miðvikudagur, júní 08, 2005
Hér hefur geysað brjálað þrumuveður síðan um miðja nótt með tilheyrandi hávaða, látum og ausandi vatnsveðri. Reyndar byrjaði þetta í gærmorgun þegar ég var á golfvellinum. Ég var á öðrum teignum þegar ég fann að elding var að nálgast og rétt þegar ég var búin að slá þá laust niður eldingu rétt hjá okkur svo við flýttum okkur inn og rétt í þann mund sem við vorum að komast í skjól þá kom hagl þannig allt varð hvítt í 32 stiga hitanum. Það er alltaf jafn skrýtið. Það hefur verið ógnar heitt síðustu tvo daga 30-35 stig og mjög rakt í gær á milli storma svo það var algert gufubað úti og lítið hægt að gera annað en að vera inni í loftkældu húsi eða á sundlaugarbakka. Ég tók fyrri kostinn og las. Það á að kólna smám saman og verða skaplegt um helgina. Karólína keppir í fylkismeistaramótinu á föstudaginn og vonandi verður gott veður. Síðustu tvö ár hefur verið leiðindaveður og hástökkið verið fært inn í hús. Núna keppir hún bara í hástökki svo hún þarf ekki að hafa neinar ógnar áhyggjur af veðrinu. Kristín setti nýtt heimsmet í róðri á sunnudaginn. Hún ætlaði að slá tvö met í einu, aldursmet og "overall" en tókst að ná því fyrra, 100,000metrar á róðrarmaskínu. Þetta tók hana rúma 8 klukkutíma! Hún brenndi u.þ.b. 850 kalóríum á klukkustund svo þetta var alger brennsludagur, tæpar 7000 kalóríur og væntanlega 8000 kalóríu dagur! Hún var ánægð með þetta eina met en hundfúl að geta ekki slegið bæði í einu, og því segist hún ætla að gera þetta aftur. Hún var gersamlega búin að vera og líkaminn er enn aumur og lófarnir eitt flakandi sár, bólgnir og beiglaðir, sérstaklega liðirnir. Hún á erfitt með að rétta úr fingrunum núna tveimur dögum seinna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég vil vera viss um að ég skilji þetta rétt: Kristín setti HEIMSMET í því að róa á róðrarvél og réri samfleytt í 8 klukkutíma?
Það er ekki nema von að hún sé nær dauða en lífi eftir slíka áreynslu - hún er greinilega hörkukvenmaður (eins og hún á kyn til...)
Já, blessunin hún setti heimsmet í róðri. Átta klukkutímar er langur tími að gera sama hlutinn, óháð því hvað gert er, hvað þá róður. Hún tók reyndar hvíld eftir hverja 10-15000 metra, annars hefði líkaminn ekki lifað þetta af. Þau feðgin eru svo að fara að hlaupa maraþon á laugardaginn, ekki ég, þetta er ekki mín deild, ég fer í 17. júní veislu á meðan og óska þeim bara góðs gengis!
Skrifa ummæli