fimmtudagur, maí 25, 2006

Taugatitringurinn er byrjaður hjá mér. Kristín keppir í Háskólameistaramótinu um helgina. Princeton er númer eitt í landinu svo það eru miklar væntingar en þær voru númer eitt í fyrra líka og urðu númer tvö á meistaramótinu svo þetta verður voðalega spennandi og hún mamma hennar verður ein taugahrúga. Í fyrra unnu Cal (U of Cal Berkley) stelpurnar með tveim sekúndum (af c.a. 7 mínútum) og það er búist við álíka harðri keppni núna. Og hún ég sem gæti tekið uppá því að öskra úr mér lifur og lungu verð alveg búin eftir helgina. Ég skil reyndar ekkert í því af hverju ég er að eyða orku í að garga svona því Kristín heyrir ekki nokkurn skapaðan hlut í mér, hún er lengst útá vatni og í svo miklum átökum að hún heyrir ekkert nema suð í eyrum af of hröðum hjartslætti. Líklegast verð ég að líta mér nær og viðurkenna það að þetta er bara fyrir mig svo ég líði ekki útaf af spenningi, það er þá skömminni skárra að vera að "gera eitthvað" heldur en að standa þarna og góna. Núna í ár ætla ég að taka með mér sjónauka, reyndar verður risa stór skjár við markið þar sem sýnt er nákvæmlega hvar bátarnir eru á vatninu svo kannski þarf ég ekki sjónauka, en allur er varinn góður, og enn og aftur ég verð að gera eitthvað!

Engin ummæli: