fimmtudagur, febrúar 03, 2005
Verslað
Ég lenti í raunum í gærkveldi, ég fór nefnilega með tveimur karlmönnum að versla, það vantaði gjöf fyrir eiginkonu annars þeirra. Fyrst átti að kaupa ilmvatn en rétta tegundin var ekki til svo þá fór í verra því nú þurfti frumkvæði, ímyndunarafl, og kunnáttu til. Það var gengið aftur á bak og áfram um búðina, þessi var stór á flestum mælistikum en ekki af amerískri stærðargráðu en heil lifandis ósköp til sem mér hefði t.d. þótt afar skemmtilegt að fá, en þar sem þetta var ekki fyrir mig þá var ekkert keypt. Þá fórum við í leiðangur um verslunarmiðstöðina en ekki tók betra við því þeir mennirnir ræddu bara um hvað við konurnar getum verið erfiðar og óþakklátar, það er alveg sama hvað þeir kaupa við sjáum bara ekkert spennandi við þeirra val. Þetta minnti mig á afmælisgjöf tengdaföður míns til eiginkonu sinnar fyrir margt löngu, hann keypti sláttuþyrlu handa konu sem aldrei gerir garðavinnuna nema að hugsa vel um blómin, hefur aldrei slegið lóðina hvað þá notað sláttuþyrlu. Þeir vinirnir voru svo sammála um erfiði kvenna að til varð nýyrði í norsku: gaveangst! Það er sumsé svo erfitt að finna gjafir handa eiginkonunum að það kemur af stað ógrynni líkamlegra og andlegra áhrifa; hækkuðum blóðþrýsting, hröðum hjartslætti, ógleði, og síðast en ekki síst geðvonsku. Þeir voru sammála um það að það væri betra að gleyma "gjafadögum" og taka afleiðingunum með reisn frekar en að ganga í gegnum "gaveangst". Ég kannast ekki við að vera erfið eiginkona og alls ekki þegar kemur að gjöfum, ég er svo auðveld; bók, skíðadót, golfdót, og smotterí með, hvað er svona erfitt við það! Ég á aldrei í erfiðleikum með að finna gjafir handa manninum mínum, ég veit nefnilega mun betur en hann hvað hann vantar, og ekki síður hvað hann langar í. Svona er nú gott að hafa konu sem hugsar vel um maka sinn sem ekki má vera að því að gera það sjálfur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli