miðvikudagur, júní 13, 2007

Römm er sú taug er rakka dregur föðurtúna til.

Af stað ég fer eina ferðina enn.

mánudagur, júní 11, 2007

Flott grein um Hrafnagilsskóla í miðju Moggans í dag!
Á föstudaginn sendi ég leiðbeinandanum mínum ritgerðina einu og sönnu til yfirlestrar en hún (leiðbeinandinn, ekki ritgerðin) er í Atlanta á fundi og er svo farin í sabbatical í eitt ár svo nú er að sjá hvernig framvindan verður með hana upptekna í örðum heimsálfum. Það var gott að losa sig við ritgerðina í einhvern tíma því ég get lítið gert á meðan ritgerðin er í yfirlestri, sem þýðir náttúrulega að ég hef meiri frítíma!

Ég er byrjuð að pakka fyrir Íslandsferð!

föstudagur, júní 08, 2007

Ég er komin á fullt í ræktinni aftur, og eins og svo oft áður þá kann ég mér ekki hóf þegar kemur að heilsurækt. Í fyrradag sendi þjálfarinn minn mér tölvupóst þar sem hún spurði hvort það væru einhver sérstök svæði á líkamanum sem ég vildi vinna að og ég skrifaði á móti að ég vildi styrkja rass, maga og axlir og í gær var erfiðasti tími sem ég hef verið í hjá henni. Í dag er ég að kálast úr strengjum, aðallega í rassinum og ég er strax farin að kvíða morgundeginum! Ég geri örugglega engar styrktaræfingar yfir helgina, ég má þakka fyrir ef ég verð búin að ná mér á mánudaginn.

Bölvans óhemjugangur þetta er alltaf hreint í mér.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Það er hljótt í húsinu því íslensku læknarnir eru farnir að hvíla sig og við gömlu sitjum við vinnu. Karólína er í vinnunni en kemur væntanlega innan örfárra mínútna. Okkur Halla var boðið út að borða af gestunum okkar og áttum við rólegt og gott kvöld yfir góðum mat á skemmtilegum veitingastað. Það er búið að vera hávaðarok í allan dag og eftir rigningu morgunsins kom hiti (32 gráður) og raki. Veröldin er alltaf jafn falleg á þessum tíma árs þegar plönturnar mínar skiptast á um að springa út áður en dádýrin ná að éta knúppana. Það fer að styttast í sorglega brottför íslensku fjölskyldnanna okkar hér í bænum og við ætlum að reyna að eyða eins miklum tíma af helginni saman eins og hægt er...síðustu helginni okkar allra hérna í bænum. Þetta verður hræðilega erfitt fyrir okkur því það eru allir okkar vinir að fara eða eru farnir. Haustið verður erfitt, við verðum bara að leggjast í ferðalög til þess að hitta vini og fjölskyldu.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Mayo Clinic og maðurinn minn ætla að halda fund (Mayo Vascular Symposium, nei ekki HB Vasc...) á Íslandi eftir tvær vikur á Hótel Nordica (eða hvað það nú heitir núna...Hilton Nordica?) og nú er undibúningurinn á allra síðasta sprettinum. Þetta er búið að vera margra ára ferli og nú er sumsé loksins að koma að þessu. Halli setur fundinn að morgni 19. júní og slítur honum um hádegi þann 22. Þetta verða annasamir dagar hjá okkur því margir af okkar vinum og svo starfsfélagar hans verða á fundinum og það má búast við því að margir vænti persónulegrar þjónustu frá okkur. Það verður opið hús hérna hjá okkur á mánudagskvöldið fyrir þá sem vilja fræðast um land og þjóð áður en haldið er af stað og það eru ótrúlegustu hlutir sem við verðum að vita um landið til þess að geta svarað öllum spurningunum sem upp koma. Við þurfum að vita allt um stjórnarfar, stjórnmál, jarðfræði, sögu, bókmenntir, skólagöngu, menntun, veðráttu, landafræði, ferðamál, mannfræði og svo má lengi telja. Það er eins gott að standa sig því margt af þessu fólki er búið að liggja yfir bókum og tölvum til að afla upplýsinga áður en lagt er af stað, það þýðir því lítið að skálda í eyðurnar mörgu og stóru. Þetta er nefnilega ógnardýrt ferðalag og allir vilja fá sem mest útúr ferðinni og hér og nú panta ég gott veður!!!

mánudagur, júní 04, 2007

Ég er að vinna þessa dagana við verkefni fyrir Klíníkína einu og sönnu. Einn af yfirlæknunum á í miklum vandræðum með traust samstarfsmanna sinna og hefur komið illa útúr könnunum (staff survey) síðustu tveggja ára. Ég er að kíkja bakvið tölurnar og spyrja "af hverju" spurninganna. Þetta hefur verið mun erfiðara en ég bjóst við, það hefur verið mjög auðvelt að ná í alla lækna deildarinnar og allir hafa verið tilbúnir að ræða málin en það sem hefur verið sagt hefur reynst mjög erfitt að hlusta á. Í dag tek ég síðustu fimm viðtölin og þá eru öll 36 búin og við tekur greiningarferlið. Það erfiðasta verður að setjast niður með yfirlækninum og kynna niðurstöðurnar, það verður ekki fallegur dagur.

föstudagur, júní 01, 2007

Það er búið að vera yndislegt hér síðustu dagana. Kristín og Adam komu heim á mánudagskvöldið og svo komu Bjarni og Nicole niðureftir í gærkveldi og því var allur hópurinn okkar á staðnum og það er fátt skemmtilegra en að hafa öll börnin sín heima. Kristín og Adam fara svo til Íslands í kvöld á vit sumarævintýranna og eftir verðum við með Karólínu og svo íslenska lækninn sem verið hefur hjá okkur síðan í apríl. Það er víst best að kvarta ekki heldur njóta á meðan er.