þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Ég hlakka lifandis ósköp til morgundagsins þegar við leggjum í hann til Vail. Það lítur út fyrir góðan snjó og ágætis veður. Í fyrra var ógnarkalt ef ég man rétt þá var 10-15 stiga frost alla dagana en nú er spáð um frostmark og sól allavega í einn dag, kannski fleiri.

Jibbýýý 

mánudagur, febrúar 23, 2009

Hvers vegna í veröldinni hefur enginn af útrásarvíkingunum verið svo mikið sem kallaður fyrir dómara? Enginn þeirra hefur verið sóttur til saka, enginn hefur verið kallaður til ábyrgðar og það sem verra er að það lítur út fyrir að enginn þeirra verði sóttur til saka. Lítið fréttist af rannsókninni, enda kannski of stuttur tími liðinn en þeim mun meiri tími sem líður þeim mun meira svigrúm er til að koma eignum undan. Svo koma allar þessar fréttir af fjölda eigna og fjármunum Íslendinga í skattaparadísum heimsins.

Ég er eiginlega hætt að reyna að skilja hvernig íslenska réttarkerfið virkar. Það virðist vera illa undir það búið að taka á hvítflibbaglæpum og annaðhvort eru lög og reglur svo illa skrifaðar að það er auðvelt að komast undan eða að það fólk sem vinnur í þessu er ekki vel að sér eða hefur enga reynslu af svona vinnu. Æ, æ, þetta er ekki gott ef á að nást í þessar eignir allar því það er á hreinu að ógnarmagn af fjármunum, sem með réttu tilheyrir Íslendingum, er falið hingað og þangað um heiminn.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Það snjóar úti. Í fyrsta sinn síðan einhverntíma í janúar. Það er svo ósköp notalegt. Hljóðin allt öðruvísi, eins og veröldin sé vafin í bómull. Það á að snjóa fram eftir degi. Annars fylgist ég aðallega með snjóalögum í Vail því þangað fer ég á skíði í næstu viku. Annars lítur Fjallið mitt eina og sanna ekkert illa út þessa dagana og þar þekki ég náttúrulega mun fleiri en í Vail en það er nú allt í lagi því ég verð með mínum besta vini svo og henni Kristínu okkar. Hún er afskaplega skemmtilegur félagsskapur svo þetta verða ekki leiðinlegir dagar, það er ég alveg viss um.

föstudagur, febrúar 13, 2009

Ég sit hér í fallega Phoenix og bíð eftir að kall minn verði búinn á fundi því við ætlum í fjallgöngu seinnipartinn. Eftir það ætlum við á Chihuly sýningu. Chihuly er einn af okkar uppáhaldslistamönnum, þó sérstaklega Halla. Hann veit fátt skemmtilegra en að skoða glerlist.

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju stjórnmálamenn gerðu ekki neitt í málunum þegar ljóst var að allt var að hrynja. Lýsingar af viðtalinu við forsetahjónin eru ótrúleg því samskipti hjónanna á Bessastöðum virðist sýna dæmigerð viðbrögð stjórnmálamanns við athugasemdum manneskju með einhvern vott af skynsemi. Dorrit gerði athugasemdir við þróunina en Óli þaggaði niður í henni af því hún mátti ekki segja svona ljótt. 

Viðvörunarbjöllurnar voru búnar að glymja í a.m.k. þrjú ár og það virðist vera að stjórnmálamenn hafi haft undir höndum alls konar upplýsingar sem hefðu átt að nægja til að mótmæla bankaþróuninni en enginn hafði döngun í sér til að gera eitthvað í málinu. Elsti bróðir minn kom með skýringu sem mér finnst vera afar líkleg. Hann sagði sem svo að þegar stjórnmálamönnum og peningamönnunum lenti saman útaf REI málinu og stjórnmálamönnunum tókst að stoppa útrásina þá hafi það sent skilaboð til allra stjórnmálamanna hvað gerðist þegar reynt var að stoppa liðið. Það fór allt í háaloft í Reykjavík og hausar fuku til hægri og vinstri og allra handa leynimakk komst uppá yfirborðið, óháð hvar í flokki menn og konur stóðu. Þetta varð til þess að stjórnmálamenn hreinlega þorðu ekki að fara í slag við útrásarliðið. Vald útrásarmanna kom svo greinilega í ljós og hvaða tögl og hagldir þeir höfðu á stjórnmálamönnum og ekki hvað síst hversu vel þeir voru búnir að koma sér fyrir innan allra flokka. 

Þetta vald var hvergi skráð og var eins óformlegt og hægt er að hugsa sér nokkurt vald vera, en það var óhugnanlega mikið eftir sem áður. Þetta óformlega og óskráða vald sem útrásarliðið hafði finnst mér vanta í skýringar Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega á efnhagshruninu. Skýringar sem eru að öðru leyti mjög greinargóðar... að ég held, en hvað veit ég, fávís konan.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Þá er ég loksins að komast yfir jet-lag. Það tók fjóra daga í þetta skiptið. Mér finnst þetta svo óþægilegir dagar, eiginlega finnst mér ég lifa svona við hliðina á sjálfri mér og næ alls ekki að gera allt sem þarf. Ég er á einhverjum leiðinda hálfum dampi. Nú er þetta allt að koma og ég komin með tvö ný verkefni á Mayo og kannski eitt á Íslandi. 

mánudagur, febrúar 09, 2009

Ég gerði góða ferð til Íslands og eftir tíu daga þar var ég í þrjá daga í New York hjá Kristínu og Adam og svo sá ég Karólínu líka því hún var að keppa þar. Það var ískyggilega kalt á fimmtudaginn þegar ég lenti en svo snögg hlýnaði og í gær var 15 stiga hiti og sól og alveg óskaplega fallegt.  Vor í lofti og göturnar fullar af fólki. Ég hafði pakkað fyrir Íslandsferð og vetrarkulda og var því bara með loðfóðraða kuldaskó og dúnúlpu og var ekki vel undir vorloftið búin. Fæturnir voru soðnir eftir daginn og svitinn bogaði af hinni heitfengu mér.

Það er ekkert eins notalegt og hlýr og fallegur dagur eftir langa kuldatíð. Hér heima í Rochester er hlýtt en þokuloft og á morgun verður aftur hlýtt en sólin á að skína allan daginn. 

Það verður vetur næsta mánuðinn eða svo en þá fer líka að vora.