mánudagur, júlí 18, 2005
Goður laugardagur
Honum Halla mínum er nú ekki fisjað saman. Hann hljóp Laugavegshlaupið á laugardaginn, alla 55 kílómetrana, kláraði, var ekkert voðalega sár á eftir, og eiginlega án þess að æfa sig neitt að ráði fyrir það. Hann var ekki að keppa við klukkuna, heldur tók all verulega eftir umhverfinu, man meira að segja eftir blómabreiðunum, og var mikið að velta fyrir sér heiti blómanna. Gat náttúrulega ekki fyrir sitt litla líf munað nöfnin á þeim sem er nú ekkert skrýtið hann man ekki hvað ég heiti nema endrum og sinnum, en gaf sér tíma til að njóta stundarinnar, eða stundanna.....allra átta, og var ótrúlega sprækur þegar hann kom í mark. Ég var svo heppin að góðir vinir sem eiga jeppa buðu mér með í all verulega skemmtilega ferð uppí Þórsmörk. Reyndar komumst við ekki yfir síðustu tvo farartálmana, til þess þarf alvöru jeppa á stórum blöðrum, en fádæma liðlegir menn hjá Austurleið komu og náðu í okkur á vörubíl og keyrðu okkur svo til baka á á pallbíl. Þetta var mikið ævintýri. Ég hef aldrei komið í Þórsmörk áður. Það var þungbúið, eiginlega rigning þegar við komum en það stytti upp smám saman, birti svo mikið til að í ljós komu litir í náttúrunni sem ég hef aldrei séð áður, landslag af fallegustu gerð með jöklana í baksýn, ár og læki, fossa og kletta og þessa fádæma, sérkennilegu og hrikalegu fegurð sem íslenskt landslag samanstendur af. Í hlaupinu tóku þátt fjölmargir vinir og urðu fagnaðarfundir með fólki sem við ekki höfum séð í áraraðir og jafnvel áratugi. Á eftir var svo boðið í einhverja gæsilegustu útilegu veislu sem ég hef séð, hún Theódóra er nú engum lík, hún kann að skipuleggja og undirbúa svona veislur, jafnvel þótt inní Þórsmörk sé. Dásamlegur dagur og við náttúrulega harðákveðin í að koma þarna sem fyrst aftur, en það er sá ljóður á ráði að við eigum engan jeppa, Golfinn kæmist ekki hálfa leið, svo við verðum væntanlega að skipleggja þetta með öðrum sem eiga jeppa eða kaupa eða leigja eða lána eða eitthvað svoleiðis.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli