fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Vegna þess að Ærir vinur okkar skrifar um gamlan læriföður í pistli sínum í dag (www.aerir.blogspot.com) þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á Kastljós frá því í gærkveldi atburður sem gerðist fyrir hartnær 27 árum síðan. Þá gengum við hjónin ásamt fríðu föruneyti MAinga um hæðir Akrópólis og í þeim hópi var Ærir svo og lærifaðir þessi sem var annar af fararstjórunum. Við eyddum dagsparti í að ganga þarna um, rifja upp söguna, og þóttumst vera gáfað og vel lesið fólk menntað í Höfuðstað Norðurlands. Ærir var þá eins og hann er nú óskaplega áhugasamur um ljósmyndun en að auki hafði áhugi á kvikmyndun tekið sér bólfestu í drengnum og þrammaði hann því um með aðstoðarmanni sínum vel byrgur tækjum og tólum til að sinna þessum áhuga. Sem við göngum þarna um þá bendir virðulegur fararstjóri Æri á skiltin sem við gengum framhjá með 100 metra millibili og á stóð "no moving pictures allowed" og bað vinsamlegast um að kvikmyndavélin yrði hvíld á meðan við stoppuðum við á Akrópólisinu. Ærir svaraði að bragði "ég tek ekki hreyfðar myndir" og þar með var málið afgreitt, íslenskukennarinn sáttur við þýðinguna og Ærir hélt áfram að mynda á sína 8mm vél.

Það var gaman að hlusta á þá Böðvar og Davíð tala um vesturfarana og þá sérstaklega þótti mér áhugavert svar Böðvars við spurningunni um landleysi þeirra sem flytja burt en verða Íslendingar alla ævi og ala sín börn upp í því sama, og eiga því hvorki heima hér eða þar. Málið er mér nefnilega skilt, ég telst vera nútíma vesturfari, en ég vil ekki kannast við að vera landlaus því íslensk er ég og verð alltaf, en ég hef eilífar áhyggjur af rótum barna minna og þeim anda sem við höfum alið þau uppí, þ.e.a.s. að við erum íslensk en það bara vill svo til að við búum ekki að staðaldri á Íslandi. Við tölum öll íslensku saman og erum íslenskir ríkisborgarar og þar með íslensk, ekki satt! Hvaða áhrif þetta hefur á þau til langframa á eftir að koma í ljós, rétt eins og allar aðrar uppeldisaðferðir þá er ekki á vísan að róa þar frekar en annarsstaðar. En hvenær hættum við að vera Íslendingar?

Engin ummæli: