mánudagur, apríl 30, 2007

Það var mikill hiti um helgina, í gær fór hann í 33 stig og það er nú býsna heitt hér í lok apríl. Rétt eins og heima í Eyjafirðinu þá var þetta mikil dásemdar helgi. Nú er að skella á þrumuveður, ég finn drunurnar meira en heyri, og þar sem heilinn minn er búinn að segja nóg í dag eftir nærri sjö tíma törn þá er bara að drífa sig í ræktina og ná af sér áti helgarinnar.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég er alveg óskaplega vanaföst manneskja. Og það svo að ég á stundum ekki orð yfir sjálfri mér. Í morgun kom það fyrir eins og svo ótalmarga aðra morgna að ég fékk mér súrmjólk með seríósi og púðursykri. Nokkuð sem ég hef gert frá því seríós kom á markað á Íslandi er mér næst að halda. Ég ætlaði fyrst bara að fá mér seríós með mjólk og hellti því hringjunum á diskinn. Þá skipti ég um skoðun og ákvað að fá mér súrmjólk í staðinn fyrir mjólkina og fyrir vikið fór maturinn í vitlausri röð á diskinn. Það er nefnilega svoleiðis að fyrst á að setja súrmjólkina svo púðursykurinn og hræra vel og að lokum fær seríósið að blandast herlegheitunum. Nú var ljótt í efni; átti ég að hella hringjunum af disknum og gera þetta í réttri röð eða fara á vit ævintýranna og setja súrmjólkina útá seríósið og svo blanda púðursykrinum saman við? Ég velti þessi fyrir mér svolitla stund en þar sem mér finnst ég vera huguð og ævintýragjörn í dag ákvað ég að það væri nú svolítið gaman að prófa eitthvað ótrúlega spennandi. Nú er að sjá hvernig líkaminn bregst við þessari ónáttúru!

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Það hefur fjölgað á heimilinu. Núna búa hjá okkur tveir íslenskir læknar. Annar þeirra verður í 4 vikur en hinn í 7. Þessar ungu konur eru á vegum Halla á Mayo og taka þátt í rannsóknum og svo að horfa yfir öxlina á honum og hverjum þeim sem þær vilja fylgjast með. Þetta er mjög skemmtilegt og gott að hafa fleiri í heimili en okkur tvö. Það er aftur líf í húsinu. Svo er ég að passa hann litla Harald, mamma hans byrjaði að vinna í dag og hann byrjar á barnaheimilinu á mánudaginn. Hann er því hér þegar foreldrarnir eru í vinnunni. Þangað til pabbinn er búinn í dag verðum við hér saman í sátt og samlyndi.

mánudagur, apríl 23, 2007

Til hvers er menntun? Af hverju er menntun eftirsóknarverð? Af hverju er ungt fólk að streða þetta í skólum ár eftir ár þegar þau gætu farið útá vinnumarkaðinn snemma og orðið sjálfstætt og vinnandi fólk? Hverju breytir menntun í lífi fólks? Ég hugsa oft um þetta og hef komist að þeirri niðurstöðu að menntun tryggir okkur ekki neitt í lífinu annað en val. Ekki tryggir menntun okkur hamingju, auð, völd, vegsæmd eða gleði. Það eina sem menntun gerir alveg örugglega er að gefa okkur val í lífinu. Ef við vinnum á bensínstöð alla okkar ævi þá er það hið besta mál ef það er vegna þess að við völdum það en ekki vegna þess að það er eina vinnan sem við getum fengið. Ef ég hef menntun þá hef ég tæki til að velja starf. Ef ég hef menntun þá get ég valið um marga vinnustaði innan þess sviðs sem ég hef valið mér...vonandi vegna áhuga. Ef ég hef menntun þá hef ég fast land undir fótum sem ég get byggt á, hvort sem það er meira nám eða vinna.

Börnin mín eru búin að heyra þennan söng í mörg ár og eru eflaust orðin hundleið á tuðinu í mömmu gömlu!

sunnudagur, apríl 22, 2007

Það mættu mér yndisleg hlýindi þegar ég kom heim í gærkveldi. 27stiga hiti og sól. Núna í morgunsárið eru komin 14 stig og á hann að ná 25 seinna í dag en það á víst að kólna eitthvað þessa vikuna en samt svona í kringum 15 stigin. Það er alltaf svo gott að koma heim þótt dvölin hafi verið fín á Íslandinu. Halli er á leiðinni heim frá Spáni þar sem hann var í heila þrjá sólarhringa! Það má búast við úrvinda manni hingað seinni hluta dags.

föstudagur, apríl 20, 2007

Þá er þessi Íslandsdvölin á enda. Þetta er búin að vera hin allra besta ferð. Kennslan gekk vel og gerði mér voðalega gott og ég held barasta að nemendur hafi lært eitthvað sem er jú alltaf gott og tiltölulega nauðsynlegt...þetta er víst nám! Fjallið eina og sanna var voðalega gott um páskana og skartaði sínu fegursta á páskadaginn sjálfan. Það var reyndar ekkert fallegt aftur fyrr en í gær þegar ég fór. Þá var póstkortadagur. Það sem hefur verið erfiðast við þessa dvölina er fjarlægðin frá stelpunum mínum. Það er vont að vera svona langt í burtu þegar voðatburðir eiga sér stað ekki svo langt frá þeim. Ég veit að ég get ekki gert neitt en það er svo miklu betra að vera nálægt, allavega í sömu heimsálfu. Karólína fór svo í aðgerð á fæti á þriðjudaginn til að fjarlægja brotið bein í fætinum á henni. Það gekk vel en hún verður á hækjum í margar vikur og má svo ekki hlaupa í fjóra mánuði. Það verður erfitt fyrir mína konu. Hún má hjóla, en ekki á táberginu, hún má lyfta og hlaupa í vatni!

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Römm er sú taug er rakka dregur föðurtúna til

mánudagur, apríl 02, 2007

Hann Stephan G lýsti Íslendingnum í okkur vesturförum svo vel þegar hann dvaldi í Norður Dakóta fyrir margt löngu. Vestur-Íslendingarnir í þá daga voru náttúrulega í allt annarri aðstöðu en við nútímafólkið, við sem endasendumst þetta yfir hafið mörgum sinnum á ári. Eftir sem áður eru sömu ástæður fyrir ættjarðarástinn. Við hjónin leggjum í hann á morgun og lendum á miðvikudagsmorguninn á skerinu.

Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin,
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðar lönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt,
sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin,
sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs,
sifji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers!