þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Minningar og lykt

Það er merkilegt hvað lykt tengir minningar, atburði, stað og stund alveg sama hversu langt er um liðið. Ég fór að ná í hann litla tveggja mánaða Jóhannes á barnaheimilið í gær. Ég hef ekki komið inná barnaheimili í mörg herrans ár og þaðan af síður á vöggustofu og sem ég geng inní anddyrið þá mætir mér lykt sem er sambland af mjólk, ungabörnum, hreinlæti og það sem ég tengi mannlegri hlýju og notalegheitum. Á svipstundu hvarf ég inní heim sem ég hef ekki verið í í 16 ár, eða síðan Karólína var nýfædd, heimur ungabarna, þroska, fyrsta bros, fyrsta hjal, fyrstu tár. Það kom mér þægilega á óvart hvað þetta var óskaplega notaleg tilfinning því með öllu ungbarnastandinu var nóg af vökunóttum, grát, óöryggi, samviskubiti og áhyggjum. Að viðbættri lyktinni þarna inni komu svo hljóðin af hjalandi ungabörnum, smávæli, raulandi fóstrum og konum að lesa og mér leið svo vel, ég slappaði af við það eitt að hlusta, horfa og draga að mér ilminn. Mér fannst óskaplega notalegt og skemmtilegt að eiga börn (NB. eiga ekki eignast, meðganga er ekki fyrir mig) og finnst alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim þroskast og breytast í fullorðið fólk en ég velti oft fyrir mér þegar ég lít til baka hvort ég máli þennan ungbarnatíma í rósrauðan bjarma sem taki ekki með í reikninginn alla dagana sem þau voru veik, ég var veik og þreytt, stressið á morgnana að koma öllum í skóla og barnaheimili og sjálfri mér í vinnu og svo að safna öllu liðinu saman seinni partinn, þreyttu, svöngu og oft úrillu. Það var svo greinilegt að það eru ekki daprar eða stressaðar minningar sem ég tengi lyktinni á vöggustofu, þvert á móti þá var þetta óskaplega notalegt og afslappandi.

Engin ummæli: