föstudagur, desember 22, 2006

Vetrarsólstöður í dag. Samkvæmt skilgreiningu hér um slóðir þá byrjar veturinn formlega í dag og þá í þrjá mánuði fram að jafndægri á vori. Það er lítið vetrarlegt um að litast, ekki snjókorn að sjá en þoka og rigning öðru hverju og umhverfið allt grátt og ömurlegt. Stelpurnar mínar lýsa upp lífið þessa dagana, það er yndislegt að hafa þær heima.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Mér hefur verið hugsað heim í Eyjafjörðinn síðasta sólarhringinn, ekki bara af eigingjörnum ástæðum heldur líka vegna samkenndar með sveitungum sem glíma þurfa við náttúruöflin. Langaklöpp er byggð á kletti og það er tiltölulega langt í Meyjarhólslækinn, einir 6-7 metrar og þeir allir vel fyrir neðan okkur svo Klöppin ætti að vera á þurru. Það hefði verið ófögur aðkoman ef aurskriður eða flóð hefðu riðið á. Vonandi standa trén okkar af sér veðrið og úrkomuna. Það er hætt við að vegurinn hafi látið á sjá, kannski er hann að hluta til horfinn við ræsið.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Þeir hjá rannís eru svo elskulegir að senda mér tölvupóst þegar auglýstir eru styrkir til rannsókna. Þetta er náttúrulega engin sér-elskusemi við mig, ég er áskrifandi að þessum tölvupósti. Í morgun fékk ég póst þar sem auglýst var eftir umóknum í "STIFTELSEN CLARA LACHMANNS FOND
FÖR BEFRÄMJANDE AV DEN SKANDINAVISKA SAMKÄNSLAN". Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema að "Skilyrði er að
umsækjendur séu frá fleiri en einu Norðurlandanna." Það eru nú ekki margir einstaklingar sem uppfylla þessi skilyrði en einn af þeim er Karólína okkar sem er íslenskur ríkisborgari sem fæddist í Noregi og hefur alist upp í Bandaríkjunum. Vandamálið er að hún hefur engan áhuga á svona rannsóknum svona fyrir utan það að hún hefur engan kvalikfíkasjónir fyrir svona styrk.
Það fæddist Íslendingur hérna í bænum í gær. Hún Steinunn Edda Þorvarðardóttir kom í heiminn öllum til mikillar gleði. Núna erum við 9 Íslendingarnir ef allir eru taldir, þ.á.m. öll okkar börn. Svo kemur einn enn í febrúar, líka búinn til á staðnum. Það sorglega er að allir flytja í burtu næsta sumar nema við. Það verður erfitt.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Prófið búið og ég stóðst það. Mikið voðalega er ég fegin að þessu er lokið. Næst þegar ég tek próf þá verður það það allra síðasta; vörnin.

föstudagur, desember 08, 2006

Ég lenti í hremmingum í síðustu viku áður en ég fór til Íslands. Á mánudeginum fór ég í rútínu mammogram en það var hringt í mig snemma á þriðjudagsmorgun og mér sagt að ég þyrfti að koma inn aftur. Ég vissi sem var að það var ekki vegna þess að myndirnar hefðu misheppnast, það var skoðað áður en ég fór daginn áður og því var þetta eitthvað annað og væntanlega meira. Mayo Clinic gerir ekkert nema almennilega og því var kíkt undir alla steina, litið á alla mögulega kosti, og öll vandamál skoðuð. Ég fór í aðra myndatöku, svo sónar, og svo sýnatöku. Þetta var ekki auðvelt því það fannst æxli og því var verið að skoða hvers kyns þetta æxli væri. Ég fékk svarið klukkan 15:45 daginn eftir og sem betur fer þá var þetta góðkynja. Biðin eftir svarinu var hræðilega erfið og ekki bætti úr skák að þetta var sama dag og ég beið eftir svari frá leiðbeinandanum mínum sem kom ekki fyrr en allt of seint og setti allt í kássu því til að fá að geta tekið prófið á settum degi þá varð ég að skila af mér til nefndarinn þennan dag fyrir klukkan 16:30 og leiðbeinandinn sendi mér ritgerðina í tölvupósti klukkan 15:30. Ég var ekki gæfuleg þann miðvikudaginn. Ég þurfti að ljúka við ritgerðina og skila henni af mér í þessu ástandi, pakka niður fyrir Ísland og ganga frá öllu hér heima. Það var því ósköp notalegt þegar loksins kom að því að ég settist uppí flugvél Icelandair á leið heim til Íslands. Það hefði reyndar verið mun betra ef Halli hefði verið með mér en það var ekki í þetta sinnið svo því var voðalega gott að sjá góða vini og fjölskylduna strax fyrsta daginn heima. Eftir allt þetta fékk ég svo ristil en er í sjálfu sér ekkert lasin, bara illa haldin af kláða.

fimmtudagur, desember 07, 2006

20 stiga frost í morgunsárið. Snjóaði dulítið í gær mér til mikillar gleði, brunagaddur er leiðinlegur þegar auð jörð er, mun skárri á hvítri. Kveikti upp í arninum til að ná upp hita fljótt og örugglega í morgun setti svo Gunna Gunn og Skálmið hans á og hann ásamt kaffilykt og ristuðu brauði setti punktinn yfir i-ið á notalegheit morgunsins í eldhúsinu mínu. Keyrði svo Halla í vinnuna fyrir sjö þegar birta dagsins var að brjótast upp yfir sjóndeildarhringinn. Þá er að ráðast í power pointið og kynninguna á ritgerðinni, þessari einu og sönnu.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Ég er komin aftur heim til mín til Minnesota eftir ljúfa Íslandsferð. Gerði í sjálfusér ekki margt en hitti fjölskyldu og vini yfir kaffi...miklu magni af kaffi. Ég held ég sé enn með hausverk af koffíneitrun. Hér bíður mín ógnarverkefni næstu viku, ég fæ hnút í magann við tilhugsunina eina saman, nákvæmlega ein vika í dag þangað til nefndin mín situr yfir mér og spyr mig spjörunum úr. Vonandi verð ég með nóga rænu til að muna og svara þannig að vit sé í. Tíu dagar þangað til stelpurnar mínar koma heim í jólafrí!!!!!!!!!