miðvikudagur, maí 28, 2008

Þá er loksins komið á hreint að við verðum öll við útskriftina hennar Kristínar. Karólína fékk svar í morgun að hún kemst í burtu frá Duke í tvo daga í næstu viku. Útskriftin verður 3. júní og þar verðum við sumsé öll, Við Halli, Bjarni og Karólína, Nicole og Adam. Ég hlakka svo mikið til, þetta verður stórviðburður fjölskyldunnar í sumar...eða þangað til sá gamli heldur uppá öll 50 árin sín.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Ég potaði sumarblómunum mínum niður í gær og brann all verulega á bakinu við það. Ég átti alls ekki von á að brenna, enda hefði ég borið á mig ef svo hefði verið, en það er enginn raki í loftinu og því sólin sterk og miskunnarlaus. Í dag var kalt, ekki nema 15 stiga hiti svo ekki freistaði sólbekkurinn mín í hádeginu, enda eins gott því sólin má ekki skína á mig næstu daga. Ég er að fara til Kaliforníu á fimmtudaginn og nú er veðurspáin voðalega girnileg ekki nema 25-30 stiga hiti og sól og ég verð útivið stóran hluta dagsins og þá er víst eins gott að ég maki á mig sólvörn. Annars þarf ég voðalega lítið af sólvörn til þess að hún virki. SPF 4 er mjög góð vörn og ég fæ ekki einu sinni lit ef ég nota SPF 8, það er bara slæmt ef ég ber ekkert á mig. Þá fyrst brennur mín ljósa húð. 

Ég þarf að bæta við sumarkjóla kostinn minn því ég þarf a.m.k. tvo kjóla fyrir útskriftina því það er veisla daginn áður, svo er útskrift og veisla um kvöldið og það væri nú þvílíkt hneyksli ef ég mætti í sama kjólnum oftar en einu sinni!!! Ég á voðalega lítið af fínum sumarkjólum því allir þeir eldri eru alltof stórir og ég hef bara keypt einn þetta vorið og engan í fyrra. Ég þarf því að fara í innkaupaleiðangur á morgun, eitthvað sem mér finnst ekki skemmtilegt. 

mánudagur, maí 26, 2008

Kristín og kjóllinn


Kristín og kjóllinn
Originally uploaded by Kata hugsar
Mér finnst kjóllinn alveg æðislegur! Hann klæðir hana svo vel.

Kristín og kjóllinn


Kristín og kjóllinn
Originally uploaded by Kata hugsar
Kristín keypti sér útskriftarkjól í gær, mér til mikilar gleði því þá er það búið, nóg er nú samt sem þarf að gera.
Ég hef litla, iðna, skemmtilega, og eins árs "dömu" hjá mér í heimsókn. Hún spjallar útí eitt og ég skil ekki orð enda svo sem engin orð að skilja, það koma bara hljóð eins og heilar setningar. Svo er greinilegt að það eru lesnar fyrir hana dýrabækur því ef hún sér bók þá fer hún að herma eftir dýrahljóðum. Það verður reyndar seint um hana sagt að hún sé dömuleg. Pabbi hennar sér að mestu um uppeldið á meðan mamma hennar er að læra að verða heila-skurðlæknir og hann er ekki mjög penn og sér lítinn tilgang í punti og prjáli. Sú stutta, Annika, er oft hálf nakin því hann nennir ekki að skipta alltaf um föt á slefandi barni, það er svo miklu einfaldara að bara þurrka bringuna. Það er yndislegt að hafa svona lítið mannfólk í húsinu, við tvö þessi gömlu dinglum hér innanhús annars en núna er kall minn að hlaupa með pabbanum og við kvenfólkið njótum morgunsins hér innivið.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Ég er að velta fyrir mér að hætta að borða kjöt, allavega rautt kjöt. Svo langar mig að prófa að fara í gegnum þriggja vikna hreinsun, nei ekki með stólpípuaðferðinni, heldur með því að borða eingöngu fábreytta fæðu sem ekki inniheldur kjöt, hvítt brauð eða mjólkurmat, ekki kaffi eða gos, ekki súkkulaði eða annað sætt, bara voða eitthvað heilbrigt og einfalt. 

Ég er enn að velta þessu fyrir mér.

þriðjudagur, maí 20, 2008

Við komum heim klukkan 2 s.l. nótt gersamlega útkeyrð. Við vorum á útopnu frá morgni til kvölds frá föstudagsmorgni klukkan 3 þegar við vöknuðum þangað til við komum heim í nótt. Það var vaknað klukkan 5-6 alla morgna og ekki komið á hótel aftur fyrr en seint á kvöldin. Það var ofsalega gaman. 

Karólínu gekk ágætlega, hún bætti sig í það heila en var ekkert voðalega ánægð með nokkrar greinar en það verður að hafa í huga að það er ekki nema eitt ár síðan hún var skorin upp á fæti og endurhæfingin gekk mun hægar en vonast hafði verið til. Þjálfararnir voru mjög ánægðir svo hún ætti að vera það. Keppnisskapið í henni krefst meiri árangurs.

Kristín var mjög óhress því þær urðu í 3ja sæti henni til mikilla vonbrigða. Svona er líf íþróttamannsins, ekki alltaf dans á rósum og eingöngu þegar liðin eru alger undantekning eins og fyrir tveim árum þegar allt vannst er ekkert um lægðir, alltaf allt á háum tindi sigurvímunnar.

miðvikudagur, maí 14, 2008

Duke Chapel


Duke Chapel
Originally uploaded by Kata hugsar
Þessar myndir voru teknar í Duke um daginn í fallega veðrinu. Það var fátt á campus enda vorönnin búin og sumarönnin ekki byrjuð.

Duke 5. maí 2008


Duke 5. maí 2008
Originally uploaded by Kata hugsar

Lífið er eitthvað voðalega litlaust þessa dagana, þ.e.a.s. ég og minn heili. Ég les og skrifa 8-3 og stundum til 4 ef vel gengur eins og í gær. Svo er það ræktin, kvöldmatur, og kannski heimsóknir ef vel vill annars erum við hérna heimavið. Við fáum smá lit í lífið um helgina þá förum við til Princeton að horfa á báðar stelpurnar. Karólína keppir í sinni sjöþraut á föstudag og laugardag og Kristín í róðri á sunnudag. Svo ætlum við að njóta New York borgar á mánudaginn áður en við leggjum í hann heim á kornakrana í mið-vestrinu. Kristín er voðalega hljóð með hvers hún væntir á sunnudaginn en hún segir allavega að þetta verði mjög spennandi. Þær eru búnar að tapa einni keppni í vor, á móti Yale, en Yale tapaði fyrir Brown, sem Princeton vann auðveldlega, svo það er aldrei að vita hvað gerist segir hún. Þegar hún leggur í hann á hótelið á föstudagskvöldið verður hún búin með Princeton, síðasta prófið er þá um kvöldið. 

Ja hérna hér.

laugardagur, maí 10, 2008

Það er kalt núna í morgunsárið, ekki nema 10 stiga hiti og það fer kannski í 15 í dag ef vel gengur en það  á að rigna. Ég ætlaði að eyða helginni í að hreinsa til í garðinum mínum því hér bíður allt draslið eftir mér, en kannski fer ég eftir hádegi ef hann rignir ekki alltof mikið, eða kannski bíð ég til morguns þegar hann á að stytta upp og hlýna. Ég klára þetta náttúrulega ekki á einum degi, ég þarf nokkra daga til að hreinsa enda lóðin hátt í einn hektari, sem betur fer er stærsti hlutinn skógi vaxinn en stórt er samt svæðið sem þarf að hreinsa, sérstaklega þegar ég horfi út!

fimmtudagur, maí 08, 2008

Tvítug blómarós


Tvítug blómarós
Originally uploaded by Kata hugsar
Það þurfti náttúrulega að taka við afmælisóskum frá vinum nær og fjær. Abby Buchhalter var á línunni þegar þessi mynd var tekin.

Með mömmu og pabba í afmælisboði


Mikið lifandi skelfing sem það er gott að heimsækja börnin. Við vorum í Norður-Karólínu um helgina og þar var sól, 28 stiga hiti og enginn raki alla dagana. Himnaríki á jörð. Það er svo óskaplega fallegt þarna og við skemmtum okkur vel í faðmi dótturinnar og héldum uppá tvítugs afmæli örverpisins. Við upplífðum reyndar að vera hóteli sem ekki er með þráðlausa nettengingu og á fyrsta herberginu sem við vorum í var ekki einu sinni línutenging og að auki var ekkert farsímasamband. Við höfum verið þarna áður en þá hljótum við að hafa verið heppin því allavega þá minnist ég þess ekki að vandræði hafi verið með farsímasamband. Eftir fyrstu nóttina fengum við nýtt herbergi og þar var línutenging og örlítið skárra farsímasamband en ekki var það gott. Starfsfólkið sagði okkur að það væru vandræði með farsímasamband í hverfinu, ég á erfitt með trúa því, það er ekkert að sambandinu á Duke kampusnum sem er innan við einn kílómetra frá hótelinu. Við erum orðin svo háð farsímum og nettengingum að það er hið versta mál að geta ekki haft samband við umheiminn þegar þarf. Karólína fær öll sín skilaboð frá skólanum og kennurum í gegnum tölvupóst og allir vinirnir hringja í farsímann svo þetta var hálfgert brölt að skipuleggja fundi og annað. Við verðum væntanlega ekki þarna aftur!

föstudagur, maí 02, 2008

Það er eins og venjulega þegar börnin eru fyrirliðar þá þýðir það að foreldrarnir eru það líka. Princeton keppir á tveimur stórum mótum á vorin; Eastern Sprints og svo háskólameistaramótinu. Sprints eru á Cooper River í  Camden New Jersey rétt hinu megin við ána frá Philadelphia og það er stutt að fara frá campus sem er eins gott því venjan er, og það er venja sem er tugi eða jafnvel hundruð ára gömul, að liðið er með tjald allt merkt Princeton crew í bak og fyrir og svo er matur fyrir alla, allan daginn. Þetta er ég að skipuleggja þessa dagana og það fyrir fólk sem er ofurskipulagt sjálft og því er mikil pressa að gera þetta FULLKOMIÐ. Það hefur verið það hingað til svo  það er eins gott að standardinn lækki ekki á minni vakt. Karólína er að keppa í Princeton þessa sömu helgi svo við höfum ekki tíma til að gera mikið á laugardeginum svo allt verður að vera skipulagt í smáatriðum áður en að helginni kemur. Það hefst. Annars förum við til North Carolina á morgun og þar er spáð sól og 28 stiga hita, ahhhh það verður gott.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Voðalega sem þessi tími líður hratt. Karólína var að klára vorönnina í Duke í gær og er þá hálfnuð með BA námið og Kristín er í síðasta tímanum sínum í Princeton því hún klárar BA í júní. Bjarni er kominn í háskóla aftur og er núna í University of Minnesota, skóli mömmu hans og pabba og okkur til mikillar gleði, og ætlar að klára þetta eina og hálfa ár sem hann á eftir. Ekki það að mér finnist ég vera gömul, ó nei, nei, nei, ég tók t.d. real-age prófið og það segir mér að líkaminn sé 38 ára. Ég er náttúrulega ánægð með það því það er tekið inní allt milli himins og jarðar svo sem, hreyfing, þyngd, mataræði, ættarsaga, heilsa, vinskapur, o.s.frv. Ekki það að ég vilji verða ung aftur, ég er afskaplega ánægð með lífið eins og það er og þar sem ég er en það er á svona stundum þegar börnin ná mikilvægum áföngum að ég lít til baka. Mér finnst afskaplega gaman að lifa og reyni að halda góðu sambandi við allt og alla, það hefur ekkert farið fram hjá mér hvað það er mannskemmandi að vera langrækinn og "hata" einhvern. Það sama gildir um fýluna, það er voðalega leiðinlegt að fara í fýlu því það er svo mikil vanlíðan sem fylgir henni. Hún er langverst fyrir mann sjálfan og étur mann upp til agna. Er ekki Pollýönnu leiðin svo miklu betri og skemmtilegri?