föstudagur, mars 30, 2007

Ég hef verið á ráðstefnu í Minneapolis síðan á miðvikudaginn. Ráðstefnu matsfræðinga. Alveg fyrirtaks ráðstefna og gerði mér voðalega gott. Þegar ég sit ein við á skrifstofunni hérna heima þá verða allar hugmyndir að hálfgerðum monsterum og virðist annaðhvort stækka og magnast í huga mínum eða hjaðna niður og verða að engu vegna vantrúar á að mínar hugmyndir geti verið "réttar" eða þess virði að koma þeim á framfæri. Þetta var alveg það sem ég þurfti. Góð sprauta, beint í æð.

Það lítur út fyrir að hún dóttir mín verði ritari úrólógans í sumar. Sami þvagfæraskurðlæknirinn og sá sem fór til Rússíá að veiða s.l. haust og ætlar til Patagóníu á næsta ári. Hún verður vonandi honum til hjálpar og gagns. Hún er góð stelpa og feyki dugleg. Óvíst með ritarahæfileikana en hún stendur sig alltaf vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Það mætti halda að ég væri stolt af henni. Kannski pínu...eða bara voðalega mikið.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Það er búið að vera svo dásamlegt veðrið síðustu dagana, 28 stiga hiti og sól bæði í gær og fyrradag og ég fór út í vorverkin í garðinum í gær. Ég gerði nú ekki mikið því það á náttúrulega að kólna eitthvað aftur en ég klippti runna en tók sem minnst af laufum sem söfnuðust saman í kringum runnana í haust og vetur enda vernda laufin plönnturnar fyrir kuldanum. Við Halli borðuðum úti í gærkveldi enda blíðan mikil. Það er svo ólíkt að sitja úti á þessum tíma og svo á sumrin því skordýrin eru ekki komin á kreik og því hljóðin í náttúrunni allt örðuvísi og lyktin náttúrulega gerólík.

Þetta er sá tími árs sem pabbi minn heitinn lifnaði allur við eftir fótbolta- og handboltadvala vetrarins. Hann hefði orðið 74 ára í dag en náði bara því að verða 68 ára. Golfvellir landsins eru væntanlega að koma undan vetri en hér í bæ eru enn nokkrar vikur í fyrstu golfvallaopnun. En það fer sannarlega að styttast í það. Þegar ég kem aftur frá Íslandi 21. apríl verður væntanlega allt orðið grænt og ávaxtatrén rétt um það bil að blómstra.

föstudagur, mars 23, 2007

Vorið er komið og grundirnar....... Hér er vorið komið með öllum þeim loforðum sem því fylgir, m.a. loforð um betri tíð og blóm í haga. Þetta loforð stenst alltaf hérna en svo kemur oftast kuldakast einhverntíma á næstu tveimur mánuðum, stundum tvö. Í gær var 14 stiga hiti, sól og logn og það á verða hlýrra í dag en annars sól og logn og á morgun líka og sunnudaginn líka!!!!!!! Svo á að koma þrumuveðra tíð, en það er líka hluti af vorinu svo það gerir ekkert til. Á meðan það snjóar ekki með brunagaddi þá er þetta allt í lagi. Við Halli fáum örugglega að sjá nóg af kulda og vosbúð um páskana fyrir norðan. Vonandi fáum við gamaldags páskablíðu með yndislegu skíðafæri en auðu í bænum og á Lönguklöpp. Maður getur nú alltaf látið sig dreyma, stundum meira að segja rætast draumarnir.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Ég hef óskaplega gaman af að velta fyrir mér hvernig við, mannfólkið, myndum okkur skoðanir og hvernig við öflum okkur þekkingar. Sérstaklega þegar kemur að stjórnmálum og hvaða skoðanir við aðhyllumst. Flest þau sem eru á mínum aldri ólust upp við það að bara eitt kannski tvö dagblöð komu á heimilið. Kannski bara Mogginn stundum Tíminn, kannski bara Þjóðviljinn og aldrei Mogginn og kannski Alþýðublaðið. Afar sjaldan Mogginn og Þjóðviljinn á sama heimilinu. Það sem allir áttu sameiginlegt var útvarpið (ekki RÚV heldur Ríkisútvarpið, ekki rás eitt eða tvö, bara gamla Gufan). Við þessar aðstæður er skoðanamunur tiltölulega lítill en rökræður eftir sem áður mjög harðar. Börn alast upp við umræður á heimilum og mótast af þeim, stundum algerlega á hvorn veginn sem er en öll mótumst við af þeirri umræðu, þ.e. ef einhver umræða er til staðar. Svo kaupa mamma og pabba ákveðin blöð sem nú til dags eru ótal mörg, sérstaklega í mínu samfélagi hérna vestanhafs. Þessi blöð styðja að öllu jöfnu mótaðar skoðanir, við veljum sumsé lesefni sem okkur er að skapi og styðjum því enn frekar okkar eigin skoðanir með því að lesa stuðninginn og mótsagnir við málflutning andstæðinganna. Við sumsé gerum sjaldan eitthvað í því að ögra okkar eigin skoðunum. Ég fylgist þokkalega með íslensku samfélagi og íslenskri umræðu en það fer oftst í gegnum síu Moggans eða sjónvarpsins, en nú er svo komið þegar mig langar að kjósa í vor að ég get ómögulega ákveðið hvaða flokk ég vil svo að kjósa. Það eru skoðanir og málflutningur á einhverju málefni í einum flokki sem mér líkar en svo annað í einhverjum öðrum og svo enn eitt annað í þeim þriðja. Svo koma persónuleikar stjórnmálamanna inní þetta allt saman. Hér vestanhafs er bara D og R og Repúblikana þoli ég sjaldan, sérstaklega með þennan forseta við stýrið en heima á Íslandi er þetta svo voðalega flókið. Ég sé það að ég þarf að setja mig all verulega vel inní málin og forgangsraða, en þá er það spurningin hvað á ég að lesa og hvar á ég að leita mér upplýsinga því allar fréttir fara í gegnum síu fréttamanns/fréttastofu og stefnuskrár flokkanna virðast vera tískubundnar og oft meira áríðandi að velta fyrir sér hvað er á milli línanna og hvað er ekki sagt en það sem er sagt. Ég á ærið verkefni fyrir höndum þessar þrjár vikur sem ég verð á Íslandi í apríl

miðvikudagur, mars 21, 2007

Ég dáist enn og aftur að róðrarliðinu. Þessir 45 unglingar mæta á æfingu sex daga vikunnar klukkan 5:15 og mér, aulanum þeim arna, finnst hræðilegt að vakna fyrir klukkan 5 einu sinni í viku. Klukkan fór af stað 4:45 takk fyrir. Að vakna svona fyrir allar aldir er erfitt það viðurkenni ég fúslega og þetta er sjálfsagt vani eins og allt annað en ef ég man rétt þá var hún Kristín mín oft orðin annsi framlág seinnihluta dags þegar hún æfði hérna heima. Mér finnst ég vera fremur árrisul en fer ekki oft á fætur fyrir klukkan 6 svo kannski er ég bara ekkert árrisul eins og ég hélt! Ég veit það eitt að ég má til með að leggja mig um miðjan daginn í dag ef ég finn tíma til.

Fyrsta þrumuveður vorsins með ausandi rigningu kom í morgun og á víst að halda áfram seinnipartinn. Það veitir ekki af hreingerningu eftir stórhríðar og sandburð vetrarins.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Síðasta ferðalagið mitt var hálfgerður óskapnaður. Ég varð veðurteppt í Chicago á leið minni á austurströndina og missti af vélinni til íslands og komst því ekki fyrr en 24 tímum of seint og þá farangurslaus. Töskurnar komu svo daginn eftir. Ég skemmti mér hið besta fyrir norðan í viku. Kenndi reyndar 8 tíma einn dag og svo 4 þann næsta og var eins og gömul tuska á eftir en allt gekk þetta vel. Á leiðinni til New York týndist ein taska og hana fékk ég ekki fyrr en fjórum dögum seinna og það þótti mér slæmt því við vorum á ferðalagi í North Carolina og í töskunni var náttúrulega helmingur af fötunum mínum og sá helmingur sem ég ætlaði að nota í fríinu. Mikið voðalega saknaði ég flugsins til Minneapolis á þessu ferðalagi en nú er farið að fljúga aftur hingað eftir vetrarhvíldina, sem betur fer.

Dvölin í NC var hin besta. Við byrjuðum á því að fara útá Outer Banks, eyjaklasi sem liggur fyrir utan strönd NC og er eiginlega bara sandrif en er nú til dags þétt byggt. Þaðan gerðu þeir Wright bræður sínar fyrstu tilraunir til að fljúga og að sjálfsögðu fórum við á safnið að skoða staðinn og eftirlíkingar af fyrstu flugvélinni. Kitty Hawk, Devil´s Hill og Roanoke eyja eru allt mjög áhugaverðir staðir. Seinni hluta vikunnar eyddum við í Durham hjá Karólínu okkur öllum til mikillar gleði. Það er voðalega gott að eyða miklum tíma með börnunum sínum, alveg sama þótt þau séu orðin "stór", kannski einmitt þess vegna er það gaman, þau eru svo góður félgsskapur.