þriðjudagur, mars 31, 2009

Lífið er í einhverjum hlutlausum gír þessa dagana. Kannski er þetta lognið á undan storminum, en ég veit ekki um neinn storm í kortunum svo það verður þá eitthvað óvænt ef allt fer á fleygiferð. Það eru jú fullt af ferðalögum framundan en það er nú enginn stormur svona að öllu jöfnu að vera að ferðast. Vinnan mín er afskaplega róleg þessa dagana, Halli vinnur óvenju mikið, það er alger undantekning ef hann kemur heim fyrir klukkan 7 og hann er farinn út fyrir 6 alla daga. Ég sótti um post doc stöðu í "bioethics" deildinni og fer í viðtal einvherntíma bráðlega. Svo er bara að sjá til, enn er allt stopp og enginn ráðinn og engar stöður fylltar. Það er varla að námsstöður séu fylltar hvað þá venjulegar starfsmannastöður. 

mánudagur, mars 30, 2009

Æfingar fyrir þríþrautina ganga þokkalega. Mér gengur mjög vel að synda og hjóla en hlaupin síður. Ég tognaði í hægri kálfa á miðvikudaginn og það var ekki gott fyrir hlaupaæfingar. Ég veit ekki af hverju kálfarnir á mér eru svona leiðinlegir við mig en ég togna mjög oft þegar ég byrja að hlaupa. Ég byrjaði svo varlega, og gerði þetta allt svo óskaplega hægt og bítandi, en það fór ekki betur en svona. Það sem verra er þá er þetta ekki bara í vöðvanum heldur nær þetta uppeftir lærinu aftanverðu og utanverðu og þá ekki í vöðva. Ég er að reyna að ganga og ná þannig upp hreyfingu í þessum vöðvum því það verður að segjast eins og er að ég sit alltof mikið fyrir framan tölvu og geng afskaplega lítið svona dagsdaglega. Þetta er svo fúlt því ég var farin að hlaupa 5-7 km án nokkurra vandræða í mjöðmunum eða bakinu. Ég hljóp að vísu afskaplega hægt og náði hjartslættinum svona rétt yfir "aerobic base," 145 en ég var að auka við hraðann og það var ekkert mál ... en nú reynir á þolinmæðina mína eina ferðina enn. Fj.....

föstudagur, mars 27, 2009

Vorið er að taka hænuskref í átt að hlýindum en voðalega finnst mér þau lítil þessi hænuskrefin. En það er víst bara mars og ég verð að vera þolinmóð allavega fram í apríl því þá ætti vorið að fara að ná yfirhöndinni í stríðinu við veturinn. 

þriðjudagur, mars 24, 2009

Ég hef ákveðið að ögra sjálfri mér svolítið. Ég ætla að taka þátt í þríþraut í sumar...jæja, þá er ég búin að segja það upphátt. Þetta er svo sem ekkert stórt fyrir marga en fyrir mér er þetta heilmikið mál. Ég er ekki að fara að keppa í þríþraut heldur taka þátt í þríþraut og það er mikill munur þar á. Ég keppti oft og mikið þegar ég var ung og hef fylgst með börnum mínum í gegnum árin og enn eru þau að keppa og koma móður sinni í taugaveiklunarástand. Ég fæ mitt adrenalín kikk og þörf fyrir keppni í gegnum Karólínu núna þegar Kristín er hætt að róa og það er mér alveg nóg. 

En mig langar að taka þátt í þríþraut, aðallega vegna þess að mig vantar fjölbreytni í æfingarnar mínar og það hefur gengið eftir s.l. tvær vikurnar síðan ég ákvað að reyna að æfa þrjár greinar. Ég hef fengið smá spark í rassinn og það er svolítið gaman, ég neita því ekki. Nú hjóla ég tvisvar í viku, syndi tvisvar og hleyp tvisvar og svo geri ég allt mögulegt annað; jóga, pilates, lyftingar, teygjur, eliptical, o.s.frv. Það eina sem gæti komið í veg fyrir að mér takist þetta eru meiðsl og slit á líkamanum. Mjaðmirnar mínar eru ekkert skemmtilegar að glíma við og bakið mitt eins og þa er en ég ætla að reyna og ef þetta gengur ekki þá það, ég hef þá allavega reynt.

11. júlí er dagurinn sem ég stefni á.

mánudagur, mars 23, 2009

Það er grár vordagur. Rigning og svona gjóla, allavega á minn mælikvarða. Kannski kemur þrumuveður í kvöld eða á morgun. Það eru snjókorn í veðurspánni svona eins og við er að búast. Það væri skrýtinn mars og apríl sem engin snjókornin hefði í loftinu. Mig langaði svo mikið að fara útí garð að taka til um helgina. Það var svo hlýtt og yndislegt. En það er eins gott að bíða með að hreinsa frá í nokkrar vikur svo frostnætur skemmi ekki fjölæru plönturnr mínar. 

Við erum farin að lesa okkur til um Brasilíu en þangað förum við eftir fjórar vikur. Við verðum í Sao Paulo svo það er ekki víst að okkur takist að komast til Rio De Janeiro til að sjá Copacabana og Ipanema. Við sjáum til og reynum eins og við getum að komast út fyrir borgarmörk þriðju stærstu borgar í heimi.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Á ferð minni um bæinn í vorblíðunni í gær var margt fólk úti á göngutúr. Þar á meðal voru tveir karlmenn, hvor í sínu lagi og langt frá hver öðrum í tíma og rúmi. Sá fyrri var í ljósbrúnum frakka, með hatt og pípu. Nokkuð sem ég hef ekki séð í fjöldamörg ár. Hann minnti mig á "gömlu" kallana heima á Akureyri þegar ég var ung þegar þeir voru á stjái snemma á morgnana í Hafnarstrætinu á leið á pósthúsið eða bankann. Þeir tóku ofan þegar þeir heilsuðu, að ég held bara fyrir kvenfólki, en er þó ekki viss. Þetta voru t.d. Jón Sólnes, Jón Gúmm, Kobbi komm, og Jabob Frímanns. Afar virðulegir menn. Þetta með aldurinn er afstætt. Ef ég reyni nú að reikna út aldurinn þá voru þessi menn kannski hámark um sextugt þegar ég man fyrst eftir þeim. 

Hinn maðurinn sem ég sá og er mér afskaplega minnisstæður var svona Kjarval, með samskonar flókahatt, pípu og stóra möppu sem gæti svo sannarlega hafa innihaldið málningatrönur. Þessi var greinilega utan við sig því hann gekk fram og til baka yfir götuna og var alls ekki viss um hvert hann var að fara. Ég var að hugsa um að stoppa og hjálpa manninum en hætti við. Ég kunni ekki við það. Kannski vissi hann hvað hann var að gera og hvert að fara en þurfti að skoða þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Kannski er hann hjátrúarfullur og þurfti að ganga þarna eftir götunni í réttri röð hlutanna. Gott hjá honum ef svo er, mér líkar sérkennilegir fuglar mannlífsins. Þeir gefa lífinu svo mikinn og fallegan lit. Rétt eins og vorið sem er svo sannarlega að láta sjá sig þessa dagana.

mánudagur, mars 16, 2009

Það er ekkert útlit fyrir að ég komist til Íslands yfir páskana, því miður. Þegar ég var búin að púsla saman öllum ferðaplönum vorsins og kom dimbilvikunni inná planið sem Íslandsdvöl þá mundi ég eftir því að frændi Halla frá Noregi kemur í heimsókn þá viku. Það verður mjög gaman að hafa hann en ég var bara svoddan álfur að gleyma þessu og var orðin svo óskaplega ánægð með að vera á Íslandi þessa vikuna þegar ég þurfti að ná mér niður á jörðina. Það var eins gott að ég var ekki búin að kaupa miðann, það munaði reyndar ekki miklu, kannski hálfum degi eða svo. Við erum svo að fara til Brasilíu 21. apríl svo þetta hefði passað flott inní púslið en svona er það. Það er nú engin ástæða til að syrgja það svo sem, en......

fimmtudagur, mars 12, 2009

Ég er sest niður til vinnu. Fannst eitthvað hljótt hjá mér og setti itunes shuffle á. Fyrst kom Gunni Gunn með Stúlkuna mína hans Jóns Múla en svo kom Thank you for the music. Gamla góða ABBA. Alltaf jafn notaleg. Karólínu hefur gengið mjög vel í vor og fyrir hverja keppni horfir hún á Mamma Mia og svo er hún með Mamma Mia á ipoddinum sem hún hlustar á á milli átaka. Kastþjálfarinn hennar skildi ekkert í þessari vellíðan sem kemur yfir mína konu þegar hún hlustar á ABBA þangað til við skýrðum út fyrir henni að ABBA var spilað heima þegar fjölskyldan dansaði saman á eldhúsgólfinu. Karólína dansaði á tám pabba síns við Honey Honey, Dancing Queen og öll hin. Vellíðan er góð leið fyrir hana til að ná árangri, sérstaklega í tæknigreinum eins og hástökki og langstökki. Hún reyndar segir að ABBA geri lítið gagn fyrir kúluvarpið en það er nú önnur saga. 

þriðjudagur, mars 10, 2009

Það er rigning í dag og grátt úti. Eftir klukkubreytinguna á sunnudaginn hef ég ekki nógu góða skynjun fyrir tíma dagsins og sérstaklega ekki þegar grátt er úti. Mér brá þegar ég leit á klukkuna áðan og sá að hún var korter yfir átta, mér leið eins og hún væri ekki nema rétt um sjö. Annars er spáð kuldakasti næstu tvo dagana, það á víst að verða tíu stiga frost á morgun en svo fer hlýnandi og verður gott um helgina. 

Það er ekki spurning, það er vor í lofti. Það á bara eftir að koma í ljós hversu hart vetur kallinn ætlar að berjast fyrir tilveru sinni.

sunnudagur, mars 08, 2009

Ég hef smám saman minnkað lestur minn á bloggsíðum að undanförnu. Þetta er meðvitað gert því ég var búin að fá yfir mig nóg að lestri um efnahagshrunið á Íslandi og fann að þetta hafði slæm árhif á mig. Þetta voru samskonar áhrif og of mikið fréttahorf/hlustun eftir 11. september og mér fannst ég vera að drukkna og missa stjórn á eigin lífi. Ég er ekkert að stinga hausnum í sandinn og þykjast að allt sé í himna lagi, ég þarf bara ekki að vita hvert smátriði af því sem gerist og hver gerði hvað, hvenær, tapaði miklu eða stal. Það fer alveg botnlaust í taugarnar á mér að þessir gæjar stálu til hægri og vinstri og koma svo í fjölmiðla með reglulegu millibili og réttlæta allt saman með því að þetta hafi verið gert í nokkur ár og þess vegna er ekkert athugavert við meiriháttar þjófnað korteri fyrir fall. Bara vegna þess að þetta hafi verið gert í nokkur ár réttlætir sumsé að það hafi verið gert áfram...úff nú er ég komin í sama farið, búin að æsa mig upp og spæna mig uppí allrahanda rifrildi við ósýnilegt fólk. Þetta er mér ekki hollt, það er alveg á hreinu og þess vegna les ég bara nokkur blogg og oftar en ekki sleppi ég að lesa kommentakerfið því þar er oft mikill sóðaskapur í gangi og fólk lætur ótrúlegasta orðbragð flakka. 

Ég gerði fína ferð til Boston um helgina. Karólína stóð sig afar vel, sló engin met en ég hef ekki séð hana svona ánægða með árangur í frjálsum í ... líklegast fjögur ár og það er langur tími í lífi tvítugrar stelpu. Samvera með börnunum mínum gefur mér ótrúlega mikið og nú hef ég séð þau öll á örstuttum tíma og það er yndislegt. Halli er enn að sóla sig í Kaliforníunni, nei hann fer nú víst ekki mikið í sólina nema til að hlaupa úti við, en hann er allavega í suðurhluta álfunnar úti við sjóinn, en á fundi.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Það er vor í lofti hjá mér. Hitinn fór í 6 stig í gær og það var sól og smá vindur og snjórinn bráðnaði hratt. Í dag á að vera ennþá hlýrra, en skýjað. Þetta þýðir að nú eru árstíðarnar farnar að berjast um yfirráðin. Vetur konungur er að missa völdin en heldur fast í sitt enda afar sterkur karlinn, ekki sterkari en sólin samt, hún vinnur að lokum. Hún er komin upp uppúr hálfsjö og sest ekki aftur fyrr en um sex leytið. Alveg að ná tólf tímunum á vorjafndægrum. Á sunnudaginn verður klukkunni breytt í "daylight savings time" en þá verð ég í Boston ásamt stelpunum mínum og Adam. Karólína er að keppa, ég kem frá Minnesota, Kristín og Adam frá New York, en Halli verður í Kaliforníu og Bjarni og Nicole verða kyrr í Minnesota. Karólína er tæpum 200 stigum frá Íslandsmetinu í fimmþraut innanhúss. Hún náði næst besta árangri íslenkrar konu um síðustu helgi en á ekki von á að ná Íslandsmetinu á laugardaginn. Hún segist ekki eiga nóg inni. Ég sem mamma með óbilandi trú á barninu mínu held að sjálfsögðu að henni takist það. Hún er í miðannarprófum þessa vikuna og þarf að skila allskonar verkefnum og sefur því minna en lítið og segist verða of þreytt til að gera góða hluti, en af því að ég er mamma hennar Karólínu þá segi ég að það er aldrei að vita

mánudagur, mars 02, 2009

Gaman hjá okkur


Gaman hjá okkur
Originally uploaded by Kata hugsar
Við vorum alsæl og lékum okkur eins og smákrakkar allan daginn.

Mæðgur á skíðum


Mæðgur á skíðum
Originally uploaded by Kata hugsar
Þetta var ekki leiðinlegt ferðalag!

DSC00473
Originally uploaded by Kata hugsar
Þessi mynd er tekin þegar létti til eftir stórhríð morgunsins. Skíðafærið var alveg himneskt, fislétt púður og fáir í brekkunum.

Á leið í ævintýraferð

Við mægurnar eum hér á leið í kvöldmat á veitingastað sem er í miðri skíðabrekku og því þurfti gondóla og snjótroðara til að koma okkur á áfangastað. Það borðaði ég elg sem er mitt uppáhaldskjöt.