föstudagur, febrúar 04, 2005

Ég er svo lánsöm að vera í þeirri aðstöðu að vinna bara þegar mig langar til. Ég tek að mér verkefni fyrir Mayo þegar þeir þurfa á mér að halda og ég hef tíma til, vinn t.d. ekkert á sumrin þegar ég vil gjarnan eyða tíma á Íslandi og með börnunum mínum. Gallinn við þetta er sá að það koma tímabil þar sem ég hef lítið að gera þegar ég gjarnan vildi hafa nóg en þá fer ég inní rútínu þar sem pláss er fyrir fullt af handavinnu, leikfimi, heimsóknir til vina og annað skemmtilegt. Ég hef ekki haft það rólegt síðan í haust en nú lítur út fyrir tiltölulega rólegt tímabil framundan með nokkrum fundum á viku og lítilli úrvinnslu, enda eins gott því við erum að fara til Vínar í mars og svo er ég orðin svona auka amma fyrir einn lítinn íslenskan sem fæddist hér í desember. Ég tek hlutverkinu mjög alvarlega og passa hann þegar þarf og tala við hann stanslaust á íslensku. Reyndar má ekki segja upphátt að hann sé íslenskur því hann er hálf-danskur, en í augum okkar Íslendinganna á staðnum þá er hann náttúrulega okkar en foreldrarnir tala dönsku sín í milli svo nú er um að gera að vefja drenginn í því ilhýra og passa uppá arfleifðina. Móðir hans er nú reyndar fullfær, og rúmlega það, um að hafa allt eins íslenskt og hægt er í kringum hann en drengurinn á mjög svo ákveðinn Dana fyrir föður sem ekki kemur til með að læra íslensku í bráð svo við verðum að koma drengnum til hjálpar. Alvöru amma hans kemur frá Íslandi í dag og það verður gott fyrir alla. Við ætlum svo að hafa bollukaffi á sunnudaginn, einum degi fyrr, en það er nú allt í lagi. Það á reyndar að slá saman bollukaffi, pylsupartý og superbowl. Úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum er sumsé á sunnudaginn. Þeir kalla það lið heimsmeistara sem vinnur, en þar sem restinni af heiminum er ekki boðin þátttaka þá er þetta náttúrulega ekkert annað er ameríska meistaramótið í ruðningi, en titillinn lýsir svo dásamlega vel afstöðu Ameríkana til sjálfs sín. Við komum til með að borða pylsur og svo bollur í eftirmat og horfa með öðru.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig bollur bakið þið? Vatnsdeigsbollur, gerbollur eða kannski báðar tegundir?
Valur var svo myndarlegur að hann bakaði gerbollur í morgun og það hafa verið bollur bæði í hádegismat og kaffi í dag. Í kvöldmatinn verður reyndar indverskur kjúklingaréttur sem Valur eldaði í gær í svo miklu magni að þrátt fyrir að Hrefna og Elli kæmu í mat, þá eru til afgangar. Alltaf gott að eiga afganga í ísskápnum. Þessi matur er jafnvel enn betri daginn eftir ef eitthvað er.