föstudagur, febrúar 18, 2005
Islenska
Ég komst yfir dásamlega grein um hið ilhýra móðurmál okkar sem ber heitið "The Awful Icelandic Language". Það er margt í þessari grein sem staðfestir enn og aftur að "glöggt er gests augað". Brendan Glacken, höfundur greinarinnar, tekur fyrir beygingar, kyn orða og annað óvenjulegt í tungumálinu á mjög svo skemmtilegan hátt. Það sem mér fannst albest í greininni var lýsing hans á orðinu "ha" og notkun þess í málinu. Hvað "ha" þýðir fyrir enskumælandi er sumsé "I beg your pardon, I´m afraid I didn´t quite catch what you just said, and would you mind repeating it?" Síðan ég las þessa grein fyrst hef ég hlustað vel eftir notkun fólks á "ha" og þetta minnir mig oft á kínversku þar sem samhengi, hljómfall, og röð í setningu stjórnar þýðingu orða. Ég er ekki hótinu betri en aðrir, segi ha í tíma og ótíma í öllum mögulegum og ómögulegum tóntegundum, stundum jafnvel "what" sem er óskaplega ruddalegt, og meina náttúrulega alls ekki "hvað" heldur allt mögulegt annað, óskilgreint að sjálfsögðu. Hér í miðvestrinu er fólk að afsaka sig í bak og fyrir daginn út og inn, segja "please", "pardon", "excuse me", "I´m sorry", í annarri hverri setningu svo það er ekki að furða að þegar útlendingar fara í innkaupaleiðangur í Bónus á föstudagseftirmiðdegi, þar sem allir eru fyrir öllum, fólk rekst hvert utaní annað án þess að segja svo mikið sem fyrirgefðu, þá upplifa Ameríkanar þetta sem afar ruddalegt samfélag og svo ef beðist er afsökunar þá er bara sagt "ha".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli