þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Vetur

Örlítil snjókoma úti. Í logninu svífa lauflétt snjókornin niður á alhvíta jörðina, þetta á ekki að vera lengi og er ekki mikið. Nóg til þess að hljóðin úti eru dempuð, rétt eins og veröldin sé vafin inní bómull. 10 stiga frost, rétt árstíð á réttum tíma. Það brakar í snjónum undan fæti þegar gengið er. Góð lykt af nýföllnum snjó og eldi í arni. Ég taldi 31 dádýr hlaupa yfir lóðina. Þau eru vel haldin enda veturinn verið þeim léttur, nóg af æti á ökrunum. Þau borða þá ekki plönturnar mínar á meðan. Það kannski breytist ef hann heldur áfram að snjóa. Þau láta allavega garðinn minn ekki í friði á sumrin. Þá halda þau að blómin og plönturnar mínar séu eingöngu handa þeim til ætu og að ég planti fyrir þau hlaðborði á vorin svo þau hafi nóg á haustin. Alveg sama hvað ég æsi mig og siga hundinum á þau, þau koma alltaf aftur til þess að borða meira. Snjóaði 30 sentimetra af níðþungum blautum snjó aðfaranótt sunnudagsins. Eftir snjómokstur eftirmiðdaginn þá var farið út í snjókast og snjókallagerð. Fínn efniviður.

Engin ummæli: