fimmtudagur, maí 12, 2005

Hún Karólína

Þá er komið að prom. Karólínu var boðið á prom í fyrsta sinn svo nú er að skella saman einum kjól. Því miður þá fékk hún allt frjálsíþróttaliðið með í að ákveða útlit kjólsins -allar 83 að mér skilst- og útkoman er ekki mjög áhugaverð fyrir mig en ég verð að finna útúr þessu með henni. Ég hef rúma viku til að hanna og sauma kjólinn og er það í allra minnsta lagi. Þetta þýðir náttúrulega það að ég verð að byrja strax. Ég fór í leiðangur í gær og fann snið sem ég get unnið með en efni fann ég ekki en það eru fjórar efnabúðir í bænum og ég er bara búin að skoða í einni þeirra. Það er ausandi rigning og kalt núna og á að vera fram á sunnudag svo það er best að nota sér leiðindaveðrið til að vinna inni, það er spáð fínu veðri eftir sunnudaginn og þá hef ég lítinn áhuga á inniveru. Annars er hún Karólína hoppandi um á hækjum þessa dagana. Það kom í ljós í MRI að það er vefur á milli beina í ökklanum sem klemmist þegar hún stekkur hástökk. Hún fékk cortisone sprautu í ökklann á mánudaginn og má ekki setja þunga á hann fyrr en næsta mánudag, svo gengur hún á honum í nokkra daga áður en hún fer að reyna að stökkva og hlaupa aftur. Vonandi gengur þetta hjá henni. Þetta er ekki auðvelt fyrir hana en hún stendur sig eins og hetja.

Engin ummæli: