miðvikudagur, mars 22, 2006

Það eru þúsund hlutir sem þarf að gera áður en farið er í þriggja vikna leiðangur og ég er að reyna að muna eftir þeim öllum og ég finn að sjálfsögðu ekki út fyrr en allt of seint allt það sem gleymdist að gera. Svona er nú það.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Þá er komið að því að pakka niður fyrir Evrópuferð. Við förum á fimmtudaginn til Ítalíu og komum svo til Íslands föstudaginn 31. mars. Ég verð þar í heilar tvær vikur, Halli í einn sólarhring og Karólína í viku. Systir mín á stórafmæli og það á að halda uppá það með pompi og pragt. Ég hlakka svo til, ég hef ekki komið á Lönguklöpp síðan í fyrrasumar og það hefur aldrei liðið svona langur tími á milli dvala þar. Ef vel vill til þá kemst ég kannski á skíði, það væri nú ekki slæmt þótt ekki sé um páskana sjálfa. Á skíði hef ég ekki stigið í nokkur ár, það hefur verið snjólaust/snjólítið hér og þegar hefur gefið þá er eitthvað um að vera. Kannski förum við Halli í skíðaferð á næsta ári þegar við verðum ein í kotinu.

mánudagur, mars 20, 2006

Ég var í súkkulaði þörf í gær og átti ekkert nema Siríus suðusúkkulaði, þetta í tvöföldum pakka og vafið í bökunarpappír. Þar má lesa:

"Siríus vanilin Konsum súkkulaði er í senn úrvals suðusúkkulaði og gott til átu. Það er framleitt úr völdum kakóbaunum í nýtískuvélum. Siríus vanilin Konsum súkkulaði er nærandi, auðmeltanlegt, bragðgott og drjúgt til suðu. Það hefur árum saman verið eftirlætisnesti ferðamanna."

Þetta minnir á maltölið góða sem er nærandi og gott fyrir meltinguna.

föstudagur, mars 17, 2006

Þjofnaður

Við lentum í verulegu veseni með kreditkortin okkar. Númerunum var stolið og svo var einhver að versla í Kanada á mínu nafni fyrir eina $5000. Mér þykir þetta mjög undarleg því það eru ekki margir sem leggja í að bera fram nafnið mitt hvað þá að þurfa að stafa það. Það þurfti náttúrulega að loka kortunum og búa til ný og ganga frá allri pappírsvinnunni til að ná þessum innkaupum útaf okkar kortum og nú er þetta allt að koma. Þetta hefur verið bölvað vesen, ekki bankinn var afar hjálpsamur en það er óþægileg tilfinning að verða fyrir svona þjófnaði því það er eins og það hafi verið brotist inn hjá okkur, allavega svona "virtual theft". Svo erum við að fara til Evrópu eftir viku og það þýðir nú lítið að ferðast án kreditkorta. Það þurfti nefnilega að taka öll okkar kort í gegn og svo var verið að passa uppá debetkortin líka. Bölvans vesen.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Það var enginn skóli á mánudaginn vegna veðurs og það sama er uppá teningnum í dag, engin skóli vegna veðurs. Það kyngir niður snjó og litlu börnin...þessi 17-20 ára fóru út að leika sér á mánudaginn. Kristín kom heim um helgina og ætlaði að fara aftur mánudagsmorguninn en það ver ekkert flogið svo hún fékk aukadag, henni, og okkur, til mikillar ánægju. Það var 17 stiga hiti á laugardaginn og svo kom þessi líka vetur í heimsókn og það á ekkert að hlýna að ráði fyrr en eftir aðra helgi og þá verðum við á Evrópuflandri.

Körfuboltalið Karólínu, Mayo High School, tapaði í gær naumlega fyrir besta liðinu í fylkinu svo þá er karfan búin, búin, alveg búin. Þær eru ennþá í Minneapolis og það er óvíst hvenær þær komast heim.

Kristín, Karólína og Lily


Kristín, Karólína og Lily, originally uploaded by Kata hugsar.

Adam, Kristín, Karólína, Lily, Abby og Becky

þriðjudagur, mars 14, 2006

Segið þið mér gott fólk sem á Íslandinu búið er virkilega búið að breyta nafninu á Íslandsbanka í Glitnir? Ef svo er þá er ég gjörsamlega búin að missa trúna á viðskiptaviti bankafólks. Hvað ætli svona breyting kosti? Kannski ég ætti að bíða eftir staðfestingu á þessu áður en gjörsamlega síður uppúr hjá mér.

laugardagur, mars 11, 2006

Ég veit ekki hversu lengi þetta verður á netinu en hér er fréttin í bæjarblaðinu

http://news.postbulletin.com/newsmanager/templates/localnews_story.asp?a=250136

skoðið myndina vel.
Þær unnu leikinn í gær!!!!!!!! Nú er það Target Center (heimavöllur Timberwolves) á miðvikudaginn, reyndar á móti besta liðinu í fylkinu en það er allt í lagi, þetta er stór áfangi að hafa komist í STATE.

föstudagur, mars 10, 2006

Þá er klípuprófinu og öllum hinum mælingunum lokið í þetta sinnið. Ég á bágt með að trúa framförunum og breytingunum en tölurnar ljúga víst ekki er mér sagt, þetta hefur gengið vonum framar og ég er alsæl. Þær tölur sem skipta mig mestu máli eru BMI og þolið. BMI hefur lækkað um 7 prósentustig og þolið aukist um heil lifandis ósköp.... off the chart eins og þjálfarinn sagði. Þjálfarinn minn byrjaði nýtt prógram fyrir mig í gær og ég er alveg að !#"%$# í strengjum í dag. Núna þegar farið er að sjást í þetta sem var undir spikinu þá er víst kominn tími til að skerpa vöðvana enn meira og láta þá sjást betur og það kostar herfilega strengi í dag og það sem verra er á morgun líka því mér finnst alltaf annar dagurinn verstur.

Í kvöld er úrslitaleikurinn hjá Karólínu í suður Minnesota deildinni í körfu. Þær unnu undanúrslitaleikinn í framlengingu (hinn undanúrslitaleikurinn þurfti tvær framlengingar til að knýja fram úrslit, brjálaður dagur í höllinni) og ef þær vinna í kvöld þá er það fylkismeistaramótið sjálft með öllu húllumhæinu sem því fylgir...meiriháttar mál það.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Róðraræfingu morgunsins lokið. Þetta var mín síðasta. Í næstu viku hafa krakkarnir "atvinnu" þjálfara því þau þurfa víst einhvern harðari en mig. Takið eftir, ég var ekki nógu hörð við krakkana, ég var of lin við þau, ég hef mildast með árunum það er víst ábyggilegt. Þetta er nú kannski ekki alveg sannleikanaum samkvæmt en þetta var síðasta æfingin mín því þau fara í "Spring training" til Tennessee eftir tvær vikur og svo verður komið vor og þau hætt innanhúss æfingum og vatnið tekið við og alvöru róður. Kannski verð ég aðstoðarþjálfari á vatninu, hver veit hvað John dettur í hug að biðja mig um, og mér dettur í hug að samþykkja. Ég hef gert allt mögulegt til að gera þessar æfingar líflegri því það er nú ekkert voðalega spennandi að rembast eins og rjúpan við staurinn og það eina sem maður fær útúr því er hraður hjartsláttur. Ég hef reynt að láta þau "sitja kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast". Við höfum hjólað um Rochester og svo tók ég þau til Íslands einn morguninn og við fórum suður fyrir, hjóluðum yfir jökla og svo að sjálfsögðu enduðum við með að hjóla inn Eyjafjörðinn í miðnætursól á leið okkar að Lönguklöpp.

Ég gat lítið hjólað með þeim í dag því á morgun fer ég í metabolic testing og ég má víst ekkert reyna á mig að gagni í dag því þá kem ég ekki eins vel útúr prófinu, og hvað geri ég ekki til að ná árangri.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Gaman, gaman, fyrsta þrumuveður vorsins með tilheyrandi rigningu!
Nú sit ég við alla daga, eða allavega hluta úr öllum dögum, við það að skrifa ritgerð, þessa með stórum staf og greini. Ef allt gengur upp, sem það gerir nú sjaldnast þegar þessi ritgerð er annars vegar, þá verð ég á Íslandi megnið af haustinu við rannsóknavinnu, nota veturinn til að greina og skrifa og vonandi ver ég afkvæmið eftir ár eða svo. Ég setti deadline hjá mér á 1. maí 2007. Ég er reyndar að byrja á verkefni á Mayo sem gæti orðið stærra og meira en ég geri mér grein fyrir, ég þarf að ferðast til Arizona og Florida til að afla gagna, en það verður ekki fyrr en í maí svo þangað til hef ég rúmam tíma......ó nei, ég verð á ferðalagi í þrjár vikur í mars og apríl svo þessi blessaði tími sem er víst bara 24 tímar í sólarhringum er ekki svo mikill þegar allt kemur til alls. Vinna á Íslandi verð ég víst að gera, það þýðir ekki að liggja í leti þar. Ég er að öllu jöfnu afskaplega skipulögð í vinnubrögðum en "betur má ef duga skal" eins og þar stendur.

föstudagur, mars 03, 2006

Það er enginn duglegur eða drífandi á Íslandi lengur. Allir sem nenna að koma hlutunum í verk eru ofvirkir... ekki duglegir eða drífandi heldur ofvirkir. Ég ætla rétt að vona að þetta sé skammtíma breyting á tungumálinu því það er tvennt ólíkt að vera ofvirk(ur) eða dugleg(ur), annað telst vera normal en hitt ekki. Við öðru eru stundum gefin lyf en hinu ekki. Annað getur verið vandamál en hitt ekki. Það fyrra skilar oftast litlu meðan hið síðara miklu. Ofvirkir eiga gjarnan erfitt með að einbeita sér og klára byrjað verk á meðan dugnaði fylgir sú hugsun að klára það sem byrjað er á því hlutirnir eru drifnir af.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Fyrir einu og hálfu ári síðan var mér falið að flytja útskriftarræðu í MA fyrir hönd 25 ára stúdenta. Ræðan mín gekk útá að gera nýstúdentum grein fyrir því að nú tilheyrðu þeir MA fjölskyldunni og það þýddi að hvar sem þeir væru og hvert sem þeir færu þá væri MA fjölskyldan skammt undan til að hjálpa ef á þyrfti að halda eða að biðja um hjálp ef nauðsyn væri á. Mér datt þetta í hug í gær þegar Halli fékk tölvupóst frá MAingi (EB). Sá hinn sami er læknir í Svíþjóð og verður á Mayo í sumar við rannsóknir. Hann endaði tölvupóstinn með að segja að þeir hefðu væntanlega ekki hist síðan 1983 á Árnagarði og svo kvittaði hann undir með nafni og svo stúdent MA 1978. Þetta gerist svo ótrúlega oft að gamli MA er hlekkurinn sem tengir okkur saman við gesti og gangandi. Við ætlum að sjálfsögðu að vera þeim innan handar við að koma sér fyrir og hjálpa til þar sem hjálpar er þörf.