þriðjudagur, maí 30, 2006

Við mæðgur erum komnar heim eftir afburða sigur Princeton stelpnanna í háskólameistaramótinu. Mótið hefur aldrei unnist með svona miklum mun, þær voru ótrúlega góðar og ég fór ekki alveg yfirum en svona næstum því. Þær voru fyrstar í allri riðlakeppninni frá fyrsta árataki og það sama var uppá teningnum í úrslitunum. Það var ofsalega gaman að sjá svona gott lið og það eina sem ég gat hugsað, þ.e. í riðlakeppninni þá var ég ekki eins stressuð og í úrslitunum, það er þá svona sem á að gera þetta!

NCAA sigurvegararnir


NCAA sigurvegararnir, originally uploaded by Kata hugsar.

Kristín


Kristín, originally uploaded by Kata hugsar.

föstudagur, maí 26, 2006

Fyrsti riðillinn búinn og Princeton stelpurnar mínar unnu hann og fengu lang besta tíma morgunsins. One down, two to go. Ég legg í hann eftir tvo tíma og hlakka ósköpin öll til helgarinnar. Var að tala við Kristínu mína og hún sagði að þær hefðu róið vel en ekkert afspyrnu vel. ÚFFFFFFFFFFF

fimmtudagur, maí 25, 2006

Taugatitringurinn er byrjaður hjá mér. Kristín keppir í Háskólameistaramótinu um helgina. Princeton er númer eitt í landinu svo það eru miklar væntingar en þær voru númer eitt í fyrra líka og urðu númer tvö á meistaramótinu svo þetta verður voðalega spennandi og hún mamma hennar verður ein taugahrúga. Í fyrra unnu Cal (U of Cal Berkley) stelpurnar með tveim sekúndum (af c.a. 7 mínútum) og það er búist við álíka harðri keppni núna. Og hún ég sem gæti tekið uppá því að öskra úr mér lifur og lungu verð alveg búin eftir helgina. Ég skil reyndar ekkert í því af hverju ég er að eyða orku í að garga svona því Kristín heyrir ekki nokkurn skapaðan hlut í mér, hún er lengst útá vatni og í svo miklum átökum að hún heyrir ekkert nema suð í eyrum af of hröðum hjartslætti. Líklegast verð ég að líta mér nær og viðurkenna það að þetta er bara fyrir mig svo ég líði ekki útaf af spenningi, það er þá skömminni skárra að vera að "gera eitthvað" heldur en að standa þarna og góna. Núna í ár ætla ég að taka með mér sjónauka, reyndar verður risa stór skjár við markið þar sem sýnt er nákvæmlega hvar bátarnir eru á vatninu svo kannski þarf ég ekki sjónauka, en allur er varinn góður, og enn og aftur ég verð að gera eitthvað!

miðvikudagur, maí 24, 2006

Þrjú tré komust í jörðina í gærkveldi. Við erum með fjöldan allan af eikartrjám á lóðinni og allsskonar aðrar trjátegundir en nú vildi bóndi minn eplatré sem bera ávöxt, ekki bara til skrauts. Ég vildi rauðan hlyn svo þrjú urðu þau trén. Eitt kvenkyns og eitt karlkyns eplatré og einn rauður hlynur. Hlynurinn er að sjálfsögðu miklu fallegri en eplatrén, en hann er nú að mestu bara til skrauts. Það gekk þrumuveður yfir í nótt svo náttúran sá fyrir þeirri vökvuninni en nú á hann að hlýna all verulega og fara í 30 stigin næstu daga.

mánudagur, maí 22, 2006

Helgin fór í garðavinnu eins og svo oft áður á þessum árstíma. Sumarblómin komin niður og stór hluti af vorhreingerningu lokið en það er alltaf eitthvað eftir þegar risalóð á í hlut. Stundum finnst mér ég vera eins og smábóndi án húsdýra, bara eitt gæludýr hér á bæ, með allt þetta land sem þarf að hirða, ekki hirða beinlínis því stærstu hlutinn er skógi vaxinn, en það þarf að hugsa um þetta og passa vel svo það fari ekki í niðurníðslu. Halli hefur verið í grófari og karlmannlegri verkunum; höggva tré, saga greinar, kvarna greinar, o.s.frv. og ég sé um að leggja stéttar, byggja veggi og blómabeð, hreinsa arfa, bera á og svoleiðis. Þetta er ágætis verkaskipting mér er meinilla við stórvirkar sagir og vélar og hann er ekki gefinn fyrir dútlið. Það hefur reyndar verið kuldakast að undanförnu, það eru örfáar gráður á morgnana og ekki nema rétt um 20 stig yfir daginn og það er kalt fyrir þennan árstíma.

laugardagur, maí 20, 2006

Karólína og Peter


Karólína og Peter, originally uploaded by Kata hugsar.

Karólína í tangó kjól


Karólína í tangó kjól, originally uploaded by Kata hugsar.

ahhhhhhhhhh, yndisleg stund. Ég er að hlusta á Public Radíóið mitt, það er Prairie Home Companion, einn af mínum uppáhaldsútvarpsþáttum, afspyrnu gott útvarp, og ekki skemmir fyrir að núna er þátturinn frá Þjóðleikhúsinu þessu eina sanna við Hverfisgötuna. Diddú, Karlakórinn Fóstrbræður, Bill Holm og þessir venjulegu gestir. Gaman, gaman. Hann nær að gera dásamlegt grín af landi og þjóð, meira að segja trúarbrögðum Landans, eða skorti þar á. Halli minn er að lenda í Minneapolis rétt þegar þetta er skrifað. Loksins! Við hjónin höfum lítið sést síðasta mánuðinn, hann að ferðast, ég að ferðast, sitt á hvað, hingað og þangað, svo fer hann til Spánar eftir rúma viku, og svo Ísland aftur, og svo, og svo..... það er alltaf eitthvað framundan hjá honum.

föstudagur, maí 19, 2006

Arizona

Ég var að vinna í Phoenix Arizona í gær og fyrradag. Þangað hef ég aldrei komið áður og hef verið sjaldan í eyðimörk svona ef út í það er farið. Góðir vinir okkar og nágrannar eru að flytja þangað í sumar og allan tímann, sem var nú reyndar afar lítill, velti ég því fyrir mér hvernig fólk getur búið á svona stað í svona borg. Það var 43 stiga hiti, skraufþurr, og mér fannst ég varla getað náð andanum. Ég velti því fyrir mér augnablik að fara út í göngutúr en sú hugsun varaði voða stutt. Það sem verra er, það er bara maí, allur sumarhitinn er eftir! Eflaust venst fólk þessu en genin mín voru mótuð í gegnum tíðina með það í huga að þola kulda og vosbúð, það var ekki tekið með í reikninginn að einhverntími gæti ég þurft að þola 45 stiga hita, svo ég er á því að ég geti aldrei búið í eyðimörk í Arizona. Mayo Clinic Arizona verður að komast af án mín, enda svo sem ekkert verið að ræða annað.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Ég er farin að hlakka all verulega til frumsýningar á Da Vinci Code, ég hafði ómælda ánægja af að lesa bókina og ég hef miklar vonir bundnar við myndina, kannski er það vís leið til vonbrigða. Er þetta ekki dæmigert að þora aldrei að hlakka til án þess að slá einhverja varnagla, þetta er nú þrátt fyrir allt bara bíómynd ekki fræðslumynd. ERGO: ég hlakka til að fara í bíó og skammast mín ekkert fyrir það, og hananú.

föstudagur, maí 12, 2006

Komin heim í heiðardalinn, þótt hvorki sé hér heiði né dalur. Veðráttunni sem er hér utandyra yrði lýst í Firðinum mínum heima sem ísköldu norðanroki og rigningu í júlí. En hann ætlar að hlýna á sunnudaginn og það verður 20-25 stiga hiti alla næstu viku, eða eins lengi og spáin nær. Þá er um að gera að nota tíminn til inniverka áður en styttir upp úti og vorverkin kalla á mig.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Atlantshafið og strönd Flórída eru fyrir utan gluggann minn núna. Ég er að vinna hérna að tveimur skemmtilegum verkefnum. Íbúar svæðisins eru afar ánægðir því það hefur rignt af og til í 3 daga, en hafði ekki gert það í þrjá mánuðina þar á undan, ég aftur á móti hefði alveg þegið sól því hótelið mitt er á ströndinni. Ég fór reyndar í tveggja tíma göngutúr á ströndinni í gær og kom vind- og salt barin inn og alsæl með lífið. Ég fer heim á morgun og kall minn svo til Íslands á föstudaginn í vikuferð, hann fer reyndar á fund í eina tvo tíma af þessari viku en svo á að planta trjám og pota niður kartöflum á Lönguklöpp en annars njóta höfðuborgarinnar.

föstudagur, maí 05, 2006

Þetta er afmælisbarnið mitt en eitthvað er nú skannerinn farinn að gefa sig!

Karólína


Karólína, originally uploaded by Kata hugsar.

050588, þá fæddist örverpið mitt og er því 18 ára í dag, telst til fullorðinna, en vill ekki vera fullorðin alveg strax, bara svona stundum. Finnst ennþá gott að eyða tíma með mömmu og pabba, koma heim og hnoða mömmu sína, bara smá.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Síðasti kjóllinn fyrir Karólínu. Nú er það senior prom og ákveðið var að gera allt að því Carmen. Kjóllinn verður tangó rauður með doppóttu svörtu neti yfir, efri hlutinn kallast "halter top" hérlendis, berar axlir og bert bak en toppruinn tengdur saman aftan á hálsinum, neðri hlutinn næstum því hringsniðið pilsið rétt niður fyrir hné, tengt saman með þröngu breiðu mittisbandi. Svo ætlar hún að vera í svörtum skóm með svart blóm í hárinu. Strákurinn sem bauð henni er afskaplega settlegur, kurteis, og hræðilega vel upp alinn, Karólína og vinkonurnar kalla mömmu hans Frau. Hann skreytti bílinn hennar, sem er eiturgræn Volkswagen bjalla, í blöðrum og skrifaði hann allan út í skilaboðum um prom. Honum hefur eflaust fundist hann vera að gera eitthvað ótrúlegt en allir stafirnir voru nákvæmlega skrifaðir og allt í beinni línu og röð og reglu. Það á nefnilega ekki að fara út fyrir línurnar!

miðvikudagur, maí 03, 2006

Ég fór til augnlæknis í fyrradag. Ég þurfti nefnilega að lesa gamla grein um helgina sem prentuð með smáu letri og þá komst ég að þeirri niðurstöðu að augun mín sem hafa nú nánast alla tíð verið góð og séð um það sem þarf eru nú farin að gefa sig eitthvað. Allavega þegar letrið er smátt og augun þreytt eftir mikla notkun síðustu mánuðina. Ég get reyndar séð allt vel sem er nálægt mér á meðan birtan er góð og ekki er um að ræða eitthvert pínulítið....þetta er sumsé, sko, bara í lítilli birtu og lítið og smátt eins og letur og krosssaumur...annars er þetta bara gott, sko. Ekki það að ég þurfi á lesgleraugum að halda, nei, ekki strax allavega, sagði augnlæknirinn, það átti líklega að vera huggun enda sagði hún að ég sæi mjög vel miðað við aldur...það átti líka að vera huggun.