þriðjudagur, apríl 29, 2008

Lítið að frétta af vesturvígstöðunum. Ég sit við að skrifa og það gengur furðu vel og Halli vinnu mikið eins og svo oft áður, það eru alltaf 11-15 tíma vinnudagar hjá honum. Ég nenni nú ekki að vinna svona mikið og finnst skrif í 7 tíma á dag vera alveg nóg. Og það eru reyndar ekki samfelld skrif, ég geri allan fjandann á meðan, en þetta potast sumsé allt saman.

mánudagur, apríl 28, 2008

Það hefur tekið mig óvenju langan tíma að jafna mig á jet laginu. Það var eiginlega ekki fyrr en á fimmtudag sem mér fannst ég vera svona nokkuð "eðlileg", hvað sem það nú er. Mér fannst þetta alltaf alveg vera að koma en ég bara var eins og drusla snemma kvölds og gat varla haldið mér vakandi til 10 á kvöldin og var vöknuð fyrir 5 alla morgna. Nú er þetta komið. Mér tókst að vera voða dugleg að skrifa alla síðustu viku og þá er bara að vona að framhald verði á og að mér takist að ná markinu um skrif lok fyrir lok júní og Íslandsferð í júlí. 

Veðrið er búið að vera allavega, það fór best í 25 stig og sól í nokkra daga en svo kom laugardagurinn með frostmorgni og snjókomu seinnipartinn, svo sem ekkert sem festist en kalt var það. Nú fer hann að hlýna aftur og fer að nálgast 20 stigin seinni hluta vikunnar. Þá förum við Halli til North-Carolina í heimsókn til örverpisins en hún verður tvítug á mánudaginn.  Þar er spáð 30 stigum um helgina!

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Tiltekt í bílskúrnum

Á föstudaginn var þá fórum við Halli í Borgarnesið til tengdaforeldra minna. Bjarni hafði beðið Halla að hjálpa sér við að koma nokkrum hlutum á haugana. Við erum með dráttarkrók á gamla græna og því fóru þeir feðgar í Húsasmiðjuna og leigðu kerru og kassatrillu því koma átti ónýtri frystikistu og uppþvottavél á haugana ásamt einhverju smálegu. Það varð þó fljótlega ljóst fyrst við Halli vorum á staðnum að meira en smálegt myndi hverfa en fyrst var nú bara tekið það sem auðvelt var og augljóst að mátti missa sín. 

Á meðan þeir feðgar fóru á haugana þá tókum við Kristín til hendinni og ég náði að komast alla leið að endavegg bílskúrsins, nokkuð sem ekki hafði verið gert síðan húsið byggðist 1964 því þar voru vírar sem höfðu verið notaðir í járnabindingu hússins. Það var því myndarlegur haugur sem mætti þeim feðgum þegar þeir komu til baka og það var ljóst þegar hann sá hauginn að tengdafaðir minn var ekki ánægður með mig og fannst ég vera heldur stjórnsöm. Hann fór því í gegnum hauginn en það var bara einn gamall lampi sem fékk að fara til baka. Ekki það að ekki hafi verið nöldrað, tuðað og rökrætt, það fór mikill tími í það en hann sá að það voru lítil not fyrir rimlagardínur frá 1964, sóltjald á svalirnar þar sem nú er sólhús, sængur angandi af raka og myglu, brotnar plasthillur, föt frá því í hinu lífinu og mölbrotna blómapotta. Ég spurði hann svo hvað ætti að gera við stafla af dekkjum sem voru í horninu og fór að tína þau út og fram komu átta dekk sem ekki pössuðu undir bílinn. Þá tók Halli fram mjótt dekk, lítið breiðara en nútíma hjóladekk, og spurði pabba sinn hvort hann myndi eftir hvaða bíl dekkið tilheyrði og sá gamli hélt það nú, "þetta er undan Skódanum". "Ekki bara Skódanum" svaraði Halli "þetta er undan fyrsta Skódanum þínum, árgerð 1959 eða svo". Sá gamli leit á dekkið og sagði "dekkið er alveg óslitið". Jamm, og gúmmíið eflaust heilt líka. 
Í hinu innra horni bílskúrsins var annar stafli af dekkjum, ein tólf stykki, en þau fékk ég hann ekki til að hreyfa.  

Ég spurði svo hvort hægindastóllinn sem trónaði á miðju gólfinu mætti fara. Sá gamli hélt nú ekki, "ég á þennan stól og ég ræð hvað verður gert við hann. Ég fékk hann í fimmtugsafmælisgjöf". Gamli er 87 ára. Ég gaf mig og það er eins gott að sá gamli er fastur fyrir því eftir á að hyggja er þetta allra laglegasti stóll, en hann hefur verið í rakanum og skítnum í bílskúrnum í áratug eða svo og ber þess skýr merki. Ef hann verður yfirdekktur þá verður hann að allra laglegustu mublu því hann er mjög fallega hannaður. 

Gamli settist svo niður í haugskítugan stólinn í nýhreinsuðum jakkanum sínum og renndi augum yfir hillurnar. Hann benti okkur á tjöld sem voru þar, "annað þeirra er gamalt, en hitt er nútímatjald". "Já, ég á þetta gamla tjald" svaraði tengdamóðir mín, "ég fór með það í skátaútilegur þegar ég var krakki". Hún er 79 ára. Tjaldið er hvítt með reimum að framan og tré súlum og að sjálfsögðu botnlaust. Nútímatjaldið var keypt 1978 en ber þetta virðulega heiti vegna þess að það hefur botn, rennilás og himinn! Bæði tjöldin fengu að vera og vorum við öll sammála um það. 

Í einum af mörgum svörtum ruslapokum í bílskúrnum fann ég gamlan "mokka jakka" (ekki veit ég hvaðan þetta heiti kemur) og honum vildi ég alls ekki henda því þetta er fallegur jakki en þarf að fara í hreinsun, hann er svolítið sorglegur eins og er. "Þetta er ekta lambsskinn sem búinn var til á Heklu fyrir Rússana" sagði sá gamli. Ég lagði til að hann gefi nafna sínum þeim eldri jakkann og var sá gamli alsæll með uppástunguna. 

Þegar þeir feðgar komu heim úr fyrri ferðinni þá komu tveir svartir plastpokar með til baka. Annar þeirra var með rauðum "nýlegum" svefnpoka í, að mér fannst angandi af raka og myglu en gamli sagði pokann heilan og fínan til síns brúks. Ekki vil ég sofa í honum. Hinn svarta pokann sá ég nú aldrei en frétti af honum nokkrum dögum seinna. Sá gamli hafði fundið poka með gömlum fötum sem hann hafði ekki farið í gegnum sjálfur en hann gerði sér grein fyrir að hann myndi mæta mótspyrnu þegar heim var komið og bað því son sinn um að dreifa athygli okkar kvennanna svo hann gæti laumað pokanum inn. Halli sagðist ekki taka þátt í svona svo gamli kom pokanum víst bak við hús fyrst. Hvort hann er þar enn veit ég ekki. 

Þegar ég hafði tæmt að mestu lítinn skáp sem komið hafði verið fyrir á einni hillunni þá glitti í annan á bakvið. Þar var kominn kistill sem kall minn fékk frá föðurbróður sínum þegar hann var lítill. Kistillinn fylgdi okkur á Hjarðarhaganum, Tjarnarlundinum og Stapasíðunni en þegar við fluttum til Noregs þá fengum við að geyma hann í Nesinu. Ég hafði leitað dyrum og dyngjum að þessum kistli fyrir mörgum árum án árangurs og hélt að hann hefði týnst í einhverjum flutningunum. Þarna var hann kominn blessaður og í honum var matarstell, eða það sem eftir var af því, sem amma mín blessunin hafði gefið okkur stóran hluta af. Nú er kistillinn kominn á Kvisthagann og trónir þar undir fallegum glugganum. Ja, hérna þetta er eins og fjársjóðleit að fara í gegnum bílskúr hjá tengdó.

Við vorum öll sammála um þegar kerrunni hafði verið skilað og tvö hlöss af drasli höfðu komist á haugana að þetta hefði gengið ljómandi vel. Gamla fannst hann nú hafa verið í vörn stóran hluta dagsins en þetta gekk nú vel að lokum og þá er bara að ráðast í efri fataskápana inni. Þar hefur ekki verið tekið til lengi enda þau orðin alltof gömul til að príla í stigum. Tengdaföður mínum finnst það nú ekki en við hin í fjölskyldunni erum á móti svoleiðis ævintýramennsku. Mágkona mín og dóttir hennar eru með það á stefnuskránni. Þær þurfa að undirbúa sig vel fyrir átökin, andleg sem líkamleg.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Það fóru kuldaskil yfir okkur í nótt með tilheyrandi þrumuveðri, mitt fyrsta þetta vorið. Það var ósköp notalegt að heyra í þrumunum og það brakaði og brast í öllu og það er enn að sperra sig veðrið. Halli fór nú samt á vespunni í vinnuna, það þarf nú meira en þrumuveður til að fá hann til að ferðast með bíl. Það er gott að vera komin heim og alveg ótrúlegt hvað uppþvottavél og sjálfskiptur bíll er mikill lúksus eftir að vera í húsum okkar á Íslandi sem hvorugt hafa uppþvottavél og gamla græna sem er náttúrulega beinskiptur. 

Annars sé ég að það er þvílík blíða í höfuðstað Norðurlands að ég lít á vefmyndavélar mörgum sinnum á dag. Það er mikil fegurð í Eyjafirðinum þessa dagana.

mánudagur, apríl 21, 2008

Við komum hingað heim á Westwood Court á laugardagskvöldið eftir tiltölulega einfalt og létt ferðalag. Allt gekk þetta samkvæmt áætlun og telst það til tíðinda. Það var óskaplega gott að koma heim, hér er allt að verða grænt, rétt blettir hér og þar sem gætu þurft merðferðar við en allir runnar og tré eiga ekki nema nokkra daga til vikur í að springa út. Bjarni og Nicole komu til okkar á laugardagskvöldið en við vorum löngu komin í draumheima þegar þau birtust enda var það ekki fyrr en eftir miðnætti og við í 5 tíma jet lag. Við eyddum gærdeginum saman hér í rólegheitum og Bjarni eldaði svo í gærkveldi yndislega máltíð eins og venjulega og til okkar komu í mat góðir vinir að auki. Í gær gerðist ég heldur gráðug í sólina því ég sat úti í tvo klukkutíma eða svo og er all verulega brennd. Það var 19 stiga hiti, logn og hvergi skýhnoðra að sjá. Í dag á hann að fara í 24 stig en svo á að kólna eitthvað aftur en ekkert sést í hret ennþá. Þau koma nefnilega hingað líka. Nú taka skrifin við hjá mér. Ég hef sett mér það markmið að ljúka öllum skrifum fyrir lok júní! 

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Búin að skila af mér til Akureyrarbæjar og lifði af að segja frá því sem gerðist, mér var sumsé ekki slátrað. Allt gekk þetta einhvernvegin, ég er nokkuð sátt, það má alltaf gera betur, mér finnst ég aldrei ná að orða allt rétt sem ég þarf að segja en svona er þetta bara, fullkomið verður það ekki hvernig sem ég reyni.

mánudagur, apríl 14, 2008

Halli minn er kominn mér til mikillar ánægju. Börnin okkar halda því fram að þessi aðskilnaður hafi verið góður fyrir okkur en við gömlu erum ekki á því, þetta var alltof langur tími, við erum of náin fyrir svona langan aðskilnað. Okkur hefur tekist að gera eitt og annað eins og venjan er þegar hann mjög virki maður minn mætir. Göngutúr í miðbæ Reykjavíkur, kaffihús með Gurlu, kaffi heima á Kvisthaga með Kalla og Siggu, kvöldmatur hjá Gurlu með vinum...þetta allt á föstudaginn. Á laugardaginn fórum við í göngutúr um Heiðmörkina um morguninn með Stjána og co, fermingarveislu um eftirmiðdaginn og svo kvöldverður í Borgarnesi með fjölskyldunni. Gistum í Borgarnesi og keyrðum norður í gær og fórum í mat til bróður míns. Í morgun fórum við í ísskápa leiðangur. Þegar við komum hingað þá var gólfið í eldhúsinu allt orpið og undið og í ljós kom að ísskápurinn eyðilagðist og vatn lak útá gólf. Sem betur fór þá var hvorki kjöt né fiskur í skápnum svo lyktin var ekkert voðalega slæm og við vonumst til að gólfið jafni sig þegar það þornar. Nýi ísskápurinn er kominn og hinn fer á haugana á eftir. Þetta finnst mér nú bara vera þó nokkur afrakstur þriggja daga því þetta er náttúrulega í viðbót við undirbúning fyrir tveggja tíma fyrirlestur í dag og annan á morgun hjá mér.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Myndin sem ég setti á bloggið í gær tók systir Halla þegar við vorum í Barcelona í haust, nánar tiltekið við Ólympíuleikvanginn. Hún sendi mér þessa mynd af okkur gömlu hjónunum í tölvupósti í gær og þar sem mér líkar myndin þá setti ég hana inn. 

Ég hef verið of dugleg að fara í ræktina undanfarnar vikur, það svo mjög að ég sé mig knúna til að taka mér hvíld í dag. Ég er víst ekki tvítug lengur og líkaminn þolir ekki svona mikil átök dag eftir dag án þess að mótmæla. Síðan um páska hef ég farið 5-6 sinnum í viku, 1.5-2.5 klukkustundir í senn. Í viðbót við þetta hef ég farið í göngutúr margan fallegan daginn. Ég sem er svo dugleg að teygja mig og sveigja, þjálfa allan líkamann alltaf, anda rétt, gera samsettar æfingar, hvíla mig og borða rétt en þetta dugir bara ekki. Ég verð víst að taka pásur oftar, þ.e. að sleppa degi hér og þar...og þá sleppa alveg, ekki bara gera lítið. Oh, en leiðinlegt.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Barcelona 2007


Barcelona 2007
Originally uploaded by Kata hugsar

Úr stjörnuspá Moggans fyrir meyjar eins og mig:

"Að vita hvenær skal hætta og hvenær að þrjóskast við er hæfileiki sem þú býrð yfir. Þú gefst ekki upp fyrr en þú hefur unnið, og leggur ekki upp í vonlausan leiðangur."

Að þrjóskast við kann ég, að gefast ekki upp fyrr en ég hef unnið á einnig við en að vita hvenær skal hætta eða að leggja ekki uppí vonalusan leiðangur er ég ekki svo viss um að ég kunni.
Nú er ég farin að sjá fyrir endann á verkefnunum mínum tveimur. Þ.e. ég sé fyrir endann á gagnaöflun í doktorsdótinu, ekki doktornum sjálfum. Jú kannski smá ljós, en ekki alveg í næstu viku. Svo er ég alveg að fara á límingunum varðandi Akureyjarbæjarverkefnið. Þetta er nefnilega minn bær og mitt fólk og einhversstaðar stendur að enginn verði spámaður í sínu föðurlandi svo ég er skíthrædd um að mér verði slátrað á kynningunum tveim í næstu viku. Ég sit því við öllum stundum og kembi öll mín gögn og fyrirlestra og hjartslátturinn fer öðru hverju uppúr öllu valdi. Ég ætti kannski að hafa púlsmælinn á mér og athuga hvað gerist þegar ég er í þessum undirbúningi. Það er langt síðan svona mikill kvíði hefur sótt á mig fyrir kynningu á niðurstöðum.

Tveir dagar í Halla og mikið verður gott að hafa hann hérna þegar að þessu fundastússi kemur.

sunnudagur, apríl 06, 2008

Við systurnar fórum á minningartónleikana um Villa Vill í gærkveldi og það var svoooo gaman. Stundum fannst mér ég vera komin heim í stofu í Birkilundinum, og stundum í Sjallann, stundum var ég á heimavistinni í MA, og í elstu lögunum þá var ég í salnum uppí Skíðahóteli, þá reyndar c.a. 6, 7 eða 8 ára. Vor í Vagalskógi, Litla sæta ljúfan góða, Pólstjarnan, Lítill fugl, Ramóna, og fleiri og fleiri. Þetta var hrein unun, valinn maður/kona í hverju rúmi.  

föstudagur, apríl 04, 2008

Ein vika þangað til Halli kemur. Nú get ég farið að telja niður í dögum  :-)
Ég verð nú að viðurkenna að ég hef voðalega litla samúð með vörubílstjórum og þeirra agðerðum. Jú, það er hundfúlt að þurfa að borga allan þennan pening fyrir olíu og bensín en það er enginn hluti af þessari hækkun ráðamönnum um að kenna, og hvað þá hinum almenna borgara sem aðgerðirnar bitna á. Það er heimsmarkaðsverð og gengi krónunnar sem stjórna meira en nokkuð annað og ég er ekki viss um að mótmæli vörubílstjóra og 4x4 klúbbsins (sem ég hef akkúrat enga samúð með) fái nokkru um það breytt. Ég hef reyndar afskaplega lítið lent í veseni mótmælanna vegna enda stjórna ég ferðum mínum um borgina að miklu leyti sjálf en þeir sem háðir eru þröngum og ofhlöðnum samgönguæðum borgarinnar til að komast leiðar sinnar eiga alla mína samúð. Það á ekki að láta þá þjást dag eftir dag. Allt í lagi í dag eða tvo en nú er nóg komið. Mótmælin hafa ná augum og eyrum allra en eru nú að nálgast hættulegt svæði skepnuskapar og þá fer nú samúð flestra að hverfa. Hingað til hafa líka atvinnubílstjórar hækkað gjöld sín eftir því sem bensín og olía hækkar og hafa þannig velt kostnaði yfir á kaupendur sem er réttlátt. Við kaupum af þeim þjónustu og hún kostar sitt samkvæmt útreikningi og í þeim útreikningi er olíuverð innifalið. 

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Smá mont af dóttur minni. Þetta var skrifað um hana Kristínu mína á fréttasíðu Princeton háskóla:
"Senior captain Kristin Haraldsdottir is more than just the top rower in the Princeton open crew program. Along with senior coxwain Lizzie Agnew, she is the last remaining link to the magical 2006 squad that went unbeaten and routed the field at the NCAA Championships. Head coach Lori Dauphiny is hoping Haraldsdottir´s attitude continues to strengthen the program as Princeton prepares for the 2008 season. "Kristin is a real presence on the team," Dauphiny said. "She is a leader by example, and her work ethic would rank among the best we´ve had here. She is relentless and the best example on the team in terms of improving performance. I hope more follow in her footsteps."

Þær unnu fyrsta mót vorsins á laugardaginn á móti Brown og Michigan State. Halli og Karólína voru á staðnum og ég fékk að fylgjast með live í gegnum síma því Halli hringdi í mig þegar u.þ.b. ein mínúta var eftir.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Það er þvílíka fegurð að sjá útum gluggann minn. Hvergi skýhnoðra að sjá, bátar og skip á Faxaflóanum, fuglarnir á fleygiferð og mannfólkið að sinna sínu. Hvort þetta er gluggaveður eða ekki veit ég ekki ennþá en einhver vindur er nú sýnist mér en ekki svo mikill. Rétt um frostmark og því kallar þetta á göngutúr seinnipartinn í viðbót við ræktina. Núna þegar dagsbirtu gætir fram undir hálf níu á kvöldin þá er nægur tími til að sinna þessu öllu eftir vinnu.