mánudagur, maí 18, 2009

Ég er mikla heimþrá, þ.e. til Íslands. Þetta blessaða heim, hvar sem það nú er. Það skapast náttúrulega aðallega vegna þess að Halli og Bjarni eru heima en líka vegna þess að vorin eru oft svo yndisleg á Íslandi. Eftir langa, dimma og oft kalda og umhleypingasama vetur þá er svo yndislegt að fá bjart og ljúft vorið. Ég ætlaði að segja hlýtt vorið en það er nú allur gangur á blessuðu hlýindunu. Ég veit að það hefir verið hlýtt síðustu daga, allavega fyrir sunnan og eitthvað þar áður fyrir norðan og það er svo gott sérstaklega eftir alla stormana, rigningarnar, stórhríðarnar og hretin sem herjað hafa á Landið mitt kalda í eiginlegri og óeiginlegri merkingu í allan vetur.

Við Halli komum heim 13. júní og svo aftur í ágúst. Ekki svo langt þangað til.

fimmtudagur, maí 14, 2009

Kall minn er á leið til Íslands á morgun ásamt frumburðinum. Þeir feðgar ætla að visitera um landið þvert og endilangt að mér skilst. Svo þarf að setja niður kartöflurnar, þær dýrustu sem fyrir finnast. Ég verð því ein í kotinu fram á miðvikudag en þá koma dæturnar keyrandi frá New York.

Í hvert sinn sem þær keyra þessa 20 tíma keyrslu þá verð ég alltaf jafn hissa á hversu brattar og sprækar þær eru við heimkomuna. Hún ég væri ekki svona hress eftir 20 tíma í bíl. Ekki einu sinni í þeirra góða félagsskap.

þriðjudagur, maí 12, 2009

Ég er ekki alveg viss um að mér takist að taka þátt í þríþraut í sumar því mjaðmirnar mínar hafa svona af og til verið að mótmæla álaginu. Hjólið gengur vel og sundið ljómandi en hlaupin eru að angra mig. Alltaf þegar ég held að ég geti bætt við hlaupaæfingarnar þá bara garga mjaðmirnar og ég verð að taka pásu frá hlaupum. Ég æfi orðið a.m.k tvo klukkutíma á dag, þar af 60-90 mínútur í þoli og svo styrktar- og teygjuæfingar að auki og það er allt í lagi svo fremi sem ég hleyp ekki meira en 20-30 mínútur og ef ég hjóla fyrst í 45-60 mínútur þá verð ég fara afar varlega í að hlaupa á eftir og það er alveg sama hvað ég held púlsinum lágum eða háum, mjaðmirnar eru bara ekki alltaf til í að taka þátt í þessu skaki mínu. Ég hef prófað að halda púlsinum í 145, 155, 160 og 170 og jú það skiptir máli uppá hversu þreytt ég verð en mjöðmunum er eiginlega alveg sama hversu hratt eða hægt hjartað er að pumpa þær bara segja stundum stopp og ég get ekki þjösnað mér í gegnum verkina, það þjónar afar litlum tilgangi þegar komið er á minn aldur.

Vesen að vera með svona slitnar mjaðmir.

mánudagur, maí 11, 2009

Ég les nú alveg ágætan skammt af íslenskum fréttum og að sjálfsögðu les ég af og til um íslensku útrásarvíkingana og hvernig þeir gengu til verka. Allt of oft hætti ég í miðju kafi því ég hreinlega missi söguþráðinn hvað eftir annað og ef ég ekki skrifa hreinlega niður jafnóðum nöfn og fyrirtæki og teikna svo inná hvernig hver tengist hverjum, svona rétt eins og ég gerði sem unglingur þegar ég var að lesa Íslendingasögurnar í fyrsta sinn, þá bara næ ég ekki sambandi við efnið. Af og til koma svo greinar sem skýra þetta svo ég skilji og er grein/pistill Sigrúnar Davíðsdóttur ein af þeim. Svei mér þá ef ég skildi bara ekki um hvað var fjallað og hver atburðarásin var og tengsl aðalleikaranna.

Ég er nú kannski eitthvað treg en þessi krosseignatengsl og tengslanet skil ég bara ekki nema að litlu leiti. Ég skil að þetta snýst um krosseignatengsl og þátttakendur lána og taka lán hjá sjálfum sér með veði í loforðum og væntingum en ég bara veit ekki hver er hvað og hvers er hvurs því ég man aldrei nöfn þátttakendanna.

Kannski var bara þessi lýsing á nógu litlu athæfi til að ég skildi og náði söguþræðinum.

föstudagur, maí 08, 2009

Ég hef mikið velt fyrir mér Íslandi og ESB og hvort gott eða vont sé fyrir landið að sækja um aðild. Ég sé mikla hliðstæðu við Noreg að því leytinu til að olían þeirra er okkar fiskur. Ef Norðmenn gengju í ESB yrði olíueign þeirra stjórnað af ESB og á sama hátt yrði fiskveiðum Íslendinga stjórnað að ESB ef Íslendingar gengju í ESB? Er sumsé öllum auðlindum þjóða stjórnað frá ESB?

Ég er bara ekki alveg viss um hvernig þetta er og hvernig auðlindastýringu yrði háttað í raun.

Ekki þar fyrir að ég get ómögulega skilið hvernig ESB getur bjargað einu né neinu svona á næstu 2-3 árum þar sem innganga er langt ferli, fyrst á Íslandi og svo hjá ESB. Svo held ég að íslensk stjórnvöld verði að glíma við innanlandsmál og koma þeim á hreint áður en sótt er um inngöngu. Það verður víst að taka til hjá sér og skúra, skrúbba og bóna áður en sýnt er og söluferlið hefst.

Ég er ekkert viss um að innganga sé endilega vond en það þarf að taka til innanbúðar án ytri áhrifa áður en hægt er að velta fyrir sér kostum og göllum inngöngu.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Þegar ég var í ræktinni í fyrradag þá horfði ég á Dr. Phil í sjónvarpinu. Hann var í Detroit að tala við og um fólkið í borginni þar sem atvinnuleysi er gífurlegt, bílaverksmiðjurnar loka hver á fætur annarri og þeir sem hafa vinnu lifa í ótta að missa vinnuna. Hann talaði mikið um árhifamátt hugarfarsins, jú það er erfitt að missa vinnuna og það er skelfilegt að geta ekki borgað reikningana en hann benti líka á að þótt börnin hafi ekki Wii og hætta verður með kapalsjónvarp þá er eftir sem áður hægt að tala saman, fara út úr húsi, leika sér og spila leiki sem ekkert kosta. Hann talaði líka um áhrif þess að sífellt að tala um hversu ömurlegt ástandið sé og hve allt sé breytt og á niðurleið. Hann sagði eitthvað sem svo að það er hægt að tala sig inn í eymdina og það er líka hægt að tala sig útúr henni.

Ég veit að ég lifi við forréttindi og að okkur líður vel og því er erfitt að setja sig inní spor þeirra sem erfitt eiga en það hefur ekki alltaf verið auðvelt hjá okkur og við höfum ekki alltaf átt fyrir mat, hvað þá leikföngum fyrir börnin og ég veit hversu hugaraflið getur verið sterkt. Það hef ég reynt oft og mörgum sinnum.

þriðjudagur, maí 05, 2009

Til hamingju með daginn Karólína mín!

Karólína 5ára


Karólína 5ára
Originally uploaded by Kata hugsar
Fimm ára falleg stelpa

Karólína


Karólína
Originally uploaded by Kata hugsar
Eins og hálfs árs dúkkukerling.

Karólína og Kristín á hjóli

Systrunum hefur aldrei leiðst saman.

Karólína Kindergarten


Karólína Kindergarten
Originally uploaded by Kata hugsar
Fyrsti skóladagurinn 7. september 1993

Nýfædd Karólína á Aker Sykehus í Osló

"Litla" örverpið mitt er 21 árs í dag.

föstudagur, maí 01, 2009

Mikið sem það er nú gott að vera komin heim. Nú eru engin ferðalög á dagskrá fyrr en í júní þegar við förum til Íslands. Það verður reyndar nóg að gera í vinnunni næstu vikurnar svo þetta er hið besta mál allt saman. Vorið er komið á fleygiferð og allt gras orðið grænt og komin græn slikja á skóginn. Sum berjatrjánna í bænum eru rétt um það bil að springa út og eftir viku til tvær verður bærinn bleikur og hvítur þegar öll berjatrén eru í blóma. Það er spáð 20-25 stiga hita og sól næstu vikuna svo kannski blómstra trén fyrr en seinna. Það hefur nefnilega rignt ágætlega að undanförnu og það er víst forsenda þess að allt blómstri og grænki. Kirsuberjatréð mitt er að gera sig tilbúið fyrir vorfegurðina en eplatrén eru eitthvað hálf döpur. Við þurfum að huga betur að þeim og athuga hvað um er að vera. Ég ætla að byrja tiltekt í garðinum á sunnudaginn og reikna með að setja niður sumarblómin innan tveggja vikna.