miðvikudagur, október 31, 2007

Maðurinn minn sótti um prófessorstöu við Háskóla Íslands í mars s.l. Hann fór í hæfnismat og var dæmdur hæfur af bæði HÍ og LSH. Síðan hefur ekkert heyrst og það eru liðnir 7 1/2 mánuður en ekki er það vegna fjölda umsækjenda, hann var sá eini. Ekkert viðtal, ekkert annað en að hann hefur látið heyra í sér í góðra vina hópi að hann sé ekki ánægður. Það kallaði á viðbrögð einhverra í valdastöðu og því var hringt en sagt að ekkert væri hægt að gera að svo stöddu því málið væri "í nefnd" sem er tungutak aftan úr miðstýrðri forneskju. Það virðist enginn hafa í sér döngun til að setja hnefann í borðið og taka ákvörðun á hvorn veginn sem er. Kannski vilja þeir bara ekkert fá hann en þá þarf að segja það umbúðalaust. Kannski eru þeir að smíða málatilbúning til að geta hafnað honum án þess að það líti illa út. Það er nú ekki svo að hann sé atvinnulaus og þurfi á þessari stöðu að halda til þess að halda andlitinu, yirlæknisdjobbið hans hér er ekkert til að fela eða kvarta undan. Okkur langar að flytja heim innan þriggja ára eða svo en það verður á okkar forsendum, ekki á forsendum þeirra sem draga hann á asnaeyrunum og í skjóli nefnda.

þriðjudagur, október 30, 2007

Nú fer að styttast í næsta ferðalag. Við Halli leggjum af stað í silfurbrúðkaupsreisu í lok næstu viku. Þá er reyndar afskaplega kunnuglegt ferðalag á dagskrá. Við keyrum til Minneapolis og leggjum í hann með Icelandair á leið til Íslands....höfum víst gert það áður! Stoppum á Íslandi í sex daga, og leggjum þá land undir fót með allri fjölskyldu Halla og höldum til Barcelona. Þar á að halda uppá gullbrúðkaup tengdaforeldra minna með þeim náttúrulega og báðum systkinum Halla og konu Ara. Til Barcelona höfum við aldrei komið svo þetta verður gaman. Ég hef verið að lesa mér til og er ákveðin í að fara á modernisma göngutúr um borgina og drekka í mig Gaudí og svo vil ég fara á Míró safnið. Þetta eru mínar tvær óskir og vonandi fæ ég þær uppfylltar. Það er ótalmargt annað sem mig langar að sjá en það verður að sjá til því í svona hópi verður að reyna að gera öllum til hæfis. Til baka komum við að kvöldi 19. og svo leggjum við í hann vestur um haf á silfurbrúðkaupsdaginn sjálfan, 20. nóvember. Stelpurnar mínar koma heim daginn eftir í Thanksgiving frí og Bjarni og Nicole koma svo annað hvort þann dag eða daginn eftir með vinum sínum og hér verður haldin stór og mikil Thanksgiving veisla með kalkún og miklu meðlæti kokkað af Bjarna og vinum hans.

sunnudagur, október 28, 2007

Sunnudagsmorgunn og klukkan er rétt um átta. Tveggja stiga frost úti en spáð 15 stiga hita yfir daginn og sól. Morgunmatur búinn hjá mér en New York Times og Sunnudags-Moggi bíða lesturs. Halli sefur ennþá. Það er einhver lumpa í honum, kannski hefur hann ofkeyrt sig. Vikan var ótrúlega erfið hjá honum og hann vaknaði í gær með svima og kuldahroll og var hálf ómögulegur í allan gærdag. Ég er voðalega fegin að hann láti eftir sér að sofa, það er ekki svo oft sem hann gerir það. Núna þegar hann er sestur aftur á skólabekk þá þarf hann að læra heima, skila ritgerðum, eitthvað sem hann hefur ekki gert síðan vorið 1979 þegar "stóru ritgerðinni" var skilað. Ekki þurfti hann að skrifa ritgerðir í læknadeildinni! Þetta er náttúrulega allt gert á kvöldin og um helgar eftir langa og erfiða vinnudaga. Alltaf sami dugnaðurinn í honum blessuðum, fellur sjaldan verk úr hendi. í gær fórum við útí sveit á búgarð kollega hans í Halloween/pumpkin útskurðar veislu. Það var undurfallegt, stafalogn og sól og haustlitir hvert sem litið var...hreint dásamlegt. Svo skelltum við okkur í bíó á eftir og sáum Michael Clayton með Georg Clooney sem var ljómandi góð, svolítið öðruvísi spennumynd og afar vel gerð. Sumsé góður laugardagur og sunnudagurinn lofa góðu.

fimmtudagur, október 25, 2007

Það er búið að vera undurfallegt hér heima síðan ég kom til baka. 10-15 stiga hiti á daginn, glampandi sól og lítill sem enginn vindur og haustlitirnir í hámarki, um frostmark á nóttunni og það er hrím yfir öllu þegar sólin kemur upp. Ég sit við að vinna fyrir Mayo, ég er í miðri viðtala hrinu, núna um núverandi ástand menntunar hjá röntgenlæknum og svo hvað bíður í nánustu framtíð. Ég er að tala við alla sem hafa eitthvað með menntun að gera á deildinni og Halli er einn af þeim. Ritarinn sem sér um að skipuleggja viðtölin fyrir mig hringdi í hann í síðustu viku og spurði hvort hann gæti farið í viðtal til mín. Halli fór að hlægja og sagðist ræða við mig heima við eldhúsborðið. Á planinu mínu sem ég fékk á mánudaginn segir að Dr. Bjarnason "will discuss at home". Hin 39 sem ég tala við verða að láta sér nægja símann. Við erum reyndar ekki búin að tala endanlega saman um þetta enda tölum við um heilbrigðismál alla daga og að sjálfsögðu koma menntamál röntgenlækna alltaf inní það. Kannski þeir hjá HÍ/LSH ættu að hlusta á viðtölin, allavega að sjá niðurstöðurnar þegar þær koma. Þar á bæ yrði kannski hugsað aðeins til framtíðar en ekki alltaf að bregðast við því sem búið er...reaktívt og próaktívt heitir hann víst munurinn sá.

miðvikudagur, október 24, 2007

Hún á afmæli hún Bryndís, hún á afmæli í dag!!!!!!!!!

Til hamingju með árin 40 kæra Bryndís

þriðjudagur, október 23, 2007

Það var svo gaman á föstudagskvöldið síðasta því þá hélt hún Bryndís mín mágkona uppá fjörutíu árin sín. Veislan var á Öngulsstöðum og það var boðið til mikillar matarveislu og allt náttúrulega heimatilbúið. Skemmtiatriðin voru heimtilbúin líka en það var ekki á þeim að sjá því tónlistarflutningurinn var betri en margt sem gefið er út enda atvinnutónlistarmenn í meirihluta. Það var gert mikið og skemmtilegt grín að Bryndísi og nánast daglegum uppákomum sem flestar eru afleiðing þess hversu utan við sig hún er. Ég var búin að gera uppkast af ræðu en þegar til kom þá fannst mér hún ekki passa því þetta var lofræða því ég þekki nefnilega ekki þá hlið Bryndísar sem gert var grín að. Ég þekki bara hlýlegu, notalegu, umhyggjusömu, duglegu, greiðviknu, hjálplegu, hliðina og þar sem afmælisbarnið bað um að engar lofræður yrðu fluttar þá sat ég sem fastast. Kannski hefði ég átt að hæla henni samt, ég er ekki nógu dugleg að segja mínum nánustu og kærustu hversu góð þau eru og hversu vænt mér þykir um þau og þetta var náttúrulega tilvalið tækifæri að bæta eitthvað úr því. En þá hefði ég klökknað og það er ekki gott í veislu með mörgum.

mánudagur, október 22, 2007

Komin heim eftir fína ferð til Íslands. Ég heimsótti marga, marga grunnskóla og nú er að skýrast hvaða skóla ég get rannakað. Ég þarf tvo á Akureyri og fjóra í Reykjavík og ég er búin að ákveða tvo fyrir norðan og tvo fyrir sunnan og nú er að leggjast yfir gögnin, og bíða eftir meiri upplýsingum frá skólunum og svo taka endanlega ákvörðun. Rannsóknin byrjar svo í febrúar og stendur yfir fram í apríl og ég reikna með að vera á Íslandi mest allan tímann. Það verður svo gott þegar þetta er búið og ég get farið að gera allt hitt sem mig langar til. Ég hef verið í sjálfskipuðu banni að gera eitthvað skemmtilegt í nærri tvö ár. Ég má ekki læra að fljúga, frönsku, trésmíðar eða MBA fyrr en þetta er búið og nú sé ég fyrir endann á þessu. JIBBBBBÝÝÝ

sunnudagur, október 14, 2007

Gærdagurinn endaði í mjög svo góðra vina hópi yfir góðum og skemmtilegum mat og dagurinn í dag byrjaði í hópi sömu vina nema nú var gengið klukkutíma í rigningu um Heiðmörkina. Yndislega falleg gönguleið, haustilitr farnir að gefa sig en lyktin af gróðrinum guðdómleg og við komum að bílunum náttúrulega blaut innað beini en ákváðum að hittast á Jómfrúnni í Lækjargötu yfir smørbrød og fíneríi áður en Halli hélt í Ameríkuflugið. Hann er nú farinn heim á leið og ég sit eftir í viku í viðbót til að vinna að undirbúningi Rannsóknarinna einu og sönnu og svo að fara í fertugs afmæli mágkonu minnar um næstu helgi. Ég hlakka mikið til, það er svooooooooo gaman að hitta skemmtilegt fólk sem er manni kært.

laugardagur, október 13, 2007

Þá er tölu minni yfir skólastjórum Íslands lokið og ég held að sæmilega hafi gengið. Ég fékk því miður enga umræðu af stað, ég var að vonast til að fá fullt af spurningum eftir fyrirlesturinn og gerði ráð fyrir því en því miður komu engar. Kannski var ég of óþolinmóð og lokaði of snemma, kannski var þetta of snemma dags til þess að frjó og gagnrýnin hugsun væri komin í gang, kannski hefði ég átt að biðja fólk að ræða í hópum áður en spurningum var beint að mér, kannski átti ég að fá fundarstjóra með mér í lið og ganga um salinn og örfa umræðu svolítið...hvað veit ég en allavega þá fékk ég ekki neinar spurningar en varla vegna þess að ég hafi svarað þeim öllum. Því geri ég mér alveg grein fyrir.

föstudagur, október 12, 2007

Hingað hef ég ekki komið langa lengi...eða síðan í júní. Það er langur tími, svona hlutfallslega, í lífinu.

Núna er ég á landinu bláa, Reykjavík útum gluggann minn, svolítið grá en stundum blá og fögur, alltaf skemmtileg. Halli er á fundi í Heilbrigðisráðuneytinu. Átti að vera þar í gær en vegna ýmissa atburða gærdagsins, eitthvað meira og stærra en hann, m.a. borgarstjórnarslit og allskonar vitleysa í gangi, þá var fundi frestað þangað til í dag. Vonandi er einhver ró komin á liðið svo það geti talað um heilbrigðismál. Ég fer á ársfund Skólastjórafélgs Íslands eftir hádegi suður í henni Keflavík en þar á ég að halda fyrirlestur um sjálfsmat í skólum í fyrramálið. Vonandi kemst ég skammlaust frá því, ef ekki þá hef ég nú verið að með hugann við eitthvað annað síðustu árin því þetta er víst það sem ég hef verið að læra og vinna við í ein sjö ár eða svo. Verð vonandi doktor í þessu á vordögum.