föstudagur, júní 24, 2005

Verslað

Þá fara að verða síðustu forvöð að versla áður en haldið er í útlegðina. Ekki það að mér finnist ekki nóg af verslunum á Íslandinu en það er blessað verðlagið sem mér ógnar. Ég ætla að forðast það að versla í sumar. Þetta þýðir það að ég þarf að reyna að finna fatnað sem hentar íslenskri veðráttu á þessum tíma árs þegar hér er líkamshiti utandyra, það gæti orðið þrautin þyngri. Sem betur fer þá sýnist mér veðrið hafa snúist til hins betra heima á Íslandi, þ.e. allavega norðanlands og svo hefur hlýnað, ég var farin að kvíða dulítið fyrir kuldanum, ég fæ nóg af honum hér á veturna. Karólína reyndi að versla fyrir Ísland áður en hún fór til Spánar, sérstaklega vantar hana íþróttaföt til að vinna í í Reykjavíkinni, hún verður að vinna á leikjanámskeiðunum hjá ÍR í sumar henni til mikillar gleði. Mér hefur virst að það sé allt að helmings munur á verði á íþróttaskóm á Íslandi og hér og ennþá meiri er munurinn á tískufatnaði, það sem henni finnast vera dýrar gallabuxur kosta hér $70 (c.a.4500ikr) oftast fær hún þær fyrir $50-60. Reyndar eru þetta ekki Diesel, enda hefur hún ekki fundið buxur frá þeim sem passa hennar löngu leggjum (hún notar 28-37) og það passar mér ágætlega að þurfa ekki að borga $150 fyrir gallabuxur!

fimmtudagur, júní 23, 2005

Jónsmessa

Þá er enn einn hita dagurinn að kveldi kominn. Í dag náði hitamælirinn 38 gráðum og það er mjög rakt og ég þakka vísindamönnum einhverntíma snemma á síðustu öld fyrir að finna upp kælikerfi húsa. Ég vann hér innanhúss mestan hluta dagsins en brá mér niður í bæ seinni partinn og þoldi illa við, komst því miður ekki á sundlaugarbarminn en vonandi bæti ég úr því á morgun, sundlaugarbarmur er eina leiðin að vera útivið meira en nokkrar mínútur í einu, ég á ekki gott með að hreyfa mig í svona veðri og fer því ekki á golfvöll nema til að æfa mig kannski smá, ekki spila ég 18 holur allavega og ekki vinn ég í garðinum og þaðan af síður fer ég út að ganga eða hlaupa.

Við erum að fara út að borða á besta veitingastað bæjarins í kvöld en þar er hann Bjarni okkar orðinn yfirkokkur, okkur til mikillar gleði. Ég hlakka mikið til að borða á veitingastaðnum en þetta verður í fyrsta sinn sem við borðum mat sem hann hefur eldað á veitingastað. Hann hefur verið mjög duglegur að elda hérna heima í vor og það hefur verið dásamlegur matur hér á borðum daglega en nú ætlum við sumsé að fara á Chardonnay!

miðvikudagur, júní 22, 2005

Politik

Okkur hjónunum til mikillar ánægju þá fara vinsældir forseta vors hratt dvínandi. Hann rembist eins og rjúpan við staurinn að koma Bolton að hjá Sameinuðþjóðunum og núna þegar búið er að blokka fyrir útnefninguna þá bíður þessi elska eftir þjóðhátíðardeginum því þá fer þingið í frí og samkvæmt lögum þá getur hann útnefnt þá sem hann vill til skemmri tíma, þ.e. 18 mánaða. Svona er nú blessað lýðræðið. Hann sem þykist fara um heiminn með friði og hefur að markmiði að frelsa heiminn þannig að allir fái nú blessað lýðræðið sem hann virðir bara þegar það passar honum og hans fylgisveinum. Það eru því gleðifréttir í allri vitleysunni að vinsældir hans fara dvínandi og þótt hann sem einstaklingur sé ótrúlega vinæll þá eru verk hans og stefna í hinum ýmsu málum afar óvinsæl, hvernig fólk skilur að manninn, verkin og stefnuna er mér óskiljanlegt. Ég geri sjálfri mér það ekki að nefna Stríðið , það er alltof fallegur dagur til að eyðileggja í pirring yfir karlhlunki austur á strönd, jafnvel þótt hann sé valdamikill.

mánudagur, júní 20, 2005

Í dag er ein vika þangað til ég legg af stað til Íslands og því verður þessi vika einn allsherjar undirbúningur fyrir sumardvöl á Íslandi. Ég held að sjálfsögðu að ég sé ómissandi og að heimilið fari veg allrar ef ég er ekki á staðnum, mér finnst þetta þegar ég er í burtu í stuttan tíma hvað þá rúmar sjö vikur. Á laugardaginn fór ég til Minneapolis á Íslendingahátíðina. Þar spilaði strengjasveit Tónskóla Sigursveins við mikinn fögnuð og sérstaka gleði mína. Ég hlýt að vera orðin gömul því ég verð svo tilfinninganæm þegar ég hlusta á börn spila fallega íslenska tónlist. Þetta var hin besta skemmtun með tónlist, mat, skemmtilegu fólki, strandaferð og bátsferð. Veðrið var yndislegt, um 32 stiga hiti og hvergi skýhnoðra að sjá og lítill sem enginn raki í lofti. Nú er stærsti hluti hópsins farinn heim og vonandi skemmtu börnin sér vel. Veðrið er áfram yndislegt en nú á rakinn að koma og því verða 30 stigin sem mér hafa fundist yndisleg síðustu vikuna að óþolandi gufubaðsveðri.

laugardagur, júní 18, 2005

Sumargleði

Það er nú meira hvað sumrin geta verið annasöm. Ég sem var að vonast til að þetta sumarið yrði rólegt, svona eitt allsherjar "dog days of summer" með tilheyrandi bátsferðum, sundlaugar og strandferðum, bókalestri, og golfi. Ég hef bara ekki tíma til neins þessa, ég hef ekki lesið nema eina bók og það er nú alveg síðasta sort. Golf kemst ég í hámark einu sinni í viku og það vísar ekki á góðan árangur, ég kem mér ekki einu sinni á æfingasvæðið! Ég hef verið að túlka fyrir íslenskan sjúkling sem var á Mayo, passa hann Jóhannes með Kristínu, undirbúa Karólínu fyrir Spánarferðina sem hún er loksins lögð af stað í, sjá um greiðasölu fyrir nokkurra þúsanda barna fótboltamót og annað þar fram eftir götunum. Svo eru Halli og Kristín að hlaupa maraþon núna í morgunsárið uppí Duluth, þau ætla svo að koma við hjá Íslendingafélaginu á 17. júní hátíðinni þar sem ég verð að vinna seinni hluta dagsins. Ég held að Ísland verði ein allsherjar afslöppun eftir þetta allta saman!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Hér hefur geysað brjálað þrumuveður síðan um miðja nótt með tilheyrandi hávaða, látum og ausandi vatnsveðri. Reyndar byrjaði þetta í gærmorgun þegar ég var á golfvellinum. Ég var á öðrum teignum þegar ég fann að elding var að nálgast og rétt þegar ég var búin að slá þá laust niður eldingu rétt hjá okkur svo við flýttum okkur inn og rétt í þann mund sem við vorum að komast í skjól þá kom hagl þannig allt varð hvítt í 32 stiga hitanum. Það er alltaf jafn skrýtið. Það hefur verið ógnar heitt síðustu tvo daga 30-35 stig og mjög rakt í gær á milli storma svo það var algert gufubað úti og lítið hægt að gera annað en að vera inni í loftkældu húsi eða á sundlaugarbakka. Ég tók fyrri kostinn og las. Það á að kólna smám saman og verða skaplegt um helgina. Karólína keppir í fylkismeistaramótinu á föstudaginn og vonandi verður gott veður. Síðustu tvö ár hefur verið leiðindaveður og hástökkið verið fært inn í hús. Núna keppir hún bara í hástökki svo hún þarf ekki að hafa neinar ógnar áhyggjur af veðrinu. Kristín setti nýtt heimsmet í róðri á sunnudaginn. Hún ætlaði að slá tvö met í einu, aldursmet og "overall" en tókst að ná því fyrra, 100,000metrar á róðrarmaskínu. Þetta tók hana rúma 8 klukkutíma! Hún brenndi u.þ.b. 850 kalóríum á klukkustund svo þetta var alger brennsludagur, tæpar 7000 kalóríur og væntanlega 8000 kalóríu dagur! Hún var ánægð með þetta eina met en hundfúl að geta ekki slegið bæði í einu, og því segist hún ætla að gera þetta aftur. Hún var gersamlega búin að vera og líkaminn er enn aumur og lófarnir eitt flakandi sár, bólgnir og beiglaðir, sérstaklega liðirnir. Hún á erfitt með að rétta úr fingrunum núna tveimur dögum seinna.

föstudagur, júní 03, 2005

Heilavinna

Nú er ég að ganga í gegnum tímabil þar sem ekkert nema concrete hugsanir komast að. Gagnrýnni eða skapandi hugsun er hreinlega bara ómögulegt að koma að í heilabúinu eins og er. Lífið snýst um íþróttakeppni, keyrslu, prófatörn, börn, garðavinnu og allt annað sem jarðbundið er. Þetta fellur mér illa ef þetta stendur of lengi, þetta er ágætt í stuttan tíma en þá vil ég líka fara að hugsa um eitthvað meira krefjandi eins og söguritun, fræðaritun og lestur, rannsóknir, úttektir, og annað þar fram eftir götunum...allavega svona með. Ég verð að vinna að svoleiðis hlutum í sumar svo þetta stendur allt til bóta, en mikið sem það getur verið letjandi fyrir heilasellurnar að hafa ekkert til að vinna við annað en að raða, flokka, og skipuleggja. Ég held að þær komi sér í eitthvert hvíldarform og þegar ég þarf á þeim að halda til krefjandi vinnu þá er bara ekkert til staðar og það litla sem er tekur langan tíma að aktívera.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Skýrsla

Þá eru við hjónin komin heim eftir flakk síðustu vikna hingað og þangað um heiminn. Princeton varð númer 2 í Sacramento, einni og hálfri sekúndu á eftir bátnum sem vann, lítið miðað við 6 1/2 mínútu. Þær fóru til Sacramento til að vinna allt saman en vissu að það væri á brattann að sækja. Þetta var mjög gott hjá þeim að mér fannst en keppnisskapið í þeim vildi meira. Halli er kominn heim og gerði hann fína ferð til Íslands og Noregs. Potaði niður kartöflum í tveggja stiga hita og slyddu í Heiðinni. Setti niður rabarbara fyrir mig. Heimsótti alla og hélt svo til Noregs þar sem hann vann og skemmti sér örlítið með góðum vinum og fjölskyldu. Ég hafði það gott í Kaliforníunni. Veðrið var ágætt, 36 og ógnar heitt daginn sem ég kom, 16 á laugardaginn og 24 á sunnudaginn. Ég hefði ekkei haft á móti því að skreppa til Lake Taho en ég reyndi að vera eins mikið með Kristínu og þjálfarinn hennar leyfði, sem var ekki mikið. Veðrið hér heima hefur snúast all verulega til hins betra. Það er um 25 á daginn, þurrt loft og sól, þetta líkar mer mjög vel. Rakinn fer illa í mig. Kristín leggur af stað heim í dag, vinur hennar kom að ná í hana og þau ætla að keyra þetta á tveimur dögum, c.a. 24 tíma keyrsla í allt. Í dag verð ég í Northfield með Karólínu. Hún er að keppa þar í sections, úrtökumótinu fyrir fylkismeistaramótið.

Skýrslugerð lokið.