mánudagur, desember 31, 2007

Þegar ég var alast upp á gamla Fróni þá var vindur og rok mælt í vindstigum. Þessu var breytt fyrir einhverjum árum síðan, löngu eftir að ég flutti til útlanda og er vindur nú mældur í metrum á sekúndu og hef ég nánast enga tilfinningu fyrir þessari mælieiningu. Í ofsaveðrum undafarinna vikna heima á Íslandi þá hef ég verið að reyna að gera mér almennilega grein fyrir rokinu og ég hef snúið þessu uppí mílur á klukkustund. Ég hef svo sem ekki mikla tilfinningu fyrir þeirri einingu heldur en ég veit að 20mílur/klst er hávaðarok hjá mér en það er svona 9m/s, og t.d. skv. reglum hér er hreint alls ekki hægt að spila golf í 40mílum/klst. Í dag er t.d. spáð 35m/s á Kjalarnesinu og þegar ég umreiknaði það í mílur/klst þá er það rétt undir 80!!! Samkvæmt ólyggnum vefsíðum þá er sá vindhraði level 1 hurricane! Hvað þá vindhviðurnar í fyrradag sem fóru uppí 70m/s. Það er category 5, takk fyrir. Það hefur sumsé verið afskaplega hvasst, öðruvísi er ekki hægt að lýsa veðrinu.

föstudagur, desember 28, 2007

Mikil dásemd sem þessi blessuð jól eru. Hér gengur lífið fyrir sig í mjög svo lágum og afslöppuðum gír, þ.e.a.s. hjá okkur mæðgunum. Halli hefur verið á vakt í fimm daga en í dag er hann búinn og kominn í fjögurra daga frí og þá getur hann vonandi tekið þátt í þessari allsherjar afslöppun sem við hin höfum verið í. Bjarni og Nicole komu á aðfangadag og við nutum aðfangadags og jóladags saman í mikilli ró og glöddumst yfir góðum mat, gjöfum og spjalli, grín og glensi. Ég fékk svo óvænta og mjög svo góða gjöf frá IRB (Internal Review Board) í University of Minnesota á annan jóladag þar sem mér var tilkynnt að rannsóknaráætlunin mín hafi verið samþykkt án athugasemda, og þá er mér ekki til setunnar boðið og rannsóknir hefjast við fyrsta tækifæri sem er í byrjun/miðjum febrúar.

föstudagur, desember 21, 2007

Það er svo gott að hafa stelpurnar heima. Eins og mér finnst gaman að fylgjast með börnunum mínum verða að fullorðnu fólki sem tekur sínar ákvarðanir og afleiðingum þeirra þá finnst mér ekkert eins notalegt og húsið fullt af börnum. Þær komu báðar útkeyrðar heim eftir erfiðar annir og við erum að reyna að telja þeim trú um að svefn sé af hinu góða. Það sé hið besta mál að sofa vel og lengi...því er ekki alltaf vel tekið, þ.e.a.s. þær jánka því en gerðirar eru stundum aðrar. En samt, síðustu tvær nætur hafa þær náð 8-10 tímum sem er hreint ótrúlegt því þegar þær eru í skólanum þá þykir það gott að ná 6-7 tímum. Ég er hrædd um að hún ég væri orðin framlág eftir svoleiðis svefn í nokkra daga, hvað þá mánuði. Enda er ég ekki tvítug, ég verð stundum að minna sjálfa mig á það að ég get ekki alveg afkastað eins og ég gerði. Svo koma Bjarni og Nicole á sunnudaginn og þá verðum við með fullt hús. Gaman, gaman.

mánudagur, desember 17, 2007

Fleiri gamlar myndir úr handraðanum

1. des 1976


1. des 1976
Originally uploaded by Kata hugsar

Rakstur í Herðubreiðarlindum


Þá er jólaboð deildarinnar um garð gengið og allt gekk þetta ljómandi vel. Það voru um 60 manns hér í gær og mikið fjör í hópnum. Ég er reyndar eins og gömul blaut tuska í dag, ekki veit ég hvers vegna þetta var nú ekki svo mikið meira en venjulegur dagur en þreytt er ég í öllum skrokknum. Stelpurnar mínar koma svo heim á morgun. Karólína flaug til systur sinnar á laugardagskvöldið og þær eyddu gærdeginum í New York í roki og rigningu og entust því ekki mjög lengi, en nógu lengi eftir því sem þær segja mér. Ég er á milli verkefna, næsta er svona rétt að komast á koppinn og þá er allt með kyrrum kjörum og því ætla ég að nota tímann til jólaundirbúnings. Eitthvað þarf að baka en það verða ekki nein ósköp; randalína, skinkuhorn, hjónabandssæla, spesíur og rúsínukökur. Ætli ég láti það ekki nægja nema sérstakar óskir komi upp um annað og meira.

föstudagur, desember 14, 2007

Hún á afmæli hún Kristín, hún á afmæli í dag.... Hún stækkaði í nótt, hún stækkaði í nótt.....nei eins og hún sagði sjálf þegar ég talaði við hana áðan þá vill maður ekki stækka þegar maður er 22 ára, því það þýðir stækkun á þverveginn. Hún fæddist á laugardagsmorgni á FSA fyrir 22 árum síðan. Ég var búin að ganga í gegnum skelfilega meðgöngu þar sem ég þyngdist um 34 kg og því var reynt að kom mér af stað á þriðjudeginum fyrr í vikunni, og svo aftur á fimmtudeginum en ekkert gekk. Svo þegar mín ákvað að koma í heiminn þá gerðist það allt á nokkrum mínútum, það fáum að pabbi hennar rétt komst inná stofuna til að taka á móti henni. Ljósmæður og læknar máttu ekki einu sinni vera að því að færa mig inná fæðingarstofuna, hún fæddist bara inná stofu blessunin og það með þvílíkum látum að ég gargaði eins og ljón. Halli bað mig um að hafa ekki svona hátt! Þetta hefur verið hennar einkenni síðan, hlutirnir gerast þegar henni dettur í hug og þá alltaf í brunahasti og með mikilli óþolinmæði og af óskaplegum kraftir svo ekkert stendur í veginum. Hún er alveg yndisleg og það er svo gaman að eiga svona börn sem eru uppfull af orku og lífsgleði, hlýju og umhyggju.

miðvikudagur, desember 12, 2007

22 stiga frost og snjór yfir öllu, hann hverfur ekki fyrr en í mars ef að líkum lætur. Stelpurnar koma heim á þriðjudaginn, hjá Karólínu hefur verið mjög heitt, 26 stiga hiti og sól í gær og hún fékk lit á sig á æfingu. Þetta er reyndar hitabylgja á hennar slóðum. Það er reyndar tiltölulega heitt hjá Kristínu í New Jersey en á að kólna niður undir frostmark svo það verður áfall fyrir likama þeirra að koma heim í kuldann. Báðar hlakkar til heimkomu en þær þurfa einhvern tíma til aðlögunar geri ég ráð fyrir. Það er reyndar smá hlýnun rétt eftir helgi, ekki yfir frostmark samt, svo þetta verður engin 20-30 stiga frost heimkoma, en hér er mun kaldara en þær eiga að venjast.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Ég skilaði af mér verkefni í dag. Þetta var um menntakerfi röntgendeildarinnar hér. Ég var svolítið stressuð fyrir fyrirlesturinn, þetta er jú þrátt fyrir allt deild mannsins míns en allt hafðist þetta og gekk reyndar mjög vel. Það er svolítið einkennilegt að koma með harða gagnrýni á deild sem er búin að vera númer eitt í landinu í mörg ár en það má alltaf bæta á sig blómum eins og Tóta tindilfætta sagði. Ég talaði við 37 af staffinu, allt fólk sem situr í einhverri menntanefndanna...þær eru átta... og þetta var reyndar mjög skemmtilegt því ég átti mörg mjög skemmtileg samtöl um menntun í röntgen og menntun röntgenleikna sérstaklega og það er svo gaman að tala við fólk sem hefur áhuga og orku til að sinna menntun, það eru nefnilega ekki allir sem hafa þennan brennandi áhuga og því er gaman að tala við þá sem hafa áhuga á menntun ekki bara eigin ágæti og þekkingu. Þá er það næsta verkefni, ég er ekki viss um að það verði eins skemmtilegt því ég veit ekkert um aðstæður svo það á eftir að taka mig langan tíma að setja mig inní þetta. Svo er ég líka að skoða eitt verkefni enn sem gæti verið óskaplega skemmtilegt því það er um "diversity" Nú til dags snýst það um margt annað en kyn, kynþátt eða trúarbrögð, það snýst um hugsun og afstöðu til hlutanna ekki útlit og þetta gæti orðið mjög spennandi umræður. Þetta verkefni hefur reyndar dregist því miður því ég verð á Íslandi í þrjá mánuði í vetur við rannsóknir og allsendis óvíst að mér takist að klára þetta áður en ég fer í byrjun febrúar.

föstudagur, desember 07, 2007

Ég var rétt í þessu að muna hvað unga fókið er að gera á myndinni hér fyrir neðan. Þau voru að reyna að finna út hversu há Drangey er! Þegar við stóðum á bjargbrúninni þá vorum við að velta fyrir okkur hversu langt væri niður og þar sem enginn vissi þetta nákvæmlega þá var bara að reyna að finna það út með mælingum og stærðfræði. Það var sumsé tekinn tíminn af því hversu lengi steinninn var í falli og það eru greinilega þrír að vinna við tímatöku, einn að kasta, ein að taka mynd og ein að horfa á...þetta er eins og með fingurna sem duttu í sjóinn. Ekki man ég niðurstöðurnar eða hvort þær nálguðust rétta niðurstöðu en ég man afskaplega vel veðrið, fegurðina og útsýnið. Allir á myndinni vinna á einhverju sviði vísinda, þrír læknar einn hjúkrunarfræðingur og einn skógfræðingur og öll voru þau í námi á þessum tíma.

Ung blómarós


Ung blómarós
Originally uploaded by Kata hugsar
Við Jökulsárlón í ágúst 1983

Eðlisfræðirannsókn í Drangey

Þetta unga fólk er hér að rannsaka fallhraða í Drangey 1983. Þau eru LÓ, ÞHJ, FB, GÞG og IK

fimmtudagur, desember 06, 2007

Meiri snjór, meiri snjór, meiri snjór


Snjór í Rochester


Snjór í Rochester
Originally uploaded by Kata hugsar

Það snjóar og snjóar og snjóblásarinn vill ekki þíðast mig, bara Halla, og ég handmoka því frá a.m.k. annan hvorn dag. Það eru mörg ár síðan það hefur verið svona mikill snjór í desember og það er svoooooo gaman. Það er undurfallegt úti, hljóðin í náttúrunni lág og þýð og gott að sitja inni við skriftir með fallegt útsýni yfir garðinn minn. Það er líka voðalega gott að skjótast út til að moka frá....reyndar svo sem ekkert að skjótast ef moka þarf frá öllu því það tekur mig hátt í tvo tíma, en gott er að fara út
í ferska (ískalt líka) loftið öðru hverju. Ég rúllaði graskerunum sem við skárum út fyrir Halloween útí skóg og ég sé spor eftir dádýrin í kringum kerin og graskerin hafa minnkað til muna. Gott að vita að einhver getur nært sig á þeim, ekki finnst mér þau góð til átu.

mánudagur, desember 03, 2007

Ég tók mig til í gær og fór í gegnum gamlar myndir og ég má til með að deila þessum þremur til að byrja með. Sú fyrsta er frá brúðkaupsveislunni okkar. Veislan þætti heldur klén nú til dags með 32 í kaffi í heimahúsi! Sú næsta er af ungum menntskælingum á leið í fallhlífarstökk, þeir eru frá vinstri: HB, RA, ÞHJ, GÞG, PS og IK. Þriðja myndin er tekin þegar við fórum ásamt góðum hópi vina útí Drangey á vegum Guðríðar haustið 1983, hreint ógleymanleg ferð í stafalogni og sól.

gifting


gifting
Originally uploaded by Kata hugsar
20. nóvember 1982

fallhlifarstökk


fallhlifarstökk
Originally uploaded by Kata hugsar
Fallhlífarstökk, febrúar 1977 eða 1978

ungir menn


ungir menn
Originally uploaded by Kata hugsar
Á leið útí Drangey í september 1983