miðvikudagur, mars 01, 2006

Fyrir einu og hálfu ári síðan var mér falið að flytja útskriftarræðu í MA fyrir hönd 25 ára stúdenta. Ræðan mín gekk útá að gera nýstúdentum grein fyrir því að nú tilheyrðu þeir MA fjölskyldunni og það þýddi að hvar sem þeir væru og hvert sem þeir færu þá væri MA fjölskyldan skammt undan til að hjálpa ef á þyrfti að halda eða að biðja um hjálp ef nauðsyn væri á. Mér datt þetta í hug í gær þegar Halli fékk tölvupóst frá MAingi (EB). Sá hinn sami er læknir í Svíþjóð og verður á Mayo í sumar við rannsóknir. Hann endaði tölvupóstinn með að segja að þeir hefðu væntanlega ekki hist síðan 1983 á Árnagarði og svo kvittaði hann undir með nafni og svo stúdent MA 1978. Þetta gerist svo ótrúlega oft að gamli MA er hlekkurinn sem tengir okkur saman við gesti og gangandi. Við ætlum að sjálfsögðu að vera þeim innan handar við að koma sér fyrir og hjálpa til þar sem hjálpar er þörf.

Engin ummæli: