sunnudagur, október 28, 2007
Sunnudagsmorgunn og klukkan er rétt um átta. Tveggja stiga frost úti en spáð 15 stiga hita yfir daginn og sól. Morgunmatur búinn hjá mér en New York Times og Sunnudags-Moggi bíða lesturs. Halli sefur ennþá. Það er einhver lumpa í honum, kannski hefur hann ofkeyrt sig. Vikan var ótrúlega erfið hjá honum og hann vaknaði í gær með svima og kuldahroll og var hálf ómögulegur í allan gærdag. Ég er voðalega fegin að hann láti eftir sér að sofa, það er ekki svo oft sem hann gerir það. Núna þegar hann er sestur aftur á skólabekk þá þarf hann að læra heima, skila ritgerðum, eitthvað sem hann hefur ekki gert síðan vorið 1979 þegar "stóru ritgerðinni" var skilað. Ekki þurfti hann að skrifa ritgerðir í læknadeildinni! Þetta er náttúrulega allt gert á kvöldin og um helgar eftir langa og erfiða vinnudaga. Alltaf sami dugnaðurinn í honum blessuðum, fellur sjaldan verk úr hendi. í gær fórum við útí sveit á búgarð kollega hans í Halloween/pumpkin útskurðar veislu. Það var undurfallegt, stafalogn og sól og haustlitir hvert sem litið var...hreint dásamlegt. Svo skelltum við okkur í bíó á eftir og sáum Michael Clayton með Georg Clooney sem var ljómandi góð, svolítið öðruvísi spennumynd og afar vel gerð. Sumsé góður laugardagur og sunnudagurinn lofa góðu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli