fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Gestur

Hingað kom góður gestur úr Höfuðstað Norðurlands. Hann vinnur í Húsinu sunnan Lystigarðs. Með mörgu góðu fólki. Mörg þeirra þekkjum við. Önnur ekki. Sum þeirra hafa heimsótt okkur. Önnur ekki. Hann elti mann minn á röndum í tvo daga, hvort hann hafði gagn eða gaman af veit ég ekki. Eftir því sem ég kemst næst þá höfðu þeir nafnarnir það fínt saman. Allir sem þegið hafa boð hans um að eltast þetta hafa skemmt sér vel, og að sögn haft mjög mikið gagn af. Kannski fáum við fleiri. Jafnvel einhverja sem við þekkjum vel. Gamla vini. Kannski í haust. Þá verður gaman. Okkur finnst gaman að fá gesti. Þeir mega alveg vera hérna lengi. Ekki bara til að spítalast og lækna.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Þetta eru myndir frá sunnudagsverkunum, snjókall og Karólína í englagerð.

Engill


DSCF0019, originally uploaded by Kata hugsar.

vetur


DSCF0016, originally uploaded by Kata hugsar.

Vetur

Örlítil snjókoma úti. Í logninu svífa lauflétt snjókornin niður á alhvíta jörðina, þetta á ekki að vera lengi og er ekki mikið. Nóg til þess að hljóðin úti eru dempuð, rétt eins og veröldin sé vafin inní bómull. 10 stiga frost, rétt árstíð á réttum tíma. Það brakar í snjónum undan fæti þegar gengið er. Góð lykt af nýföllnum snjó og eldi í arni. Ég taldi 31 dádýr hlaupa yfir lóðina. Þau eru vel haldin enda veturinn verið þeim léttur, nóg af æti á ökrunum. Þau borða þá ekki plönturnar mínar á meðan. Það kannski breytist ef hann heldur áfram að snjóa. Þau láta allavega garðinn minn ekki í friði á sumrin. Þá halda þau að blómin og plönturnar mínar séu eingöngu handa þeim til ætu og að ég planti fyrir þau hlaðborði á vorin svo þau hafi nóg á haustin. Alveg sama hvað ég æsi mig og siga hundinum á þau, þau koma alltaf aftur til þess að borða meira. Snjóaði 30 sentimetra af níðþungum blautum snjó aðfaranótt sunnudagsins. Eftir snjómokstur eftirmiðdaginn þá var farið út í snjókast og snjókallagerð. Fínn efniviður.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Laugardagsmorgun

Klukkan er 9 að morgni og það er hljótt í húsinu eftir fjörugt kvöld. Körfuboltaliðið hennar Karólínu spilaði síðasta heimaleik ársins í gærkveldi svo komu þær allar hingað í pizzu, bíó og "sleepover", allar 18. Það voru svo sem ekki mikil lætin, þær voru þreyttar eftir leikinn og svo er tímabilið alveg að verða búið og eftir körfubolta 5-6 sinnum í viku síðan í nóvember þá er nú ekki mikið eftir á tanknum. Ég er búin að baka snúða að amerískum sið í morgunmat og bíð núna eftir að þær fari að rumska. Þetta er búið að vera mjög óvanalegt keppnistímabil, þær töpuðu 7 af fyrstu 8 leikjum ársins, oftast með 1-3 stigum, en hafa síðan unnið 11 í röð. Þjálfurunum tókst að halda móralnum uppi þrátt fyrir slæma byrjun og láta þær líta framávið og ekki einbeita sér af því sem miður fór í tapleikjunum heldur það sem vel var gert. Ég dáist að þeim fyrir að hafa tekist að gera þetta og nú þegar umspilið byrjar þá skiptir mórallinn svo miklu máli. Karólína er reyndar farin að hlakka mikið til þess að körfutímabilið verði búið, því þá taka frjálsar við, hennar uppáhald, en nú þegar útsláttakeppnin er byrjuð þá verður víst að halda einbeitingunni og ná eins langt og hægt er, sem er nú ekki mjög langt hér í landi körfuboltans. Ef þær vinna tvo leiki í umspilinu þá þykir það kraftaverk frá svona litlum skóla. Fyrsti leikurinn á miðvikudaginn í Owatonna!

föstudagur, febrúar 18, 2005

Islenska

Ég komst yfir dásamlega grein um hið ilhýra móðurmál okkar sem ber heitið "The Awful Icelandic Language". Það er margt í þessari grein sem staðfestir enn og aftur að "glöggt er gests augað". Brendan Glacken, höfundur greinarinnar, tekur fyrir beygingar, kyn orða og annað óvenjulegt í tungumálinu á mjög svo skemmtilegan hátt. Það sem mér fannst albest í greininni var lýsing hans á orðinu "ha" og notkun þess í málinu. Hvað "ha" þýðir fyrir enskumælandi er sumsé "I beg your pardon, I´m afraid I didn´t quite catch what you just said, and would you mind repeating it?" Síðan ég las þessa grein fyrst hef ég hlustað vel eftir notkun fólks á "ha" og þetta minnir mig oft á kínversku þar sem samhengi, hljómfall, og röð í setningu stjórnar þýðingu orða. Ég er ekki hótinu betri en aðrir, segi ha í tíma og ótíma í öllum mögulegum og ómögulegum tóntegundum, stundum jafnvel "what" sem er óskaplega ruddalegt, og meina náttúrulega alls ekki "hvað" heldur allt mögulegt annað, óskilgreint að sjálfsögðu. Hér í miðvestrinu er fólk að afsaka sig í bak og fyrir daginn út og inn, segja "please", "pardon", "excuse me", "I´m sorry", í annarri hverri setningu svo það er ekki að furða að þegar útlendingar fara í innkaupaleiðangur í Bónus á föstudagseftirmiðdegi, þar sem allir eru fyrir öllum, fólk rekst hvert utaní annað án þess að segja svo mikið sem fyrirgefðu, þá upplifa Ameríkanar þetta sem afar ruddalegt samfélag og svo ef beðist er afsökunar þá er bara sagt "ha".

Veðurfar

18 stiga frost í dag, veturinn á að lifa eitthvað áfram, það er snjór yfir öllu og á að bætast í yfir helgina. Svo fer að styttast í mars og þá kemur vorið. Hér teljast vera árstíðaskipti á jafndægri og svo sólstöðum og allar árstíðar eru því þrír mánuðir. Merkilegt hvað þetta meginlandsloftslag sem Benni landafræðikennarinn talaði svo oft um hér fyrir langa-löngu er nákvæm lýsing á veðurfarinu hér, svo ekki sé talað um eilíft tal um áhrif sjávar á lofthita og þá blessaðan golfstrauminn sem heldur Íslandi í byggð. Þótt við séum á 45. gráðu, þeirri sömu og suður Frakkland, þá er veðurfarið hér gjörólíkt suður Frakklandi, því miður. Ég hefði ekkert á móti því að búa við veðurfarið þar, svo ekki sé talað um landslagið.....fjöll og sjór! Við verðum í mið-Evrópu í mars, Vín og Prag og svo Reykjavík náttúrulega, og þá fáum við að upplifa eitthvað annað en þurran kuldann sem hér er, kannski verður það bara rakur kuldi og hráslagi í staðinn.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Vegna þess að Ærir vinur okkar skrifar um gamlan læriföður í pistli sínum í dag (www.aerir.blogspot.com) þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á Kastljós frá því í gærkveldi atburður sem gerðist fyrir hartnær 27 árum síðan. Þá gengum við hjónin ásamt fríðu föruneyti MAinga um hæðir Akrópólis og í þeim hópi var Ærir svo og lærifaðir þessi sem var annar af fararstjórunum. Við eyddum dagsparti í að ganga þarna um, rifja upp söguna, og þóttumst vera gáfað og vel lesið fólk menntað í Höfuðstað Norðurlands. Ærir var þá eins og hann er nú óskaplega áhugasamur um ljósmyndun en að auki hafði áhugi á kvikmyndun tekið sér bólfestu í drengnum og þrammaði hann því um með aðstoðarmanni sínum vel byrgur tækjum og tólum til að sinna þessum áhuga. Sem við göngum þarna um þá bendir virðulegur fararstjóri Æri á skiltin sem við gengum framhjá með 100 metra millibili og á stóð "no moving pictures allowed" og bað vinsamlegast um að kvikmyndavélin yrði hvíld á meðan við stoppuðum við á Akrópólisinu. Ærir svaraði að bragði "ég tek ekki hreyfðar myndir" og þar með var málið afgreitt, íslenskukennarinn sáttur við þýðinguna og Ærir hélt áfram að mynda á sína 8mm vél.

Það var gaman að hlusta á þá Böðvar og Davíð tala um vesturfarana og þá sérstaklega þótti mér áhugavert svar Böðvars við spurningunni um landleysi þeirra sem flytja burt en verða Íslendingar alla ævi og ala sín börn upp í því sama, og eiga því hvorki heima hér eða þar. Málið er mér nefnilega skilt, ég telst vera nútíma vesturfari, en ég vil ekki kannast við að vera landlaus því íslensk er ég og verð alltaf, en ég hef eilífar áhyggjur af rótum barna minna og þeim anda sem við höfum alið þau uppí, þ.e.a.s. að við erum íslensk en það bara vill svo til að við búum ekki að staðaldri á Íslandi. Við tölum öll íslensku saman og erum íslenskir ríkisborgarar og þar með íslensk, ekki satt! Hvaða áhrif þetta hefur á þau til langframa á eftir að koma í ljós, rétt eins og allar aðrar uppeldisaðferðir þá er ekki á vísan að róa þar frekar en annarsstaðar. En hvenær hættum við að vera Íslendingar?

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Minningar og lykt

Það er merkilegt hvað lykt tengir minningar, atburði, stað og stund alveg sama hversu langt er um liðið. Ég fór að ná í hann litla tveggja mánaða Jóhannes á barnaheimilið í gær. Ég hef ekki komið inná barnaheimili í mörg herrans ár og þaðan af síður á vöggustofu og sem ég geng inní anddyrið þá mætir mér lykt sem er sambland af mjólk, ungabörnum, hreinlæti og það sem ég tengi mannlegri hlýju og notalegheitum. Á svipstundu hvarf ég inní heim sem ég hef ekki verið í í 16 ár, eða síðan Karólína var nýfædd, heimur ungabarna, þroska, fyrsta bros, fyrsta hjal, fyrstu tár. Það kom mér þægilega á óvart hvað þetta var óskaplega notaleg tilfinning því með öllu ungbarnastandinu var nóg af vökunóttum, grát, óöryggi, samviskubiti og áhyggjum. Að viðbættri lyktinni þarna inni komu svo hljóðin af hjalandi ungabörnum, smávæli, raulandi fóstrum og konum að lesa og mér leið svo vel, ég slappaði af við það eitt að hlusta, horfa og draga að mér ilminn. Mér fannst óskaplega notalegt og skemmtilegt að eiga börn (NB. eiga ekki eignast, meðganga er ekki fyrir mig) og finnst alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim þroskast og breytast í fullorðið fólk en ég velti oft fyrir mér þegar ég lít til baka hvort ég máli þennan ungbarnatíma í rósrauðan bjarma sem taki ekki með í reikninginn alla dagana sem þau voru veik, ég var veik og þreytt, stressið á morgnana að koma öllum í skóla og barnaheimili og sjálfri mér í vinnu og svo að safna öllu liðinu saman seinni partinn, þreyttu, svöngu og oft úrillu. Það var svo greinilegt að það eru ekki daprar eða stressaðar minningar sem ég tengi lyktinni á vöggustofu, þvert á móti þá var þetta óskaplega notalegt og afslappandi.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Þau voru öll svo sæt og fín, Meredith og Adam og svo Karólína og Matt. Þau skemmtu sér vel bæði í matnum og á ballinu svo þá er tilgangnum náð, er það ekki!

Sweeheart Dance


DSCF0035, originally uploaded by Kata hugsar.

Svona leit nú veröldin út þegar ég kom niður í morgun, snjóaði í nótt rennblautum þungum snjókornum. Eftir vorblíðu helgarinnar þá var þetta óvænt, ég hélt það ætti að rigna eins og í gær. Það verður erfitt að moka þessum þunga frá!

Vetrarmorgunn


DSCF0003, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Dagurinn minn

Morgunmatur. Nýbakað rúgbrauð með hollenskum osti, kaffi með karamellurjóma, appelsínudjús og vítamín í formi Sportþrennu frá Lýsi. Undurfallegur morgun, snjóað hefur undanfarna daga en nú er logn og sól, fimm stiga frost, en á að hlýna upp fyrir frostmark í dag og næstu daga. Ég þarf að moka frá. Kannski fer ég á gönguskíði á sunnudaginn, líklegast ekki á morgun því þá er stóri dagurinn hjá Karólínu, dans um kvöldið, hársnyrting í fyrramálið, þau ætla öll að borða hjá okkur og foreldrarnir koma svo í byrjun til að taka myndir af herlegheitunum og þá þarf rauðvín og osta með. Svo ætlum við Íslendingarnir að hafa bíókvöld á eftir því hér heima. Við leigjum þá góða mynd sem ekki er lengur í bíóhúsunum en enginn gat séð, á morgun eiga Varði og Eygló að velja. Þá fleigja sér allir í stóra rauða sófann og hafa það gott. Núna á eftir fer ég í leikfimi, ætla að vera lengi í dag, kannski tvo tíma ef ég er dugleg, senda pakka til Íslands ekki má gleyma því, senda myndavél í viðgerð, fara í vinnuna, svo á fund, körfuboltaleikur í Austin í kvöld, klukkutíma keyrsla hvora leið.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Islandskynning

Héðan er að fara hópur svæfingalækna til Íslands í sumar. Að mér forspurðri bauð maðurinn minn mig fram sem upplýsingafulltrúa Íslands á svæðinu og ég, eins og hlýðinni og undirgefinni eiginkonu sæmir, mætti á fund hjá þeim í hádeginu í dag. Þar sem engir tveir taka hádegismatar pásu á sama tíma þá var fólkið að koma og fara í hálfan annan tíma, en sem betur fer hafði ég ekki undirbúið formlega kynningu heldur bjóst við að þetta yrði svona almennt spjall, sem það og varð, aðallega vegna þess að þannig vildi ég hafa það. Ég byrjaði á því að skýra út fyrir þeim nafnavenjur okkar, og að venju þá er það eitt af því áhugaverðara, svo fór ég að lýsa veðrinu og hverju mætti búast við í júlí sem er aðallega rok, stundum rigning, stundum sól en oftast vindur. Einn af bestu kennurum sem ég hef unnið með um dagana lýsti veðri þannig fyrir mér að það væri alltaf gott veður þegar það er logn, og því er ég hjartanlega sammála þegar kemur að íslensku veðri. Hér gilda önnur lögmál, í sumarhitunum þá er voðalega gott að hafa vindinn annars verður kæfandi heitt, að sama skapi þá er vindurinn skelfilegur í vetrarhörkum. Þegar líða tók á kynninguna hjá mér þá fór fólk að breyta plönum um Íslandsferðina og nú voru heilu fjölskylduferðirnar komnar á áætlun. Það sem allir vildu þó fá að vita hvort í veröldinni væri ekki hægt að fá ódýrari gistingu en $400 á nóttina, verðið sem Hótel Nordika setur upp. Einn sagðist ekki hafa hugsað sér að kaupa hótel á meðan hann væri á Íslandi, hann vantaði bara gistingu. Ég reyndi mitt besta að skýra út að dollarinn væri mjög veikur og krónan sterk og allt það en það breytir því ekki að gistingin yrði fáránlega dýr og því þarf ég nú að finna íbúðir eða ódýrari gistingu fyrir eitthvað af þessu fólki. Allir voru afar spenntir fyrir bændagistingu, sérstaklega þau sem ætla útá land, svo nú er um að gera að leita upplýsinga og hjálpa mannskapnum....ekki má ég verða manninum mínum til skammar!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Fuglinn

Fyrir nokkrum árum síðan þá eyddi Kristín mín einum sjö vikum hjá tvíburabróður mínum og mágkonu sem áttu þá heima í Innbænum. Kristín lifði eins og blómi í eggi, enda eina stelpan og þau sómahjón komu fram við hana sem sína eigin dóttur, en þar sem hún er nú ekki mjög "ladylike" þá passaði hún vel inní strákahópinn. Þau eyddi sínum sumardögum við allrahanda leiki og störf; byggðu kofa, óðu í pollinum, borðuðu Brynjuís, heimsóttu Nonnahús, fleyttu kerlingar og rúlluðu sér í bröttu brekkunni ofan við hús. Þegar restin af fjölskyldunni kom svo í ágúst til að ná í stelpuna þá var greinilegt að Kristín var orðin ein af hópnum í götunni og eitthvað fannst strákunum til hennar koma því þeir eltu hana hvert sem hún fór og fylgdu henni í hvaða vitleysu sem henni datt í hug. Einn daginn sátum við mágkonurnar yfir kaffibolla og koma þá ekki Kristín og Pétur inn með alla halarófuna á eftir sér og sögðu okkur að þau hefðu fundið dauðan fugl og nú átti sumsé að fara fram alvöru jarðarför. Okkur varð nú um og ó og báðu þau um að þvo sér afar vel um hendurnar því fuglinn gæti verið lúsugur. Þau gerðu það, fengu kassa og eldhúspappír, og svo voru þau á hlaupum út og inn í dágóða stund þar á eftir, en það var mikil leynd yfir þessu öllu saman. Við reyndum að spyrja hvernig fugl þetta hefði verið en það var eitthvað lítið um svör, en lítill var hann greyið og þurfti náttúrulega alvöru útför með söng og öllu tilheyrandi. Bróðir minn kom svo heim frá vinnu seinna um daginn og spurði hvað hefði eiginlega gengið á því það væri lítið leiði fyrir framan hús með krossi, íslensku flaggi, blómum og öllu tilheyrandi. Við sögðum honum náttúrulega alla sorgarsöguna og hversu nærri sér þau hefðu tekið dauða þessa litla fugls. Þar sem hann er fuglaáhugamaður þá lét hann sér nú ekki nægja svörin sem við fengum og vildi nú fá almennilega lýsingu á fuglinum. Jú, hann var gulur. Hann hafði rauða fætur. Úr plasti. En greyið hafði misst hálfan hausinn og annan fótinn og þar sem páskarnir voru löngu liðnir þá þurfti hann að fá fallega jarðarför því hann hafði setið aleinn uppá hillu allan þennan tíma þangað til hann datt niður og lenti í munni litlabróður og hlotið þennan líka skelfilegan dauðdaga.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Ur umferðinni

Ég hef verið að fylgjast örlítið með dæmalaust skemmtilegri umræðu í Noregi síðustu dagana, allavega er umræðan á vefsíðu Aftenposten, hvort hún er í samfélaginu veit ég ekki. Þeir vinir okkar Norðmenn þykja nefnilega vera lélegir bílstjórar þegar kemur að hringtorgum, aðallega vegna þess að þeir gefa ekki stefnuljós þegar keyra á útúr hringnum. Það má sekta hvern þann sem gerist sekur um þetta óhæfi heilar 2000 norskar krónur og þykir mér mikið, enda þegar við bjuggum í Noregi þá hefðu 2000 norskar krónur dugað fyrir mat í mánuð fyrir fimm manna fjölskylduna okkar. Hér í bæ er eitt hringtorg og ef Norðmenn þykja slappir í hringtorgaakstri þá eru Rochesterbúar sínu verri, þeir eiga það til að keyra vitlausan hring, líklegast vegna þess að það er styttra ef fara á þrjáfjórðu úr hringnum. Annars veit ég svo sem ekkert af hverju, við Karólína urðum bara vitni af svona akstri fyrir nokkru og veltum við því fyrir okkur lengi hvers vegna í veröldinni ökumaðurinn gerði þetta og komum upp með allra handa skýringar, sumar haldbærar, aðrar ekki, sumar fyndnar og aðrar ekki. Ég hafði aldrei á minni ævi keyrt í kringum hringtorg fyrr en ég flutti til höfuðborgarinnar úr höfuðstað norðurlands þar sem ekkert hringtorg var og að ég held að séu bara tvö núna, og flutti ég þá í íbúð við Hagatorg, sem er með stærri hringtorgum, og er rétt hjá hringtorginu við Þjóðminjasafnið, sem er eitt af minni hringtorgunum, en með ógnar umferð á. Það er þannig með stefnuljós og hringtorg, sérstaklega ef þau eru lítil, þ.e.a.s. hringtorgin, þá má ekki mikið fara úrskeiðis með tímasetningu stefnuljóssins til að það sé sett á annaðhvort of snemma eða of seint. Hvorugtveggja náttúrulega stór-hættulegt. Ég er reyndar sannfærð um það að Íslendingar flytja eingöngu inn bíla sem búið er að taka stefnuljósin úr, allavega eru stefnuljós eitt af því sem fólk er duglegt að spara, svo þá kemur þetta útá eitt, hugsanalestur er besta tækið til að forðast óhöpp í umferðinni. Það er reyndar voðalega erfitt fyrir mig þegar ég er heima á Íslandi því ég er ekki góð í hugsanalestri því ég hef ekkert þurft á þessari kunnáttu að halda síðan ég flutti af landi brott fyrir voðalega löngu síðan og því er ég alltaf hrædd um líf mitt í borgarumferðinni í henni Reykjavík þegar ég þarf að keyra þar. Ég held að Íslendingar ættu að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar þegar kemur að sektum fyrir stefnuljósanotkun, og láta gróðann ganga í geirfulgssjóðinn, sá sjóður hlýtur að vera tómur og því nauðsynlegt að fjármagna hann.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Ég er svo lánsöm að vera í þeirri aðstöðu að vinna bara þegar mig langar til. Ég tek að mér verkefni fyrir Mayo þegar þeir þurfa á mér að halda og ég hef tíma til, vinn t.d. ekkert á sumrin þegar ég vil gjarnan eyða tíma á Íslandi og með börnunum mínum. Gallinn við þetta er sá að það koma tímabil þar sem ég hef lítið að gera þegar ég gjarnan vildi hafa nóg en þá fer ég inní rútínu þar sem pláss er fyrir fullt af handavinnu, leikfimi, heimsóknir til vina og annað skemmtilegt. Ég hef ekki haft það rólegt síðan í haust en nú lítur út fyrir tiltölulega rólegt tímabil framundan með nokkrum fundum á viku og lítilli úrvinnslu, enda eins gott því við erum að fara til Vínar í mars og svo er ég orðin svona auka amma fyrir einn lítinn íslenskan sem fæddist hér í desember. Ég tek hlutverkinu mjög alvarlega og passa hann þegar þarf og tala við hann stanslaust á íslensku. Reyndar má ekki segja upphátt að hann sé íslenskur því hann er hálf-danskur, en í augum okkar Íslendinganna á staðnum þá er hann náttúrulega okkar en foreldrarnir tala dönsku sín í milli svo nú er um að gera að vefja drenginn í því ilhýra og passa uppá arfleifðina. Móðir hans er nú reyndar fullfær, og rúmlega það, um að hafa allt eins íslenskt og hægt er í kringum hann en drengurinn á mjög svo ákveðinn Dana fyrir föður sem ekki kemur til með að læra íslensku í bráð svo við verðum að koma drengnum til hjálpar. Alvöru amma hans kemur frá Íslandi í dag og það verður gott fyrir alla. Við ætlum svo að hafa bollukaffi á sunnudaginn, einum degi fyrr, en það er nú allt í lagi. Það á reyndar að slá saman bollukaffi, pylsupartý og superbowl. Úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum er sumsé á sunnudaginn. Þeir kalla það lið heimsmeistara sem vinnur, en þar sem restinni af heiminum er ekki boðin þátttaka þá er þetta náttúrulega ekkert annað er ameríska meistaramótið í ruðningi, en titillinn lýsir svo dásamlega vel afstöðu Ameríkana til sjálfs sín. Við komum til með að borða pylsur og svo bollur í eftirmat og horfa með öðru.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Verslað

Ég lenti í raunum í gærkveldi, ég fór nefnilega með tveimur karlmönnum að versla, það vantaði gjöf fyrir eiginkonu annars þeirra. Fyrst átti að kaupa ilmvatn en rétta tegundin var ekki til svo þá fór í verra því nú þurfti frumkvæði, ímyndunarafl, og kunnáttu til. Það var gengið aftur á bak og áfram um búðina, þessi var stór á flestum mælistikum en ekki af amerískri stærðargráðu en heil lifandis ósköp til sem mér hefði t.d. þótt afar skemmtilegt að fá, en þar sem þetta var ekki fyrir mig þá var ekkert keypt. Þá fórum við í leiðangur um verslunarmiðstöðina en ekki tók betra við því þeir mennirnir ræddu bara um hvað við konurnar getum verið erfiðar og óþakklátar, það er alveg sama hvað þeir kaupa við sjáum bara ekkert spennandi við þeirra val. Þetta minnti mig á afmælisgjöf tengdaföður míns til eiginkonu sinnar fyrir margt löngu, hann keypti sláttuþyrlu handa konu sem aldrei gerir garðavinnuna nema að hugsa vel um blómin, hefur aldrei slegið lóðina hvað þá notað sláttuþyrlu. Þeir vinirnir voru svo sammála um erfiði kvenna að til varð nýyrði í norsku: gaveangst! Það er sumsé svo erfitt að finna gjafir handa eiginkonunum að það kemur af stað ógrynni líkamlegra og andlegra áhrifa; hækkuðum blóðþrýsting, hröðum hjartslætti, ógleði, og síðast en ekki síst geðvonsku. Þeir voru sammála um það að það væri betra að gleyma "gjafadögum" og taka afleiðingunum með reisn frekar en að ganga í gegnum "gaveangst". Ég kannast ekki við að vera erfið eiginkona og alls ekki þegar kemur að gjöfum, ég er svo auðveld; bók, skíðadót, golfdót, og smotterí með, hvað er svona erfitt við það! Ég á aldrei í erfiðleikum með að finna gjafir handa manninum mínum, ég veit nefnilega mun betur en hann hvað hann vantar, og ekki síður hvað hann langar í. Svona er nú gott að hafa konu sem hugsar vel um maka sinn sem ekki má vera að því að gera það sjálfur.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Lindi

Ég var ganga um aðalgötu Princeton fyrir nokkrum vikum síðan og mæti ég þá ekki þessum líka vígalega hrúti. Mér verður starsýnt á gripinn því alíslenskur var hann, reyndar ekki lifandi en uppstoppaður, og svona líka glæsilegur, minnir á lýsingu Hjartar frá Tjörn sem hann Ærir (http://aerir.blogspot.com/) vinur okkar skrifar um í dag. Á plötu við hrútinn stóð að hann héti Lindi, væri íslenskur, og síðan var tíundað úr hvaða sveit hann væri en svona smáatriði man ég ekki enda ekki hrútaáhugamanneskja. Við mæðgurnar stóðumst ekki mátið og gengum inn í verslunina sem á Linda til að spyrja um ætt og uppruna að góðum og gildum íslenskum sið. Lindi var keyptur af eiganda búðarinnar þegar hann var enn í fullu fjöri og þurftu nýir eigendur að bíða í nokkur ár með að fá hann á meðan hann sinnti skildum sínum við ær sveitarinnar. Eftir uppstoppun átti nú að ferja gripinn yfir hafið og var það gert með flugvél, en þá tóku vandræðin við því í sex mánaða sóttkví þurfti hann að fara þótt steindauður væri.

Í hvert sinn sem Kristín gengur fram hjá Linda þá ræða þau saman á íslensku, hún talar og hann hlustar.