mánudagur, júní 22, 2009

Það er nú búið að vera stanslaust prógram hjá okkur síðan við komum til Íslands. Hver dagur hefur verið skipulagður frá morgni til kvölds. Það hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að við komum miklu í verk en gallarnir eru þeir að við höfum lítinn tíma til að gera það sem okkur langar til þá stundina. Ekki að þetta hafi verið leiðinlegt, ó nei.

Það hefur verið ofsalega gaman. 30 ára júbíleringin var mjög skemmtileg, skírn, 80 ára afmæli tengdamömmu að ógleymdum gærdeginum sem fór í flúðasiglingu í Hvítá. Það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var fimmtugs afmælisgjöf til Halla frá tveimur dásemdarvinum og þvílík gjöf. Ég mæli með þessu.

Okkur varð náttúrulega óbærilega kalt í jökulánni og mér er svona rétt farið að hlýna almennilega núna 17 tímum eftir að við komumst í hús. En fegurðin frá ánni, spennan að róa niður flúðir, hmmm, þetta voru svo sem engar hetju flúðir sko, en hentuðu okkur byrjendunum vel, svo gufan, heit sturtan og heit súpa á eftir var vel til fundið eftir volkið.

Við erum dulítið eftir okkur í dag, það verður að viðurkennast, en ekki svo. Ég ætla að reyna að komast í ræktina, ef það tekst ekki þá ætla ég allavega að fara í góðan göngutúr/hjólatúr um borgina.

miðvikudagur, júní 10, 2009

Tengdaforeldrar mínir kvöddu okkur í gær en það eru nú bara fjórir dagar þangað til við sjáum þau næst. Við komum til Íslands á laugardaginn og reiknum með að keyra norður þann dag. Júbílering byrjar á sunnudaginn með göngu uppá vörðuna en þangað var ófært hið kalda vor 1979 og því ekki gengið við útskrift og ég hvorugt okkar hefur gengið að vörðunni síðan. Við júbíleringar höfum við alltaf verið degi of sein á svæðið en nú ætlum við sumsé að ganga að vörðunni. Ég er farin að hlakka all verulega til Íslandsferðar. Ég hef verið alltof lítið heima síðan í fyrra sumar, bara ein ferð í febrúar, og það er bara ekki nóg. Ég verð að standa mig betur.

fimmtudagur, júní 04, 2009

Veðrið hefur verið óvanalegt síðustu vikuna. Það eru tvær risastórar hæðir yfir norðurhluta landsins og þær hafa orðið þess valdandi að loftið er kyrrt, en hæðinni hérna megin landsins hefur fylgt afar þurrt loft. Í gær sögðu veðurfræðingar að loftið væri "bone dry" eða bara með 24% raka sem er ótrúlega þurrt. Þetta hefur valdið því að það er kalt á nóttunni, það voru 8 stig klukkan 5 í morgun, en svona um 25 stigin og sól yfir daginn. Um leið og sólin sest á kvöldin þá kólnar hratt en hlýnar að sama skapi vel yfir daginn. Það sér ekki fyrir endann á þessu mynstri svo kannski verður þetta svona þangað til við förum heim eftir rúma viku. Vonandi ekki því það þarf að vökva svo mikið með þessari veðráttu, það þornar allt á örskotsstundu.

þriðjudagur, júní 02, 2009

Tengdaforeldrar mínir og mágkona hafa verið hjá okkur í eina viku. Sigga fór svo til Íslands í gær eftir fína viku hérna hjá okkur. Við höfðum það voðalega gott, átum reyndar alltof mikið og hreyfðum okkur ekki nóg, en stundum fer þetta svona. Núna er bara að taka ræktina með krafti næstu tvær vikurnar áður en við förum til Íslands. Gömlu hjónin verða svo hjá okkur eina viku í viðbót. Þau eru tiltölulega spræk, miðað við aldur. Þau eru þrátt fyrir allt 80 og 88 ára gömul og ferðast enn hingað til okkar.

Stelpurnar eru farnar til New York og verða þar saman í sumar. Karólína les á hverjum degi fyrir inntökuprófið í lögfræði og leitar sér að vinnu þess í milli. Það er nú ekki um auðugan garð að gresja í stóra eplinu. Kristín er að taka efnafræði og vinnur fulla vinnu með svo nóg er að gera hjá þeim. Þær systur og Adam búa saman í 30 fermetra íbúð svo það er eins gott að þau eyði ekki alltof miklum tíma í íbúðinni, allavega ekki öll þrjú í einu!