mánudagur, desember 31, 2007

Þegar ég var alast upp á gamla Fróni þá var vindur og rok mælt í vindstigum. Þessu var breytt fyrir einhverjum árum síðan, löngu eftir að ég flutti til útlanda og er vindur nú mældur í metrum á sekúndu og hef ég nánast enga tilfinningu fyrir þessari mælieiningu. Í ofsaveðrum undafarinna vikna heima á Íslandi þá hef ég verið að reyna að gera mér almennilega grein fyrir rokinu og ég hef snúið þessu uppí mílur á klukkustund. Ég hef svo sem ekki mikla tilfinningu fyrir þeirri einingu heldur en ég veit að 20mílur/klst er hávaðarok hjá mér en það er svona 9m/s, og t.d. skv. reglum hér er hreint alls ekki hægt að spila golf í 40mílum/klst. Í dag er t.d. spáð 35m/s á Kjalarnesinu og þegar ég umreiknaði það í mílur/klst þá er það rétt undir 80!!! Samkvæmt ólyggnum vefsíðum þá er sá vindhraði level 1 hurricane! Hvað þá vindhviðurnar í fyrradag sem fóru uppí 70m/s. Það er category 5, takk fyrir. Það hefur sumsé verið afskaplega hvasst, öðruvísi er ekki hægt að lýsa veðrinu.

föstudagur, desember 28, 2007

Mikil dásemd sem þessi blessuð jól eru. Hér gengur lífið fyrir sig í mjög svo lágum og afslöppuðum gír, þ.e.a.s. hjá okkur mæðgunum. Halli hefur verið á vakt í fimm daga en í dag er hann búinn og kominn í fjögurra daga frí og þá getur hann vonandi tekið þátt í þessari allsherjar afslöppun sem við hin höfum verið í. Bjarni og Nicole komu á aðfangadag og við nutum aðfangadags og jóladags saman í mikilli ró og glöddumst yfir góðum mat, gjöfum og spjalli, grín og glensi. Ég fékk svo óvænta og mjög svo góða gjöf frá IRB (Internal Review Board) í University of Minnesota á annan jóladag þar sem mér var tilkynnt að rannsóknaráætlunin mín hafi verið samþykkt án athugasemda, og þá er mér ekki til setunnar boðið og rannsóknir hefjast við fyrsta tækifæri sem er í byrjun/miðjum febrúar.

föstudagur, desember 21, 2007

Það er svo gott að hafa stelpurnar heima. Eins og mér finnst gaman að fylgjast með börnunum mínum verða að fullorðnu fólki sem tekur sínar ákvarðanir og afleiðingum þeirra þá finnst mér ekkert eins notalegt og húsið fullt af börnum. Þær komu báðar útkeyrðar heim eftir erfiðar annir og við erum að reyna að telja þeim trú um að svefn sé af hinu góða. Það sé hið besta mál að sofa vel og lengi...því er ekki alltaf vel tekið, þ.e.a.s. þær jánka því en gerðirar eru stundum aðrar. En samt, síðustu tvær nætur hafa þær náð 8-10 tímum sem er hreint ótrúlegt því þegar þær eru í skólanum þá þykir það gott að ná 6-7 tímum. Ég er hrædd um að hún ég væri orðin framlág eftir svoleiðis svefn í nokkra daga, hvað þá mánuði. Enda er ég ekki tvítug, ég verð stundum að minna sjálfa mig á það að ég get ekki alveg afkastað eins og ég gerði. Svo koma Bjarni og Nicole á sunnudaginn og þá verðum við með fullt hús. Gaman, gaman.

mánudagur, desember 17, 2007

Fleiri gamlar myndir úr handraðanum

1. des 1976


1. des 1976
Originally uploaded by Kata hugsar

Rakstur í Herðubreiðarlindum


Þá er jólaboð deildarinnar um garð gengið og allt gekk þetta ljómandi vel. Það voru um 60 manns hér í gær og mikið fjör í hópnum. Ég er reyndar eins og gömul blaut tuska í dag, ekki veit ég hvers vegna þetta var nú ekki svo mikið meira en venjulegur dagur en þreytt er ég í öllum skrokknum. Stelpurnar mínar koma svo heim á morgun. Karólína flaug til systur sinnar á laugardagskvöldið og þær eyddu gærdeginum í New York í roki og rigningu og entust því ekki mjög lengi, en nógu lengi eftir því sem þær segja mér. Ég er á milli verkefna, næsta er svona rétt að komast á koppinn og þá er allt með kyrrum kjörum og því ætla ég að nota tímann til jólaundirbúnings. Eitthvað þarf að baka en það verða ekki nein ósköp; randalína, skinkuhorn, hjónabandssæla, spesíur og rúsínukökur. Ætli ég láti það ekki nægja nema sérstakar óskir komi upp um annað og meira.

föstudagur, desember 14, 2007

Hún á afmæli hún Kristín, hún á afmæli í dag.... Hún stækkaði í nótt, hún stækkaði í nótt.....nei eins og hún sagði sjálf þegar ég talaði við hana áðan þá vill maður ekki stækka þegar maður er 22 ára, því það þýðir stækkun á þverveginn. Hún fæddist á laugardagsmorgni á FSA fyrir 22 árum síðan. Ég var búin að ganga í gegnum skelfilega meðgöngu þar sem ég þyngdist um 34 kg og því var reynt að kom mér af stað á þriðjudeginum fyrr í vikunni, og svo aftur á fimmtudeginum en ekkert gekk. Svo þegar mín ákvað að koma í heiminn þá gerðist það allt á nokkrum mínútum, það fáum að pabbi hennar rétt komst inná stofuna til að taka á móti henni. Ljósmæður og læknar máttu ekki einu sinni vera að því að færa mig inná fæðingarstofuna, hún fæddist bara inná stofu blessunin og það með þvílíkum látum að ég gargaði eins og ljón. Halli bað mig um að hafa ekki svona hátt! Þetta hefur verið hennar einkenni síðan, hlutirnir gerast þegar henni dettur í hug og þá alltaf í brunahasti og með mikilli óþolinmæði og af óskaplegum kraftir svo ekkert stendur í veginum. Hún er alveg yndisleg og það er svo gaman að eiga svona börn sem eru uppfull af orku og lífsgleði, hlýju og umhyggju.

miðvikudagur, desember 12, 2007

22 stiga frost og snjór yfir öllu, hann hverfur ekki fyrr en í mars ef að líkum lætur. Stelpurnar koma heim á þriðjudaginn, hjá Karólínu hefur verið mjög heitt, 26 stiga hiti og sól í gær og hún fékk lit á sig á æfingu. Þetta er reyndar hitabylgja á hennar slóðum. Það er reyndar tiltölulega heitt hjá Kristínu í New Jersey en á að kólna niður undir frostmark svo það verður áfall fyrir likama þeirra að koma heim í kuldann. Báðar hlakkar til heimkomu en þær þurfa einhvern tíma til aðlögunar geri ég ráð fyrir. Það er reyndar smá hlýnun rétt eftir helgi, ekki yfir frostmark samt, svo þetta verður engin 20-30 stiga frost heimkoma, en hér er mun kaldara en þær eiga að venjast.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Ég skilaði af mér verkefni í dag. Þetta var um menntakerfi röntgendeildarinnar hér. Ég var svolítið stressuð fyrir fyrirlesturinn, þetta er jú þrátt fyrir allt deild mannsins míns en allt hafðist þetta og gekk reyndar mjög vel. Það er svolítið einkennilegt að koma með harða gagnrýni á deild sem er búin að vera númer eitt í landinu í mörg ár en það má alltaf bæta á sig blómum eins og Tóta tindilfætta sagði. Ég talaði við 37 af staffinu, allt fólk sem situr í einhverri menntanefndanna...þær eru átta... og þetta var reyndar mjög skemmtilegt því ég átti mörg mjög skemmtileg samtöl um menntun í röntgen og menntun röntgenleikna sérstaklega og það er svo gaman að tala við fólk sem hefur áhuga og orku til að sinna menntun, það eru nefnilega ekki allir sem hafa þennan brennandi áhuga og því er gaman að tala við þá sem hafa áhuga á menntun ekki bara eigin ágæti og þekkingu. Þá er það næsta verkefni, ég er ekki viss um að það verði eins skemmtilegt því ég veit ekkert um aðstæður svo það á eftir að taka mig langan tíma að setja mig inní þetta. Svo er ég líka að skoða eitt verkefni enn sem gæti verið óskaplega skemmtilegt því það er um "diversity" Nú til dags snýst það um margt annað en kyn, kynþátt eða trúarbrögð, það snýst um hugsun og afstöðu til hlutanna ekki útlit og þetta gæti orðið mjög spennandi umræður. Þetta verkefni hefur reyndar dregist því miður því ég verð á Íslandi í þrjá mánuði í vetur við rannsóknir og allsendis óvíst að mér takist að klára þetta áður en ég fer í byrjun febrúar.

föstudagur, desember 07, 2007

Ég var rétt í þessu að muna hvað unga fókið er að gera á myndinni hér fyrir neðan. Þau voru að reyna að finna út hversu há Drangey er! Þegar við stóðum á bjargbrúninni þá vorum við að velta fyrir okkur hversu langt væri niður og þar sem enginn vissi þetta nákvæmlega þá var bara að reyna að finna það út með mælingum og stærðfræði. Það var sumsé tekinn tíminn af því hversu lengi steinninn var í falli og það eru greinilega þrír að vinna við tímatöku, einn að kasta, ein að taka mynd og ein að horfa á...þetta er eins og með fingurna sem duttu í sjóinn. Ekki man ég niðurstöðurnar eða hvort þær nálguðust rétta niðurstöðu en ég man afskaplega vel veðrið, fegurðina og útsýnið. Allir á myndinni vinna á einhverju sviði vísinda, þrír læknar einn hjúkrunarfræðingur og einn skógfræðingur og öll voru þau í námi á þessum tíma.

Ung blómarós


Ung blómarós
Originally uploaded by Kata hugsar
Við Jökulsárlón í ágúst 1983

Eðlisfræðirannsókn í Drangey

Þetta unga fólk er hér að rannsaka fallhraða í Drangey 1983. Þau eru LÓ, ÞHJ, FB, GÞG og IK

fimmtudagur, desember 06, 2007

Meiri snjór, meiri snjór, meiri snjór


Snjór í Rochester


Snjór í Rochester
Originally uploaded by Kata hugsar

Það snjóar og snjóar og snjóblásarinn vill ekki þíðast mig, bara Halla, og ég handmoka því frá a.m.k. annan hvorn dag. Það eru mörg ár síðan það hefur verið svona mikill snjór í desember og það er svoooooo gaman. Það er undurfallegt úti, hljóðin í náttúrunni lág og þýð og gott að sitja inni við skriftir með fallegt útsýni yfir garðinn minn. Það er líka voðalega gott að skjótast út til að moka frá....reyndar svo sem ekkert að skjótast ef moka þarf frá öllu því það tekur mig hátt í tvo tíma, en gott er að fara út
í ferska (ískalt líka) loftið öðru hverju. Ég rúllaði graskerunum sem við skárum út fyrir Halloween útí skóg og ég sé spor eftir dádýrin í kringum kerin og graskerin hafa minnkað til muna. Gott að vita að einhver getur nært sig á þeim, ekki finnst mér þau góð til átu.

mánudagur, desember 03, 2007

Ég tók mig til í gær og fór í gegnum gamlar myndir og ég má til með að deila þessum þremur til að byrja með. Sú fyrsta er frá brúðkaupsveislunni okkar. Veislan þætti heldur klén nú til dags með 32 í kaffi í heimahúsi! Sú næsta er af ungum menntskælingum á leið í fallhlífarstökk, þeir eru frá vinstri: HB, RA, ÞHJ, GÞG, PS og IK. Þriðja myndin er tekin þegar við fórum ásamt góðum hópi vina útí Drangey á vegum Guðríðar haustið 1983, hreint ógleymanleg ferð í stafalogni og sól.

gifting


gifting
Originally uploaded by Kata hugsar
20. nóvember 1982

fallhlifarstökk


fallhlifarstökk
Originally uploaded by Kata hugsar
Fallhlífarstökk, febrúar 1977 eða 1978

ungir menn


ungir menn
Originally uploaded by Kata hugsar
Á leið útí Drangey í september 1983

föstudagur, nóvember 30, 2007

14 stiga frost og vindur nú í morgunsárið, hvít jörð og spáð mikilli snjókomu á morgun. Veturinn er að ganga í garð, svona rétt um það bil. Um síðustu helgi var 10 stiga hiti svo þetta er svona fyrsta alvöru kuldakastið þetta haustið...það er nefnilega ekki kominn vetur samkvæmt dagatalinu hér, það gerist ekki fyrr en á vetrarsólstöðum. Sólin kemur upp um klukkan 7:30 og sest aftur um 4:30 sumsé 9 klukkutímar af sól og um 10 af dagsbirtu. Ég er að bíða eftir að fá síðustu 10 viðtölin úr ritun og ætla því að taka daginn létt og klára greiningu í næstu viku. Ég fer í ræktina mína á eftir og hleyp í 45 mínútur fer svo í yogalates í klukkutíma, klipping eftir hádegið, hitti Bjarna seinni partinn og veisla í kvöld...góður dagur framundan.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Repúblikarnir voru í kappræðum í gærkveldi og mér til mikillar gleði þá voru þeir í því að skera hvorn annan á hol en ekki að ráðast á Clinton eins og síðast. Hún er reyndar þess alveg full fær að verja sig og er ekki síður hörð en þeir. Mér líkar alls ekki málefnaflutningur Repúblikanna, þeir tala helst eingöngu um trú, samkynhneigða, fóstureyðingar, innflytjendur (eins og okkur) og stundum um stríð en þeim finnst ekkert atriði að tala um menntun, mengun, heilbrigðismál eða annað sem mér finnst skipta mun meira máli. Til þess að fá málefnalega umræðu um þá málaflokka þá hlusta ég á Demókratana mína. Ég er ekki sammála þeim alltaf í hvernig leysa eigi málin en mér finnst hún Hillary alveg feyki góð og vildi óska að hún kæmist til valda. Mér finnst náttúrulega að allir eigi að hlusta á mig og mínar skoðanir því þær eru þær einu réttu en þar sem ég næ ekki eyrum þessa ágæta fólks þá þusa ég bara þeim mun meira hér heima við.

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Ég er farin að velta því alvarlega fyrir mér hvort það séu of margir alþingismenn á Íslandi. Mér finnst með ólíkindum hvað þeir hafa tíma til að hugsa um smámunaleg atriði. Að það skuli virkilega vera um það umræða á Alþingi hvort auðkenna eigi nýbura á sjúkrahúsum í bleiku eða bláu eftir kyni er ofar mínum skilningi. Einnig hvort kalla megi meðlimi ríkistjórnar "ráðherra". Hafa þeir vikrilega ekkert þarfara um að hugsa. Ég hélt að Alþingi væri vettvangur stóru málanna, grundavallaratriða samfélagsins, löggjafarvaldið en ekki framkvæmdavaldið. Ég er greinilega ekki með það á hreinu hvert verksvið alþingismanna er.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Þá er Thanksgiving liðinn og börnin mín farin heim til sín og í skóla. Karólína tók sig til og vann á föstudaginn í barnafataverslun sem hún vann í í sumar. Ég hef aldrei farið að versla á "black Friday" en hún ákvað að prófa enda hefur hún gaman að svona ati. Mollið og búðin opnuðu klukkan 5 að morgni, já 5, og það var brjálað að gera strax þegar opnað var. Þegar Karólína kom í vinnuna klukkan 8:45 þá var biðröð hringinn í kringum búðina. Við Kristín litum við hjá henni um klukkan 2 og þá var smá pása en það var samt fullt af fólki í búðinni en Karólína sagði að þetta væri pása, allavega miðað við hvað gengið hafði á fyrr um daginn. Þetta minnti mig á þá tíð þegar ég vann í "Sport og Hljóð" pabba míns fyrir öll jól í mörg herrans ár. Þá var fullt útúr dyrum frá morgni til kvölds á Þorláksmessu og laugardagana á undan. Þá var smá aukið við opnunartímann og hann náði svo hámarki á þollák, til klukkan 11 að kvöldi. Þá var mikið líf í tuskunum og mér leið eins og allir bæjarbúar væru í bænum, allar búðir fullar af fólki og gangstéttirnar í Hafnarstrætinu troðfullar. Raðirnar fyrir utan Bókabúð Jónasar og Bókabúðina Huld náðu útá götu og Amaro var stappfull svo erfitt var að komast leiðar sinnar. Að sjálfsögðu er snjór yfir öllu og kalt í veðri í minningunni, engin rigning og hlýindi á jólum í þá daga.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Gullbrúðkaup


Gullbrúðkaup
Originally uploaded by Kata hugsar

Silfurbrúðkaup


Silfurbrúðkaup
Originally uploaded by Kata hugsar

Við eftir 25 ár


Við eftir 25 ár
Originally uploaded by Kata hugsar

Yndislegur dagur í gær, Thanksgiving, allir heima. Bjarni og Nicole voru að elda allan daginn og voru búin að undirbúa veisluna í heila viku, í það minnsta. Kalkúninn var settur í vatn sem í var salt/hunang/laukur/hvítlaukur og látinn liggja í sólarhring eða svo og fyrir vikið var hann afar safaríkur. Meðlætið var náttúrulega: kartöflumús, sætar kartöflur bakaðar með marshmallows og hlynsírópi, sykurhúðaðar gulrætur, ferskar baunir (nei, ekki þessar ofsoðnu og næringarlausu frá Ora), fylling þar sem allt var heimatilbúið, meira að segja kornbrauðið, sósa, cranberry sulta með ananas og appelsínum, og salat og í eftirmat voru heimagerð pecan og pumpkin pæ. Himnesk máltíð með alla fjölskylduna heima. Á eftir var spilað Monopoly. Það hét Matador þegar ég var ung og göturnar hétur Bankastræti, Austurstræti, Laugarvegur og Pósthússtræti en ekki Boardwalk, Park Place, Pennsylvania Avenue, og Virginia Avenue. Reyndar hefðu allir við borðið vitað hvar hver og ein íslensk gata er, en við eigum ekki íslensku útgáfuna, því miður. Það væri gaman að vita hvað hitaveitan, rafveitan og vatnsveitan heita nú til dags. Karólína vann, malaði alla, enda í business námi...eins og það skipti máli í svona spili! Þetta er jú bara heppni, Halli segir það allavega, enda tapaði hann.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Ísland á morgun og Spánn í næstu viku og ég hlakka mikið til ferðarinnar. Byrjum á því að halda uppá stórkostlegan áfanga Dr. Betu fyrir norðan á laugardaginn. Það er alltaf svo gaman að fara í veislur þar sem flestir þekkjast, sérstaklega þegar fjölskyldan er með.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Ég hef alltaf jafngaman af að fylgjast með íslenskri umræðu, það þurfa nefnilega svo margir að taka þátt. Það er alveg sama hvort um er að ræða orkumálin, lágvörumarkaðinn, umferðina í Smáranum, fótbolta, álver, nagladekk, þorskkvóta eða veðrið það er hægt að setjast niður yfir kaffibolla hvar sem er á landinu og með hverjum sem er og hlusta á og taka af vanmætti þátt í spjallinu, það er hvergi komið að tómum kofum og allir hafa skoðun, og það mikla og sterka, á öllum málefnum. Við erum náttúrulega fötluð hérna þar sem Moggi er ein af örfáum leiðum til þess að halda sér svolítið við. Ég les reyndar visir.is orðið á hverjum degi og stundum gef ég mér tíma til þess að horfa á sjónvarpsfréttirnar og þá bara á RÚV og svo les ég örfáar bloggsíður (það er svo ótalmargar af þeim hræðilega illa skrifaðar að kennarinn í mér tekur völdin og byrjar að leiðrétta), svo uppsrettur frétta eru takmarkaðar og þótt mér finnist við nú svona ágætlega uppslýst þá er alltaf merkilegt að koma heim og finna út allar aukasögurnar sem fljóta um í samfélaginu. Við vorum heima í byrjun október þegar borgarstjórnin féll og Halli á fundi í heilbrigðsráðuneytinu þegar fréttirnar bárust, svo ég reyndi að fylgjast með en það er svo ótalmargt sem ég ekki veit til þess að fylla í eyðurnar og ná heildarmyndinni að það hefur tekið mig margar vikur að ná botni í þetta og er honum þó ekki náð. Ég veit ekkert hverjir aðalleikararnir eru, ég vissi ekkert hver Bjarni Ármannsson er og hafði örsjaldan heyrt minnst á Hannes Smárason og nánast aldrei á Björn Inga Hrafnsson, en nú fer það ekki fram hjá meira að segja mér hvað þessir herrar standa fyrir og álit mitt á Birni Inga og hans pólitíska siðferði er ekkert. Ég hef aldrei séð og heyrt annað eins, að ráðast á mann og annan, blaðra og kjafta til hægri og vinstri um trúnaðarmál er ekki til þess fallið að vinna mitt traust. Rök mannsins eru hriplek í hvert skipti sem hann styður mál sitt og svo endar hann alltaf með að segja að þessi og hinn vissi hvað var að gerast og að þessi og hinn tók í raun ákvörðun sem svo Björn Ingi skrifaði undir. Ætli maðurinn geri sér ekki grein fyrir að hann er að lýsa sjáfum sér og eigin vinnubrögðum þegar hann talar svona?

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Klukkunni var breytt í nótt og nú er "daylight saving time" búinn og það munar 6 klukkustundum á Íslandi og Minnesota eins og fimm tímarnir séu ekki nóg að jafna sig á þá er nú búið að bæta við einum klukkutímanum enn. Helgin hefur verið yndisleg, við fórum til Twin Cities á föstudagskvöldið og hittum okkar bestu vini í borginni á Brasilískum steikarstað www.fogodechao.com Þetta var öðruvísi upplifun en við bjuggumst við. Þetta var nú eiginlega svona "all you can eat of meat" staður en allt kjöt er borið fram af gaucho klæddum ungum mönnum sem hlupu um með kjöt á spjóti. Þegar viðskiptavinirnir snéru grænu hliðinni á kortinu upp þá komu ungu mennirnir hlaupandi og ein af sextán mismunandi kjöttegundum/matreiðslu varíasjónum var boðin. Mér fannst þetta lítið eiga skilt við "gourmet dining" heldur var þetta svona "borðaðu þangað til þú getur ekki meir og langar helst að æla" staður. Ekki mín deild lengur. Við gistum svo hjá vinum okkar um nóttina og svo fór kall minn í "Torske klubben" á hádegisverðarfund með norsku mafíunni. Ég fór að versla í borginni, það var svo sem allt í lagi en mér finnst bara ekkert gaman að versla, því miður, ég geri þetta af illri nauðsyn. Eftir að ég léttist svona mikið þá hef ég þurft að endurnýja allt í fataskápnum, allt frá nærbuxum í vetrarkápu, og það er að koma svona hægt og rólega enda þrjú ár síðan ég breytti um lífsstíl. Dagurinn í dag fór í að ganga frá ýmsu hér heimvið og svo fórum við í ræktina. Hin allra besta helgi.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Við höfðum það fínt í gærkveldi á Halloween þótt engin væru börnin að fara með á milli húsa. Við fengum eina 6 mánaða gamla ljónynju í heimsókn en hún er enn of ung til þess að fara á milli húsa og segja "trick or treat" og þaðan af síður að borða allt sælgætið sem fylgir.

Halloween


Halloween
Originally uploaded by Kata hugsar

miðvikudagur, október 31, 2007

Maðurinn minn sótti um prófessorstöu við Háskóla Íslands í mars s.l. Hann fór í hæfnismat og var dæmdur hæfur af bæði HÍ og LSH. Síðan hefur ekkert heyrst og það eru liðnir 7 1/2 mánuður en ekki er það vegna fjölda umsækjenda, hann var sá eini. Ekkert viðtal, ekkert annað en að hann hefur látið heyra í sér í góðra vina hópi að hann sé ekki ánægður. Það kallaði á viðbrögð einhverra í valdastöðu og því var hringt en sagt að ekkert væri hægt að gera að svo stöddu því málið væri "í nefnd" sem er tungutak aftan úr miðstýrðri forneskju. Það virðist enginn hafa í sér döngun til að setja hnefann í borðið og taka ákvörðun á hvorn veginn sem er. Kannski vilja þeir bara ekkert fá hann en þá þarf að segja það umbúðalaust. Kannski eru þeir að smíða málatilbúning til að geta hafnað honum án þess að það líti illa út. Það er nú ekki svo að hann sé atvinnulaus og þurfi á þessari stöðu að halda til þess að halda andlitinu, yirlæknisdjobbið hans hér er ekkert til að fela eða kvarta undan. Okkur langar að flytja heim innan þriggja ára eða svo en það verður á okkar forsendum, ekki á forsendum þeirra sem draga hann á asnaeyrunum og í skjóli nefnda.

þriðjudagur, október 30, 2007

Nú fer að styttast í næsta ferðalag. Við Halli leggjum af stað í silfurbrúðkaupsreisu í lok næstu viku. Þá er reyndar afskaplega kunnuglegt ferðalag á dagskrá. Við keyrum til Minneapolis og leggjum í hann með Icelandair á leið til Íslands....höfum víst gert það áður! Stoppum á Íslandi í sex daga, og leggjum þá land undir fót með allri fjölskyldu Halla og höldum til Barcelona. Þar á að halda uppá gullbrúðkaup tengdaforeldra minna með þeim náttúrulega og báðum systkinum Halla og konu Ara. Til Barcelona höfum við aldrei komið svo þetta verður gaman. Ég hef verið að lesa mér til og er ákveðin í að fara á modernisma göngutúr um borgina og drekka í mig Gaudí og svo vil ég fara á Míró safnið. Þetta eru mínar tvær óskir og vonandi fæ ég þær uppfylltar. Það er ótalmargt annað sem mig langar að sjá en það verður að sjá til því í svona hópi verður að reyna að gera öllum til hæfis. Til baka komum við að kvöldi 19. og svo leggjum við í hann vestur um haf á silfurbrúðkaupsdaginn sjálfan, 20. nóvember. Stelpurnar mínar koma heim daginn eftir í Thanksgiving frí og Bjarni og Nicole koma svo annað hvort þann dag eða daginn eftir með vinum sínum og hér verður haldin stór og mikil Thanksgiving veisla með kalkún og miklu meðlæti kokkað af Bjarna og vinum hans.

sunnudagur, október 28, 2007

Sunnudagsmorgunn og klukkan er rétt um átta. Tveggja stiga frost úti en spáð 15 stiga hita yfir daginn og sól. Morgunmatur búinn hjá mér en New York Times og Sunnudags-Moggi bíða lesturs. Halli sefur ennþá. Það er einhver lumpa í honum, kannski hefur hann ofkeyrt sig. Vikan var ótrúlega erfið hjá honum og hann vaknaði í gær með svima og kuldahroll og var hálf ómögulegur í allan gærdag. Ég er voðalega fegin að hann láti eftir sér að sofa, það er ekki svo oft sem hann gerir það. Núna þegar hann er sestur aftur á skólabekk þá þarf hann að læra heima, skila ritgerðum, eitthvað sem hann hefur ekki gert síðan vorið 1979 þegar "stóru ritgerðinni" var skilað. Ekki þurfti hann að skrifa ritgerðir í læknadeildinni! Þetta er náttúrulega allt gert á kvöldin og um helgar eftir langa og erfiða vinnudaga. Alltaf sami dugnaðurinn í honum blessuðum, fellur sjaldan verk úr hendi. í gær fórum við útí sveit á búgarð kollega hans í Halloween/pumpkin útskurðar veislu. Það var undurfallegt, stafalogn og sól og haustlitir hvert sem litið var...hreint dásamlegt. Svo skelltum við okkur í bíó á eftir og sáum Michael Clayton með Georg Clooney sem var ljómandi góð, svolítið öðruvísi spennumynd og afar vel gerð. Sumsé góður laugardagur og sunnudagurinn lofa góðu.

fimmtudagur, október 25, 2007

Það er búið að vera undurfallegt hér heima síðan ég kom til baka. 10-15 stiga hiti á daginn, glampandi sól og lítill sem enginn vindur og haustlitirnir í hámarki, um frostmark á nóttunni og það er hrím yfir öllu þegar sólin kemur upp. Ég sit við að vinna fyrir Mayo, ég er í miðri viðtala hrinu, núna um núverandi ástand menntunar hjá röntgenlæknum og svo hvað bíður í nánustu framtíð. Ég er að tala við alla sem hafa eitthvað með menntun að gera á deildinni og Halli er einn af þeim. Ritarinn sem sér um að skipuleggja viðtölin fyrir mig hringdi í hann í síðustu viku og spurði hvort hann gæti farið í viðtal til mín. Halli fór að hlægja og sagðist ræða við mig heima við eldhúsborðið. Á planinu mínu sem ég fékk á mánudaginn segir að Dr. Bjarnason "will discuss at home". Hin 39 sem ég tala við verða að láta sér nægja símann. Við erum reyndar ekki búin að tala endanlega saman um þetta enda tölum við um heilbrigðismál alla daga og að sjálfsögðu koma menntamál röntgenlækna alltaf inní það. Kannski þeir hjá HÍ/LSH ættu að hlusta á viðtölin, allavega að sjá niðurstöðurnar þegar þær koma. Þar á bæ yrði kannski hugsað aðeins til framtíðar en ekki alltaf að bregðast við því sem búið er...reaktívt og próaktívt heitir hann víst munurinn sá.

miðvikudagur, október 24, 2007

Hún á afmæli hún Bryndís, hún á afmæli í dag!!!!!!!!!

Til hamingju með árin 40 kæra Bryndís

þriðjudagur, október 23, 2007

Það var svo gaman á föstudagskvöldið síðasta því þá hélt hún Bryndís mín mágkona uppá fjörutíu árin sín. Veislan var á Öngulsstöðum og það var boðið til mikillar matarveislu og allt náttúrulega heimatilbúið. Skemmtiatriðin voru heimtilbúin líka en það var ekki á þeim að sjá því tónlistarflutningurinn var betri en margt sem gefið er út enda atvinnutónlistarmenn í meirihluta. Það var gert mikið og skemmtilegt grín að Bryndísi og nánast daglegum uppákomum sem flestar eru afleiðing þess hversu utan við sig hún er. Ég var búin að gera uppkast af ræðu en þegar til kom þá fannst mér hún ekki passa því þetta var lofræða því ég þekki nefnilega ekki þá hlið Bryndísar sem gert var grín að. Ég þekki bara hlýlegu, notalegu, umhyggjusömu, duglegu, greiðviknu, hjálplegu, hliðina og þar sem afmælisbarnið bað um að engar lofræður yrðu fluttar þá sat ég sem fastast. Kannski hefði ég átt að hæla henni samt, ég er ekki nógu dugleg að segja mínum nánustu og kærustu hversu góð þau eru og hversu vænt mér þykir um þau og þetta var náttúrulega tilvalið tækifæri að bæta eitthvað úr því. En þá hefði ég klökknað og það er ekki gott í veislu með mörgum.

mánudagur, október 22, 2007

Komin heim eftir fína ferð til Íslands. Ég heimsótti marga, marga grunnskóla og nú er að skýrast hvaða skóla ég get rannakað. Ég þarf tvo á Akureyri og fjóra í Reykjavík og ég er búin að ákveða tvo fyrir norðan og tvo fyrir sunnan og nú er að leggjast yfir gögnin, og bíða eftir meiri upplýsingum frá skólunum og svo taka endanlega ákvörðun. Rannsóknin byrjar svo í febrúar og stendur yfir fram í apríl og ég reikna með að vera á Íslandi mest allan tímann. Það verður svo gott þegar þetta er búið og ég get farið að gera allt hitt sem mig langar til. Ég hef verið í sjálfskipuðu banni að gera eitthvað skemmtilegt í nærri tvö ár. Ég má ekki læra að fljúga, frönsku, trésmíðar eða MBA fyrr en þetta er búið og nú sé ég fyrir endann á þessu. JIBBBBBÝÝÝ

sunnudagur, október 14, 2007

Gærdagurinn endaði í mjög svo góðra vina hópi yfir góðum og skemmtilegum mat og dagurinn í dag byrjaði í hópi sömu vina nema nú var gengið klukkutíma í rigningu um Heiðmörkina. Yndislega falleg gönguleið, haustilitr farnir að gefa sig en lyktin af gróðrinum guðdómleg og við komum að bílunum náttúrulega blaut innað beini en ákváðum að hittast á Jómfrúnni í Lækjargötu yfir smørbrød og fíneríi áður en Halli hélt í Ameríkuflugið. Hann er nú farinn heim á leið og ég sit eftir í viku í viðbót til að vinna að undirbúningi Rannsóknarinna einu og sönnu og svo að fara í fertugs afmæli mágkonu minnar um næstu helgi. Ég hlakka mikið til, það er svooooooooo gaman að hitta skemmtilegt fólk sem er manni kært.

laugardagur, október 13, 2007

Þá er tölu minni yfir skólastjórum Íslands lokið og ég held að sæmilega hafi gengið. Ég fékk því miður enga umræðu af stað, ég var að vonast til að fá fullt af spurningum eftir fyrirlesturinn og gerði ráð fyrir því en því miður komu engar. Kannski var ég of óþolinmóð og lokaði of snemma, kannski var þetta of snemma dags til þess að frjó og gagnrýnin hugsun væri komin í gang, kannski hefði ég átt að biðja fólk að ræða í hópum áður en spurningum var beint að mér, kannski átti ég að fá fundarstjóra með mér í lið og ganga um salinn og örfa umræðu svolítið...hvað veit ég en allavega þá fékk ég ekki neinar spurningar en varla vegna þess að ég hafi svarað þeim öllum. Því geri ég mér alveg grein fyrir.

föstudagur, október 12, 2007

Hingað hef ég ekki komið langa lengi...eða síðan í júní. Það er langur tími, svona hlutfallslega, í lífinu.

Núna er ég á landinu bláa, Reykjavík útum gluggann minn, svolítið grá en stundum blá og fögur, alltaf skemmtileg. Halli er á fundi í Heilbrigðisráðuneytinu. Átti að vera þar í gær en vegna ýmissa atburða gærdagsins, eitthvað meira og stærra en hann, m.a. borgarstjórnarslit og allskonar vitleysa í gangi, þá var fundi frestað þangað til í dag. Vonandi er einhver ró komin á liðið svo það geti talað um heilbrigðismál. Ég fer á ársfund Skólastjórafélgs Íslands eftir hádegi suður í henni Keflavík en þar á ég að halda fyrirlestur um sjálfsmat í skólum í fyrramálið. Vonandi kemst ég skammlaust frá því, ef ekki þá hef ég nú verið að með hugann við eitthvað annað síðustu árin því þetta er víst það sem ég hef verið að læra og vinna við í ein sjö ár eða svo. Verð vonandi doktor í þessu á vordögum.

miðvikudagur, júní 13, 2007

Römm er sú taug er rakka dregur föðurtúna til.

Af stað ég fer eina ferðina enn.

mánudagur, júní 11, 2007

Flott grein um Hrafnagilsskóla í miðju Moggans í dag!
Á föstudaginn sendi ég leiðbeinandanum mínum ritgerðina einu og sönnu til yfirlestrar en hún (leiðbeinandinn, ekki ritgerðin) er í Atlanta á fundi og er svo farin í sabbatical í eitt ár svo nú er að sjá hvernig framvindan verður með hana upptekna í örðum heimsálfum. Það var gott að losa sig við ritgerðina í einhvern tíma því ég get lítið gert á meðan ritgerðin er í yfirlestri, sem þýðir náttúrulega að ég hef meiri frítíma!

Ég er byrjuð að pakka fyrir Íslandsferð!

föstudagur, júní 08, 2007

Ég er komin á fullt í ræktinni aftur, og eins og svo oft áður þá kann ég mér ekki hóf þegar kemur að heilsurækt. Í fyrradag sendi þjálfarinn minn mér tölvupóst þar sem hún spurði hvort það væru einhver sérstök svæði á líkamanum sem ég vildi vinna að og ég skrifaði á móti að ég vildi styrkja rass, maga og axlir og í gær var erfiðasti tími sem ég hef verið í hjá henni. Í dag er ég að kálast úr strengjum, aðallega í rassinum og ég er strax farin að kvíða morgundeginum! Ég geri örugglega engar styrktaræfingar yfir helgina, ég má þakka fyrir ef ég verð búin að ná mér á mánudaginn.

Bölvans óhemjugangur þetta er alltaf hreint í mér.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Það er hljótt í húsinu því íslensku læknarnir eru farnir að hvíla sig og við gömlu sitjum við vinnu. Karólína er í vinnunni en kemur væntanlega innan örfárra mínútna. Okkur Halla var boðið út að borða af gestunum okkar og áttum við rólegt og gott kvöld yfir góðum mat á skemmtilegum veitingastað. Það er búið að vera hávaðarok í allan dag og eftir rigningu morgunsins kom hiti (32 gráður) og raki. Veröldin er alltaf jafn falleg á þessum tíma árs þegar plönturnar mínar skiptast á um að springa út áður en dádýrin ná að éta knúppana. Það fer að styttast í sorglega brottför íslensku fjölskyldnanna okkar hér í bænum og við ætlum að reyna að eyða eins miklum tíma af helginni saman eins og hægt er...síðustu helginni okkar allra hérna í bænum. Þetta verður hræðilega erfitt fyrir okkur því það eru allir okkar vinir að fara eða eru farnir. Haustið verður erfitt, við verðum bara að leggjast í ferðalög til þess að hitta vini og fjölskyldu.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Mayo Clinic og maðurinn minn ætla að halda fund (Mayo Vascular Symposium, nei ekki HB Vasc...) á Íslandi eftir tvær vikur á Hótel Nordica (eða hvað það nú heitir núna...Hilton Nordica?) og nú er undibúningurinn á allra síðasta sprettinum. Þetta er búið að vera margra ára ferli og nú er sumsé loksins að koma að þessu. Halli setur fundinn að morgni 19. júní og slítur honum um hádegi þann 22. Þetta verða annasamir dagar hjá okkur því margir af okkar vinum og svo starfsfélagar hans verða á fundinum og það má búast við því að margir vænti persónulegrar þjónustu frá okkur. Það verður opið hús hérna hjá okkur á mánudagskvöldið fyrir þá sem vilja fræðast um land og þjóð áður en haldið er af stað og það eru ótrúlegustu hlutir sem við verðum að vita um landið til þess að geta svarað öllum spurningunum sem upp koma. Við þurfum að vita allt um stjórnarfar, stjórnmál, jarðfræði, sögu, bókmenntir, skólagöngu, menntun, veðráttu, landafræði, ferðamál, mannfræði og svo má lengi telja. Það er eins gott að standa sig því margt af þessu fólki er búið að liggja yfir bókum og tölvum til að afla upplýsinga áður en lagt er af stað, það þýðir því lítið að skálda í eyðurnar mörgu og stóru. Þetta er nefnilega ógnardýrt ferðalag og allir vilja fá sem mest útúr ferðinni og hér og nú panta ég gott veður!!!

mánudagur, júní 04, 2007

Ég er að vinna þessa dagana við verkefni fyrir Klíníkína einu og sönnu. Einn af yfirlæknunum á í miklum vandræðum með traust samstarfsmanna sinna og hefur komið illa útúr könnunum (staff survey) síðustu tveggja ára. Ég er að kíkja bakvið tölurnar og spyrja "af hverju" spurninganna. Þetta hefur verið mun erfiðara en ég bjóst við, það hefur verið mjög auðvelt að ná í alla lækna deildarinnar og allir hafa verið tilbúnir að ræða málin en það sem hefur verið sagt hefur reynst mjög erfitt að hlusta á. Í dag tek ég síðustu fimm viðtölin og þá eru öll 36 búin og við tekur greiningarferlið. Það erfiðasta verður að setjast niður með yfirlækninum og kynna niðurstöðurnar, það verður ekki fallegur dagur.

föstudagur, júní 01, 2007

Það er búið að vera yndislegt hér síðustu dagana. Kristín og Adam komu heim á mánudagskvöldið og svo komu Bjarni og Nicole niðureftir í gærkveldi og því var allur hópurinn okkar á staðnum og það er fátt skemmtilegra en að hafa öll börnin sín heima. Kristín og Adam fara svo til Íslands í kvöld á vit sumarævintýranna og eftir verðum við með Karólínu og svo íslenska lækninn sem verið hefur hjá okkur síðan í apríl. Það er víst best að kvarta ekki heldur njóta á meðan er.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Hrafnagilsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin 2007. Ekki slæmt það. Ég er alveg að rifna af monti yfir honum tvíburabróður mínum. Hann hefur unnið óskaplega mikið og gott starf og á þennan heiður fullkomlega skilinn.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Ég gerði fína ferð til Princeton um síðustu helgi. Kristín var að keppa í Eastern Sprints, eitt af tveimur stóru mótum ársins, og það var svo gaman að horfa á. Báturinn hennar varð númer 3 sem er lakara en í fyrra þegar þær unnu en mun betra en búast var við. Þetta er eins og með kosningarnar heima, það fer allt eftir því við hvað er miðað hvort vel gekk eða illa. Keppnistímabilið hefur verið erfitt og tilfinnangalega flókið svo þetta var hið besta mál. Stundum er þriðja sætið bara stórgott! Nú fer að styttast í sumardvöl þeirra skötuhjúa í Eyjafirðinum, þau eru voða spent og geta ekki beðið eftir að komast til Íslands. Það á að hlaupa og hjóla og ganga og láta öllum illum látum til að vera í fínu formi í Reykjavíkurmaraþoninu. Þá ætlar Halli að koma aftur til Íslands til að hlaupa með þeim. Meiri lætin alltaf í þessu fólki mínu. Það er annað en hún ég!

miðvikudagur, maí 09, 2007

Ég er búin að fara í ræktina tvo daga í röð og verið voða góð og gert lítið, svona miðað við síðustu vikur og mánuði. Í dag er óskapleg blíða og við Karólína keyptum sumarblóm í gær og í dag ætla ég að pota þeim niður og hreinsa til framan við hús. Það er víst eins gott að drekka nóg, mikill hiti og ég höfum aldrei verið góðir vinir, en nú verð ég víst að læra af reynslunni. Annað gengur víst ekki. Ég fór til læknis í gær í eftirlit og honum fannst þetta allt fremur fyndið, sérstaklega þar sem hann hleypur mikið og vildi læra sem mest af þessari reynslu minni. Það er bara allt í lagi með mig. Ég fæ enn smá ógleðisköst en ekkert meiriháttar og ég á fara mér hægt í ræktinni til að byrja með. Þetta "til að byrja með" er nú líklegast búið og ég get farið á fullt aftur....held ég.

mánudagur, maí 07, 2007

Það er voðalega gott að vera komin með eitt barn í hús aftur. Karólína mín er óskaplega dugleg en það kom sýking í sárið enda það innilokað í plasti stóran hluta sólarhringsins og hún á fleygiferð og svitnar og dregur eflaust allt mögulegt innað sári. Annars gengur þetta mjög vel, hún lék við hann Jóhannes úti í gær og það var handagangur í öskjunni eins og venjulega þegar þau tvö koma saman. Það virðist vera sem batinn verði skemmri en fyrst var haldið, hún fær allavega að losna við gifsið eftir þrjár vikur og svo má hún ekki byrja að hlaupa fyrr en í ágúst en við mæðgurnar förum haltrandi í ræktina í dag og verðum voða góðar og gerum lítið...

sunnudagur, maí 06, 2007

Afleiðingar heilahristingsins eru enn að hrjá mig. Ég fæ höfðuverk og ógleðisköst öðru hverju, en þeim fer fækkandi sem betur fer. Annars er þetta allt að koma marblettirnir eru smám saman að hverfa og ég er að ná fyrri afköstum. Þetta var annars bölvans vesen og ekki til eftirbreytni. Það mætti halda að konan vissi ekki hvernig ætti að æfa og hvaða afleiðingar vökvatap getur haft. Mér var litið uppí einn af eldhússkápunum mínum í dag og þar blasti við mér röð af vatnsbrúsum, mér taldist til að þeir væru 17, svo ekki hef ég afsökun fyrir að eiga ekki vatnsbrúsa til að grípa með mér í ræktina!

föstudagur, maí 04, 2007

Sumir dagar eru betri en aðrir dagar. Mánudagseftirmiðdagurinn var einn af þessum verri. Ég fór í ræktina mína eftir vinnu eins og ég sagði í síðustu skrifum. Ég gerði mínar venjulegu 50 mínútur á eliptical (cardio) og svo bætti ég við 30 mínútum á hjóli. Þetta er svona með því meira sem eg geri í cardio en ekkert mjög óvanalegt. Ég svitna alltaf mikið en þennan daginn var það óvenju slæmt. Ég fékk mér vatn að drekka á milli æfinga og fór svo strax að lyfta. Á þriðja tæki er magaæfing sem er gerð uppistandanadi með bönd yfir axlirnar sem síðan eru tengd í lóð í. Fór mér allt í einu að svima og varð afar óglatt og ég hætti og það síðasta sem ég man að ég hugsaði var að ég yrði að setjast. Ég náði því ekki, það steinleið yfir mig, ég datt fram fyrir mig með höfuðið fyrst í gólfið og datt svo illa að ég rotaðist. Það sá mig enginn nákvæmlega detta en það heyrðu það víst allir því ég datt á járnfestingar í gólfinu. Eitthvað hef ég rekist illa í á leiðinni niður því ég er marin og blá hægra- og vinstramegin, frá höfði að hnjám. það kom náttúrulega sjúkrabíll og lögga og því get ég lofað að ég hef ekki skammast mín svona mikið í fjölda mörg ár. Þetta var voðalega slæmt því þegar ég raknaði úr rotinu var fjöldi fólks í kringum mig, allir að spyrja mig spurninga sem ég náttúrulega gat ekki svarað. Ég fór á ER og ekki tók betra við því þar var hann Bo okkar á vakt (við erum svona foreldrar hér á staðnum, hann er giftur íslenskri konu og pabbi Jóhannesar og Haraldar) og svo annar íslensku læknanna sem hefur búið hjá okkur. Það hefði ekki verið leiðinlegt að hafa myndavél til að ná svipnum á þeim þegar mér var rúllað inn í hjólastól! Ég var send í allra handa tæki og tól til að skoða hausinn á mér, hann er hvorki betri né verri en áður, en svo var farið að velta fyrir sér ástæðum fallsins og þá byrjaði ballið því ég þurfti að vera inni á spítalanum yfir nótt til eftirlits og rannsókna. Þetta var nú ekki flóknara en svo að ég hafði ekki drukkið nóg og þegar ég byrjaði að hamast með magaæfingar uppistandandi þá tókst mér að stoppa allt blóðflæði til heilans og þar með steinleið yfir mig með þessum líka skemmtilegu afleiðingum. Það eina sem er sýnilegt er glóðarauga annað er falið hingað og þangað. Núna er ég í North-Carolina að hjálpa Karólínu að flytja heim aftur. Hún var skorið upp fyrir tveimur vikum (brotð bein í fæti...hún var úrbeinuð!) svo við erum hvor sem önnur, hún hökktandi í plastgifsi og ég eins og ég er.

mánudagur, apríl 30, 2007

Það var mikill hiti um helgina, í gær fór hann í 33 stig og það er nú býsna heitt hér í lok apríl. Rétt eins og heima í Eyjafirðinu þá var þetta mikil dásemdar helgi. Nú er að skella á þrumuveður, ég finn drunurnar meira en heyri, og þar sem heilinn minn er búinn að segja nóg í dag eftir nærri sjö tíma törn þá er bara að drífa sig í ræktina og ná af sér áti helgarinnar.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég er alveg óskaplega vanaföst manneskja. Og það svo að ég á stundum ekki orð yfir sjálfri mér. Í morgun kom það fyrir eins og svo ótalmarga aðra morgna að ég fékk mér súrmjólk með seríósi og púðursykri. Nokkuð sem ég hef gert frá því seríós kom á markað á Íslandi er mér næst að halda. Ég ætlaði fyrst bara að fá mér seríós með mjólk og hellti því hringjunum á diskinn. Þá skipti ég um skoðun og ákvað að fá mér súrmjólk í staðinn fyrir mjólkina og fyrir vikið fór maturinn í vitlausri röð á diskinn. Það er nefnilega svoleiðis að fyrst á að setja súrmjólkina svo púðursykurinn og hræra vel og að lokum fær seríósið að blandast herlegheitunum. Nú var ljótt í efni; átti ég að hella hringjunum af disknum og gera þetta í réttri röð eða fara á vit ævintýranna og setja súrmjólkina útá seríósið og svo blanda púðursykrinum saman við? Ég velti þessi fyrir mér svolitla stund en þar sem mér finnst ég vera huguð og ævintýragjörn í dag ákvað ég að það væri nú svolítið gaman að prófa eitthvað ótrúlega spennandi. Nú er að sjá hvernig líkaminn bregst við þessari ónáttúru!

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Það hefur fjölgað á heimilinu. Núna búa hjá okkur tveir íslenskir læknar. Annar þeirra verður í 4 vikur en hinn í 7. Þessar ungu konur eru á vegum Halla á Mayo og taka þátt í rannsóknum og svo að horfa yfir öxlina á honum og hverjum þeim sem þær vilja fylgjast með. Þetta er mjög skemmtilegt og gott að hafa fleiri í heimili en okkur tvö. Það er aftur líf í húsinu. Svo er ég að passa hann litla Harald, mamma hans byrjaði að vinna í dag og hann byrjar á barnaheimilinu á mánudaginn. Hann er því hér þegar foreldrarnir eru í vinnunni. Þangað til pabbinn er búinn í dag verðum við hér saman í sátt og samlyndi.

mánudagur, apríl 23, 2007

Til hvers er menntun? Af hverju er menntun eftirsóknarverð? Af hverju er ungt fólk að streða þetta í skólum ár eftir ár þegar þau gætu farið útá vinnumarkaðinn snemma og orðið sjálfstætt og vinnandi fólk? Hverju breytir menntun í lífi fólks? Ég hugsa oft um þetta og hef komist að þeirri niðurstöðu að menntun tryggir okkur ekki neitt í lífinu annað en val. Ekki tryggir menntun okkur hamingju, auð, völd, vegsæmd eða gleði. Það eina sem menntun gerir alveg örugglega er að gefa okkur val í lífinu. Ef við vinnum á bensínstöð alla okkar ævi þá er það hið besta mál ef það er vegna þess að við völdum það en ekki vegna þess að það er eina vinnan sem við getum fengið. Ef ég hef menntun þá hef ég tæki til að velja starf. Ef ég hef menntun þá get ég valið um marga vinnustaði innan þess sviðs sem ég hef valið mér...vonandi vegna áhuga. Ef ég hef menntun þá hef ég fast land undir fótum sem ég get byggt á, hvort sem það er meira nám eða vinna.

Börnin mín eru búin að heyra þennan söng í mörg ár og eru eflaust orðin hundleið á tuðinu í mömmu gömlu!

sunnudagur, apríl 22, 2007

Það mættu mér yndisleg hlýindi þegar ég kom heim í gærkveldi. 27stiga hiti og sól. Núna í morgunsárið eru komin 14 stig og á hann að ná 25 seinna í dag en það á víst að kólna eitthvað þessa vikuna en samt svona í kringum 15 stigin. Það er alltaf svo gott að koma heim þótt dvölin hafi verið fín á Íslandinu. Halli er á leiðinni heim frá Spáni þar sem hann var í heila þrjá sólarhringa! Það má búast við úrvinda manni hingað seinni hluta dags.

föstudagur, apríl 20, 2007

Þá er þessi Íslandsdvölin á enda. Þetta er búin að vera hin allra besta ferð. Kennslan gekk vel og gerði mér voðalega gott og ég held barasta að nemendur hafi lært eitthvað sem er jú alltaf gott og tiltölulega nauðsynlegt...þetta er víst nám! Fjallið eina og sanna var voðalega gott um páskana og skartaði sínu fegursta á páskadaginn sjálfan. Það var reyndar ekkert fallegt aftur fyrr en í gær þegar ég fór. Þá var póstkortadagur. Það sem hefur verið erfiðast við þessa dvölina er fjarlægðin frá stelpunum mínum. Það er vont að vera svona langt í burtu þegar voðatburðir eiga sér stað ekki svo langt frá þeim. Ég veit að ég get ekki gert neitt en það er svo miklu betra að vera nálægt, allavega í sömu heimsálfu. Karólína fór svo í aðgerð á fæti á þriðjudaginn til að fjarlægja brotið bein í fætinum á henni. Það gekk vel en hún verður á hækjum í margar vikur og má svo ekki hlaupa í fjóra mánuði. Það verður erfitt fyrir mína konu. Hún má hjóla, en ekki á táberginu, hún má lyfta og hlaupa í vatni!

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Römm er sú taug er rakka dregur föðurtúna til

mánudagur, apríl 02, 2007

Hann Stephan G lýsti Íslendingnum í okkur vesturförum svo vel þegar hann dvaldi í Norður Dakóta fyrir margt löngu. Vestur-Íslendingarnir í þá daga voru náttúrulega í allt annarri aðstöðu en við nútímafólkið, við sem endasendumst þetta yfir hafið mörgum sinnum á ári. Eftir sem áður eru sömu ástæður fyrir ættjarðarástinn. Við hjónin leggjum í hann á morgun og lendum á miðvikudagsmorguninn á skerinu.

Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin,
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðar lönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt,
sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin,
sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

föstudagur, mars 30, 2007

Ég hef verið á ráðstefnu í Minneapolis síðan á miðvikudaginn. Ráðstefnu matsfræðinga. Alveg fyrirtaks ráðstefna og gerði mér voðalega gott. Þegar ég sit ein við á skrifstofunni hérna heima þá verða allar hugmyndir að hálfgerðum monsterum og virðist annaðhvort stækka og magnast í huga mínum eða hjaðna niður og verða að engu vegna vantrúar á að mínar hugmyndir geti verið "réttar" eða þess virði að koma þeim á framfæri. Þetta var alveg það sem ég þurfti. Góð sprauta, beint í æð.

Það lítur út fyrir að hún dóttir mín verði ritari úrólógans í sumar. Sami þvagfæraskurðlæknirinn og sá sem fór til Rússíá að veiða s.l. haust og ætlar til Patagóníu á næsta ári. Hún verður vonandi honum til hjálpar og gagns. Hún er góð stelpa og feyki dugleg. Óvíst með ritarahæfileikana en hún stendur sig alltaf vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Það mætti halda að ég væri stolt af henni. Kannski pínu...eða bara voðalega mikið.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Það er búið að vera svo dásamlegt veðrið síðustu dagana, 28 stiga hiti og sól bæði í gær og fyrradag og ég fór út í vorverkin í garðinum í gær. Ég gerði nú ekki mikið því það á náttúrulega að kólna eitthvað aftur en ég klippti runna en tók sem minnst af laufum sem söfnuðust saman í kringum runnana í haust og vetur enda vernda laufin plönnturnar fyrir kuldanum. Við Halli borðuðum úti í gærkveldi enda blíðan mikil. Það er svo ólíkt að sitja úti á þessum tíma og svo á sumrin því skordýrin eru ekki komin á kreik og því hljóðin í náttúrunni allt örðuvísi og lyktin náttúrulega gerólík.

Þetta er sá tími árs sem pabbi minn heitinn lifnaði allur við eftir fótbolta- og handboltadvala vetrarins. Hann hefði orðið 74 ára í dag en náði bara því að verða 68 ára. Golfvellir landsins eru væntanlega að koma undan vetri en hér í bæ eru enn nokkrar vikur í fyrstu golfvallaopnun. En það fer sannarlega að styttast í það. Þegar ég kem aftur frá Íslandi 21. apríl verður væntanlega allt orðið grænt og ávaxtatrén rétt um það bil að blómstra.

föstudagur, mars 23, 2007

Vorið er komið og grundirnar....... Hér er vorið komið með öllum þeim loforðum sem því fylgir, m.a. loforð um betri tíð og blóm í haga. Þetta loforð stenst alltaf hérna en svo kemur oftast kuldakast einhverntíma á næstu tveimur mánuðum, stundum tvö. Í gær var 14 stiga hiti, sól og logn og það á verða hlýrra í dag en annars sól og logn og á morgun líka og sunnudaginn líka!!!!!!! Svo á að koma þrumuveðra tíð, en það er líka hluti af vorinu svo það gerir ekkert til. Á meðan það snjóar ekki með brunagaddi þá er þetta allt í lagi. Við Halli fáum örugglega að sjá nóg af kulda og vosbúð um páskana fyrir norðan. Vonandi fáum við gamaldags páskablíðu með yndislegu skíðafæri en auðu í bænum og á Lönguklöpp. Maður getur nú alltaf látið sig dreyma, stundum meira að segja rætast draumarnir.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Ég hef óskaplega gaman af að velta fyrir mér hvernig við, mannfólkið, myndum okkur skoðanir og hvernig við öflum okkur þekkingar. Sérstaklega þegar kemur að stjórnmálum og hvaða skoðanir við aðhyllumst. Flest þau sem eru á mínum aldri ólust upp við það að bara eitt kannski tvö dagblöð komu á heimilið. Kannski bara Mogginn stundum Tíminn, kannski bara Þjóðviljinn og aldrei Mogginn og kannski Alþýðublaðið. Afar sjaldan Mogginn og Þjóðviljinn á sama heimilinu. Það sem allir áttu sameiginlegt var útvarpið (ekki RÚV heldur Ríkisútvarpið, ekki rás eitt eða tvö, bara gamla Gufan). Við þessar aðstæður er skoðanamunur tiltölulega lítill en rökræður eftir sem áður mjög harðar. Börn alast upp við umræður á heimilum og mótast af þeim, stundum algerlega á hvorn veginn sem er en öll mótumst við af þeirri umræðu, þ.e. ef einhver umræða er til staðar. Svo kaupa mamma og pabba ákveðin blöð sem nú til dags eru ótal mörg, sérstaklega í mínu samfélagi hérna vestanhafs. Þessi blöð styðja að öllu jöfnu mótaðar skoðanir, við veljum sumsé lesefni sem okkur er að skapi og styðjum því enn frekar okkar eigin skoðanir með því að lesa stuðninginn og mótsagnir við málflutning andstæðinganna. Við sumsé gerum sjaldan eitthvað í því að ögra okkar eigin skoðunum. Ég fylgist þokkalega með íslensku samfélagi og íslenskri umræðu en það fer oftst í gegnum síu Moggans eða sjónvarpsins, en nú er svo komið þegar mig langar að kjósa í vor að ég get ómögulega ákveðið hvaða flokk ég vil svo að kjósa. Það eru skoðanir og málflutningur á einhverju málefni í einum flokki sem mér líkar en svo annað í einhverjum öðrum og svo enn eitt annað í þeim þriðja. Svo koma persónuleikar stjórnmálamanna inní þetta allt saman. Hér vestanhafs er bara D og R og Repúblikana þoli ég sjaldan, sérstaklega með þennan forseta við stýrið en heima á Íslandi er þetta svo voðalega flókið. Ég sé það að ég þarf að setja mig all verulega vel inní málin og forgangsraða, en þá er það spurningin hvað á ég að lesa og hvar á ég að leita mér upplýsinga því allar fréttir fara í gegnum síu fréttamanns/fréttastofu og stefnuskrár flokkanna virðast vera tískubundnar og oft meira áríðandi að velta fyrir sér hvað er á milli línanna og hvað er ekki sagt en það sem er sagt. Ég á ærið verkefni fyrir höndum þessar þrjár vikur sem ég verð á Íslandi í apríl

miðvikudagur, mars 21, 2007

Ég dáist enn og aftur að róðrarliðinu. Þessir 45 unglingar mæta á æfingu sex daga vikunnar klukkan 5:15 og mér, aulanum þeim arna, finnst hræðilegt að vakna fyrir klukkan 5 einu sinni í viku. Klukkan fór af stað 4:45 takk fyrir. Að vakna svona fyrir allar aldir er erfitt það viðurkenni ég fúslega og þetta er sjálfsagt vani eins og allt annað en ef ég man rétt þá var hún Kristín mín oft orðin annsi framlág seinnihluta dags þegar hún æfði hérna heima. Mér finnst ég vera fremur árrisul en fer ekki oft á fætur fyrir klukkan 6 svo kannski er ég bara ekkert árrisul eins og ég hélt! Ég veit það eitt að ég má til með að leggja mig um miðjan daginn í dag ef ég finn tíma til.

Fyrsta þrumuveður vorsins með ausandi rigningu kom í morgun og á víst að halda áfram seinnipartinn. Það veitir ekki af hreingerningu eftir stórhríðar og sandburð vetrarins.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Síðasta ferðalagið mitt var hálfgerður óskapnaður. Ég varð veðurteppt í Chicago á leið minni á austurströndina og missti af vélinni til íslands og komst því ekki fyrr en 24 tímum of seint og þá farangurslaus. Töskurnar komu svo daginn eftir. Ég skemmti mér hið besta fyrir norðan í viku. Kenndi reyndar 8 tíma einn dag og svo 4 þann næsta og var eins og gömul tuska á eftir en allt gekk þetta vel. Á leiðinni til New York týndist ein taska og hana fékk ég ekki fyrr en fjórum dögum seinna og það þótti mér slæmt því við vorum á ferðalagi í North Carolina og í töskunni var náttúrulega helmingur af fötunum mínum og sá helmingur sem ég ætlaði að nota í fríinu. Mikið voðalega saknaði ég flugsins til Minneapolis á þessu ferðalagi en nú er farið að fljúga aftur hingað eftir vetrarhvíldina, sem betur fer.

Dvölin í NC var hin besta. Við byrjuðum á því að fara útá Outer Banks, eyjaklasi sem liggur fyrir utan strönd NC og er eiginlega bara sandrif en er nú til dags þétt byggt. Þaðan gerðu þeir Wright bræður sínar fyrstu tilraunir til að fljúga og að sjálfsögðu fórum við á safnið að skoða staðinn og eftirlíkingar af fyrstu flugvélinni. Kitty Hawk, Devil´s Hill og Roanoke eyja eru allt mjög áhugaverðir staðir. Seinni hluta vikunnar eyddum við í Durham hjá Karólínu okkur öllum til mikillar gleði. Það er voðalega gott að eyða miklum tíma með börnunum sínum, alveg sama þótt þau séu orðin "stór", kannski einmitt þess vegna er það gaman, þau eru svo góður félgsskapur.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Við Halli eigum tvo litla stráka sem fóstur barnabörn. Sá eldri er Jóhannes og sá nýfæddi var skírður í höfuðið á Halla og heitir Haraldur Tómas. Myndirnar voru teknar á sunnudaginn þegar Halli tók Jóhannes gaur útí snjóinn og svo á eftir kúrði sá litli í fanginu á nafna sínum.

Í fannferginu


Í fannferginu
Originally uploaded by Kata hugsar.

Nafnar


Nafnar
Originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Við hérna í þessum landshluta og þessum hluta fylkisins erum að brynja okkur gagnvart stórhríð sem á að byrja í kvöld og vara fram á mánudag. Við ætluðum að fara á Þorrablót uppí Minneapolis á morgun en það lítur ekki vel út með færðina. Það er búist við að flestir vegir verði ófærir þegar líða tekur á daginn. Hann ætlar að byrja með ísrigningu í kvöld sem síðan breytist í snókomu og það á víst að blása all hressilega með og því verður það óðsmanns æði að keyra hraðbrautina uppeftir ef spáin rætist. Kannski vinnum við í staðinn að UMSÓKNINNI einu og sönnu. Ég er að vonast til að henni verði lokið þegar ég fer til Íslands á fimmtudaginn og að ég geti komið henni til skila.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Mælingadagur í ræktinni í dag. Klípa, vikta, mæla.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ég er að reyna að koma mér af stað aftur eftir lungnabólgu vesenið. Ég fór í ræktina á föstudaginn og hafði þá ekki farið í nærri þrjár vikur. Þótt ég hafi bara verið í rúman einn og hálfan tíma, þar af bara 35 í þoli þá var ég alveg búin um kvöldið. Fékk reyndar smá tak fyrir brjóstið þegar hjartslátturinn fór yfir mörkin og hætti því snemma. Í gær fór ég aftur og þá aftur í rúman einn og hálfan og megnið í þoli og mér leið feykivel en var alveg búin í gærkveldi. Ég fer aftur á eftir og vonandi fer þetta að koma. Venjulega get ég æft í tvo tíma og verð alveg endurnærð á eftir en ég hef greinilega misst meira þrek, styrk og þol niður en ég hélt í þessum veikindum. Á næsta ári ætla ég að láta sprauta mig fyrir flensunni!

mánudagur, febrúar 19, 2007

Kall minn er kominn heim eftir níu daga útivist. Mér fannst vera kominn tími til. Mér leiðist að vera lengi svona alein. Eftir að Karólína fór í skólann, Þór dó og nágrannar okkar og bestu vinir fluttu þá er voðalega einmanalegt um að litast hér í og við húsið og ég verð oft hrædd þegar ég er ein heima á nóttunni. Ég vaknaði með andfælum um klukkan 2 aðfaranótt föstudagsins við það að það var einhver að fikta við útihurðina. Mér varð náttúrulega um og ó og hélt á símanum tilbúin að hringja ef einhver kæmist inná gólf. Ég beið aðeins og fór að hlusta betur og fannst hljóðin einkennnileg ef einhver var að reyna að brjótast inn. Þetta var meira nudd en eitthvað annað. Smám saman áttaði ég mig á því að það hlaut að vera dýr og þá stórt dýr og þá allra líklegast dádýr og róaðist ég niður þótt ég hafi ekki sofnað aftur fyrr en undir morgun. Daginn eftir fékk ég þetta staðfest því það voru dádýra spor í snjónum alveg uppvið dyrnar þar sem dýrið hafði verið að naga runna sem þar er. Og rétt utan við stéttina voru tvær stórar dældir í snjónum þar sem dýrin höfðu lagt sig. Það hefur verið snjór yfir öllu í margar vikur og ógnarkalt og því eflaust afar lítið um æti enda dádýr búin að skafa snjóinn ofan mörgum plöntum hér í garðinum til að ná í eitthvað að borða. Beingaddaðar plöntur þykja eflaust góðar þegar hungrið sverfur að.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Takk öll fyrir umhyggjuna. Það er nú einu sinni svo að þegar búið er að tína hismið frá kjarnanum þá stendur uppi þetta mannlega. Vinir og fjölskylda. Þegar fjölskyldan er svo í tveimur heimshlutum og vinirnir líka þá tekst tryggðin all verulega á, því vinir og fjölskylda eru á báðum stöðum og því er það tryggð við eigin sál sem uppi stendur og blessuð sálin getur verið sár og erfið meðferðar. Ef þetta væri svört og hvít ákvörðun þá væri þetta einfalt en þetta er eins grátt eins og hægt er að hafa það. Kostirnir og gallarnir miklir á báðum endum og það nánast á ólíkum sviðum. Foreldrar okkar og eigin systkini og fjölskyldur þeirra á Íslandi, börnin okkar hérna megin; vinirnir á báðum stöðum, þeir gömlu heima og þeir nýrri hér; ótrúlega spennandi og krefjandi fagleg vinna hérna megin en áskorun um mikla stjórnunarvinnu og nýjan spítala hinumegin; góð laun hérna megin en allt óvíst hinumegin; 20 ár hérna megin og 27 hinumegin; mikil vinna hérna megin en líklegast ennþá meiri hinumegin; George Bush hérna megin og Óli Grís hinumegin; ÍSLAND öðrumegin og USA hinumegin; kalt öðrumegin og heitt hinumegin (veljið sjálf árstíðina).

Mér sýnist það vera tæpt þegar þetta er allt lagt á vogarskálarnar.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Auglýsing með þessari fyrirsögn kom til okkar í gær:

Prófessor í myndgreiningu, yfirlæknir á myndgreiningarsviði - Háskóli Íslands / LSH - Reykjavík - 200702/045

Það bíður okkar stór og mikil ákvörðun. Ekki það að Halli sé viss um að fá stöðuna, alls ekki, en það þarf að ákveða hvort á að sækja, því ef...... hvað þá?

Við vorum í Arizona yfir helgina, Halli er þar reyndar ennþá, og í gær ræddum við fátt eins mikið og þetta, og svo í símann í gærkveldi, og aftur í morgun..... Hann kemur ekki heim fyrr en um helgina eftir stopp í San Diego og þá er að leggjast undir feld, leggja höfuðið í bleyti, hugsa mikið, ræða málin...og svo að ákveða. Umsóknarfresturinn er til 12. mars. Ég fer til Íslands 2. mars svo það bíður okkar ærið verkefni þangað til.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Hún Guðný vinkona mína skrifar og segir voðalega skemmtilega frá. Hún skrifar alltaf reglulega um ferðir sínar í sundlaugina, þessa einu sönnu efst í Gilinu. Rétt fyrir norðan íþróttahúsið. Austan við Iðnskólann. Vestan við frímúrarahöllina. Ofan við andapollinn. Það er svo merkilegt þegar ég er að lesa dásamlegar lýsingar hennar á mannlífinu í sundinu að ég fer í huganum alltaf í gamla búningsklefann. Þennan með glansandi fallegu viðarinnréttingunni. Með tveimur speglum, einum á hvorum enda. Með útsýni til vesturs uppí Fjall og yfir lífið í sundinu. Með útsýni til austurs yfir Kirkjuna, Pollinn og Heiðina. Ég hef náttúrulega oft komið í sund síðan lauginni var breytt og veit vel að það eru engir viðarskápar lengur og engir gluggar til að hanga í og skoða mannlífið úr. En samt fer hugurinn alltaf á gamla staðinn. Skrýtið þetta minni.
Áfram er ógnarkuldi og ég ligg í lungnabólgu. Kuldinn í New York var ekki svo hollur fyrir flensuna sem ég var með í síðustu viku. Ég fann ískaldann og rakan New York vindinn og 5 stiga frostið langt ofaní lungu og varð á orði þegar við vorum að þramma uppí vindinn að ég myndi enda á spítala með lungnabólgu. Það var sagt í hálfkæringi en á mánudagsmorguninn staðfesti læknirinn að ég væri með bullandi lungnabólgu. Ég hef haldið mig inni þessa vikuna enda ekki haft orku til að fara eða gera nokkurn skapaðan hlut. Var eiginlega útúr heiminum á mánudaginn, aðeins skárri í gær og mun skárri í dag en enn með hitavellu. Við erum að fara til Phoenix á föstudaginn, og sem betur fer í hita. Ég hefði haldið mig heimavið ef þetta hefði verið ferð á kaldari slóðir en ég held að hlýja loftið í eyðimörkinni geri mér gott.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Það er nú meira hvað gengur á hér um slóðir. Það bættist nýr Íslendingur í hópinn á miðvikudaginn. Hann Haraldur Tómas ákvað að það væri ekkert varið í að koma með hausinn fyrst inní þennan heim og fékk sér göngutúr í maga móður sinnar á föstudeginum og á miðvikudaginn ætlaði hann að koma sér út með rassin á undan en þá tóku læknarnir við og ákáðu að þar sem annar fóturinn var að flækjast fyrir þá væri best að skera og koma honum í heiminn með hjálp læknisfræðinnar. Jóhannes bróðir hans var hérna hjá okkur um nóttina og kíkti svo á litla bróður og mömmu á fimmtudaginn. Þann dag fórum við hjónin svo til New York til að horfa á Karólínu keppa og að sjá Kristínu. Það var góð ferð en alveg hrikalega kalt. Hitastigið ekki eins lágt og hér en þeim mun meiri vindur. Þegar við komum svo heim í gærkveldi þá var 24 stiga frost hér og í morgun var 31 stigs frost. Kalt, hvernig sem á það er litið; vindur ekki vindur, raki ekki raki, snjór ekki snjór. 31 stigs frost er bara kalt!

mánudagur, janúar 29, 2007

Ég hef alltaf gaman af að lesa Bryggjuspjall Hjartar Gíslasonar í Mogganum. Hann er góður penni og hefur óskaplega skemmtilegt vald á ylhýra móðurmálinu enda á hann ekki langt að sækja það til kalls föður síns sem kenndi mér íslensku í MA á bókasafni heimvistar, þann merkilega og viðburðaríka vetur 1975-1976. Hann skrifar frá sjónarhorni sem ég þekki akkúrat ekki neitt og hef aldrei kynnst en finnst mjög gaman að lesa um. Sjómennsku eða útgerð þekki ég ekki en finnst hvorugtveggja forvitnilegt og spennandi.

Svo ég vaði nú úr einu í annað, ég keyrði hann Jóhannes "minn" á leikskólann í morgun og á leiðinni heim þegar ég var að keyra fram hjá Soldiers Field golfvellinum þá hóf skallaörn sig á loft rétt fyrir framan bílinn. Óskaplega tignarlegur fugl og það var svo undurfallegt að sjá hann svífa yfir Zumbro ánni og hverfa í átt til Mississippi þar sem skallaernir lifa góðu lífi. Sólin var að reyna að berjast í gegnum éljaskýin og það tindraði á hvítt höfuð fuglsins eitt augnablik áður en sólin hafði í minni pokann fyrir snjókomu dagsins og örninn hvarf á vit fæðuleitar dagsins.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Ég fæ mig ekki til að skrifa um bjánann í Hvíta húsinu því ég er svo reið og svo undrandi á hegðun mannsins svo og hans nánustu ráðgjafa eins og Cheney að ég get varla hugsað, hvað þá skrifað um þá apaketti. Ég nefnilega verð svo reið að líkaminn stífnar allur upp og ég fæ verki í herðar og bak eftir svona reiðiskast. Þess vegna ætla ég að skrifa um veðrið hérna í Minnesota. Það er merkilegt hvað "eðlilegt" og "venjulegt" getur verið gott. Alveg sama þótt það sé 40 stiga frost. Ef það telst vera eðlilegt þá er það bara allt í lagi. Þegar það var 10 stiga hiti og rigning í lok desember hér í Rochester þá leið mér voðalega illa og fannst þetta afar óþægilegt því svona á þetta bara ekki að vera og verölding hefði farið fjandans til ef náttúrulöflin hefðu haldið svona áfram. Það er því búið að vera voðaleg notalegt að hafa snjó og kulda síðustu tvær vikurnar. Ekkert ógnarkalt en svona niður í -25 stigin. Nú er að koma mikill kuldakafli, á að fara í -40 um helgina, en það telst vera venjulegt og engin met í hættu svo þetta verður hið besta mál. Við erum reyndar með deildarveislu fyrir Vascular deildina á laugardaginn og þá þurfa gestir kannski að labba einhvern spotta í kuldanum en fólk hlýtur að lifa það af.

mánudagur, janúar 22, 2007

Það snjóaði þó nokkuð í fyrrinótt og fram eftir degi. Kall minn vildi hlaupa í vinnuna í a.m.k. 10 sentímetra púðrinu og það var mér algerlega að meinalausu. Ég skildi samt ekkert í því í gærmorgun að allt í einu var hann horfinn og ekki hafði hann kvatt svo varla gatt hann verið farinn og að auki voru hlaupaskórnir á sínum stað. Ég leitaði á öllum þessum venjulegu stöðum en allt kom fyrir ekki þangað til að ég heyrði hávaða snjóblásarans úr bílskúrnum. Það hefur verið mitt verk frá upphafi okkar búskaps að moka frá svo ég skildi ekki alveg hvað var um að vera og leit því útí bílskúr...og þarna stóð hann í hlaupafötunum, með bakpokann, vettlingalaus, húfulaus....og á inniskónum að moka frá. Ég hló mig máttlausa og hann hætti verkinu fljótlega sem ég svo kláraði í undurfögru veðri eftirmiðdagsins.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Dætur mínar tvær eru sannkallað prinsessur á bauninni. Báðar eru þær ómögulegar ef þær ekki hafa rúmin sín mjúk, hrein og nýstraujuð. Þær eru báðar með tvær þykkar dýnur, og dún dýnu þar ofaná. Svo er náttúrulega dúnsængin mjúk og góð. Svo mega dún koddarnir (já, í fleirtölu) ekki vera of harðir, minnst tveir lungamjúkir og svo nokkrir til vara. Koddaverin verða að vera straujuð og helst sængurverin líka. Svo þurfa þau að lykta vel, helst með mömmulykt. Ef það er baun undir einhverri dýnunni þá vakna þær marðar og bláar. Og þetta eru dömur sem æfa stíft 4-5 tíma á dag og eru lurkum lamdar eftir eigin átök og átök við aðra. Í fyrra sumar þegar Kristín kom á Kvisthagann þá var kvartað eftir fyrsta svefninn. Koddinn var of harður og það þurfti að leita uppi mjúkan kodda sem prinsessunni væri þóknanlegur. Hún sagði að þetta væri allt mér að kenna, ég hefði vanið hana á svo góð rúm og góðan svefn að hún gæti bara ekki sætt sig við minna. Svo tók hún utan um mig skellihlæjandi og sagði mér að sér þætti voðalega vænt um mig. Það er víst ekkert hægt að segja við því annað en sömuleiðis.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

25 stiga frost í morgunsárið en eitthvað á hann víst að hlýna um miðjan daginn, ekki mikið en kannski í 15 stig. Það er sem betur fer snjór yfir öllu og voðalega fallegt úti. Við Halli ætlum í borgarferð eftir vinnu hjá honum í dag og í svona kulda verður að hafa teppi í bílnum ef eitthvað skildi nú koma uppá. Það verður gott að bregða sér af bæ, við gerum alltof lítið af því en nú er mikið ferðalaga tímabil framundan og það er alltaf skemmtilegt. Því miður er Hawaii ekki á dagskrá eins og fyrir ári síðan en það er allt í lagi, mér hefði þótt fínt ef skíðaferð væri á dagskrá en henni verður víst ekki komið fyrir í ati næstu mánaða.

föstudagur, janúar 12, 2007

Hver ætli sér skilgreiningin eða útlistunin á því hvenær svokallaður sigur vinnst í Íraksstríðinu? Þegar ráðist er inní land með þeim tilgangi að hrinda einhverjum af stóli þá er það nokkuð ljóst að sigur er í höfn þegar þjóðhöfðinginn er fallinn. Saddam Hussein er allur og því ætti sigur að vera í höfn ekki satt? En nei, alveg rétt Bandaríkjamenn réðust inní Írak til að vinna sigur á hryðjuverkamönnum og til að finna gjöreyðingavopn. Úúúppps, þeir fundu hvorugt og hvernig er þá hægt að vita hvenær sigur er í höfn? Það eina í stöðunni er að færa markið og stækka það og minnka að vild og færa svo það verði nú örugglega fyrir einhverntíma þegar skotið er. Nú er víst takmarkið að koma á stöðugu lýðræði í Írak, og Bandaríkjamenn eiga að vera dómarar um það hvenær því takmarkinu hefur verið náð. Forsetinn í fararbroddi hefur ekki hugmynd um hvað lýðræði þýðir í raun, í hans huga er lýðræðinu framfylgt þegar hann fær sínu framgengt, með góðu eða illu, lygum og prettum. Það er einhver mesta þversögn sögunnar að skipa Írökum að koma á lýðræði!

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Í kvöld ætlar kallfauskurinn í Hvíta húsinu að halda ræðu og á það víst að vera stefnuræða áframhaldandi Íraksstríðs. Maðurinn hljómar eins og vitfirringur í þessu stríðsskaki sínu, að hann skuli virkilega halda því fram að aukinn herstyrkur geti "hjálpað" Írökum eru mér gersamlega óskiljanleg rök. Bandaríkjamönnum tókst að koma á borgarastríði í Írak með innrás sem var tilefnislaus og það eru voðalega litlar líkur á að þeim takist að stoppa þá óöld sem þeir uppskáru í kjölfar innrásarinnar, þeir hafa hvorki traust né aðstöðu til. Írakar virðast ekkert hafa með það að gera hvort þeir vilji fá fleiri Ameríkana inní landið eða ekki, Bush gengur út frá því sem vísu að fleiri hermenn séu velkomnir og virðist ætla að taka einhliða ákvörðun. Hann ætlar svo að ota Demókrötunum útí fenið með því að bjóða þeim "you are damned if you do and damned if you don´t". Hvort sem þeir eru með eða á móti forsetanum þá tapa þeir.

mánudagur, janúar 08, 2007

Aftur er orðið hljótt í húsinu. Karólína flaug austur eftir í gær og Kristín og Adam keyrðu af stað í fyrradag og komu á áfangastað í gærkveldi eftir 20 tíma keyrslu. Þau gistu í Indiana á leiðinni og sögðu að allt hefði gengið vel. Frekar þau en ég! Líkamanum mínum finnst langferðir í bíl ekkert voðalega spennandi, ég blæs út af bjúg og verð öll hin ómögulegasta. En mér finnst gaman að eyða svona miklum tíma með fjölskyldunni. Það er nefnilega ekkert hægt að gera í þessu litla plássi annað en að tala saman og vera sátt. Það er ekki oft sem við fáum svona marga klukkutíma saman öll á einum stað. Við fórum í margar langar ökuferðir saman þegar krakkarnir voru litlir og mér fannst það mjög skemmtilegt og ég geri þetta svo sem enn, t.d. um Evrópu í mars á síðasta ári, en langar ökuferðir eru orðnar mun sjaldnar en við ferðumst þeim mun meira á flugi enda oft erfitt um vik þegar börnin manns eru út um viðan völl.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Þessi mynd er nú eiginlega sú besta af þeim öllum.

svo er það hálstauið


svo er það hálstauið
Originally uploaded by Kata hugsar.

Við fórum í voðalega fín boð á gamlárskvöld og kvöldið áður. Við dressuðum okkur upp í okkar fínasta púss og svo voru teknar myndir af herlegheitunum. Ég nennti ekki að vera í upphlut, það er svo mikið vesen að vera með skotthúfuna (hún var ekki hönnuð fyrir konur með stutt hár!) og vestið svo ekki sé talað um óþarfa athyglina sem það kallar á. Halla fannst nóg um athyglina sem hann fékk. Kristín var með í veislunum en þegar hún tók þessar myndir þá var hún ennþá í náttfötunum!


Originally uploaded by Kata hugsar.



Originally uploaded by Kata hugsar.

þriðjudagur, janúar 02, 2007