föstudagur, júní 24, 2005

Verslað

Þá fara að verða síðustu forvöð að versla áður en haldið er í útlegðina. Ekki það að mér finnist ekki nóg af verslunum á Íslandinu en það er blessað verðlagið sem mér ógnar. Ég ætla að forðast það að versla í sumar. Þetta þýðir það að ég þarf að reyna að finna fatnað sem hentar íslenskri veðráttu á þessum tíma árs þegar hér er líkamshiti utandyra, það gæti orðið þrautin þyngri. Sem betur fer þá sýnist mér veðrið hafa snúist til hins betra heima á Íslandi, þ.e. allavega norðanlands og svo hefur hlýnað, ég var farin að kvíða dulítið fyrir kuldanum, ég fæ nóg af honum hér á veturna. Karólína reyndi að versla fyrir Ísland áður en hún fór til Spánar, sérstaklega vantar hana íþróttaföt til að vinna í í Reykjavíkinni, hún verður að vinna á leikjanámskeiðunum hjá ÍR í sumar henni til mikillar gleði. Mér hefur virst að það sé allt að helmings munur á verði á íþróttaskóm á Íslandi og hér og ennþá meiri er munurinn á tískufatnaði, það sem henni finnast vera dýrar gallabuxur kosta hér $70 (c.a.4500ikr) oftast fær hún þær fyrir $50-60. Reyndar eru þetta ekki Diesel, enda hefur hún ekki fundið buxur frá þeim sem passa hennar löngu leggjum (hún notar 28-37) og það passar mér ágætlega að þurfa ekki að borga $150 fyrir gallabuxur!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Næst því að vera bóndi með smábátaútgerð af gamla skólanum, gæti Halur helst hugsað sér að vera eldhúskarl á eigin veitingastað. Til hamingju með drenginn og gangi honum allt í haginn á hinum eldheitu stígum veitinganna.