum ekkert áfjáð í að setjast inní bílinn aftur og Halli náði að sannfæra mig um að það yrði ekkrt mál að fara saman á mótorhjólinu, því stærsta. Hann skildi nú sko keyra afskaplega rólega og varlega, enda með dýrmætan farm. Og hún ég gaf eftir og settist á þetta ágæta tryllitæki. Allt gekk þetta nú svo sem slysalaust en þetta með rólegheitin var nú ekki alveg eftir bókinni. Heimferðin var öllu hraðari en sú fyrri og eitt sinn leit ég á hraðamælinn og hann lá í 120, jamm 120. Það var ekki mikið yfir leyfilegum hraða en yfir honum samt, og henni mér var ekki skemmt. Það var nú svo sem ekki mikið sem hægt var að gera til að láta vita um ónánægju mína á 120 km hraða og með þéttan hjálm á höfðinu annað en að klípa og kreista og það gerði ég. Varlega samt því ekki gat ég truflað ökumanninn, það er of hættulegt á stóru mótorhjóli.

Það virkaði, hann hægði á sér um stund, þangað til við komum á svæði með lágum hámarkshraða. Þá fór hann að keyra af skynsemi. 

Ég lifði þetta af en ekki er ég viss um að ég fari í aðra ferð með honum í bráð enda lítið um þægindi á hörðu sæti mótorhjólsins.

mánudagur, september 01, 2008

Mér finnst það móðgun við gáfur kvenna að McCain skuli velja Söru Palin sem var varaforsetaefni sitt, eingöngu vegna þess að hún er kona. Að halda það við kjósum konur eingöngu vegna kyns en ekki vegna hæfileika, reynslu og/eða skoðana er ákaflega sorglegur vitnisburður um skilning McCain á konum. Palin hefur tveggja ára reynslu í stjórnmálum, jamm, tveggja ára reynslu! Hann er 72 ára gamall og sýnir aldur sinn oftar og greinilegar en hann gerði fyrr í sumar. Ef hann verður kosinn forseti og eitthvað kemur fyrir hann í starfi þá tekur við af honum kona sem hefur tveggja ára reynslu af því að stjórna einu af fámennustu fylkjum landsins og á þá að stjórna stærsta efnahagskerfi heimsins. Það er ekki góðs viti. Kannski ekki eins slæmt og Bush, en gott er það ekki. Það er ekki mjög gott að gera mistök í svona starfi. Það lítur út fyrir að hún hafi gert ágæta hluti þarna í Alaska en hún hefur verið í pólitísku stjórnunarstarfi í tvö ár. McCain hafði úr fjölda kvenna að velja sem hafa langa reynslu af stjórnmálum en nei, hann valdi þá fallegustu sem hann fann! Sorrí, afskaplega lítið trausvekjandi.