þriðjudagur, september 02, 2008

Mótorhjólaferð

Maðurinn minn elskulegur á þrjú mótorhjól. Tvö risastór BMW hjól og svo eina litla vespu. Ég er afskaplega lítil áhugamanneskja um mótorhjól og finnst reyndar maður minn hafa of mörg áhugamál sem teljast til áhættu athafna. Hann flýgur litlum flugvélum, keyrir um á mótorhjólum, hjólar á reiðhjóli í umferðinni og hleypur um bæinn í myrkri. Ég hef því tekið þá ákvörðun að læra ekki að keyra mótorhjól, mér finnst það ekkert spennandi og að auki of hættulegt. Ég hef líka neitað að sitja aftan á hjá kalli mínum. Sérstaklega var ég hörð á þessu þegar krakkarnir voru yngri. Ég vildi ekki taka áhættuna ef eitthvað skildi nú koma fyrir. 

En svo brotna krosstré sem önnur tré. 

Við fórum í rauðvín og osta partý til vina okkar um s.l. helgi. Þau búa á hinum enda bæjarins og því þurftum við að keyra til þeirra. Við vorum rétt komin heim frá því að keyra frá Minneapolis og vorum ekkert áfjáð í að setjast inní bílinn aftur og Halli náði að sannfæra mig um að það yrði ekkrt mál að fara saman á mótorhjólinu, því stærsta. Hann skildi nú sko keyra afskaplega rólega og varlega, enda með dýrmætan farm. Og hún ég gaf eftir og settist á þetta ágæta tryllitæki. Allt gekk þetta nú svo sem slysalaust en þetta með rólegheitin var nú ekki alveg eftir bókinni. Heimferðin var öllu hraðari en sú fyrri og eitt sinn leit ég á hraðamælinn og hann lá í 120, jamm 120. Það var ekki mikið yfir leyfilegum hraða en yfir honum samt, og henni mér var ekki skemmt. Það var nú svo sem ekki mikið sem hægt var að gera til að láta vita um ónánægju mína á 120 km hraða og með þéttan hjálm á höfðinu annað en að klípa og kreista og það gerði ég. Varlega samt því ekki gat ég truflað ökumanninn, það er of hættulegt á stóru mótorhjóli.

Það virkaði, hann hægði á sér um stund, þangað til við komum á svæði með lágum hámarkshraða. Þá fór hann að keyra af skynsemi. 

Ég lifði þetta af en ekki er ég viss um að ég fari í aðra ferð með honum í bráð enda lítið um þægindi á hörðu sæti mótorhjólsins.

Engin ummæli: