mánudagur, nóvember 26, 2007
Þá er Thanksgiving liðinn og börnin mín farin heim til sín og í skóla. Karólína tók sig til og vann á föstudaginn í barnafataverslun sem hún vann í í sumar. Ég hef aldrei farið að versla á "black Friday" en hún ákvað að prófa enda hefur hún gaman að svona ati. Mollið og búðin opnuðu klukkan 5 að morgni, já 5, og það var brjálað að gera strax þegar opnað var. Þegar Karólína kom í vinnuna klukkan 8:45 þá var biðröð hringinn í kringum búðina. Við Kristín litum við hjá henni um klukkan 2 og þá var smá pása en það var samt fullt af fólki í búðinni en Karólína sagði að þetta væri pása, allavega miðað við hvað gengið hafði á fyrr um daginn. Þetta minnti mig á þá tíð þegar ég vann í "Sport og Hljóð" pabba míns fyrir öll jól í mörg herrans ár. Þá var fullt útúr dyrum frá morgni til kvölds á Þorláksmessu og laugardagana á undan. Þá var smá aukið við opnunartímann og hann náði svo hámarki á þollák, til klukkan 11 að kvöldi. Þá var mikið líf í tuskunum og mér leið eins og allir bæjarbúar væru í bænum, allar búðir fullar af fólki og gangstéttirnar í Hafnarstrætinu troðfullar. Raðirnar fyrir utan Bókabúð Jónasar og Bókabúðina Huld náðu útá götu og Amaro var stappfull svo erfitt var að komast leiðar sinnar. Að sjálfsögðu er snjór yfir öllu og kalt í veðri í minningunni, engin rigning og hlýindi á jólum í þá daga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þrátt fyrir að ekki sé hefð fyrir "black friday" hér á Íslandi (sem betur fer) þá finnst mér opnunartími verslana fyrir jólin eiginlega alveg kominn út í öfgar. Í Smáralind t.d. er opið til klukkan 22 öll kvöld frá 7. des og til jóla. Mér finnst þetta bara bilun - en verð að taka þátt í þessu á næsta ári þegar við verðum komnar á Glerártorg...
Ég skil ekki alveg þörfina fyrir alla þessa löngu opnunartíma, því þótt ég kaupi margar jólagjafir þá tekur verslunin hjá mér tiltölulega stuttan tíma. Ég hreinlega tími ekki að eyða miklum tíma í búðarráp. Það verður gaman hjá ykkur, allavega stundum, fyrir næstu jól. Ég hef allavega gaman af að vera innan um fólksmergð í stuttan tíma, það er eitthvað svo jólalegt en ég man vel verkina í fótunum eftir lokun á þollák og laugardögunum þar á undan hér í den.
Skrifa ummæli