Ég hef alltaf gaman af að lesa Bryggjuspjall Hjartar Gíslasonar í Mogganum. Hann er góður penni og hefur óskaplega skemmtilegt vald á ylhýra móðurmálinu enda á hann ekki langt að sækja það til kalls föður síns sem kenndi mér íslensku í MA á bókasafni heimvistar, þann merkilega og viðburðaríka vetur 1975-1976. Hann skrifar frá sjónarhorni sem ég þekki akkúrat ekki neitt og hef aldrei kynnst en finnst mjög gaman að lesa um. Sjómennsku eða útgerð þekki ég ekki en finnst hvorugtveggja forvitnilegt og spennandi.
Svo ég vaði nú úr einu í annað, ég keyrði hann Jóhannes "minn" á leikskólann í morgun og á leiðinni heim þegar ég var að keyra fram hjá Soldiers Field golfvellinum þá hóf skallaörn sig á loft rétt fyrir framan bílinn. Óskaplega tignarlegur fugl og það var svo undurfallegt að sjá hann svífa yfir Zumbro ánni og hverfa í átt til Mississippi þar sem skallaernir lifa góðu lífi. Sólin var að reyna að berjast í gegnum éljaskýin og það tindraði á hvítt höfuð fuglsins eitt augnablik áður en sólin hafði í minni pokann fyrir snjókomu dagsins og örninn hvarf á vit fæðuleitar dagsins.
mánudagur, janúar 29, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli