fimmtudagur, mars 22, 2007
Ég hef óskaplega gaman af að velta fyrir mér hvernig við, mannfólkið, myndum okkur skoðanir og hvernig við öflum okkur þekkingar. Sérstaklega þegar kemur að stjórnmálum og hvaða skoðanir við aðhyllumst. Flest þau sem eru á mínum aldri ólust upp við það að bara eitt kannski tvö dagblöð komu á heimilið. Kannski bara Mogginn stundum Tíminn, kannski bara Þjóðviljinn og aldrei Mogginn og kannski Alþýðublaðið. Afar sjaldan Mogginn og Þjóðviljinn á sama heimilinu. Það sem allir áttu sameiginlegt var útvarpið (ekki RÚV heldur Ríkisútvarpið, ekki rás eitt eða tvö, bara gamla Gufan). Við þessar aðstæður er skoðanamunur tiltölulega lítill en rökræður eftir sem áður mjög harðar. Börn alast upp við umræður á heimilum og mótast af þeim, stundum algerlega á hvorn veginn sem er en öll mótumst við af þeirri umræðu, þ.e. ef einhver umræða er til staðar. Svo kaupa mamma og pabba ákveðin blöð sem nú til dags eru ótal mörg, sérstaklega í mínu samfélagi hérna vestanhafs. Þessi blöð styðja að öllu jöfnu mótaðar skoðanir, við veljum sumsé lesefni sem okkur er að skapi og styðjum því enn frekar okkar eigin skoðanir með því að lesa stuðninginn og mótsagnir við málflutning andstæðinganna. Við sumsé gerum sjaldan eitthvað í því að ögra okkar eigin skoðunum. Ég fylgist þokkalega með íslensku samfélagi og íslenskri umræðu en það fer oftst í gegnum síu Moggans eða sjónvarpsins, en nú er svo komið þegar mig langar að kjósa í vor að ég get ómögulega ákveðið hvaða flokk ég vil svo að kjósa. Það eru skoðanir og málflutningur á einhverju málefni í einum flokki sem mér líkar en svo annað í einhverjum öðrum og svo enn eitt annað í þeim þriðja. Svo koma persónuleikar stjórnmálamanna inní þetta allt saman. Hér vestanhafs er bara D og R og Repúblikana þoli ég sjaldan, sérstaklega með þennan forseta við stýrið en heima á Íslandi er þetta svo voðalega flókið. Ég sé það að ég þarf að setja mig all verulega vel inní málin og forgangsraða, en þá er það spurningin hvað á ég að lesa og hvar á ég að leita mér upplýsinga því allar fréttir fara í gegnum síu fréttamanns/fréttastofu og stefnuskrár flokkanna virðast vera tískubundnar og oft meira áríðandi að velta fyrir sér hvað er á milli línanna og hvað er ekki sagt en það sem er sagt. Ég á ærið verkefni fyrir höndum þessar þrjár vikur sem ég verð á Íslandi í apríl
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Vellíðan hjá Hali er í öfugu hlutfalli við tíma þann er hann eyðir í pólitíska eða aðra daglega umræðu (!); þeim mun minni pólitísk hugsun, því betri líðan. Kannski merku um hnignun hugans. Því lætur Halur allflestar umræður af þessari sortinni líða hjá eða dregur sig í hlé enda ekki óvanur slíku.
Þú hefur nú samt skoðanir á náttúruvernd ef ég man rétt og það er orðið eitt af stóru pólitísku málunum ef ég skil þetta rétt. Kannki er það bara sápukúla
Sápukúlan vísar ekki á þínar skoðanir heldur tískumál stjórnmálanna. Þú ert skoðanafastur og vanafastur maður og breytist ekki svo hratt og auðveldlega. Ég bið forláts ef ég gerði mig ekki vel skiljanlega.
Skrifa ummæli