miðvikudagur, febrúar 09, 2005
Fuglinn
Fyrir nokkrum árum síðan þá eyddi Kristín mín einum sjö vikum hjá tvíburabróður mínum og mágkonu sem áttu þá heima í Innbænum. Kristín lifði eins og blómi í eggi, enda eina stelpan og þau sómahjón komu fram við hana sem sína eigin dóttur, en þar sem hún er nú ekki mjög "ladylike" þá passaði hún vel inní strákahópinn. Þau eyddi sínum sumardögum við allrahanda leiki og störf; byggðu kofa, óðu í pollinum, borðuðu Brynjuís, heimsóttu Nonnahús, fleyttu kerlingar og rúlluðu sér í bröttu brekkunni ofan við hús. Þegar restin af fjölskyldunni kom svo í ágúst til að ná í stelpuna þá var greinilegt að Kristín var orðin ein af hópnum í götunni og eitthvað fannst strákunum til hennar koma því þeir eltu hana hvert sem hún fór og fylgdu henni í hvaða vitleysu sem henni datt í hug. Einn daginn sátum við mágkonurnar yfir kaffibolla og koma þá ekki Kristín og Pétur inn með alla halarófuna á eftir sér og sögðu okkur að þau hefðu fundið dauðan fugl og nú átti sumsé að fara fram alvöru jarðarför. Okkur varð nú um og ó og báðu þau um að þvo sér afar vel um hendurnar því fuglinn gæti verið lúsugur. Þau gerðu það, fengu kassa og eldhúspappír, og svo voru þau á hlaupum út og inn í dágóða stund þar á eftir, en það var mikil leynd yfir þessu öllu saman. Við reyndum að spyrja hvernig fugl þetta hefði verið en það var eitthvað lítið um svör, en lítill var hann greyið og þurfti náttúrulega alvöru útför með söng og öllu tilheyrandi. Bróðir minn kom svo heim frá vinnu seinna um daginn og spurði hvað hefði eiginlega gengið á því það væri lítið leiði fyrir framan hús með krossi, íslensku flaggi, blómum og öllu tilheyrandi. Við sögðum honum náttúrulega alla sorgarsöguna og hversu nærri sér þau hefðu tekið dauða þessa litla fugls. Þar sem hann er fuglaáhugamaður þá lét hann sér nú ekki nægja svörin sem við fengum og vildi nú fá almennilega lýsingu á fuglinum. Jú, hann var gulur. Hann hafði rauða fætur. Úr plasti. En greyið hafði misst hálfan hausinn og annan fótinn og þar sem páskarnir voru löngu liðnir þá þurfti hann að fá fallega jarðarför því hann hafði setið aleinn uppá hillu allan þennan tíma þangað til hann datt niður og lenti í munni litlabróður og hlotið þennan líka skelfilegan dauðdaga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já, blessuð börnin láta ekki að sér hæða! Það var nú gott að þið létuð þau þvo sér um hendurnar....
Skrifa ummæli